Það er kannski óþarfi að vera að tíunda niðurstöður úr könnuninni sem Maskína gerði fyrir Siðmennt. En, jú, jú.. hún er nokkuð merkileg og um að gera að ræða málin.
Ef marka má niðurstöður könnunarinnar þá er um fjórðungur þjóðarinnar kristinnar trúar en trúir ekki á neitt.
Líklegasta skýringin er auðvitað að fólk telji sig finna siðferðisleg gildi í kennisetningum trúarinnar og/eða kunni að meta athafnir, siði og venjur trúfélaganna.
Það er hins vegar mikill misskilningur að ekki sé hægt að finna góð siðferðileg viðmið án trúarinnar.. þvert á móti þá geta þau sem ganga út frá grundvöllum trúarsetninga verið mjög skaðleg eins og sést best á viðhorfi margra kristinna til samkynhneigðra.
Svo er auðvitað engin þörf á að tengja viðburði við yfirnáttúrlegar verur.. Siðmennt hefur til að mynda sýnt fram á í verki að athafnir geta verið ógleymanlegar og vel heppnaðar þó ekki sé verið að skreyta þær með bábiljum fyrri alda.