Sarpur fyrir desember, 2019

Sylvía

Posted: desember 30, 2019 in Fjölskylda, Minningar
Efnisorð:

Útför tengdamömmu, Sylvíu Briem, fer fram í dag.

Ætli það segi ekki meira en margt um hversu jákvæð hún var að mér var tekið opnum örmum í fjölskyldunni þegar við Iðunn byrjuðum saman.. og Iðunn aðeins sextán ára. Og þegar við Iðunn tilkynntum að við ættum von á okkar fyrsta barni, þá var dregið fram freyðivín og skálað.

Ég veit að Sylvíu fylgdu ferskir vindar inn í fjölskylduna þegar hún fluttist heim, enda bjó hún við meiri fjölbreytni en almennt þekktist á þessum árum, til dæmis í New York, Stokkhólmi, Bonn og Genf. Opin og jákvæð, glaðlynd og fordómalaus eru svona fyrstu lýsingarorðin sem koma upp í hugann. Sylvía var einfaldlega alltaf til í góðar stundir og oftar en ekki tók hún þátt í „partýinu“ með börnunum og vinum þeirra.

Hún tók þátt í gleðigöngunni og fagnaði fjölbreytileika lífsins löngu áður en sá fjölbreytileiki varð eðlilegur hluti af fjölskyldunni. Hún mætti oftar en ekki á hljómleika okkar Fræbbbla, fékk okkur til að spila í sextugsafmælinu sínu og þrátt fyrir veikindin var hún mætt á afmælishljómleika síðasta vetur.

Við Iðunn áttum sama brúðkaupsdag og Magnús og Sylvía og við héldum veglega upp á daginn saman ef við mögulega gátum, þeas. ef við vorum ekki í sitt hvoru landinu.

Við áttum líka fleiri hefðir saman, til að mynda var fastur liður að vera saman á gamlárskvöld og við áttum mörg ógleymanleg kvöld með þeim.

Við fórum nokkrum sinnum saman í frí, til Þýskalands og Englands að heimsækja ættingja, í hefðbundið sólarlandafrí til Mallorca, í siglingu um Miðjarðarhafið og við Iðunn fórum margar ferðir til Spánar og vorum með þeim í íbúðinni í Benalmadena á Spáni.

Kannski eru samt bestu minningarnar þessar einföldu, sitja með þeim úti á svölum með ost á bakka og rauðvín í glasi í hádeginu.

Spánn, Sylvía 2008 028-1

[PS. ég held að ég geti ekki hugsað mér lengur að senda minningargreinar í hefðbundna minningargreina-fjölmiðla, ég get einfaldlega ekki tengt mig við sorpið sem birtist þar]

Flugeldamálamiðlun?

Posted: desember 29, 2019 in Umræða
Efnisorð:

Auðvitað má færa góð og gild rök fyrir því að hætta alveg að skjóta upp flugeldum um áramótin.

Sennilega er þetta ellin, einhver íhaldssemi eða eitthvað allt annað… en mér finnst ákveðin stemming í kringum öll lætin á gamlárskvöld. Og einhvern veginn togast í mér að taka tillit til allra, sleppa ónauðsynlegu „glingri“ og sú hugsun að ekki þurfi að gerilsneyða tilveruna alveg í botn.

Ég hef reyndar aldrei skilið þessa áráttu að vera að skjóta upp flugeldum, einum og sér, allan liðlangan daginn frá jólum og fram að áramótum – og svo nokkra daga eftir áramót. Og mér finnst það í alvöru merki um (svo ég tali nú varlega og segi ekki það sem mér datt fyrst í hug) ekkert sérstaka greind að vera að skjóta upp flugeldum í dagsbirtu.

Þannig að, má kannski finna þá málamiðlun að hætta þessari óendanlegu heimsku að skjóta upp flugeldum stanslaust í tvær vikur og takmarka við síðustu klukkutíma gamlárskvöld og kannski 1-2 tíma eftir miðnætti?

Ég sá auglýst eftir betra heiti yfir þá sem afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum, „afneitarar“ er reyndar fínt og segir það sem segja þarf.

Mér hefur alltaf þótt „flatjörðungar“ gott hugtak yfir þá sem halda því fram að jörðin sé flöt.

Kannski má nota sambærilegt hugtak yfir þá sem afneita staðreyndum um hlýnun jarðar, „loftslagsstrútar“?

Í rauninni eru þetta nokkuð sambærilegir hópar,

  • afneita niðurstöðum vísindamanna
  • viðurkenna ekki staðreyndir
  • taka meira mark á „cheerios-vísindamönnum“, bloggurum og YouTube brotum en vísindaritum
  • rugla saman því að hafa skoðun og þekkja staðreyndir
  • trúa glórulausum samsæriskenningum
  • nota nánast sömu orðræðu (ja, mjög svipaða), það má nánast skipta út nokkrum efnisatriðum og þá hljómar þetta nokkuð nærri lagi

 

Það er auðvitað til gagnslaust að rökræða við meðlimi sértrúarsafnaða.. ef þeir tækju rökum og ef þeir gætu unnið úr upplýsingum þá væru þeir auðvitað ekki meðlimir sértrúarsafnaðar.

Loftslagsbreytingafneitarar er sennilega mest áberandi sérstrúarsöfnuðurinn þessa dagana, kannski rétt á undan flatjarðarsinnum og hávaðinn og athyglin í öfugu hlutfalli við þekkinguna – en athygli er stöðug, sennilega vegna óþolandi vegna rænuleysis fjölmiðla sem þurfa hverja vitleysuna á fætur annarri til að halda áhorfi og / eða fá netumferð.

Það mætti reyndar hafa gaman af rökleysum afneitara ef málið væri ekki svona alvarlegt.

Þeir benda gjarnan á að einhver tiltekinn fjöldi vísindamanna afneiti hlýnun jarðar eða amk. telji hana ekki af mannavöldum. Oftar en ekki eru þessir vísindamenn ekki með neina sérþekkingu á loftslagsmálum, sem eru nefnilega nokkuð flókin og það kallar á mikla menntun og reynslu að skilja þetta.

En hvers vegna vísa þeir alltaf til þess að einhverjir „vísindamenn“ haldi einhverju fram? Er tilvísunin í „vísindamenn“ vegna þess að það sé svo mikið að marka „vísindamenn“. Gott og vel, hvers vegna ekki að taka þúsund sinnum meira marka meira en á þúsund sinnum fleiri vísindamönnum?

Og ef það er ekkert að marka vísindamenn, hvers vegna þá að tilgreina sérstaklega að það sé verið að vísa til „vísindamanna“?

Sumir afneitara þykjast svo vera vísindalega sinnaðir og séu að beita aðferðum vísindanna til að efast og gagnrýna… sem væri gott ef ekki væri búið að svara gagnrýni þannig að hafið er yfir vafa.. og svo væri líka gott ef þeir hinir sömu beittu sams konar gagnrýni og efa þegar þeir skoða gögn afneitunarbloggara og YouTubeAfneitara.

Ekki má gleyma þeim sem sjá risavaxið samsæri í kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum… ég skil ekki almennilega hvernig, en mér heyrist þetta snúast um að Al Gore hafi farið aftur í tímann og mútað nánast hverjum einasta vísindamanni jarðar. Ekki veit ég enn hvað þetta hefur kostað hann eða hvað hann á að hafa grætt á þessu tímaflakki sínu.

En afneitarar sjá ekki neina tengingu við nokkuð augljósa hagsmuni þeirra hafa sig hvað mest í frammi.

En gott og vel, rökræður við afneitara eru að mestu tilgangslausar.

En það er að minnsta kosti hægt að hætta að veita þeim athygli – ég hef óþægilegan grun um að margir þeirra nærist einmitt á athyglinni. Eða hver er tilgangurinn með að vera sí gjammandi í öllum fjölmiðlum? Eins og marg oft hefur verið bent á, þá eru nú fæstar þeirra aðgerða, sem stungið hefur verið upp á, annað en til bóta hvort sem er.

Þannig er sennilega besta ráðið að hætta að þrasa beint, hætta að vekja athygli á fáfræðinni og getuleysinu til að vinna úr upplýsingum, ekki setja inn á Facebook eða Twitter, ekki smella á tengla hjá fréttaveitum og slökka á (eða skipta af) sjónvarpsstöðvum og útvarpsrásum sem hleypa þeim gagnrýnislaust í loftið.

Steinar

Posted: desember 3, 2019 in Minningar
Efnisorð:

Við mættum í jarðarför Steinars Sigurðssonar félaga okkar, sem lést nýlega.

Hljómsveitir okkar Steinars deildu æfingahúsnæði fyrir nokkuð löngu og við Helga, konan hans, vorum saman í skóla allt frá barnaskóla til stúdentsprófs.

En það var ekki fyrr en Iðunn byrjaði að vinna með Helgu sem við kynntumst þeim að einhverju ráði.

Þó við værum ólíkir kom fljótt í ljós að við áttum margt sameiginlegt. Að sjálfsögðu tónlistin, en matur – bæði eldamennska og heimsóknir á veitingahús – góð vín og svo ferðir til skemmtilegra staða.

En Steinar tók þetta allt af miklu meiri „festu“, fimmtudagsafmælisgjöfin til hans var að fá að vinna eitt kvöld í eldhúsinu hjá Friðriki V.

Við fórum, í stærri hóp, til Madrid og þar fann Steinar veitingastað í kjallara ekki langt frá miðborginni, staður sem hvergi var sýnilegur sem veitingahús. Í þetta skiptið vorum við ekkert sérstaklega heppin – ég held að Steinar hafi afskrifað staðinn þegar honum fannst þjónninn ekki bera sig nægilega fagmannlega að við að brýna hníf við borðið.

Við fréttum hvort af öðru í Amsterdam og þá var ekki annað í boði en að kíkja á veitinga sem þau þekktu.

Hans verður sárt saknað og skyndilegt fráfall hastarleg áminning að láta ekki of langt líða á milli þess að hitta góða og skemmtilega vini.