Posts Tagged ‘Spot’

Glen Matlock stofnaði The Sex Pistols með John Lydon, Steve Jones og Paul Cook – já, og Malcolm McLaren átti einhvern hlut í því líka. Þetta átti sér auðvitað einhvern aðdraganda og ýmsir komu til sögunnar áður en hljómsveitin var stofnuð, en svona var hún í upphafi.

Hljómsveitin var skipuð þannig þegar flest lögin á einu alvöru plötu hennar, „Never Mind The Bollocks, Here’s The Sex Pistols“ voru samin.. hann spilaði bassann á mörgum (ef ekki öllum) lögunum á plötunni. Hann hætti (eða var rekinn) og Sid Vicious var „ráðinn“ í staðinn. Sid var nokkra mánuði í hljómsveitinni en hún hætti fljótlega. Hljómsveitin var endurvakin 1996 og þar var Matlock á bassa (enda Sid látinn) og Matlock hefur spilað á bassa á öllum hljómleikum hljómsveitarinnar síðan, td. á hljómleikaferðunum 1996, 2002 og 2007 / 2008.

Sid Vicious var fyrir mörgum nokkurs konar ímynd „punksins“ og átti eflaust sinn þátt í því, margir nefna pogo-ið sem eitthvað sem hann tók fyrstur upp, hann þótti „töff“ bæði í útliti, klæðaburði og tilsvörum.

Ekki misskilja, ég er ekki að gera lítið úr því. Hann var einnig í öðrum hljómsveitum, ma. með Glen Matlock eftir að The Sex Pistols hættu, en þá sem söngvari.

En það virðist útbreiddur misskilningur að Sid hafi verið aðal bassaleikari Sex Pistols. Hann var varla spilandi þegar hann byrjaði, skánaði eitthvað fyrstu vikurnar en datt svo alveg út og síðustu hljómleikunum var hann einfaldlega ekki í sambandi – bókstaflega. Hann átti vissulega sinn þátt í ímynd „punksins“, en hann átti varla nokkurn þátt í Sex Pistols, samdi ekki lög, spilaði ekki á bassa (nema á örfáum hljómleikum) og kom inn eftir að hljómsveitin hafði náð athygli og skapað sér nafn.

Þetta skiptir kannski ekki máli. En mér finnst alltaf undarlegt þegar fólk lítur á Sid sem einn af aðalmeðlimum Sex Pistols og Glen sem einhvern bassaleikara í aukahlutverki.

Ég var svona að hugsa þetta í ljósi þess að Glen Matlock kemur á Punk 2014 og spilar á Spot í Kópavoginum 8. maí.

Við vorum að fá það endanlega staðfesta að bassaleikari (upphaflegur, núverandi og sá sem spilaði á Never Mind The Bollocks) kemur á Punk 2014 hátíðina í vor. Glen samdi í raun megnið af lögunum á einu (alvöru) plötu Sex Pistols.

Þetta verður hluti af menningardögum Kópavogs á Spot fimmtudagskvöldið 8. maí og auk Glen spila Fræbbblarnir og Q4U.

Ég er amk. farinn að hlakka til.