Magnús Pálsson, minning

Posted: júní 4, 2015 in Fjölskylda
Efnisorð:

Tengdapabbi, Magnús Pálsson, lést 22. maí eftir erfið veikindi, 78 ára.

Útför hans verður frá Áskirkju í dag, 4. júní 2015, kl. 15:00. Upplýsingar um fjölskyldu og feril fylgja í lok færslunnar.

Ég kynntist Magnúsi fyrir meira en þrjátíu og tveimur árum. Hann, sem og Sylvía og öll fjölskyldan, tóku mér opnum örmum þrátt fyrir nokkurn aldursmun á okkur Iðunni.. sem var óneitanlega talsvert meiri á þeim tíma en hann er í dag.

Við Iðunn höfðum ekki verið saman nema í nokkra mánuði þegar við áttum von á fyrsta barninu. Við fréttum þetta á mánudegi og fórum að hitta fjölskylduna. Ég átti nú kannski ekki von á öðru en að okkur yrði vel tekið, en Magnús gerði meira en það, hann rauk til og rétt náði að kaupa kampavín til að skála við okkur og fagna. Ítalskir félagar Iðunnar, Brynju og Stínu voru í heimsókn og satt best að segja voru þeir ekki alveg að skilja hvað var í gangi. Dóttirin sextán ára, ógift að tilkynna fjölskyldunni að hún væri ólétt. Og tilvonandi afi rýkur til og kaupir kampavín til að skála!

Og Magnús lifir í ótal minningum frá óteljandi góðum stundum. Við Iðunn áttum sama brúðkaupsafmælisdag og þau Sylvía og það brást ekki að þegar við vorum öll á landinu þá var haldið veglega upp á daginn.

Við heimsóttum þau nokkrum sinnum í íbúðina á Spáni, fórum á flakk um England og í siglingu um Miðjarðarhafið. Við náðum öllum áramótum með þeim. En bestu minningarnar eru svo sem ekkert endilega frá stóru viðburðunum, heldur alveg eins þessum litlu hversdagslegu, sitja með þeim úti á svölum í íbúðinni þeirra á Spáni með rauðvín, osta og annað snarl.

Ein ferð var þó sérstök. Á níunda áratug síðustu aldar var Magnús að leita að bíl í Þýskalandi, enda mun ódýrara að kaupa bíl erlendis og flytja inn. Það varð úr að við færum saman, við flugum til Luxemborgar og keyrðum milli borga í Þýskalandi að skoða bíla. Ég veit svo sem ekki mikið um bíla og hafði lítið fram að færa við val á bílnum. En ferðin var einstök og við náðum sérstaklega vel saman… alltaf öðru hverju rifjast upp nóttin með hóteleigandanum í Heidelberg sem við spjölluðum við langt fram eftir enda vildi hann selja okkur þýska tjónabíla, gúllasið á ungverska veitingastaðnum í Stuttgart, gistingin hjá íslenskum hjónum í Svartaskógi og lokakvöldið í Luxemborg.

Það er auðvitað engin leið að lýsa Magnúsi í stuttri færslu..

Vandvirkni kemur strax upp í hugann.. það þurfti alltaf að vinna öll verk óaðfinnanlega. Einhverju sinni var Iðunn í vandræðum með gróðurkassa og hann sá að botninn var að detta frá, fór og sótti almennilegan við og skrúfur og festi botninn saman. Restin af kassanum fór fljótlega en botninn stóð öll veður af sér.

Þeir tvíburar, þeas. hann og Sæmi, voru auðvitað mjög nánir. Síðustu dagana áður en Magnús lést var mikið af honum dregið, hann var máttlítill og hafði bæði brotið mjöðm og úlnlið. Sæmi hafði verið hjá okkur á spítalanum síðustu daga og ekki annað að sjá en að hann væri við hestaheilsu. En morguninn eftir fékk Sylvía símtal og var sagt að Sæmi hefði verið lagður inn til rannsókna [sem betur fer lítur út fyrir að það hafi ekki verið mjög alvarlegt]. Það eina sem komst að hjá Magnúsi var að biðja okkur að hjálpa sér á fætur svo hann kæmist til Sæma til að huga að honum.

Hann hafði húmorinn í lagi fram á síðasta dag, nokkrum dögum fyrir andlátið fékk hann jógúrt og orkudrykk á spítalanum. Hjúkrunarfræðingur sagði eitthvað á þá leið að það væri nú gott að fá magafylli.. „já, mér hefur verið sagt það“ var svarið.

Magnús var einstaklega hlýr og opinn og átti einstaklega gott með að spjalla formálalaust við hvern sem er um hvað sem er. Alli, vinur okkar, var með honum í sundi fyrir nokkrum árum og þeir fara að spjalla á meðan þeir eru að raka sig (í nokkurri gufu) á sitt hvorum básnum. Magnús spjallaði eins og þeir hefðu verið bestu vinir árum, ef ekki áratugum, saman. En þegar þeir hafa lokið rakstrinum, gufan er farin að minnka og þeir sjá framan í hvorn annan segir Magnús, „Nei, Alli minn, ert þetta þú??“

Ég þekki engan sem átti eins gott með að halda tækifærisræðu á góðum stundum, afmælum, hjónavígslum, innflutningsteitum og öðrum mannfögnuðum. Og óþreytandi við að skála fyrir ættingjum og vinum, fjarstöddum sem nærstöddum.

Ekki má gleyma frösunum og orðatiltækjunum, sem byrjuðu kannski sem brandarar, urðu kannski svolítið þreyttir en á endanum einhvers konar einkenni eða hefð.

Iðunn hefur rifjað upp að Magnús hafði mjög gaman af að syngja en var lengi vel of feiminn og lét sér nægja að syngja með bílnum með Iðunni þegar hún var lítil. Seinna fór hann að æfa og söng með frímúrarakórnum og kór Rarik í nokkur ár. Ég skal alveg játa að hann kom mér verulega á óvart eitt gamlárskvöldið þegar hann hóf að syngja strax eftir miðnætti.

Skák var eitt af áhugamálunum og Magnús tefldi mikið.. bæði í vinnunni og heimahúsum. Og auðvitað mætti hann framan af í árlegt jólamat hjá okkur, Jólamót Jonna.

Bridge tók kannski að einhverju leyti við af skákinni á seinni árum, bæði var venja að spila Bridge í fjölskylduboðum og eins mætti hann á hverju ári í Bridge mót hjá okkur fyrir áramótin.

Og Magnús var einstaklega hlýr, hann þreyttist aldrei á að hugsa um sína nánustu og láta þá vita hversu mikils virði hún væri honum.

Og svo helstu upplýsingar:

Magnús fæddist 31. júlí 1936 og lést 22. maí 2015.

Foreldrar Magnúsar voru Páll Magnússon (1911-1978), verkstjóri í Reykjavík, ættaður af Suðurlandi og Sigríður Sæmundsdóttir (1911-1990), ættuð úr Helgafellssveit við Breiðafjörð.

Magnús fæddist í Reykjavík og ólst upp í Höfðaborg við Borgartún. Hann gekk í Laugarnesskóla, stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1960 og stundaði síðan nám við Vélskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk prófi í rafmagnsiðnfræði 1962. Hann stundaði tölvunám á vegum Rafmagnsveitna ríkisins í London, Reading, Birmingham og Manchester.

Magnús starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952-1956, á rafmagnsverkstæðinu Segli 1962 og hjá IBM á Íslandi – Skrifstofuvélum á árunum 1962-1967.

Magnús hóf störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins árið 1967, starfaði þar í áætlunardeild 1967-1982 og síðan við tölvudeild frá 1982 þar til hann lét af störfum vegna aldurs 2005.

Magnús æfði og keppti í frjálsum íþróttum með Ármanni og æfði síðan með ÍR. Hann stundaði fimleika með Ármanni og var í sýningaflokki félagsins um skeið. Síðar æfði hann júdó um tíma. Hann synti daglega næstum alla æfi og stundum tvisvar á dag.

Magnús kvæntist Álfheiði Sylviu Briem (17.1.1942) þann 6. maí 1962. Sylvía er dóttir Helga Pálssonar Briem fyrrverandi sendiherra, skattstjóra og bankastjóra og Dorisar Briem húsmóður sem bæði eru látin. Sylvía starfaði lengi hjá Ferðamálaráði, Útflutningsráði, Guðmundi Jónassyni og var deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Börn Magnúsar og Sylviu eru:

Helgi Briem (5.9.1962), líffræðingur og nú kerfisfræðingur hjá Nýherja. Hann er kvæntur Þóru Emilsdóttur bókara hjá Reykjavíkurborg. Börn þeirra eru Kári Emil og Ægir Máni. Eiginmaður Kára er Bradley Eberts.

Páll Briem (2.1.1964), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri í Reykjavík. Unnusta hans er Anna G. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Með fyrrverandi konu sinni Bryndísi Pétursdóttur á Páll synina Magnús, Tryggva og Hauk Helga. Sonur Önnu Gunnarsdóttur er Hans Gunnar Daníelsson. Langafabarn Magnúsar er Aníta Líf, 5 ára, dóttir Magnúsar og Jönu Katrínar Knútsdóttur hjúkrunarfræðings.

Iðunn Doris (22.8.1966), sálfræðingur á BUGL, gift Valgarði Guðjónssyni sviðsstjóra hjá Staka. Börn þeirra eru Andrés Helgi, Guðjón Heiðar og Viktor Orri.

Sæunn Sylvía (14.10.1970) skrifstofustjóri hjá Dale Carnegie. Maður hennar er Friðjón Hólmbertsson, framkvæmdastjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Börn þeirra eru Sylvia Dagmar, Hólmbert Aron og Marel Andri. Langafabarn Magnúsar er Sæmundur Karl, sonur Sylvíu Dagmar og Emils Þórs Jóhannssonar.

Bræður Magnúsar eru:

Gunnar Emil Pálsson (14.8.1934), pípulagningameistari og stýrimaður í Reykjavík, kona hans er Alda Vilhjálmsdóttir.

Sæmundur Pálsson, tvíburabróðir (31.7.1936), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, kvæntur Ásgerði Ásgeirsdóttur.

Hafsteinn Pálsson (24.4.1954), húsasmíðameistari í Reykjavík, kvæntur Jónu Bjarnadóttur.

Athugasemdir
  1. Tommi skrifar:

    Fín grein eins og þín er von og vísa. Jarðarförin var falleg og virðuleg með fyrirtaks músík. En hvernig í ósköpunum datt Magnúsi í hug að taka þig með í bílakaupareisu um Þýskaland? Y-79 var sannarlega þinn bílatoppur og hafðu þakkir fyrir þolinmæðina í den. En það máttu eiga að þið hafið alla tíð verið vel bílandi. Kannski ad fagurkerinn og smekkmaðurinn Magnús hafi ráðið för? Með kossum frá okkur Helgu – Iðunn og tengdamamma eiga bróðurpartinn af þeim.