Archive for the ‘Fjölskylda’ Category

Sylvía

Posted: desember 30, 2019 in Fjölskylda, Minningar
Efnisorð:

Útför tengdamömmu, Sylvíu Briem, fer fram í dag.

Ætli það segi ekki meira en margt um hversu jákvæð hún var að mér var tekið opnum örmum í fjölskyldunni þegar við Iðunn byrjuðum saman.. og Iðunn aðeins sextán ára. Og þegar við Iðunn tilkynntum að við ættum von á okkar fyrsta barni, þá var dregið fram freyðivín og skálað.

Ég veit að Sylvíu fylgdu ferskir vindar inn í fjölskylduna þegar hún fluttist heim, enda bjó hún við meiri fjölbreytni en almennt þekktist á þessum árum, til dæmis í New York, Stokkhólmi, Bonn og Genf. Opin og jákvæð, glaðlynd og fordómalaus eru svona fyrstu lýsingarorðin sem koma upp í hugann. Sylvía var einfaldlega alltaf til í góðar stundir og oftar en ekki tók hún þátt í „partýinu“ með börnunum og vinum þeirra.

Hún tók þátt í gleðigöngunni og fagnaði fjölbreytileika lífsins löngu áður en sá fjölbreytileiki varð eðlilegur hluti af fjölskyldunni. Hún mætti oftar en ekki á hljómleika okkar Fræbbbla, fékk okkur til að spila í sextugsafmælinu sínu og þrátt fyrir veikindin var hún mætt á afmælishljómleika síðasta vetur.

Við Iðunn áttum sama brúðkaupsdag og Magnús og Sylvía og við héldum veglega upp á daginn saman ef við mögulega gátum, þeas. ef við vorum ekki í sitt hvoru landinu.

Við áttum líka fleiri hefðir saman, til að mynda var fastur liður að vera saman á gamlárskvöld og við áttum mörg ógleymanleg kvöld með þeim.

Við fórum nokkrum sinnum saman í frí, til Þýskalands og Englands að heimsækja ættingja, í hefðbundið sólarlandafrí til Mallorca, í siglingu um Miðjarðarhafið og við Iðunn fórum margar ferðir til Spánar og vorum með þeim í íbúðinni í Benalmadena á Spáni.

Kannski eru samt bestu minningarnar þessar einföldu, sitja með þeim úti á svölum með ost á bakka og rauðvín í glasi í hádeginu.

Spánn, Sylvía 2008 028-1

[PS. ég held að ég geti ekki hugsað mér lengur að senda minningargreinar í hefðbundna minningargreina-fjölmiðla, ég get einfaldlega ekki tengt mig við sorpið sem birtist þar]

Hátíðarkveðjur úr Kaldaseli

Posted: desember 23, 2016 in Fjölskylda, Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Það er víst altalað að árið 2016 fari í sögubækurnar sem ömurlegt ár.. og vissulega er margt til í því.

En við getum ekki kvartað mikið hér í Kaldaselinu, árið hefur eiginlega verið nokkuð jákvætt og ég get ekki sagt að við höfum yfir miklu að kvarta.

Við Iðunn höfum náð ansi mörgum góðum kvöldum (og dögum) með góðum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunnugu fólki. Mér taldist lauslega til að 92 daga hafi eitthvað sérstakt verið í gangi hjá okkur. Og svo áttum við ótal kvöld í góðu tómi saman í rólegheitunum.

Ferðirnar út fyrir landsteinana voru nokkuð vel heppnaðar. Við fórum til London í byrjun mars, hittum Viktor, fórum á bjórhátíð, sáum Stiff Little Fingers á hljómleikum og hittum á nokkuð góða veitingastaði.

london-mars-chinatown

Iðunn fór í fimmtugsafmælisferð með Sérsveitinni til Amsterdam í apríl – ég kíkti til Kaupmannahafnar og heimsótti Barða sömu helgi.

Stóra ferðin 2016 var svo til Frakklands á EM, að mestu með Viktori og Alla – og í rauninni hátt í tuttugu manns sem við tengdumst lauslega – og enn fleiri sem við hittum af tilviljun.

euro-2016

 

idunn-neglurÉg fór til Amsterdam í september á IBC sýninguna og Iðunn til Parísar í vinkvenna heimsókn til Sóleyjar.

Svo kíktum við til Manchester í lok nóvember með Alla og Matta í svona nokkurs konar jólaferð.

manchester-jolamarkadur-2

Einifellshelgarnar urðu þrjár, alltaf jafn vel heppnaðar, gamli potturinn rifinn eina helgina, sá nýi vígður seinna og lax reyktur í þeirri síðustu. Petanque, matseld, bjór, vín og eðal kræsingar einkenna þessar helgar.

Sambindið fór saman í helgarferð í febrúar og hittist nokkrum sinnum þar fyrir utan.

Postularnir (fótboltahópurinn minn) héldu upp á veturinn í boði Arnars (og Unnar) í helgarferð við Reykholt.

Goutons Voir matar-félagsskapurinn hittist þar fyrir utan og ónefndi matarklúbburinn sem tengist Rúv (Rúv-Tops) náði að hittast óvenju oft.

Auðvitað hittust fjölskyldurnar reglulega og kannski var eftirminnilegast þetta árið að hitta ættingja frá Kanada, og það í tvígang.

Og ekki má gleyma reglulegum póker / bjór kvöldum í Kaldaselinu.

Okkur leiðist sem sagt ekkert að elda og borða góðan mat, drekka eðal vín og góðan bjór.. en kannski aðallega hitta skemmtilegt fólk.

Iðunn hélt upp á afmælið sitt hér heima í Kaldaseli, best heppnaða partý ársins og þó lengra sé leitað. Í framhaldinu var dæmt á Iðunni að fara í fallhlífarstökk og í bústað með Brynju og Óskari.

fallhlif-238

Við Fræbbblar spiluðum ekki mikið, en fyrir utan nokkur einkasamkvæmi er sennilega eftirminnilegast að mæta á Bifröst í byrjun ársins, halda nokkurs konar útgáfuhljómleika á Rosenberg, spila á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar og taka þátt í fullveldispönkhátíð á Hard Rock Cafe í byrjun desember.

Ég er enn hjá Staka, sem færði sig yfir til Deloitte í haust, þessu fylgja talsverðar breytingar og spennandi tímar framundan.

arshatid

Iðunn er enn hjá BUGL, en hefur misst mikið úr vegna myglusveppa á vinnustaðnum.

Andrés vinnur í þjónustuveri Símans og hefur verið virkur í starfi Pírata og var kosinn formaður félagsins í Reykjavík í haust.

Guðjón sinnti tónlistinni framan af ári og spilaði meðal annars á Secret Solstice. Seinni hluta ársins tók hann við rekstri spilastaðar og náði fljótlega að snúa rekstri staðarins við.

Viktor sinnti námi og rannsóknum fyrri hluta ársins, en kom heim í sumar, tók þátt í prófkjöri Pírata og kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar. Hann náði ekki kjöri, þó ekki munaði miklu, en var svo kallaður inn á þing fyrir jól – því miður við erfiðar aðstæður – en situr nú á þingi næstu vikurnar.

Annars eru ítarlegri frásagnir auðvitað í dagbók

Magnús Pálsson, minning

Posted: júní 4, 2015 in Fjölskylda
Efnisorð:

Tengdapabbi, Magnús Pálsson, lést 22. maí eftir erfið veikindi, 78 ára.

Útför hans verður frá Áskirkju í dag, 4. júní 2015, kl. 15:00. Upplýsingar um fjölskyldu og feril fylgja í lok færslunnar.

Ég kynntist Magnúsi fyrir meira en þrjátíu og tveimur árum. Hann, sem og Sylvía og öll fjölskyldan, tóku mér opnum örmum þrátt fyrir nokkurn aldursmun á okkur Iðunni.. sem var óneitanlega talsvert meiri á þeim tíma en hann er í dag.

Við Iðunn höfðum ekki verið saman nema í nokkra mánuði þegar við áttum von á fyrsta barninu. Við fréttum þetta á mánudegi og fórum að hitta fjölskylduna. Ég átti nú kannski ekki von á öðru en að okkur yrði vel tekið, en Magnús gerði meira en það, hann rauk til og rétt náði að kaupa kampavín til að skála við okkur og fagna. Ítalskir félagar Iðunnar, Brynju og Stínu voru í heimsókn og satt best að segja voru þeir ekki alveg að skilja hvað var í gangi. Dóttirin sextán ára, ógift að tilkynna fjölskyldunni að hún væri ólétt. Og tilvonandi afi rýkur til og kaupir kampavín til að skála!

Og Magnús lifir í ótal minningum frá óteljandi góðum stundum. Við Iðunn áttum sama brúðkaupsafmælisdag og þau Sylvía og það brást ekki að þegar við vorum öll á landinu þá var haldið veglega upp á daginn.

Við heimsóttum þau nokkrum sinnum í íbúðina á Spáni, fórum á flakk um England og í siglingu um Miðjarðarhafið. Við náðum öllum áramótum með þeim. En bestu minningarnar eru svo sem ekkert endilega frá stóru viðburðunum, heldur alveg eins þessum litlu hversdagslegu, sitja með þeim úti á svölum í íbúðinni þeirra á Spáni með rauðvín, osta og annað snarl.

Ein ferð var þó sérstök. Á níunda áratug síðustu aldar var Magnús að leita að bíl í Þýskalandi, enda mun ódýrara að kaupa bíl erlendis og flytja inn. Það varð úr að við færum saman, við flugum til Luxemborgar og keyrðum milli borga í Þýskalandi að skoða bíla. Ég veit svo sem ekki mikið um bíla og hafði lítið fram að færa við val á bílnum. En ferðin var einstök og við náðum sérstaklega vel saman… alltaf öðru hverju rifjast upp nóttin með hóteleigandanum í Heidelberg sem við spjölluðum við langt fram eftir enda vildi hann selja okkur þýska tjónabíla, gúllasið á ungverska veitingastaðnum í Stuttgart, gistingin hjá íslenskum hjónum í Svartaskógi og lokakvöldið í Luxemborg.

Það er auðvitað engin leið að lýsa Magnúsi í stuttri færslu..

Vandvirkni kemur strax upp í hugann.. það þurfti alltaf að vinna öll verk óaðfinnanlega. Einhverju sinni var Iðunn í vandræðum með gróðurkassa og hann sá að botninn var að detta frá, fór og sótti almennilegan við og skrúfur og festi botninn saman. Restin af kassanum fór fljótlega en botninn stóð öll veður af sér.

Þeir tvíburar, þeas. hann og Sæmi, voru auðvitað mjög nánir. Síðustu dagana áður en Magnús lést var mikið af honum dregið, hann var máttlítill og hafði bæði brotið mjöðm og úlnlið. Sæmi hafði verið hjá okkur á spítalanum síðustu daga og ekki annað að sjá en að hann væri við hestaheilsu. En morguninn eftir fékk Sylvía símtal og var sagt að Sæmi hefði verið lagður inn til rannsókna [sem betur fer lítur út fyrir að það hafi ekki verið mjög alvarlegt]. Það eina sem komst að hjá Magnúsi var að biðja okkur að hjálpa sér á fætur svo hann kæmist til Sæma til að huga að honum.

Hann hafði húmorinn í lagi fram á síðasta dag, nokkrum dögum fyrir andlátið fékk hann jógúrt og orkudrykk á spítalanum. Hjúkrunarfræðingur sagði eitthvað á þá leið að það væri nú gott að fá magafylli.. „já, mér hefur verið sagt það“ var svarið.

Magnús var einstaklega hlýr og opinn og átti einstaklega gott með að spjalla formálalaust við hvern sem er um hvað sem er. Alli, vinur okkar, var með honum í sundi fyrir nokkrum árum og þeir fara að spjalla á meðan þeir eru að raka sig (í nokkurri gufu) á sitt hvorum básnum. Magnús spjallaði eins og þeir hefðu verið bestu vinir árum, ef ekki áratugum, saman. En þegar þeir hafa lokið rakstrinum, gufan er farin að minnka og þeir sjá framan í hvorn annan segir Magnús, „Nei, Alli minn, ert þetta þú??“

Ég þekki engan sem átti eins gott með að halda tækifærisræðu á góðum stundum, afmælum, hjónavígslum, innflutningsteitum og öðrum mannfögnuðum. Og óþreytandi við að skála fyrir ættingjum og vinum, fjarstöddum sem nærstöddum.

Ekki má gleyma frösunum og orðatiltækjunum, sem byrjuðu kannski sem brandarar, urðu kannski svolítið þreyttir en á endanum einhvers konar einkenni eða hefð.

Iðunn hefur rifjað upp að Magnús hafði mjög gaman af að syngja en var lengi vel of feiminn og lét sér nægja að syngja með bílnum með Iðunni þegar hún var lítil. Seinna fór hann að æfa og söng með frímúrarakórnum og kór Rarik í nokkur ár. Ég skal alveg játa að hann kom mér verulega á óvart eitt gamlárskvöldið þegar hann hóf að syngja strax eftir miðnætti.

Skák var eitt af áhugamálunum og Magnús tefldi mikið.. bæði í vinnunni og heimahúsum. Og auðvitað mætti hann framan af í árlegt jólamat hjá okkur, Jólamót Jonna.

Bridge tók kannski að einhverju leyti við af skákinni á seinni árum, bæði var venja að spila Bridge í fjölskylduboðum og eins mætti hann á hverju ári í Bridge mót hjá okkur fyrir áramótin.

Og Magnús var einstaklega hlýr, hann þreyttist aldrei á að hugsa um sína nánustu og láta þá vita hversu mikils virði hún væri honum.

Og svo helstu upplýsingar:

Magnús fæddist 31. júlí 1936 og lést 22. maí 2015.

Foreldrar Magnúsar voru Páll Magnússon (1911-1978), verkstjóri í Reykjavík, ættaður af Suðurlandi og Sigríður Sæmundsdóttir (1911-1990), ættuð úr Helgafellssveit við Breiðafjörð.

Magnús fæddist í Reykjavík og ólst upp í Höfðaborg við Borgartún. Hann gekk í Laugarnesskóla, stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1960 og stundaði síðan nám við Vélskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk prófi í rafmagnsiðnfræði 1962. Hann stundaði tölvunám á vegum Rafmagnsveitna ríkisins í London, Reading, Birmingham og Manchester.

Magnús starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952-1956, á rafmagnsverkstæðinu Segli 1962 og hjá IBM á Íslandi – Skrifstofuvélum á árunum 1962-1967.

Magnús hóf störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins árið 1967, starfaði þar í áætlunardeild 1967-1982 og síðan við tölvudeild frá 1982 þar til hann lét af störfum vegna aldurs 2005.

Magnús æfði og keppti í frjálsum íþróttum með Ármanni og æfði síðan með ÍR. Hann stundaði fimleika með Ármanni og var í sýningaflokki félagsins um skeið. Síðar æfði hann júdó um tíma. Hann synti daglega næstum alla æfi og stundum tvisvar á dag.

Magnús kvæntist Álfheiði Sylviu Briem (17.1.1942) þann 6. maí 1962. Sylvía er dóttir Helga Pálssonar Briem fyrrverandi sendiherra, skattstjóra og bankastjóra og Dorisar Briem húsmóður sem bæði eru látin. Sylvía starfaði lengi hjá Ferðamálaráði, Útflutningsráði, Guðmundi Jónassyni og var deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Börn Magnúsar og Sylviu eru:

Helgi Briem (5.9.1962), líffræðingur og nú kerfisfræðingur hjá Nýherja. Hann er kvæntur Þóru Emilsdóttur bókara hjá Reykjavíkurborg. Börn þeirra eru Kári Emil og Ægir Máni. Eiginmaður Kára er Bradley Eberts.

Páll Briem (2.1.1964), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri í Reykjavík. Unnusta hans er Anna G. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Með fyrrverandi konu sinni Bryndísi Pétursdóttur á Páll synina Magnús, Tryggva og Hauk Helga. Sonur Önnu Gunnarsdóttur er Hans Gunnar Daníelsson. Langafabarn Magnúsar er Aníta Líf, 5 ára, dóttir Magnúsar og Jönu Katrínar Knútsdóttur hjúkrunarfræðings.

Iðunn Doris (22.8.1966), sálfræðingur á BUGL, gift Valgarði Guðjónssyni sviðsstjóra hjá Staka. Börn þeirra eru Andrés Helgi, Guðjón Heiðar og Viktor Orri.

Sæunn Sylvía (14.10.1970) skrifstofustjóri hjá Dale Carnegie. Maður hennar er Friðjón Hólmbertsson, framkvæmdastjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Börn þeirra eru Sylvia Dagmar, Hólmbert Aron og Marel Andri. Langafabarn Magnúsar er Sæmundur Karl, sonur Sylvíu Dagmar og Emils Þórs Jóhannssonar.

Bræður Magnúsar eru:

Gunnar Emil Pálsson (14.8.1934), pípulagningameistari og stýrimaður í Reykjavík, kona hans er Alda Vilhjálmsdóttir.

Sæmundur Pálsson, tvíburabróðir (31.7.1936), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, kvæntur Ásgerði Ásgeirsdóttur.

Hafsteinn Pálsson (24.4.1954), húsasmíðameistari í Reykjavík, kvæntur Jónu Bjarnadóttur.

Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.

Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.

En…

Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.

Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.

Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.

Umgengst ég svona undarlegt fólk?

Viktor Orri útskrifast

Posted: júní 24, 2012 in Fjölskylda
Efnisorð:, ,

Þá er yngsti sonurinn, Viktor Orri, orðinn stjórnmálafræðingur. Viktor úrskrifaðist með  ágætis einkunn frá HÍ í gær, hærri einkunn en gefin hefur verið áður í 32 ára sögu deildarinnar… en svo þurfti félagi hans auðvitað að gera enn betur.

En við héldum upp á þetta hér heima með fjölskyldu og vinum – skemmtileg veisla í frábæru veðri… þegar leið á kvöldið kíktum við til Halla Reynis sem var að útskrifast sem kennari. Við duttum svo aftur inn í partýið hjá Viktori og vinum um nóttina.. virkilega flottur vinahópur.

Kannski tímanna tákn að rauðvínsflaska var algengasta útskriftargjöfin.

Andrés Helgi lenti hins vegar í smáslysi þegar hann skar sig í fingurinn.. en virðist hafa sloppið þokkalega.