Ég er reyndar frekar trúlaus á hvers kyns yfirnáttúru og hef ekki mikla trú á að nokkur geti séð fyrir um óorðna hluti, að minnsta kosti ekki umfram menntaðar ágiskanir byggðar á þekkingu og skynsemi. Að einhver geti raunverulega séð fram í tímann er eitthvað sem ég hef í öllu falli aldrei fengið staðfest.
Nú sé ég að forsætisráðherra vill meina að hægt sé að kenna grimmum árásum um ýmis heimskuleg ummæli frambjóðenda flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Út af fyrir sig get ég svo sem ekki fallist á að það afsaki hvers kyns bull stjórnmálamanna þó einhver þeirra sitji undir gagnrýni. Það er einfaldlega hluti af starfinu að geta tekið gagnrýni og svarað – ja, eða ætti að vera.
Og þó ég hafi fylgst þokkalega vel með þá tók ég nú ekki eftir neinu sem kalla mætti grimmar árásir, aðeins viðbrögð við undarlegum ummælum.
En aðalatriðið er nú að viðbrögðin, sem kölluð eru grimm, komu eftir að frambjóðendurnir létu eitt og annað miður skynsamlegt frá sér fara.
Þannig að ef þessi ummæli eru réttlætt með viðbrögðunum við þeim.. ja, þá hljóta borgarfulltrúarnir að vera skyggnir.
Skyldu þau hafa haft samband við James Randi??