Posts Tagged ‘trúleysi’

Það er kannski óþarfi að vera að tíunda niðurstöður úr könnuninni sem Maskína gerði fyrir Siðmennt. En, jú, jú.. hún er nokkuð merkileg og um að gera að ræða málin.

Ef marka má niðurstöður könnunarinnar þá er um fjórðungur þjóðarinnar kristinnar trúar en trúir ekki á neitt.

Líklegasta skýringin er auðvitað að fólk telji sig finna siðferðisleg gildi í kennisetningum trúarinnar og/eða kunni að meta athafnir, siði og venjur trúfélaganna.

Það er hins vegar mikill misskilningur að ekki sé hægt að finna góð siðferðileg viðmið án trúarinnar.. þvert á móti þá geta þau sem ganga út frá grundvöllum trúarsetninga verið mjög skaðleg eins og sést best á viðhorfi margra kristinna til samkynhneigðra.

Svo er auðvitað engin þörf á að tengja viðburði við yfirnáttúrlegar verur.. Siðmennt hefur til að mynda sýnt fram á í verki að athafnir geta verið ógleymanlegar og vel heppnaðar þó ekki sé verið að skreyta þær með bábiljum fyrri alda.

Það hefur oft verið sagt að stysta leið kristinna að trúleysi sé að lesa biblíuna.

Fyrir um það bil tveimur áratugum ákvað kirkjan að hefja sérstakt átak í skólum landsins, prestar voru sendir í skólana á skólatíma og oftar en ekki farið með börnin í messu í kirkju.

Þetta hefur, eðlilega, verið mikið gagnrýnt og ekki fyrir löngu setti Reykjavíkurborg skýrar reglur um aðgang utanaðkomandi aðila í menntastofnanir – nokkuð sem kostað hefur rifrildi og ritdeilur nánast fyrir hver einustu jól.

En nýleg könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt sýnir að ekki eitt einasta barn undir 25 ára aldri trúir á guð kristinna. Þau eru kannski sátt við siði og athafnir – og þau eru sammála mörgu í siðferðisboðskap kristinna – sem að mestu er eldri en kristnin og hefur lítið með hana að gera.

En þetta er einmitt sú kynslóð sem sat undir markaðsátaki kirkjunnar.

Kannski ættum við trúlaus frekar að hvetja kirkjuna til að mæta í skólana, fulltrúar hennar eru að ná miklu betri árangri en við…

Leiðtogaleysi okkar trúleysingja

Posted: júlí 31, 2015 in Trú
Efnisorð:

Síðustu daga hef ég hef aðeins orðið var frekar hjákátlegar tilraunir til að skjóta á og gera lítið úr öllum trúleysingjum með því að vitna til (ætlaðra) heimskulegra skoðana þekktra trúleysingja, þegar kemur að konum / kvenréttindum. Ég segi „ætlaðra“ vegna þess að ég hef ekki haft fyrir því að kynna mér málið, mér er svo slétt sama um það hvort viðkomandi einstaklingar hafa gamaldags, fáránlegar og/eða heimskulegar skoðanir. Það kemur mér ekki við.

En ansi margir trúaaðir virðast halda að þeir geti komið einhvers konar höggi á trúleysingja almennt með því að klifa á þessu. Til að mynda er einn (annars ágætur) prestur að dæla þessu inn á Facebook.

Það er búið að marg segja og útskýra í bak og fyrir að viðkomandi einstaklingar séu ekki leiðtogar eða fyrirmyndir eða neitt slíkt hjá okkur trúleysingjum.

En dælan heldur áfram og áfram… Kannski til að endurtaka lygina vísvitandi og nægilega of til að einhver trúi. Kannski skilja viðkomandi ekki það sem er búið að útskýra margsinnis fyrir þeim.

En svo fór ég að hugsa hvort skýringin gæti verið önnur.

Kannski er eitthvað sem verður til þess að trúaðir ná ekki þessari hugsun – að einhver geti haft skoðun án þess að þurfa einhverja einstaklinga, lífs eða liðna, ímyndaða eða raunverulega til að standa fyrir skoðanirnar.

Kannski er ákveðið samhengi milli þess að vera trúaður á sinn leiðtoga og geta ekki fyrir sitt litla líf skilið að aðrir eru ekki þannig.

Kannski skýrir það líka þessa eilífu fullyrðingar að trúlausir séu nú bara samt trúaðir líka, hvað sem þeir segja sjálfir.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhver líffræðileg takmörkun, eða eitthvað í uppeldinu..

Þetta er ekki illa meint (þó eflaust taki einhverjir þessu þannig).. ég get bara ekki skilið þessa þráhyggju hjá annars vel meinandi og að öðru leyti bráðgreindu fólki.

Nýlega sagði vinur minn við mig að líf mitt væri eins og tóm tunna vegna þess að ég tryði ekki á guð.

Þetta er auðvitað fráleitt.. þvert á móti þarf ég ekki á einhverjum óskilgreindum, tilbúnum yfirnáttúrulegum verum til að líf mitt hafi gildi. Það er bara nokkuð fínt eins og það er – gott og gilt sjálfs sín vegna.

Mér hefur hins vegar þótt það æði nöturleg tilhugsun að geta ekki lifað góðu lífi nema hengja sig í tilbúnar verur og mögulegt framhaldslíf. Þetta hlýtur að vera skelfilegt.

Kannski minnir þetta að einhverju leyti á konuna sem keypti happdrættismiða til að vinna stóra vinninginn og byrjaði strax að skipuleggja líf sitt miðað við að vera búin að fá vinninginn. Hún ætti að vita að líkurnar eru afar litlar og hún ætti að vita að hennar bíður líklega framtíð án happdrættisvinningsins. Það er frekar ömurleg tilhugsun að þurfa að lifa lífinu treystandi á happdrættisvinning þar sem líkurnar eru hverfandi. Þó er kannski sá munurinn á konunni og þeim sem byggja líf sitt á trúnni að það er jú stundum einn sem vinnur í happdrættinu.

Egill Helgason birti ágætis pistil þar sem hann bendir á samantekt um trúleysi og augljóst samhengi við almenna velmegun á meðan þau ríki þar sem ofsatrú og hvers kyns bábiljur ráða ríkjum eru langt á eftir. Auðvitað má finna einhverjar undantekningar, en þær eiga sér sínar skýringar og breyta ekki heildarmyndinni.

Þetta er auðvitað ekkert dularfullt og minnir á söguna um að sala á ís sé mest þegar flestir drukkna í ám. Vitaskuld var ekki beint samhengi á milli, heldur var þarna þriðji þátturinn, mikill hiti, sem varð til þess að fólk reyndi bæði að kæla sig í ám og keypti ís.

Sama gildir um trúleysi og almenna „velmegun“, hvort sem við skilgreinum það eingöngu efnahagslega eða skoðum atriði eins og glæpatíðni og mat þjóða á lífshamingju.

Hvort tveggja er einfaldlega afleiðing betri og meiri menntunar. Trúleysi er talsvert meira hjá langskólagegnum en öðrum og trúleysi er talsvert meira hjá þeim þjóðum þar sem menntun er hvað mest – þar er líka mest almenn „velmegun“.

Það er einfaldlega ekkert dularfullt við þetta. Fólk sem hefur góða menntun er að öllu jöfnu ólíklegra til að trúa á galdra eða töframeðul eða sætta sig við grimmdarverk í nafni trúar. Sama gildir um „skaðlausari“ birtingarmynd trúar – það er að segja þá sem eru trúaðir en eru sáttir við sitt og láta aðra í friði – þeim fer fækkandi eftir því sem menntun eykst.

Ekki „trúleysingi“

Posted: febrúar 14, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Birgir Baldursson – og væntanlega fleiri – benti á góðan myndatexta frá Gudloysi á Facebook í gær..

I am not an „atheist“ because I don’t define myself by what I am not. I don’t fuck pigs either, but I don’t fell the need to call myself an „apigfucker“

sem útleggst í lauslegri þýðingu

Ég er ekki „trúleysingi“ vegna þess að ég skilgreini mig ekki út frá því sem ég er ekki. Ég sef ekki hjá svínum en ég hef enga þörf fyrir að kalla mig „ekkisvínahjásofari“

Þetta er nokkuð góður punktur. Og eins og Birgir bendir á, eru trúaðir ekki einfaldlega „skynsemisleysingjar“?

Okkur vantar eiginlega betra hugtak yfir þá sem aðhyllast heilbrigða skynsemi og hafna bábiljum, hjávísindum, hindurvitnum og hvers kyns kukli sem byggir ekki á öðru en óljósum hugdettum.

Einhverjar hugmyndir? Má taka Birgi á orðinu og svara „Nei, ég er ekki trúaður ég er skynsamur“?

 

Við trúleysingjar höfum fengið nokkuð margar lítt geðfelldar „sendingar“ síðustu daga og vikur. Oftast koma þær frá þeim sem hafa fundið sig í kristinni trú og/eða telja sig sjálfa stærri á einhverju „andlegu sviði“. Þetta kemur úr öllum áttum, í fljótu bragði man ég eftir prestum, rithöfundi, sjómanni og jafnvel bókmenntafræðingi.

Þetta er kannski að einhverju leyti í takt við þá aðferðafræði kirkjunnar síðustu ár að það sé í góðu að segja hvað sem er um trúleysingja. Tilgangurinn helgar jú meðalið og hefur forgang fram yfir boðskap og boðorð sem þess á milli er haldið á loft.

Þannig virðist það vera við hæfi – svona þegar hlé er tekið á því að boða kærleiksboðskapinn – að smyrja hverju sem er á okkur trúleysingjana, gera okkur upp hatur og ég veit ekki hvað – jú, og ekki gleyma að líf okkar sé í lausu lofti.

Ég held reyndar að það kæmi betur út fyrir kirkjuna til lengri tíma litið að fylgja eigin kærleiksboðskap og virða áttunda  [eða níunda] boðorðið (númerin breytast eftir útgáfum, en ég er sem sagt að tala um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum). Þetta virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma hafa svona áróðursvélar gjarnan hrunið eins og spilaborg í stormi.

Fyrstu viðbrögð við að vera uppnefndur og kallaður einhverjum ónefnum er gjarnan að bregðast illa við og fara í vörn, hugsa viðkomandi „uppnefnara“ þegjandi þörfina.

En ég hef smám saman lært að þetta er gjarnan hið besta mál. Oftar en ekki staðfestir þetta að viðkomandi hefur engin rök og engar upplýsingar – er rökþrota og hefur ekkert málefnalegt fram að færa.

Ég sá í Fréttablaðinu um daginn grein þar sem talað er um „árásargjarnar andtrúarhreyfingar“. Mig grunar að þarna sé meðal annars átt við Vantrú, þar sem ég er meðlimur. Tilefnið átti víst að vera að starfsemi snúist að mestu um að afsanna líkingar úr biblíunni og barátta okkar snúist að mestu um hvort Jesú hafi gengið á vatni eða ekki. Jafnvel að banna trú.

Þessu fer auðvitað víðsfjarri, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. „Dómsdags kjaftæði“ myndi einhver segja, en ég er auðvitað svo kurteis. Það má vera að í einhverjum tilfellum hafi þeim verið svarað sem telja sögur biblíunnar bókstaflega réttar – til dæmis prestinum í Hafnarfirði nýlega sagðist telja meyfæðinguna sannleikanum samkvæma – en það er fráleitt að baráttan snúist að einhverju leyti um þetta, hvað þá að mestu leyti.

Baráttan snýst einfaldlega um að fá að hafa okkar trúleysi í friði fyrir ágangi trúboðs og hvers kyns boðun hindurvitna. Félagið var stofnað sem mótvægi við sífellt harkalegri árásum kirkjunnar manna á trúleysingja og stöðugri aukningu trúboðsstarfssemi, þar sem börn eru markhópurinn. Vonandi verður hægt að leggja félagið niður áður en of langt um líður, en á meðan kirkjan notar sífellt stærri hluta af almannafé í markaðsstarf þá virðist nú vera einhver bið..