Posts Tagged ‘kristni’

Það hefur oft verið sagt að stysta leið kristinna að trúleysi sé að lesa biblíuna.

Fyrir um það bil tveimur áratugum ákvað kirkjan að hefja sérstakt átak í skólum landsins, prestar voru sendir í skólana á skólatíma og oftar en ekki farið með börnin í messu í kirkju.

Þetta hefur, eðlilega, verið mikið gagnrýnt og ekki fyrir löngu setti Reykjavíkurborg skýrar reglur um aðgang utanaðkomandi aðila í menntastofnanir – nokkuð sem kostað hefur rifrildi og ritdeilur nánast fyrir hver einustu jól.

En nýleg könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt sýnir að ekki eitt einasta barn undir 25 ára aldri trúir á guð kristinna. Þau eru kannski sátt við siði og athafnir – og þau eru sammála mörgu í siðferðisboðskap kristinna – sem að mestu er eldri en kristnin og hefur lítið með hana að gera.

En þetta er einmitt sú kynslóð sem sat undir markaðsátaki kirkjunnar.

Kannski ættum við trúlaus frekar að hvetja kirkjuna til að mæta í skólana, fulltrúar hennar eru að ná miklu betri árangri en við…

Mannfyrirlitning í nafni trúar

Posted: júlí 18, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Það var skelfilegt að hlusta á rausið í fulltrúa annars múslima safnaðarins hér á landi áðan í kvöldfréttum RÚV, eða Speglingum, réttara sagt. Hvort sem hann ræddi stöðu kvenna yfirleitt, það að heilsa konum með handabandi, blæjur kvenna, hver ætti að ráða á heimilinu eða samkynhneigð þá gekk hann nokkrum sinnum fram af okkur á örfáum mínútum.

Það hvarflar ekki að mér að dæma alla múslima út frá bullinu í manninum, ekki frekar en að það hvarflar að mér að dæma alla kristna út frá verstu bullukollunum.

Á stuttu ferðalagi um Miðjarðarhaf lögðu amk. tveir farastjórar, í Tyrklandi og Egyptalandi – báðar konur – áherslu á að flestir múslimar væru hófsemdarfólk sem iðkaði trú sína í friði og léti aðra í friði. Nú dettur mér ekki í hug að nokkrir dagar gefi mér yfirgripsmikla þekkingu, en þeim var mikið í mun að leiðrétta klisjur og koma í veg fyrir fordóma – og tókst að minnsta kosti að sannfæra mig. Ef ég skildi rétt þá voru þetta fyrst og fremst hefðir og siðir, eins og kristni er væntanlega hjá flestum.

En það er ágætt að hafa í huga að svona fordómar, þessi mannfyrirlitning í nafni trúar, er ekki skráð einkaleyfi hjá múslimum. Við þurfum ekki að leita langt.