Sarpur fyrir júní, 2015

Ég er reyndar frekar trúlaus á hvers kyns yfirnáttúru og hef ekki mikla trú á að nokkur geti séð fyrir um óorðna hluti, að minnsta kosti ekki umfram menntaðar ágiskanir byggðar á þekkingu og skynsemi. Að einhver geti raunverulega séð fram í tímann er eitthvað sem ég hef í öllu falli aldrei fengið staðfest.

Nú sé ég að forsætisráðherra vill meina að hægt sé að kenna grimmum árásum um ýmis heimskuleg ummæli frambjóðenda flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Út af fyrir sig get ég svo sem ekki fallist á að það afsaki hvers kyns bull stjórnmálamanna þó einhver þeirra sitji undir gagnrýni. Það er einfaldlega hluti af starfinu að geta tekið gagnrýni og svarað – ja, eða ætti að vera.

Og þó ég hafi fylgst þokkalega vel með þá tók ég nú ekki eftir neinu sem kalla mætti grimmar árásir, aðeins viðbrögð við undarlegum ummælum.

En aðalatriðið er nú að viðbrögðin, sem kölluð eru grimm, komu eftir að frambjóðendurnir létu eitt og annað miður skynsamlegt frá sér fara.

Þannig að ef þessi ummæli eru réttlætt með viðbrögðunum við þeim.. ja, þá hljóta borgarfulltrúarnir að vera skyggnir.

Skyldu þau hafa haft samband við James Randi??

Kröfuhafar, betri leið?

Posted: júní 18, 2015 in Umræða

Kannski er ég bara að röfla.. annað eins hefur nú gerst.

Og kannski er þetta fáránleg hugmynd.. en stundum er gott að velta upp fáránlegum hugmyndum.

Og kannski hefur þetta verið skoðað og slegið af.eftir vandlega skoðun.

En, svo það sé á hreinu þá á ég engar hagsmuna að gæta, nema kannski minn hluta í betri efnahag.

En ég get ekki gert að því að velta fyrir mér eftir umræðurnar um skatt á flutninga fjármagns kröfuhafa úr landi.. stöðugleikaskatt eins og það heitir víst á nýmáli.

Hefur sem sagt engum dottið í hug að það sé ekki endilega besta leiðin að reyna að koma í veg fyrir flutning fjármagns úr landi að beita boðum, bönnum, skattlagningu og hvers kyns lagakrókum.

Gæti mögulega hugsanlega verið betri leið að búa svo um hnútana að þeir sem eiga þetta fjármagn vilji frekar fjárfesta hér á landi en að koma peningunum eins fljótt og hægt er úr klóm okkar? Gæti jafnvel skilað meiri „hagsæld“ en fyrirhugaðar skatttekjur? Mögulega laðað enn fleiri fjárfesta?

Allir vinir á sautjánda-júní?

Posted: júní 17, 2015 in Umræða
Efnisorð:

Auðvitað væri fínt að hægt væri að halda þjóðhátíðardaginn hátíðlegan án deilna og háværra mótmæla.. Ekki svo að skilja að ég sé mikið fyrir svona hátíðisdaga.. en ég skil svo sem þá sem vilja halda honum utan við dægurþrasið.

En vandamálið liggur ekki hjá þeim sem mótmæla. Vandamálið liggur hjá þeim stjórnmálamönnum sem nota hátíðarhöldin fyrir pólitískan áróður. Þegar það er gert, og gert með rangfærslum og rembingi.. þá getur það ekki annað kallað á svör. Eða hvernig dettur mönnum í hug að nota svona dag í ómerkilegan pólítískan áróður – og fyrstast svo við og móðgast ef einhver dirfist að viðra aðrar skoðanir?

Í sjálfu sér eiga stjórnmálamenn ekkert erindi á hátíðarhöldin, forsetinn kannski, þeas. ef við ættum betri forseta.

En ef menn vilja hafa þetta dag sameiningar.. þá er bara að ganga á undan með góðu fordæmi.

Hljómleikar á Gauknum

Posted: júní 13, 2015 in Umræða

Við Fræbbblar spiluðum á Gauknum með Gímaldin og TV Smith. Óneitanlega frekar fámennt, en aðalatriðið samt að þetta voru flottir hljómleikar.

Gímaldin hóf dagskrá kvöldins, verulega flottur gítarleikari og sérstakt efni.

Gaukurinn - Gimaldin

Okkur gekk svo sem mjög vel, Gummi trommari reyndar lasinn, en lét engan bilbug á sér finna.. Helgi mætti og spilaði á bassa – þrátt fyrir að hafa gert ráð fyrir að taka frí. Held að þetta hafi verið með okkar betri kvöldum, reyndar er ég ekki frá því að við séum kannski loksins komin á annað .. það gerist orðið varla lengur að við eigum slæman dag. Gummi trommari á stóran þátt í því, hann einfaldlega klikkar ekki, „rock solid“ ef svo má segja.. og eins munar miklu að hafa Rikka á gítar, ég get leyft mér að sleppa því að spila þegar mér sýnist.

TV Smith lauk svo dagskránni.. ekki ósvipað og í gær, mikill kraftur, mjög gott efni og úthaldið ótrúlegt. Við buðum honum að kíkja með okkur á Forréttabarinn milli „sándtékks“ og hljómleika.. en hann vildi frekar slaka á og fá sér eitthvað lítið snarl á gistiheimilinu. Ég spurði hvort hann þyrfti ekki að borða til að halda út svona langa dagskrá, en nei, hann sagðist bara verða slappur ef hann borðaði mikið..

Forréttabarinn já, ekki má gleyma að við fórum þangað, þeas. við Iðunn, Viktor, Gummi, Assi, Stína og Gavin. Gavin er vinur Júlla og kom gagngert til landsins til að mæta í afmælið hans, hefur komið tvisvar áður, með hljómsveitinni Validators / Activators.

TV Smith í dag

Posted: júní 13, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Breski tónlistarmaðurinn TV Smith spilar á Gauknum í kvöld. Flestir tengja hann við upphafsár punksins á Englandi og hljómsveitina The Adverts, sem átti nokkur þekkt lög og mikils metna stóra plötu.

En það er kannski ekki alveg sanngjarnt. Það er langt síðan og hann hefur gefið út fullt af efni síðan og spilað á ég-veit-ekki-hversu-mörgum hljómleikum – ýmist einn eða í öðrum hljómsveitum. Kannski hafa margir einmitt afskrifað hann vegna tengingarinnar við punkið.

Ég fer nokkuð á hljómleika, bæði „nýja“ og „gamla“ listamenn. Oftast eru þeir „gömlu“ einhverjir sem ég hef hlustað á fyrir einhverjum árum og eru auðvitað misjafnir. En ef það er einhver þráður, eða eitthvað sem ég hef þó „lært“, er að þeir sem enn er að semja og gefa út efni eru yfirleitt miklu betri en þeir sem bara koma saman til að spila gamla efnið sitt. Ég veit ekki af hverju, en það virðist nokkuð góð fylgni þarna á milli.

Það er til dæmis fín hugmynd að skoða nýlegt lag.. „TV Smith, I delete

Júlíus fimmtugur

Posted: júní 12, 2015 in Umræða

Kíkti á stutta kynningu TV Smith á Lucky Records.. gaman að hitta hann og heyra nokkur lög. Fyrrum trommari Adverts mætti á staðinn, sá býr á Íslandi.

Mætti svo í fimmtugsafmæli Júlíusar (Ólafssonar) á Dillon. Júlli hélt auðvitað upp á afmælið að hætti hússins (eða heimilisins) og bauð TV Smith að koma til landsins. Á Dillon spiluðu Caterpillar Men á undan TV Smith.. Caterpillarmen eru flott hljómsveit og engu upp á þá logið, þeas. að þeir gætu hæglega orðið næsta stóra nafnið.

Dillon - Caterpillarmen

TV Smith var flottur, ótrúlegur kraftur, spilaði einn á kassagítar hátt í tvo tíma.. ekki spillir að hann er með mikið af mjög góðum lögum.

Dillon - TV Smith 1

Svei mér þá ef TV Smith er ekki að koma að spila í bænum næstu helgi.

Fyrir þá sem ekki vita hver TV Smith er.. þá var hann „forsprakki“ hljómsveitarinnar The Adverts.

The Adverts áttu nokkur skemmtileg lög þegar punkið stóð sem hæst á Englandi. Ég held að það sé varla gefin út safnplata með lögum frá upphafsárum punksins sem ekki er með Gary Gilmore’s Eyes, sem meira að segja fór nokkuð hátt á vinsældalista.

The Adverts notuðu „One Chord Wonders“ (eins hljóms undur) sem einhvers konar slagorð eftir fyrsta laginu sem þau gáfu út. Fyrsta stóra plata hjómsveitarinner, Crossing The Red Sea, er yfirleitt talin með bestu plötum þessara ára.

Ég hef ekki heyrt í TV Smith einum og sér, séð nokkur skemmtileg videó, en Júlíus nokkur Ólafsson hefur nokkrum sinnum séð hann spila á StrummerCamp tónlistarhátíðinni í Manchester… og rauk til og bauð honum til Íslands.

Ég hef verið að kíkja á nokkrar upptökur með honum og hann er eiginlega helv.. góður.

TV Smith spilar á Gauknum næsta laugardagskvöld. Við Fræbbblar spilum með og sömuleiðis hljómsveitin Gímaldin.

Facebook viðburðurinn er hér.. https://www.facebook.com/events/880074648724650/ og þar eru nokkrar tilvísanir í lög.

Magnús Pálsson, minning

Posted: júní 4, 2015 in Fjölskylda
Efnisorð:

Tengdapabbi, Magnús Pálsson, lést 22. maí eftir erfið veikindi, 78 ára.

Útför hans verður frá Áskirkju í dag, 4. júní 2015, kl. 15:00. Upplýsingar um fjölskyldu og feril fylgja í lok færslunnar.

Ég kynntist Magnúsi fyrir meira en þrjátíu og tveimur árum. Hann, sem og Sylvía og öll fjölskyldan, tóku mér opnum örmum þrátt fyrir nokkurn aldursmun á okkur Iðunni.. sem var óneitanlega talsvert meiri á þeim tíma en hann er í dag.

Við Iðunn höfðum ekki verið saman nema í nokkra mánuði þegar við áttum von á fyrsta barninu. Við fréttum þetta á mánudegi og fórum að hitta fjölskylduna. Ég átti nú kannski ekki von á öðru en að okkur yrði vel tekið, en Magnús gerði meira en það, hann rauk til og rétt náði að kaupa kampavín til að skála við okkur og fagna. Ítalskir félagar Iðunnar, Brynju og Stínu voru í heimsókn og satt best að segja voru þeir ekki alveg að skilja hvað var í gangi. Dóttirin sextán ára, ógift að tilkynna fjölskyldunni að hún væri ólétt. Og tilvonandi afi rýkur til og kaupir kampavín til að skála!

Og Magnús lifir í ótal minningum frá óteljandi góðum stundum. Við Iðunn áttum sama brúðkaupsafmælisdag og þau Sylvía og það brást ekki að þegar við vorum öll á landinu þá var haldið veglega upp á daginn.

Við heimsóttum þau nokkrum sinnum í íbúðina á Spáni, fórum á flakk um England og í siglingu um Miðjarðarhafið. Við náðum öllum áramótum með þeim. En bestu minningarnar eru svo sem ekkert endilega frá stóru viðburðunum, heldur alveg eins þessum litlu hversdagslegu, sitja með þeim úti á svölum í íbúðinni þeirra á Spáni með rauðvín, osta og annað snarl.

Ein ferð var þó sérstök. Á níunda áratug síðustu aldar var Magnús að leita að bíl í Þýskalandi, enda mun ódýrara að kaupa bíl erlendis og flytja inn. Það varð úr að við færum saman, við flugum til Luxemborgar og keyrðum milli borga í Þýskalandi að skoða bíla. Ég veit svo sem ekki mikið um bíla og hafði lítið fram að færa við val á bílnum. En ferðin var einstök og við náðum sérstaklega vel saman… alltaf öðru hverju rifjast upp nóttin með hóteleigandanum í Heidelberg sem við spjölluðum við langt fram eftir enda vildi hann selja okkur þýska tjónabíla, gúllasið á ungverska veitingastaðnum í Stuttgart, gistingin hjá íslenskum hjónum í Svartaskógi og lokakvöldið í Luxemborg.

Það er auðvitað engin leið að lýsa Magnúsi í stuttri færslu..

Vandvirkni kemur strax upp í hugann.. það þurfti alltaf að vinna öll verk óaðfinnanlega. Einhverju sinni var Iðunn í vandræðum með gróðurkassa og hann sá að botninn var að detta frá, fór og sótti almennilegan við og skrúfur og festi botninn saman. Restin af kassanum fór fljótlega en botninn stóð öll veður af sér.

Þeir tvíburar, þeas. hann og Sæmi, voru auðvitað mjög nánir. Síðustu dagana áður en Magnús lést var mikið af honum dregið, hann var máttlítill og hafði bæði brotið mjöðm og úlnlið. Sæmi hafði verið hjá okkur á spítalanum síðustu daga og ekki annað að sjá en að hann væri við hestaheilsu. En morguninn eftir fékk Sylvía símtal og var sagt að Sæmi hefði verið lagður inn til rannsókna [sem betur fer lítur út fyrir að það hafi ekki verið mjög alvarlegt]. Það eina sem komst að hjá Magnúsi var að biðja okkur að hjálpa sér á fætur svo hann kæmist til Sæma til að huga að honum.

Hann hafði húmorinn í lagi fram á síðasta dag, nokkrum dögum fyrir andlátið fékk hann jógúrt og orkudrykk á spítalanum. Hjúkrunarfræðingur sagði eitthvað á þá leið að það væri nú gott að fá magafylli.. „já, mér hefur verið sagt það“ var svarið.

Magnús var einstaklega hlýr og opinn og átti einstaklega gott með að spjalla formálalaust við hvern sem er um hvað sem er. Alli, vinur okkar, var með honum í sundi fyrir nokkrum árum og þeir fara að spjalla á meðan þeir eru að raka sig (í nokkurri gufu) á sitt hvorum básnum. Magnús spjallaði eins og þeir hefðu verið bestu vinir árum, ef ekki áratugum, saman. En þegar þeir hafa lokið rakstrinum, gufan er farin að minnka og þeir sjá framan í hvorn annan segir Magnús, „Nei, Alli minn, ert þetta þú??“

Ég þekki engan sem átti eins gott með að halda tækifærisræðu á góðum stundum, afmælum, hjónavígslum, innflutningsteitum og öðrum mannfögnuðum. Og óþreytandi við að skála fyrir ættingjum og vinum, fjarstöddum sem nærstöddum.

Ekki má gleyma frösunum og orðatiltækjunum, sem byrjuðu kannski sem brandarar, urðu kannski svolítið þreyttir en á endanum einhvers konar einkenni eða hefð.

Iðunn hefur rifjað upp að Magnús hafði mjög gaman af að syngja en var lengi vel of feiminn og lét sér nægja að syngja með bílnum með Iðunni þegar hún var lítil. Seinna fór hann að æfa og söng með frímúrarakórnum og kór Rarik í nokkur ár. Ég skal alveg játa að hann kom mér verulega á óvart eitt gamlárskvöldið þegar hann hóf að syngja strax eftir miðnætti.

Skák var eitt af áhugamálunum og Magnús tefldi mikið.. bæði í vinnunni og heimahúsum. Og auðvitað mætti hann framan af í árlegt jólamat hjá okkur, Jólamót Jonna.

Bridge tók kannski að einhverju leyti við af skákinni á seinni árum, bæði var venja að spila Bridge í fjölskylduboðum og eins mætti hann á hverju ári í Bridge mót hjá okkur fyrir áramótin.

Og Magnús var einstaklega hlýr, hann þreyttist aldrei á að hugsa um sína nánustu og láta þá vita hversu mikils virði hún væri honum.

Og svo helstu upplýsingar:

Magnús fæddist 31. júlí 1936 og lést 22. maí 2015.

Foreldrar Magnúsar voru Páll Magnússon (1911-1978), verkstjóri í Reykjavík, ættaður af Suðurlandi og Sigríður Sæmundsdóttir (1911-1990), ættuð úr Helgafellssveit við Breiðafjörð.

Magnús fæddist í Reykjavík og ólst upp í Höfðaborg við Borgartún. Hann gekk í Laugarnesskóla, stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1960 og stundaði síðan nám við Vélskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk prófi í rafmagnsiðnfræði 1962. Hann stundaði tölvunám á vegum Rafmagnsveitna ríkisins í London, Reading, Birmingham og Manchester.

Magnús starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952-1956, á rafmagnsverkstæðinu Segli 1962 og hjá IBM á Íslandi – Skrifstofuvélum á árunum 1962-1967.

Magnús hóf störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins árið 1967, starfaði þar í áætlunardeild 1967-1982 og síðan við tölvudeild frá 1982 þar til hann lét af störfum vegna aldurs 2005.

Magnús æfði og keppti í frjálsum íþróttum með Ármanni og æfði síðan með ÍR. Hann stundaði fimleika með Ármanni og var í sýningaflokki félagsins um skeið. Síðar æfði hann júdó um tíma. Hann synti daglega næstum alla æfi og stundum tvisvar á dag.

Magnús kvæntist Álfheiði Sylviu Briem (17.1.1942) þann 6. maí 1962. Sylvía er dóttir Helga Pálssonar Briem fyrrverandi sendiherra, skattstjóra og bankastjóra og Dorisar Briem húsmóður sem bæði eru látin. Sylvía starfaði lengi hjá Ferðamálaráði, Útflutningsráði, Guðmundi Jónassyni og var deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Börn Magnúsar og Sylviu eru:

Helgi Briem (5.9.1962), líffræðingur og nú kerfisfræðingur hjá Nýherja. Hann er kvæntur Þóru Emilsdóttur bókara hjá Reykjavíkurborg. Börn þeirra eru Kári Emil og Ægir Máni. Eiginmaður Kára er Bradley Eberts.

Páll Briem (2.1.1964), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri í Reykjavík. Unnusta hans er Anna G. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Með fyrrverandi konu sinni Bryndísi Pétursdóttur á Páll synina Magnús, Tryggva og Hauk Helga. Sonur Önnu Gunnarsdóttur er Hans Gunnar Daníelsson. Langafabarn Magnúsar er Aníta Líf, 5 ára, dóttir Magnúsar og Jönu Katrínar Knútsdóttur hjúkrunarfræðings.

Iðunn Doris (22.8.1966), sálfræðingur á BUGL, gift Valgarði Guðjónssyni sviðsstjóra hjá Staka. Börn þeirra eru Andrés Helgi, Guðjón Heiðar og Viktor Orri.

Sæunn Sylvía (14.10.1970) skrifstofustjóri hjá Dale Carnegie. Maður hennar er Friðjón Hólmbertsson, framkvæmdastjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Börn þeirra eru Sylvia Dagmar, Hólmbert Aron og Marel Andri. Langafabarn Magnúsar er Sæmundur Karl, sonur Sylvíu Dagmar og Emils Þórs Jóhannssonar.

Bræður Magnúsar eru:

Gunnar Emil Pálsson (14.8.1934), pípulagningameistari og stýrimaður í Reykjavík, kona hans er Alda Vilhjálmsdóttir.

Sæmundur Pálsson, tvíburabróðir (31.7.1936), húsasmíðameistari og lögregluvarðstjóri á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, kvæntur Ásgerði Ásgeirsdóttur.

Hafsteinn Pálsson (24.4.1954), húsasmíðameistari í Reykjavík, kvæntur Jónu Bjarnadóttur.

Takk Einar

Posted: júní 2, 2015 in Íþróttir
Efnisorð:, ,

Ég missti víst af síðustu karate æfingunni hjá Einari Hagen hjá Breiðabliki núna áðan.

Smá formáli..

Þegar ég kynntist Iðunni, Helga bróður hennar og vinum þeirra fyrir ríflega þrjátíu árum voru Helgi og vinir hans flestir að æfa karate. Helgi var mjög sannfærandi þegar hann var (meira að segja nokkuð oft þegar við fengum okkur í glas) að tala um hvað þetta væri skemmtilegt. Og einhvern veginn fór á bak við eyrað að ég myndi nú örugglega prófa… bara ekki alveg strax.

Fyrir nokkrum árum fann ég svo fyrir að vera orðinn jafnvel enn stirðari og máttlausari en ég hafði verið.. og var þó heldur betur stirður fyrir.

Þannig að ég fór að leita að leiðum til að veslast ekki alveg upp, fótbolti einu sinni í viku yfir veturinn var ekki nóg – og ég var nánast að kafna úr leiðindum þegar ég reyndi fyrir mér í líkamsræktarstöðvum.

Þannig að ég ákvað að láta loksins verða af að prófa karate og mætti auðvitað hjá „mínu“ félagi, þeas. Breiðablik. Og dró Iðunni með mér.

Einar Hagen var þjálfari.

Með hæfilegri blöndu af ódrepandi áhuga, húmor, endalausri þolinmæði og auðvitað góðu aðstoðarfólki náði hann að kveikja áhuga og halda okkur gangandi fyrstu árin. Jú, auðvitað hjálpaði til að við vorum heppin með aðra æfingafélaga.

Nú er þetta ekki spurning.. ég er búinn að finna eitthvað sem smell passar fyrir mig. Með fótboltanum að sjálfsögðu (sem ég ætti þó ekki að segja frá). Smá slys fyrir síðustu jól varð til að ég mætti minna en ella eftir áramót, en ég er að verða góður og mæti aftur í haust.

Sennilega er ég þó svolítið á skjön við flesta sem æfa karate. Ég hef ekki nokkurn áhuga á slagsmálum, horfi aldrei á karate (eða yfirleitt bardaga) myndir og vona að ég þurfi aldrei að nota það litla sem ég þó er búinn að læra. En það er eitthvað við samspil huga og hreyfingar sem heillar mig.. jafnvel þó heilinn detti gjarnan úr sambandi þegar líður á æfingu – eða kannski er það líkaminn misskilur skilaboðin. Þetta er einfaldlega hreyfing sem hefur einhverja merkingu.

PS. Reyndar er rétt að hafa í huga að miðað við hvernig hann hefur talað um veðrið á höfuðborgarsvæðinu þá er ekki víst að þau endist lengi fyrir austan…