Posts Tagged ‘kirkjan’

Nú stefnir í að greiðslur ríkissjóðs til kirkjunnar hækki all verulega, eiginlega algjörlega út í bláinn, upp úr þurru og án nokkurrar jarðtengingar (enda finnst kirkjunni það eflaust óþarft) – ja, nema við teljum með gegndarlausan áróður frá almennatengslavél kirkjunnar.

Það virðist gjarnan gleymast hvernig þetta kom til. Samkvæmt því sem kirkjan heldur fram afhenti hún ríkinu einhverjar óskilgreindar eignir, fékk eignir afhentar 1997 og enn fleiri 2006 (eða þar um bil). Út af fyrir sig er stór undarlegt að ríkissjóður afhendi nokkrum einstaklingum verðmætar eignir án endurgjalds.

Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að kirkjan hafi aldrei átt neinar eignir til að afhenda. Nú skal ég viðurkenna að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og/eða gögn, en miðað við aðgengilegar upplýsingar þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.

Við siðaskiptin færðust allar eignir kirkjunnar til Danakonungs og við fullveldi/sjálfstæði til íslenska ríkisins. Þessi flutningur eigna virðist staðfestur og það var einn af grundvallarþáttum í mismun á kaþólsku og lúter, kirkjan var ekki sjálfstæð heldur tilheyrði hún ríkinu – (amk. eins og mér var kennt þetta í barnaskóla).

Þjóðkirkjan er enn þann dag í dag ríkisstofnun á fjárlögum, svokölluð A hluta stofnun og ekki betur séð en að hún hafi verið þannig frá siðaskiptum. Þá má benda á (aftur) að lengst af var ekki trúfrelsi og því áttu allir íslendingar sinn hlut í kirkjunni og hennar eignum.

Aftur skal ég játa að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og gögn.

En sönnunarbyrðin er hjá kirkjunni. Telji kirkjan sig hafa átt einhverjar eignir til að afhenda þarf hún að sýna skjalfest fram á að hún hafi verið sjálfstæður lögaðili og gefa yfirlit yfir nákvæmlega hvaða eignir þetta voru og hvernig hún eignaðist þær.

Það þarf líka að gera kröfu um að kirkjan hafi ekki eignast neitt með vafasömum viðskiptaháttum, svo sem að lofa einhverju en ekki var staðið við, það myndi jú væntanlega gera viðskiptin ólögmæt.

Ég velti því fyrir mér hvort kjararáð hafi einhverjar upplýsingar um að tekjur ríkissjóðs vegna jarða sem ríkissjóður tók yfir frá kirkjunni hafi aukist verulega á þessu ári (nú eða kostnaður minnkað)??

Talsmenn kirkjunnar, amk. þeirrar sem er rekin af almannafé, hafa löngum haldið því fram – reyndar út í bláinn, svo því sé haldið til haga – að yfirtaka ríkisins á jörðum, sem kirkjan réði yfir, standi undir launum presta.

Þessi fullyrðing er út í bláinn vegna þess að það getur enginn svarað því hvert verðmæti þessara jarða er, hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum eða hvaða kostnað ríkissjóður ber vegna þeirra. Það getur enginn staðfest hvernig kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir og það getur enginn sagt hvenær kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir. Það getur nefnilega enginn svarað því til hvaða jarðir þetta eru.

Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ef þessar jarðir eiga að standa undir launum presta þá hlýtur það að vera forsenda launahækkunar að jarðirnar skili meiri tekjum.

Það hefur oft verið sagt að stysta leið kristinna að trúleysi sé að lesa biblíuna.

Fyrir um það bil tveimur áratugum ákvað kirkjan að hefja sérstakt átak í skólum landsins, prestar voru sendir í skólana á skólatíma og oftar en ekki farið með börnin í messu í kirkju.

Þetta hefur, eðlilega, verið mikið gagnrýnt og ekki fyrir löngu setti Reykjavíkurborg skýrar reglur um aðgang utanaðkomandi aðila í menntastofnanir – nokkuð sem kostað hefur rifrildi og ritdeilur nánast fyrir hver einustu jól.

En nýleg könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt sýnir að ekki eitt einasta barn undir 25 ára aldri trúir á guð kristinna. Þau eru kannski sátt við siði og athafnir – og þau eru sammála mörgu í siðferðisboðskap kristinna – sem að mestu er eldri en kristnin og hefur lítið með hana að gera.

En þetta er einmitt sú kynslóð sem sat undir markaðsátaki kirkjunnar.

Kannski ættum við trúlaus frekar að hvetja kirkjuna til að mæta í skólana, fulltrúar hennar eru að ná miklu betri árangri en við…

Svelgist kirkjunni á matnum?

Posted: september 10, 2014 in Stjórnmál, Trú
Efnisorð:, ,

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega áherslurnar í nýju fjárlagafrumvarpi þegar kemur að útgjöldum til kirkjunnar. Eða réttara sagt, ég á ekki til orð.

Ég get til að mynda ekki með nokkru móti skilið hvers vegna flokkur – sem í orði vill draga saman umsvif ríkissjóðs – eykur í verki framlög af almannafé til reksturs persónulegra mála eins og trúfélaga.

Það er ekki svo að það hafi staðið steinn yfir steini í útreikningum eða málflutningi kirkjunnar þar sem þeir töldu sig þurfa á „leiðréttingu“ að halda. Það hefur marg sinnis verið sýnt fram á að þeir útreikningar standast ekki.

Á sama tíma er skattur á matvæli hækkaður. Þessi hækkun kemur mest niður á barnafjölskyldum og þeim sem minnst hafa aflögu. Þetta er jú sú neysla sem hvað erfiðast er að skera niður.

Skyldi kirkjunni svelgjast á þessu?

Kjánahrollur í boði kirkjunnar

Posted: janúar 11, 2014 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Það var skondinn kjánahrollurinn sem ég fékk áðan þegar ég sá heilsíðuauglýsingu frá ríkiskirkjunni til barna. Þar er reynt að narra börnin í heimsókn í kirkju með einhverri fígúru sem á sennilega að hafa eitthvert aðdráttarafl, þó ekki komi fram í auglýsingunni hvað það er sem ætti að hvetja börnin til að mæta.

Kannski er kirkjunni vorkunn eftir miklar úrsagnir og mikið tekjutap. En þessi örvænting er óneitanlega svolítið skondin. Að fylgjast með trúarstofnun reyna að draga börnin inn á fölskum forsendum minnir starfsaðferðir næturklúbba í vafasömum hverfum í útlandinu.

En kannski, á hinn bóginn, er þetta ekkert sérstaklega fyndið.

Ég þarf að taka þátt í að borga auglýsinguna. Og markmið auglýsingarinnar er að fjölga, eða draga úr fækkun, í hinni ríkisreknu kirkju. Takist það, þarf ég að borga meira.

Líkingamál trúarinnar

Posted: júlí 22, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Þeim sem skilgreina sig „bókstafstrúar“ þegar kemur að trúarbrögðum virðist fara fækkandi. Enda erfitt að skilgreina hvað felst í þessu og auðvitað erfitt að trúa bókstaflega á rit sem er jafn mótsagnakennt og til dæmis biblían.

Mjög fáir trúa því orðið bókstaflega að Jesú hafi verið eingetinn, hann hafi risið upp frá dauðum og heimurinn hafi verið skapaður af geðstirðum föður gyðinga. Og engan hef ég hitt sem gerir ekki málamiðlanir um innihald trúarrita þegar hentar.

Kirkjan hefur auðvitað verið á „skipulögðu undanhaldi“ með innihald biblíunnar gegnum aldirnar. En það gengur auðvitað ekki að leggja stofnunina niður. Aðferðin við að halda andlitinu er að boða að textinn sé líkingamál og eitthvað sem þurfi að túlka. Í stað þess að sætta sig við að grundvöllurinn er bara vangaveltur forfeðra með litla þekkingu fyrir þúsunum ára. Enda væri auðvitað hlægilegt að halda því fram í ljósi almennrar þekkingar í dag að inniihald biblíunnar sé allt satt og rétt um á staf.

Kirkjan og „guðfræðingar“ nútímans hamast sem sagt við að breyta skilningi á textanum og stöðugt meira og meira af innihaldi biblíunnar verður líkingamál sem ekki á að taka bókstaflega.

Það er svo aftur spurning hvenær allt innihald biblíunnar verður afgreitt sem líkingamál, enginn guð, enginn Jesú, engin meyfæðing, engin upprisa, engin sköpun.

Frumleg skilgreining á hártogunum

Posted: júní 9, 2013 in Trú
Efnisorð:, ,

Skoðun birti ágæta samantekt á rangfærslum biskups í ræðu hennar fyrir setningu Alþingis, sbr. http://skodun.is/2013/06/07/thrjar-athugasemdir-vid-predikun-biskups/.

Meðal annars var bent á það að sú fullyrðing biskups þess efnis að kirkjan þjóni öllum standist ekki skoðun. Bæði er það skýrt tekið fram í samþykktum kirkjunnar að hún þjóni ekki fólki sem stendur utan hennar. Það hefur reynt nokkrum sinnum á þetta á síðustu mánuðum og niðurstaðan er alveg kýrskýr. Kirkjan þjónar ekki þeim sem standa utan hennar.

Í grein á trúmál.is er kallað hártogun í nafnlausri grein að benda á að þetta er ekki rétt.

Hvernig má þetta vera hártogun. Biskup setur fram fullyrðingu sem er sannanlega röng.

Þetta er jafn galið og að ef ég héldi því fram að Íslenska landsliðið í fótbolta hefði unnið Slóvena á Laugardalsvelli síðasta föstudag. Þegar mér væri bent á að leikurinn hefði farið 4-2 fyrir Slóvena myndi ég snúa upp á mig og kalla þetta hártogun með þjósti.

Það má líka rifja upp að í umræðum fyrir kosningar um stjórnarskrá var biskupi bent á þetta og kom hún af fjöllum og kannaðist ekki við þetta. En athygli hennar var vakin á þessu þarna og því vísvitandi rangfærsla að halda þessu stöðugt fram. Það er ekki fallegt að skrökva, held að það sé meira að segja nefnt í boðorðum kirkjunnar.

Brandarinn um kirkjujarðirnar

Posted: janúar 17, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Það hefur stöðugt hljómað frá kirkjunni síðustu mánuði – og reyndar ár – að laun starfsmanna kirkjunnar séu „afgjald“ vegna þeirra jarða sem kirkjan hafi afhent ríkinu 1907. Um þetta hafi verið gerður samningur 1997.

Það hefur lengi vafist fyrir okkur sem stöndum utan þjóðkirkju að skilja hvernig arður af jörðum átti að standa straum af kostnaði við laun (og annan rekstur) presta um ókomna framtíð. Því það gat jú enginn vitað hvernig annar hluti þessarar jöfnu myndi standa, þeas. fjöldi og launakjör presta.

Hitt er að við höfum oft spurt hvaða jarðir þetta séu, hversu mikils virði þær séu og hvaða tekjur ríkið hafi af þeim. Það hefur verið lítið um svör. Tveir prestar reiknuðu verðmæti þeirra upp í 17.000 milljarða, eða um þrjátíu falt verðmæti allra fasteigna á landinu. Þeir gátu ekki tilgreint hvaða jarðir þetta eru. Þeir gátu heldur ekki sagt hvaða tekjur ríkið hefur af þeim (augljóslega).

Nú datt Svavari nokkrum Kjarval í hug að spyrja ríkið hvaða jarðir væru í þessum samningi. Svarið kom og var eiginlega stórkostlegt og má finna hér hér.

Þarna kemur í ljós að þegar ríkið gerði samninginn 1997 vissi enginn hvaða jarðir þetta voru. Það bætir svo ekki úr skák að kirkjan virðist hafa haldið öllum jörðum sem voru bitastæðar og sem hægt var að hafa einhverjar tekjur af.

Ég veit eiginlega gekki hvort er fyndnara, hlægilegra eða grátbroslegra.

Talsmenn kirkjunnar sem stöðugt vísa til að ríkið hafi svo miklar tekjur af jörðum sem þeir vita ekki hverjar eru.

Eða samningamenn ríkisins 1997 að gera samning um jarðir upp á fleiri þúsundir milljarða án þess að hafa hugmyndum hvaða jarðir þetta voru.

Við trúleysingjar höfum fengið nokkuð margar lítt geðfelldar „sendingar“ síðustu daga og vikur. Oftast koma þær frá þeim sem hafa fundið sig í kristinni trú og/eða telja sig sjálfa stærri á einhverju „andlegu sviði“. Þetta kemur úr öllum áttum, í fljótu bragði man ég eftir prestum, rithöfundi, sjómanni og jafnvel bókmenntafræðingi.

Þetta er kannski að einhverju leyti í takt við þá aðferðafræði kirkjunnar síðustu ár að það sé í góðu að segja hvað sem er um trúleysingja. Tilgangurinn helgar jú meðalið og hefur forgang fram yfir boðskap og boðorð sem þess á milli er haldið á loft.

Þannig virðist það vera við hæfi – svona þegar hlé er tekið á því að boða kærleiksboðskapinn – að smyrja hverju sem er á okkur trúleysingjana, gera okkur upp hatur og ég veit ekki hvað – jú, og ekki gleyma að líf okkar sé í lausu lofti.

Ég held reyndar að það kæmi betur út fyrir kirkjuna til lengri tíma litið að fylgja eigin kærleiksboðskap og virða áttunda  [eða níunda] boðorðið (númerin breytast eftir útgáfum, en ég er sem sagt að tala um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum). Þetta virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma hafa svona áróðursvélar gjarnan hrunið eins og spilaborg í stormi.

Rekstur kirkjunnar kostar fjóra milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum.

Þá er þjónusta presta verðlögð sérstaklega.

Prestar eru á margföldum byrjunarlaunum miðað við aðrar stéttir – fyrir utan greiðslur fyrir athafnir.

Kirkjan segir afdráttarlaust að henni beri ekki að veiti fólki þjónustu nema allir aðilar séu þar meðlimir. Nema þegar hún er í kosningabaráttu, þá segir hún að henni beri skylda til að þjóna öllum.

Kirkjan neitar öðrum söfnum  (ma. kristnum) um afnot af húsnæði sem ríkið á, en eru í umsjón kirkjunnar.

Prestar geta neitað fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Vill einhver (annar en prestar) hafa ríkiskirkjuna áfram?