Við trúleysingjar höfum fengið nokkuð margar lítt geðfelldar „sendingar“ síðustu daga og vikur. Oftast koma þær frá þeim sem hafa fundið sig í kristinni trú og/eða telja sig sjálfa stærri á einhverju „andlegu sviði“. Þetta kemur úr öllum áttum, í fljótu bragði man ég eftir prestum, rithöfundi, sjómanni og jafnvel bókmenntafræðingi.
Þetta er kannski að einhverju leyti í takt við þá aðferðafræði kirkjunnar síðustu ár að það sé í góðu að segja hvað sem er um trúleysingja. Tilgangurinn helgar jú meðalið og hefur forgang fram yfir boðskap og boðorð sem þess á milli er haldið á loft.
Þannig virðist það vera við hæfi – svona þegar hlé er tekið á því að boða kærleiksboðskapinn – að smyrja hverju sem er á okkur trúleysingjana, gera okkur upp hatur og ég veit ekki hvað – jú, og ekki gleyma að líf okkar sé í lausu lofti.
Ég held reyndar að það kæmi betur út fyrir kirkjuna til lengri tíma litið að fylgja eigin kærleiksboðskap og virða áttunda [eða níunda] boðorðið (númerin breytast eftir útgáfum, en ég er sem sagt að tala um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum). Þetta virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma hafa svona áróðursvélar gjarnan hrunið eins og spilaborg í stormi.