Nú stefnir í að greiðslur ríkissjóðs til kirkjunnar hækki all verulega, eiginlega algjörlega út í bláinn, upp úr þurru og án nokkurrar jarðtengingar (enda finnst kirkjunni það eflaust óþarft) – ja, nema við teljum með gegndarlausan áróður frá almennatengslavél kirkjunnar.
Það virðist gjarnan gleymast hvernig þetta kom til. Samkvæmt því sem kirkjan heldur fram afhenti hún ríkinu einhverjar óskilgreindar eignir, fékk eignir afhentar 1997 og enn fleiri 2006 (eða þar um bil). Út af fyrir sig er stór undarlegt að ríkissjóður afhendi nokkrum einstaklingum verðmætar eignir án endurgjalds.
Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að kirkjan hafi aldrei átt neinar eignir til að afhenda. Nú skal ég viðurkenna að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og/eða gögn, en miðað við aðgengilegar upplýsingar þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.
Við siðaskiptin færðust allar eignir kirkjunnar til Danakonungs og við fullveldi/sjálfstæði til íslenska ríkisins. Þessi flutningur eigna virðist staðfestur og það var einn af grundvallarþáttum í mismun á kaþólsku og lúter, kirkjan var ekki sjálfstæð heldur tilheyrði hún ríkinu – (amk. eins og mér var kennt þetta í barnaskóla).
Þjóðkirkjan er enn þann dag í dag ríkisstofnun á fjárlögum, svokölluð A hluta stofnun og ekki betur séð en að hún hafi verið þannig frá siðaskiptum. Þá má benda á (aftur) að lengst af var ekki trúfrelsi og því áttu allir íslendingar sinn hlut í kirkjunni og hennar eignum.
Aftur skal ég játa að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og gögn.
En sönnunarbyrðin er hjá kirkjunni. Telji kirkjan sig hafa átt einhverjar eignir til að afhenda þarf hún að sýna skjalfest fram á að hún hafi verið sjálfstæður lögaðili og gefa yfirlit yfir nákvæmlega hvaða eignir þetta voru og hvernig hún eignaðist þær.
Það þarf líka að gera kröfu um að kirkjan hafi ekki eignast neitt með vafasömum viðskiptaháttum, svo sem að lofa einhverju en ekki var staðið við, það myndi jú væntanlega gera viðskiptin ólögmæt.