Sarpur fyrir maí, 2014

Punk (pönk) og ekki pönk

Posted: maí 25, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Á fyrstu árum okkar Fræbbbla vorum við ansi mikið skammaðir, þóttum ekki par fínir og ég man eftir nokkuð mörgum tilefnislausum skotum frá fólki sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt.

Þarna er ég ekki að tala um fólk sem hafði engan áhuga á tónlist yfirleitt – og heldur ekki um fólk sem hafði engan áhuga á þeirri gerjun og/eða nálgun sem var í kringum 1980.

Ég er að tala um þá sem fylgdust með, mættu á hljómleika, keyptu plötur og fannst sú breyting frábær sem þarna varð á íslensku tónlistarlífi.

Við vorum einfaldlega ekki nógu „fínir“.

Fyrir það fyrsta þótti ég afskaplega vondur söngvari. Eflaust var eitthvað til í því enda hef mér aldrei dottið í hug að ég væri sérstaklega góður söngvari.. ég var að ekki að þessu vegna þess að ég héldi að ég væri næsti Björgvin Halldórsson eða Kristján Jóhannssonn – eða yfirleitt hefði eitthvað fram að færa sem hefðbundinn söngvari. Eflaust var þetta oft verra en það hefði þurft að vera, einfaldlega vegna þess að við vorum með litlar og lélegar græjur og heyrðum kannski lítið sem ekkert hvað við vorum að gera. Ég vildi hins vegar meina – og vil enn – að enginn annar hefði virkað sem söngvari Fræbbblanna, þeir hefður einfaldlega aldrei orðið neitt líkt því sem þeir voru annars.. og læt svo öðrum að meta hvort það er kostur eða ókostur. Nægilega margir gengu með það í maganum að taka við af mér en Stebbi, Steinþór og Tryggvi og Arnór blésu á allt svoleiðis.

En aðallega þóttum við ekki nógu sannir punkarar („gervipönk“ var frasi sem ég heyrði oft), ekki nógu pólitískir, ekki koma nægilega mikið úr verkalýðsstétt, ekki fylgja fatatískunni nógu vel og lífsstíllinn var ekki eins og gerð vara krafa um.

Mögulegt var að ákveðin lista-elíta (ef ég má nota svo vondan frasa) hafi engan veginn skilið hvað var í gangi, við áttum að vera ný hippakynslóð, hafa okkur eins og hipparnir, fara sem sömu frasana og hipparnir – og hvað sem tautaði og raulaði máttum við alls ekki stuða eða trufla þá sem voru heilagir í listasamfélaginu.

Ég man til að mynda eftir (ekkert sérstaklega diplómatískum) ummælum í Helgarpóstinum rétt fyrir komu The Clash á Listahátíð. Ég sagði eitthvað á þeim nótum að þeir væru sniðugir að græða á Marxistum. Hefði væntanlega betur haldið kjafti, en þetta var þá.. Það var búið að segja okkur að við myndum, ásamt Utangarðsmönnum, spila með Clash. Það var snögglega dregið til baka og látið vita að menn sem létu svona út úr sér ættu ekki heima þarna.

Einhverra hluta vegna voru sömu mælikvarðar ekki settir á aðrar hljómsveitir þessa tíma – sem betur fer – og enginn gerði rellu yfir fatnaði, uppruna, sönghæfileikum eða stjórnmálaskoðunum annarra en okkar. Gott mál.

En það var sérstaklega gaman að hitta Glen Matlock, stofnanda, lagahöfund, upphafsmann og bassaleikara The Sex Pistols í góðu tómi.

 

Ég hef aldrei verið fastur í flokkslínum og allt of oft hef ég einfaldlega ekki komist til að kjósa vegna vinnu við kosningaútsendingu – enda kannski ekki verið nægilega sannfærður um hver ætti að fá atkvæðið mitt hverju sinni.

Ég játa líka að ég hef oft verið hallur undir ný framboð, hef verið hlynntur fjölbreytni – hef talið kostina fleiri en ókostina.

Í sveitarstjórnarkosningunum núna í vor ætla ég að kjósa Samfylkinguna í Reykjavík. Þar ræður úrslitum, þrátt fyrir nokkra álitlega valkosti, að ég vil umfram allt fá Skúla Helgason í borgarstjórn.

Ekki það að ég sé alltaf sammála honum í einu og öllu. Ég er ekki sammála neinum í einu og öllu. Varla sjálfum mér.

En Skúli er heiðarlegur, rökfastur og málefnalegur. Þá skiptir máli að hann hefur bæði gríðarlegan áhuga á þeim málum sem ég held að skipti hvað mestu – látum nægja að nefna menntamál – er vinnusamur og kemur hlutum í verk.

Það er rétt að taka fram að ég þekki Skúla persónulega, en það hefur ekki önnur áhrif en að styrkja mig í þeirri skoðun að hann eigi erindi í borgarstjórn. Ég myndi aldrei (vona ég) styðja einhvern í starf sem ég treysti ekki til að sinna vel.

En hver borgar?

Posted: maí 18, 2014 in Stjórnmál, Umræða

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa bókstaflega verið alveg gáttaðir á að fá ekki almennan stuðning við svokallað skuldaleiðréttingarfrumvarp.

Það ætti svo sem að vera augljóst eftir að búið er að benda á marga galla, jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið fram með vel rökstudda og málefnalega gagnrýni.

Hitt er að það er gjarnan talað eins og það að fólk fái skattaafslátt til að auka séreignarsparnað til að greiða niður lán, sem aftur þá auðvitað ekki sparnaður, heldur niðurgreiðsla á skuld. Það getur komið sér jafn vel fyrir viðkomandi, en köllum hlutina réttum nöfnum, þetta er ekki „sparnaður“ þetta er lækkun skulda.

En það sem mér finnst einkenna umræðuna er að þessi skattaafsláttur vaxi á trjánum, sé gripinn úr lausu lofti – þarna verði peningar til úr engu og allir geti verið glaðir og sáttir.

Það er nefnilega þannig að þegar gefinn er skattaafsláttur, þá verður ríkið af tekjum. Þessum tekjumissi þarf að mæta, annað hvort með niðurskurði í þjónustu eða með auknum sköttum annars staðar. Það er sem sagt alltaf einhver sem greiðir fyrir.. ýmist með því að fá skerta þjónustu eða með hærri sköttum annars staðar.

Þannig að ég spyr.. hver borgar?

Glen Matlock stofnaði The Sex Pistols með John Lydon, Steve Jones og Paul Cook – já, og Malcolm McLaren átti einhvern hlut í því líka. Þetta átti sér auðvitað einhvern aðdraganda og ýmsir komu til sögunnar áður en hljómsveitin var stofnuð, en svona var hún í upphafi.

Hljómsveitin var skipuð þannig þegar flest lögin á einu alvöru plötu hennar, „Never Mind The Bollocks, Here’s The Sex Pistols“ voru samin.. hann spilaði bassann á mörgum (ef ekki öllum) lögunum á plötunni. Hann hætti (eða var rekinn) og Sid Vicious var „ráðinn“ í staðinn. Sid var nokkra mánuði í hljómsveitinni en hún hætti fljótlega. Hljómsveitin var endurvakin 1996 og þar var Matlock á bassa (enda Sid látinn) og Matlock hefur spilað á bassa á öllum hljómleikum hljómsveitarinnar síðan, td. á hljómleikaferðunum 1996, 2002 og 2007 / 2008.

Sid Vicious var fyrir mörgum nokkurs konar ímynd „punksins“ og átti eflaust sinn þátt í því, margir nefna pogo-ið sem eitthvað sem hann tók fyrstur upp, hann þótti „töff“ bæði í útliti, klæðaburði og tilsvörum.

Ekki misskilja, ég er ekki að gera lítið úr því. Hann var einnig í öðrum hljómsveitum, ma. með Glen Matlock eftir að The Sex Pistols hættu, en þá sem söngvari.

En það virðist útbreiddur misskilningur að Sid hafi verið aðal bassaleikari Sex Pistols. Hann var varla spilandi þegar hann byrjaði, skánaði eitthvað fyrstu vikurnar en datt svo alveg út og síðustu hljómleikunum var hann einfaldlega ekki í sambandi – bókstaflega. Hann átti vissulega sinn þátt í ímynd „punksins“, en hann átti varla nokkurn þátt í Sex Pistols, samdi ekki lög, spilaði ekki á bassa (nema á örfáum hljómleikum) og kom inn eftir að hljómsveitin hafði náð athygli og skapað sér nafn.

Þetta skiptir kannski ekki máli. En mér finnst alltaf undarlegt þegar fólk lítur á Sid sem einn af aðalmeðlimum Sex Pistols og Glen sem einhvern bassaleikara í aukahlutverki.

Ég var svona að hugsa þetta í ljósi þess að Glen Matlock kemur á Punk 2014 og spilar á Spot í Kópavoginum 8. maí.