Sarpur fyrir janúar, 2013

Ég held að dagurinn í dag verði ekki síður merkilegur í sögubókunum.

Alþingi samþykkti í dag frumvarp um jafnrétti lífsskoðunarfélaga með miklum mun. Nú fá félög eins og Siðmennt tækifæri á að láta skrá sig og sitja við sama borð og önnur félög um lífsskoðanir.

Ég ætla svo sem ekki að svekkja mig á því hversu langan tíma þetta tók. Og ekki ætla ég að velta vöngum yfir hvers vegna örfáir þingmenn settu sig upp á móti svo sjálfsögðu jafnræði – eða hver rótin er að svona skorti á umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra.

En ég ætla að þakka þeim sem málið studdu. Takk og til hamingju.

IceSave lok

Posted: janúar 28, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Mikið rosalega er ég feginn að þetta IceSave mál er loksins (vonandi) endanlega úr sögunni.

Það er ekki annað hægt en að fagna niðurstöðunni… ég talaði fyrir því að samþykkja þriðja samninginn, ekki af einhverri illkvittni eða vegna þess að ég vildi endilega borga eitthvað sem mér bæri ekki að borga.

Ég mat stöðuna einfaldlega þannig að það væri skárri kostur að loka málinu á þeim tíma með þeim samningi en að taka þessa áhættu, þó fleiri atriði spiluðu reyndar inn í þá afstöðu. Sem betur fer skilaði áhættan sér, en óneitanlega ber þetta keim af að leggja háar upphæðir undir í fjárhættuspili, kannski á ekkert sérstaklega mikla möguleika. Mér fannst það ekki góður kostur, en gott og vel, þetta gekk upp.

Við virðumst reyndar hafa sloppið á tæknilegu atriði vegna tímasetninga aðgerða við að fá á okkur dóm vegna mismunar eftir þjóðerni. Og mér finnst sú ákvörðun ekkert endilega til fyrirmyndar.. en truflar kannski ekki mikið fyrst það stefnir í að það náist að greiða tryggingar.

Hitt má líka kannski hafa í huga að sú leið að leita samninga liðkaði væntanlega á sínum tíma fyrir fyrirgreiðslu, sem var okkur nauðsynleg – án þess að ég þykist vita hvernig það hefði farið.

Ég ætla að láta þetta nægja. Að minnsta kosti að sinni. En það er allt í lagi að ræða geðvonskulaust hvað var vel gert og hvað hefði mátt gera betur. Svona þegar um hægist.

Ef IceSave dómur…

Posted: janúar 27, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef alltaf verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem góðri leið til að skera úr um deilumál. Aðallega þó um stefnumótandi ákvarðanir en ég hef haft fyrirvara og efasemdir um einföld tæknileg atriði – sérstaklega þar sem fólk tekur afstöðu með skammtímahagsmuni að leiðarljósi.

Gott dæmi um atriði sem á varla heima í þjóðaratkvæðagreiðslu var atkvæðagreiðslan um síðasta IceSave samning. Ég kynntist allt of mörgum dæmum – án þess að geta fullyrt að þar hafi verið þverskurður af allri þjóðinni – þar sem fólk greiddi atkvæði án þess að hafa í raun hugmynd um hvaða valkostir væru í boði eða hvaða afleiðingar hvor kostur gæti haft, hvað þá að verið væri að meta þá kalt.

Auðvitað voru margir sem kynntu sér málið vel og komust að annarri niðurstöðu en ég. En það voru margir sem greiddu atkvæði án þess að hafa hugmynd um hvað valkostirnir þýddu.

Spilað var á þjóðerrnisrembing og ljótu-kallarnir-í-útlöndum og allan þá órökréttu tilfinningastrengi sem voru í boði. Og samningnum var hafnað. Vissulega var hann ekki ákjósanlegur, en ég taldi þetta bestu niðurstöðu til að ljúka málinu.

Á morgun fellur dómur í málinu. Ætli þeir sem sögðu nei hafi hugleitt hvað niðurstaðan getur þýtt? Eru þeir tilbúnir til að bera ábyrgð á sínu atkvæði?

Nei, ég segi nú bara svona. Mér dettur auðvitað ekki í hug að fólk standi við stóru orðin frá því fyrir kosningarnar….

Verðtryggingin er þægilegur blóraböggull og vinsælt skotmark. Margir finna fyrir því að lánin hækka umfram laun og eiga erfitt með að standa undir greiðslum. Fyrsta hugsun er því að afnám verðtryggingar hljóti að vera lausnin. Ég efast ekki um góðan vilja flestra þeirra sem vilja afnema verðtrygginguna en ég efast um að málið hafi verið hugsað til enda. Og mér finnst oft vanta á að fjölmiðlafólk kynni sér forsendur fullyrðinga áður en fréttir fara „í loftið“. Og það sem verra er, það er að myndast einhvers konar múgsefjun fyrir þessu. Það er góð taktík á atkvæðaveiðum að tala gegn verðtryggingunni og það býður heim uppnefnum og skítkasti að benda á að ekki er allt sem sýnist í fyrstu.

Hluti af skýringunni er að greiðndur lána, „þolendur“ verðtryggingarinnar, eru í flestum tilfellum almennt launafólk en lánveitendur oftar en ekki „ljótir kallar í útlöndum“. Sem er reyndar ekki rétt, íslenskir lífeyrissjóðir eiga stóran hluta. Lífeyrissjóðirnir sem þurfa að standa undir greiðslum til þessa sama launafólks.

Það er ekkert að hugmyndinni um verðtryggingu, hún gengur einfaldlega út á það að lántakandi greiði lán til baka í jafn verðmætum krónum og hann fékk að láni.

Þá er allt í lagi að hafa í huga að hvort sem lánveitandi er „ljótur kall í útlandinu“ eða lífeyrissjóður þá má ekki gera ráð fyrir að þeir sem eiga pening vilji lána ef þeir fá minna til baka en þeir lána.

Afnám verðtryggingar getur þannig bæði komið í bakið á launafólki þegar kemur að eftirlaunum – og orðið til að það fást einfaldlega ekki lán til húsnæðiskaupa.

En verðtrygging er eitt og vísitala annað. Vísitalan er aðferð til að meta verðmæti krónunnar. Þegar allt er eðlilegt hækka laun og húsnæðisverð í takt og lántakandi greiðir sanngjarnan hlut til baka. Reyndar væri best að hafa enga verðbólga, þá væri þetta ekkert vandamál.

Það sem flestir upplifa sem vandamál við verðtryggingu er í rauninni vandamál við vísitölu. Lánskjaravísitalan hækkar meira en laun og því þarf greiðandi að greiða talsvert hærri hlut af launum sínum af lánum. Þetta mætti auðvitað laga með því að nota launavísitölu eða miða við húsnæðisvísitölu, þannig að húsnæðislán haldist í takt við verðmæti eignarinnar.

Það talaði reyndar enginn um þetta misræmi þegar launin hækkuðu meira en lánskjaravísitalan og greiðendur greiddu stöðugt minna af lánum.

Vísitala húsnæðisverðs sú líkast til sú sanngjarnasta. Hún getur reyndar komið illa út fyrir lántakanda ef misræmi eru milli launavísitölu og húsnæðisvísitölu, en með þessari vísitölu má reyndar gera ráð fyrir að þessar vísitölur haldist í hendur, því geta til að kaupa húsnæði ætti að stýra verðinu. Þannig ætla ég að mæla með launavísitölu en það er ekkert að þeirri hugmynd að miða við vísitölu húsnæðisverðs.

Skoðum dæmi um lán til húsnæðiskaupa, kaupandi kaupi íbúð á 25 milljónir í janúar 2006 og fái alla upphæðina að láni. Til að hafa þetta skýrt og einfalda útreikninga gerum við ráð fyrir að lánið hafi verið til fimm ára.

Gefum okkur – til að halda „ljótu köllunum“ frá umræðunni – að lánveitandi sé einstaklingur sem seldi íbúð fyrir 25 milljónir, fékk hana greidda út í hönd, og ætlar sér að kaupa aðra sambærilega eftir fimm ár. Ég sé einfaldlega enga sanngirni í því að hann fái aðeins hluta greiddan til baka og þurfi að sætta sig við að kaupa minni íbúð. Hversu háa vexti hann á skilið að fá fyrir greiðann er svo önnur umræða, ég vil meina að eitthvað rétt undir hagvexti séu sanngjarnir vextir fyrir lán með nánast engri áhættu, þeas. tryggt með veði í fasteigninni.

Þetta er heldur ekki ósanngjarnt fyrir þann sem tekur lánið, hafi hann notað peninginn til að kaupa í búð þá er alltaf sá möguleiki í boði að selja íbúðina og fá svipaða upphæð og hann greiðir af láninu, þeas. að vöxtunum frátöldum.

Miðað við lánskjaravísitölu hefði lántakandi greitt 40,1m.

Með breytilegum vöxtum, eins og þeir hafa verið, væru greiðslurnar 36,1m. Breytilegir vextir hafa sem sagt verið hagstæðari en „fastir vextir“ með verðtryggingu, kannski að einhverju leyti vegna þess að vextir á verðtryggðu lánunum hafa verið langt frá því að vera fastir.

Það er hins vegar enn fróðlegra að skoða niðurstöðuna hefði lántakandi greitt sambærilega vexti og tíðkast, td. í Finnlandi (sbr. þó fyrirvara á eftir). Þá hefði heildargreiðsla viðkomandi 33,8m.

En miðað við launavísitölu og lægri vexti þá væru heildargreiðslur 30,7m.

Íbúðin sem við gerum ráð fyrir að viðkomandi hafi keypt væri 28,4 milljóna virði.

Kostnaðurinn við að eignar íbúðina á fimm árum má lækka um þriðjung með breytilegum vöxtum.

En það má lækka hann um 80% með betri vísitölu og lægri vöxtum.

Kostnaður

Fyrirvarar

Já, rétt að taka fram að þessar stærðir – vextir, verðbólga, vísitölur – eru teknar af vefsíðum – ma. Hagstofu – og þó þær séu sennilega réttar þá er ekki hægt að útiloka innsláttarvillur. Ég þurfti til að mynda að leiðrétta innsláttarvillu í fyrri færslu. Og auðvitað er ekkert ríki nægilega líkt okkur til að hægt sé að fá nákvæman samanburð.

Að velja vonda talsmenn

Posted: janúar 26, 2013 in Umræða

fyrir góðan málsstað er því miður allt of algengt.

Ég veit að ég á ekki að láta þetta trufla mig – og reyni oftar en ekki að horfa fram hjá þessu.

En stundum er gengið of langt og ég get einfaldlega ekki sett nafn mitt við að styðja atburði sem eru notaðir að því er virðist í persónulegu framapoti einstaklinga sem ég ber enga virðingu fyrir.

Bann við bulli á netinu

Posted: janúar 23, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Væri það ekki nær að banna bull, kjaftæði og þvælu á netinu en að banna klám?

Það er álíka gáfulegt, álíka auðvelt að fylgja eftir, nokkurn veginn jafn auðvelt að skilgreina og nákvæmlega sama forsjárhyggja.

Og það sem meira er, þetta myndi örugglega gera meira gagn.

Samningatækni – níutíu og sjö

Posted: janúar 18, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Svo virðist sem samningar ríkisins árið 1997 hafi gengið einhvern veginn svona fyrir sig:

„Þið viljið sem sagt að við tökum við jörðum sem þið eigið og greiðum ykkur laun um ókomna framtíð í staðinn?“ – Já

„Eru þetta allar jarðir sem þið eigið?“ – Nei, við ætlum að halda eftir þeim sem gefa einhverjar alvöru tekjur

„Vitið þið hvaða tekjur má hafa af þessum jörðum sem við eigum að taka við?“ – Nei

„Vitið þið hversu verðmætar þessar jarðir eru?“ – Nei

„Vitið þið hvaða jarðir þetta eru?“ – Nei

„Vitið þið hversu mörg þið verðið í framtíðinni?“ – Nei

„Vitið þið hvaða laun þið hafið í framtíðinni?“ – Nei

„Þið viljið sem sagt að við greiðum óskilgreindum fjölda ykkur óskilgreind laun til eilífðar gegn því að fá jarðir sem enginn veit hverjar eru eða hversu mikils virði eru?“ – Já

„Gott og vel, hvar skrifa ég undir?“