Sarpur fyrir janúar, 2013

Í tilefni þess að nú eru liðin tíu ár frá því að íslenska þjóðkirkjan lagði sjálfa sig niður hefur verið ákveðið að reisa styttu af þáverandi biskup á lóð Landsspítala.

Flestmu er væntanlega enn í fersku minni þegar forsvarsmenn þjóðkirkjunnar, í ársbyrjun 2014, sáu að þeim fjármunum sem runnu til kirkjunnar væri mun betur varið til heilbrigðisþjónustu. Í kjölfarið ákvað þjóðkirkjan að leggja sjálfa sig niður og láta allar eigur og allar tekjur renna til Landsspítalans. Árið áður hafði kirkjan hafið söfnun fyrir spítalann og þegar þeim peningum var komið til skila kviknaði hugmyndin hjá biskup.

Á þessum tímamótum sagði biskup:

Við sáum einfaldlega hversu mikið verk var unnið á spítalanum og okkur blöskraði að sjá erfiðar aðstæður starfsfólks, úrelt tæki og skelfilega lág laun. Við ákváðum að líta aðeins í eigin barm og okkur varð fljótt ljóst að við höfðum úr allt of miklu að spila og í rauninni lítið af verkefnum. Við vissum í rauninni stundum ekkert hvað við áttum að gera við allt það fé sem ríkið mokaði til okkar. Við höfðum frekar lítið að gera og launin voru svimandi há. Það var helst þegar almannatengslafólkið okkar var uppáfinningasamt sem við náðum svona ríflega hálfum vinnudegi. Ég fékk svo hugljómun þegar ég vaknaði daginn eftir og rifjaði upp boðskapinn sem kirkjan var byggð á. Þá var þetta í rauninni auðveld ákvörðun, þetta var einföld og augljós aðferð til að hjálpa fólk og lina þjáningar.

Óháðir söfnuðir hafa hins vegar staðist tímans tönn og reka sig hjálparlaust á frjálsum framlögum og sóknargjöldum félaga, sem þeir ákveða og innheimta sjálfir.

Við trúleysingjar höfum fengið nokkuð margar lítt geðfelldar „sendingar“ síðustu daga og vikur. Oftast koma þær frá þeim sem hafa fundið sig í kristinni trú og/eða telja sig sjálfa stærri á einhverju „andlegu sviði“. Þetta kemur úr öllum áttum, í fljótu bragði man ég eftir prestum, rithöfundi, sjómanni og jafnvel bókmenntafræðingi.

Þetta er kannski að einhverju leyti í takt við þá aðferðafræði kirkjunnar síðustu ár að það sé í góðu að segja hvað sem er um trúleysingja. Tilgangurinn helgar jú meðalið og hefur forgang fram yfir boðskap og boðorð sem þess á milli er haldið á loft.

Þannig virðist það vera við hæfi – svona þegar hlé er tekið á því að boða kærleiksboðskapinn – að smyrja hverju sem er á okkur trúleysingjana, gera okkur upp hatur og ég veit ekki hvað – jú, og ekki gleyma að líf okkar sé í lausu lofti.

Ég held reyndar að það kæmi betur út fyrir kirkjuna til lengri tíma litið að fylgja eigin kærleiksboðskap og virða áttunda  [eða níunda] boðorðið (númerin breytast eftir útgáfum, en ég er sem sagt að tala um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum). Þetta virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma hafa svona áróðursvélar gjarnan hrunið eins og spilaborg í stormi.

Síðustu ár hafa vissulega verið gjöful í íslenskri tónlist, mikið að gerast og eins og svo oft áður gengið mjög vel hjá mörgum að ná athygli erlendis. Sem er „lífsspursmál“ fyrir flesta, þeas. ef þeir eiga að ná að lifa af tónlistinni, íslenski markaðurinn er einfaldlega ekki nógu stór fyrir annað en frekar fámenna „miðju“.

En ég neita því ekki að mér finnst leið íslenskrar tónlistar heldur liggja í áttina að helst til dauðhreinsaðri, átakalítilli og jafnvel máttlausri tónlist. Það vantar ekkert upp á að þetta er fagmannlega og vel unnið – en einhvern veginn er allt of mikið af margreyndum formúlum og þetta snertir ekki eða kveikir áhuga.

Auðvitað eru heiðarlegar undantekningar, eins og frá svo mörgum alhæfingum.

En það væri gaman að sjá meiri fjölbreytni og meiri kraft í ár.

Við Fræbbblar leggjum til lagið „Judge a Pope just by the Cover“ sem kom út eina mínútu eftir miðnætti þann 1. janúar 2013.

„Lággæðaútgáfa“ af laginu fæst frítt Judge a Pope just by the Cover – og útgáfa í fullum gæðum er á GogoYoko og kostar þar 25 krónur sem renna til góðgerðamála.

2012

Posted: janúar 2, 2013 in Spjall
Efnisorð:

Er ekki við hæfi að renna yfir síðasta ár? Nei, kannski ekki – en ég ætla nú að gera það samt.

2012 var eiginlega alveg ágætt, mikið af góðum stundum með vinum og til þess að gera lítið af leiðindum og þau utanaðkomandi og óviðráðanleg.

Ferðalög til annarra landa voru þau að við Iðunn fórum í 2ja vikna frí til Benalmadena á Costa del Sol og í helgarferð til London, báðar ferðir í sérstaklega góðum félagsskap. Iðunn skrapp svo til Stokkhólms og ég fór á árlega sýningu í Amsterdam.

Við fórum tvær sérstaklega vel heppnaðar ferðir með Sambindinu og ekki voru ferðirnar á Einifell síðri. Annars þurfti svo sem heldur ekki að fara langt – ótal „hittingar“ við ýmis tækifæri, matarklúbbar, Madridarhópur, Goutons Voir, Postular, skírnarveislur, árshátíðir, vinnustaðaskemmtanir og fjölskylduboð voru einstaklega vel heppnuð 2012. Eitt ógleymanlegt brúðkaup og nokkrar útskriftarveislur settu svip sinn líka á árið.

Og ekki gleyma mörgum stórafmælum – Nonni, Helgi, Siggi, Sóley, Sylvía, Hrund & Skarpi – sem fagnað var með eftirminnilegum hætti. Og já, gullbrúðkaup tengdaforeldranna kallaði líka á glæsilega veislu.

Eitt þarf að taka út, útskrift Viktors Orra úr stjórnmálafræði var einn af hápunktum ársins, ekki bara glæsilegt frammistaða, því svona há einkunn hafði ekki verið gefin í stjórnmálafræði frá stofnun deildarinnnar (þó annar félagi hans hafi gert enn betur) heldur er Viktor greinilega búinn að finna sína hillu, ótal verkefni og mastersnám í framhaldinu.

Af íþróttafréttum, ef svo má kalla, þá var gaman að ná loksins að vinna hina margrómuðu Postuladeild í innanhúsfótbolta og við Iðunn byrjuðum að æfa Karate hjá Breiðabliki í byrjun árs og héldum því, að sjálfsögðu, út árið.

Fræbbblarnir spiluðu á nokkrum skemmtilegum hljómleikum, helst kannski að nefna Rokk í Reykjavík 2.0, GogoYoko Extravagansa og Dillon á Menningarnótt. Og svo kom skemmtileg viðbót við tónlistarferilinn þegar ég söng nokkur lög með Bjössa Thor og félögum á Jazz og blúshátíð Kópavogs í Salnum.

Við Fræbbblar gáfum út jólalagið „Ótrúleg jól 2012“ og kláruðum „Judge a Pope just by the Cover“ til útgáfu 1. janúar 2013. Þá fjölgaði vel í hljómsveitinni þegar tveir upphaflegir meðlimir (ja, nánast) gengu aftur til liðs við hljómsveitina.

Og tengt Fræbbblunum, þá var gaman að taka þátt í Popppunkti einu sinni enn, og ekki spillti fyrir að ná sigri í þessari lotu.

Af neikvæðu hliðinni er helst að nefna alvarleg veikindi á tveimur vígstöðvum í vinahópnum, vonandi verður framhald á góðum fréttum á nýju ári.

Og ósvífin framkoma réttarkerfisins við elsta soninn er nokkuð sem ekki verður fyrirgefið.

Svo beitti ég mér fyrir að ekki yrði ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, en hafði varla erindi sem erfiði í ruglingslegri atkvæðagreiðslu. En það minnir þó á nauðsyn þess að spyrna við sífellt aukinni markaðssókn ríkiskirkjunnar, nokkuð sem virðist ætla að verða langtíma verkefni.

kom út 1. janúar 2013.. lagið heitir „Judge a Pope just by the Cover“ og má finna á Judge a Pope just by the Cover“ og á GogoYoko.