Posts Tagged ‘Fræbbblarnir’

Allt er fertugum fært og sextugum sennilega líka… eins og segir einhvers staðar… amk. hér.

Ég er sem sagt að horfa á að verða sextugur bráðum, nánar tiltekið föstudaginn 8. febrúar.

Eftir talsverðar vangaveltur um hvort og þá hvað ég ætti að gera í tilefni dagsins, halda stóra afmælisveislu, halda veislu eingöngu fyrir fjölskylduna, eða fjölskyldu og nánustu vina, vera að heima, fara í siglingu, bíða fram á sumar og halda garðveislu, fara í helgarferð – taka hugmynd Jóns Stefánssonar og bjóða í veislu en vera sjálfur að heiman?

En mig langar einfaldlega ekkert sérstaklega til að halda hefðbundna afmælisveislu. En eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að halda hljómleika. Og er það þá ekki svarið? [Jú].

Þannig að eftir smá yfirlegu er ráðið að halda hljómleika á afmælisdaginn, ekki beint hátíðarhljómleikar og alls ekki afmælisveisla, það kostar inn (reyndar lítið og frítt til 22:30), engar veitingar, engar ræður, engar gjafir og ef einhver reynir afmælissöng þá…

Við verðum á Hard Rock, föstudaginn 8. febrúar, byrjum 22:30, Fræbbblarnir spila að sjálfsögðu og svo ákvað ég að fá gesti úr óvæntum áttum, sonurinn Guðjón Heiðar (Projekt), Björn Thoroddsen, Halli Reynis og Unnur Malín koma öll og taka nokkur lög – vonandi amk. eitt Fræbbblag hvert.

Og svo því sé haldið til haga, ég ætlast verð ekkert móðgaður eða sár ef einhver hefur ekki tök á eða áhuga á að mæta, þetta er bara hugsað fyrir þá sem hafa gaman af… við fáum næg önnur tækifæri til að hittast og skála fyrir tímamótunum.

Og svo því sé líka haldið til haga, þá eru allir velkomnir.

Fræbbblar í fjörutíu ár

Posted: nóvember 23, 2018 in Tónlist
Efnisorð:

Úff!

Það er víst liðin fjörutíu ár frá því að við Fræbbblar spiluðum í fyrsta skipti, á Myrkramessu Menntaskólans í Kópavogi, 25. nóvember 1978.

Við Stebbi höfðum fylgst með spennandi hreyfingu á tónlist, aðallega á Bretlandi, en eitthvað í Bandaríkjum Norður Ameríku og jafnvel víðar. Vinirnir gáfu nú ekki mikið fyrir þetta og voru mest að hlusta á Genesis, Yes, ELP, Pink Floyd og hvað þær hétu allar…

En svo kom tilefni til að láta heyra í okkur, við vorum ósáttir við skólameistara MK, Ingólf Þorkelsson, fannst hann látið einn félaganna sitja eftir að óþörfu. Þá var um að gera að fá að spila á Myrkramessu skólans og láta meistara heyra hvað okkur fannst.

Við Stebbi vorum sjálfkjörnir, Barði – sem var ósáttur við skólameistara – þurfti nauðsynlega að vera með. Haddi vinur okkar Barða var nauðsynlegur svona tónlistarinnar vegna. Og einhvern veginn kynntumst við Steina, að sama skapi nauðsynlegur á bassa. Stebbi var fljótur að læra á trommur og við Barði skiptum söngnum á milli okkar. Með Steina kynntumst við Assa og Rikka sem aðstoðuðu okkur við græjur og æfingar, Ísberg bræðurnir Árni og Jóhann lánuðu okkur græjur.

Það var nú ekki hlaupið að því að fá að spila. Nefndin sem sá um að halda hátíðina var engan veginn sannfærð um að við ættum erindi á svona hátíð, kannski réttilega, en við áttum einhverja hauka í horni í nefndinni, ma. Kristján Gíslason, sem á rúman hálftíma sem trommari í Klúbbnum.

Það hafðist nú samt að fá að spila og ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að „betri borgurum“ bæjarins hafi brugði nokkuð við djöfulganginn. Skólameistari var nú ekki beinlínis sáttur en við Bjarni, ljósamaðurinn okkar, var ljósamaður á hátíðinni og slökkti ljósin þegar skólameistari hélt sína ræðu!

Ég var svo sem kallaður á fund skólameistara eftir þetta og hann var engan veginn sáttur, en eftirmálar innan skólans urðu svo sem ekki meiri.

Við hittumst auðvitað seinna og vorum sáttir, er nokkuð viss um að hann var eiginlega nokkuð stoltur af því að upphaf punksins á Íslandi hafi verið í MK.

Þetta átti svo sem bara að vera eins dags fyrirbæri, gott ef við spiluðum samt ekki á Myrkramessuballinu um kvöldið.

En þarna voru líka ungir menn að leita að efni í sjónvarpsþætti um félagslíf í menntaskólum landsins, þeir Eiríkur og Jakob. Þeim fannst þetta smellpassa í þættina. Þá var ekki annað í boði en að halda okkur gangandi með spilamennsku þar til kæmi að upptökum. Atriðið var tekið upp í sjónvarpssal í byrjun febrúar (muni ég rétt) 1979, en aldrei sýnt, ég held að ekkert hafi orðið úr gerð þáttanna yfirleitt. Og á endanum var tekið yfir þetta, enda spólur rándýrt hráefni á þessum árum.

Því miður.

Eiríkur og Jakob bera þannig talsverða ábyrgð á að hljómsveitin hélt áfram.

Helgi Briem á einnig nokkra sök á þessu…

Á meðan við vorum að halda okkur gangandi sá hann okkur spila, skrifaði lesandabréf í DV og hrósaði okkur í hástert.

Við áttum sem sagt aðdáanda. Það var næsta afsökun fyrir að halda áfram.

En það var einhver neisti kveiktur og þetta var einfaldlega of gaman til að hætta.

Eflaust hefðu leiðir okkar legið í hljómsveitir hvort sem er, svona á endanum, en sú saga orðið allt öðru vísi.

Ég, Assi og Rikki erum enn meðlimir, Steini er enn með, en svona meira sem vara bassaleikari. Gummi er kominn á trommur, Helgi á bassa og Iðunn hefur sungið með okkur.

Ekki má samt gleyma Tryggva og Steinþóri, sem ásamt okkur Stebba mynduðu kjarnann sem þegar við unnum stóru plöturnar fyrstu árin. Dagný, Óskar, Kiddi, Hjörtur, Ellert, Brynja og Kristín komu öll þó nokkuð við sögu, Ari æfði með okkur og samdi lög en spilaði aldrei, Sigurgrímur æfði en spilaði ekki, Siggi og Snorri komu inn í hljómsveitina á lokametrunum fyrir hlé 1983. Jú og Mikki Pollock spilaði stundum með okkur og samdi lög fyrir okkur. Bjarni var meðlimur 1980 sem ljósamaður og Gunnþór sem rótari.

En, já, úff. Fjörutíu ár.

Við ætlum að halda upp á þetta á Gauknum, laugardagskvöldið 24. nóvember, opið hús, frítt inn, nýr bjór, Bjór! kynntur til sögunnar, einhver dagskrá, en aðallega gamaldags „partý“.

Eitt mesta stemmingslag frá upphafsárum punk-tímabilsins var lagið If The Kids Are United með Sham 69.

Ég man eftir að fara í fyrsta skipti til London haustið 1978 með Hálfdáni, Hákoni og Stebba. Fyrsta lagið sem við heyrðum þegar við kveiktum á útvarpinu á hótelinu okkar, YMCA við enda Oxford Street, var Sunday Morning Nightmare – Stebbi orðaði það eitthvað á þá leið að nú væri heldur betur búið að „hringja til messu“. Frábært lag, en þetta var bara B-hliðin á lítilli plötu – á hinni hliðinni var aðallagið, If The Kids Are United.

Við hlustuðum talsvert á Sham 69, reyndar aðallega litlar plötur, og við Fræbbblar spiluðum lagið Hurry Up Harry á fyrstu mánuðum ferilsins.

Þegar við tókum svo upp á því fyrir nokkrum árum að minnast upphafsára punksins – meðlimir Fræbbblanna og margra annarra hljómsveita sem voru að spila á þessum árum – þá var If The Kids Are United lokalagið (Fivebellies tóku líka Borstal Breakout).

Sham 69 spila á Gauknum næsta föstudagskvöld, 17. nóvember… við Fræbbblar verðum með, líka Leiksvið Fáránleikans og Roð…

Frábært!

Sham69B

Fræbbblar, næsta plata

Posted: mars 12, 2016 in Tónlist
Efnisorð:

Við Fræbbblar gáfum út plötuna „Í hnotskurn“ í fyrra. Platan fékk afbragðs umsagnir, einhverja spilun í stuttan tíma á Rás2, aðrar útvarpsstöðvar voru ekki heima, streymið alveg þokkalegt en plötusala hverfandi. Okkur grunaði það svo sem fyrirfram og ekki höfðum við gert ráð fyrir að geta hætt í vinnunni.

Við spiluðum nokkrum sinnum til að kynna plötuna, á Akureyri, tvisvar í Hafnarfirði, á Bifröst og að lokum í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að það hafi tekist nokkuð vel til, kannski skemmtilegast að sjá ánægða óvænta gesti.. ungt fólk, innlent sem erlent, sem datt inn fyrir tilviljun.

Þannig að við erum að loka þessum kafla á ferlinum. Einhver laganna af plötunni lifa eflaust áfram en önnur detta „í salt“. Sama gildir um megnið af lögunum sem við höfðum æft upp fyrir „punk“ kvöldin, þeas. annarra manna efni frá árdögum „punksins“, við leggjum þau til hliðar.

Og næsta verkefni er löngu tímabært.. Sem er að fara að semja nýtt efni, efni á næstu plötu. Á meðan gamla efnið var óafgreitt þá var einhverra hluta vegna vonlaust að vera að bæta við safnið, ég kom mér amk. ekki að verki.

En það er fullt af hugmyndum og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna úr þeim.

Þetta þýðir auðvitað minni spilamennsku næstu mánuði – en það gerir svo sem ekki mikið til, það er ekki eins og við höfum verið að spila mjög reglulega. Við getum auðvitað mætt ef sérstakt tilefni er til og við myndum eins og alltaf taka jákvætt í að vera með í að styrkja góð málefni. En við látum stærri hljómleika og eigin hljómleika liggja á milli hluta.

Þá tekur Arnór, gítarleikari, sér frí seinni hluta ársins.. flytur til Noregs í allt of marga mánuði.

Steini, sem hefur verið svona annar bassaleikari, ætlar líka að segja þetta gott í bili.. líklega kemur Ellert, sem var með okkur til 2000, til með að taka það hlutverk.

 

Plötuútgáfa

Posted: janúar 4, 2016 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:, , ,

Upptaka og útgáfa nýrrar Fræbbblaplötu tók góðan hluta af seinni hluta ársins 2015 hjá okkur. Eftir að hafa verið að basla við upptökur í nokkur ár og látið eitt og eitt lag „leka“ í útgáfu þá ákváðum við að fara í gott stúdíó með topp hljóðmanni og gera loka tilraun til að taka upp. Fyrir valinu varð Sýrland og Sveinn Kjartansson, topp aðstaða, topp maður og átti lausan tíma sem okkur hentaði.

Við vildum hafa plötuna „lifandi“ að mestu leyti, ekki dauðhreinsaða, en láta samt ekki slæm mistök fylgja, mistök sem hreinlega skemma fyrir lögum. Grunnar og gítarar runnu inn á nokkrum klukkutímum. Ríkharður, gítarleikari, tók svo að sér að for-hljóðblanda, spila inn nokkra aukagítara og taka upp söng í eigin stúdíói. Hann notaði óhemju tíma í að fá réttan hljóm í hvert lag og að lokum fórum við aftur til Sveins í Sýrland til að ganga frá.

Það gekk hratt og vel, mikilvægt að fá fersk eyru, góðar ábendingar og fullkomnari tækni. Við Rikki sátum yfir þessum frágangi með Sveini og tókst að klára í 2-3 atrennum.

Eftir miklar vangaveltur og hátt á annað hundrað tillögur varð nafnið „Í hnotskurn“ fyrir valinu.

Okkur grunaði að ekki væri nægileg eftirspurn eftir vinyl en ákváðum að framleiða nokkur eintök af geisladiskum. Við áttum ekki von á sérstaklega mikilli eftirspurn og fórum þá leið að hanna umslag sjálf, Iðunn teiknaði mynd og ég hannaði að öðru leyti. Leturprent prentaði vasa fyrir diskana og Sýrland sá um að skrifa diska.

Það var svo ánægjulegt að platan fékk strax stórfínar móttökur, nánast allar umsagnir um plötuna voru frá því að vera mjög jákvæðar upp í hæstu hæðir, „ein af plötum ársins“, „plata ársins“, „framúrskarandi“, „skemmtilegasta plata Fræbbblanna“, „besta plata Fræbbblanna frá ‘Viltu nammi væna?'“ svo ég nefni nú eitthvað.

Rás 2 var svo aftur eina útvarpsstöðin sem gaf plötunni tækifæri, enda hafa Óli Palli og félagar alltaf stutt vel við íslenska tónlist. „Í hnotskurn“ var plata vikunnar og var kynnt vel og vandlega þá viku, eitt lag datt inn á vinsældalista í 2 vikur og Óli Palli bauð okkur að spila í beinni á föstudegi. En þar við sat og hún datt strax úr spilun.

Við buðum dagblöðunum (og hálf-dagblöðum) eintök, enginn þáði og enginn fjallaði um plötuna (mér vitanlega). En Halldór Ingi og Arnar Eggert voru báðir mjög jákvæðir á vefsíðum sínum eins og Grapevine – og gott ef greinar Halldórs Inga birtast ekki líka í tímaritum sem fylgja flugi.

Kannski þurftum við að vera duglegri að koma okkur á framfæri, en gerð plötunnar hafði tekið toll í vinnu og sem áhugamál var á mörkunum að það væri réttlætanlegt að leggja meiri vinnu (og þess vegna kostnað) í kynningu sem óvíst var að myndi skila nokkru. Það litla sem við reyndum nú samt til að koma okkur á framfæri var pent afþakkað og ekki beinlínis hvatning til að reyna meira.

Halldór Ingi valdi hana bestu plötu ársins, hjá Dr. Gunna var hún í fimmta sæti og hún sást á nokkrum öðrum samantektum þó ekki eins hátt skrifuð – og auðvitað gæti ég hafa misst af einhverju.

Nú fórum við af stað vitandi það að þetta myndi aldrei standa undir sér fjárhagslega, vorum sátt við að borga með okkur og vildum einfaldlega gera góða plötu. Fólk eyðir væntanlega öðru eins í áhugamál eins og að gera eina svona plötu á nokkurra ára fresti. Ætli beinn útlagður kostnaður hafi ekki verið um 600.000, kannski er rangt að reikna okkur laun fyrir vinnuna, en á lágmarkstaxta hefðu þau laun varla verið undir 400.000 – og eitthvað meira ef við hefðum verið á okkar launum.

Við þurftum að gefa nokkuð af eintökum en ætli plötusala skili ekki í kringum 100.000 á endanum, sennilega eitthvað minna. Tónlistarveitur hafa skilað 66 krónum!

Auðvitað hefði verið gaman að fleiri gæfu henni tækifæri. Ég er enn sannfærður um að mikill fjöldi fólks hefði haft mjög gaman af þessu efni, ef það hefði einfaldlega vitað af plötunni og gefið henni tækifæri. Einhver sagði við mig að þetta væri sú plata ársins sem fæstir vissu af sem myndu hafa gaman af (eða eitthvað í þá áttina). Mögulega er „punk“ stimpillinn að fæla einhverja frá, mögulega hefur fólk enga trú á að við getum enn gert góða plötu en líklega eru hreinlega of fáir sem vita af henni.

Þannig hefði verið gaman að fá þau skilaboð í verki að einhverjir vildu fá aðra plötu frá okkur. En við skiluðum verki sem erum stolt af, verki við höfðum gaman af að vinna. Og við vissum fullvel að við myndum seint fá upp í kostnað.

Á hinn bóginn hef ég verulegar áhyggjur af framtíð tónlistar og þykist sjá þróun sem er varhugaverð, þó hún birtist okkur í mýflugumynd. Jú, ég veit að allir eiga að vera voðalega þakklátir fyrir að vera voðalega vinsælir þegar tónlistinni þeirra er dreift og stolið án þess að þeir fái túkall fyrir viðvikið. En þetta er grundvallar misskilningur, það eru bara örfáir sem ná í gegn á þeim forsendum, fjölbreytnin fer smátt og smátt hverfandi og flestir virðast elta sömu kerruna. Við getum leyft okkur að gefa út og tapa á því, en mér finnst sorglegt að hugsa til þess að ungt og efnilegt tónlistarfólk geti ekki lifað af því að semja og gefa út tónlist.

Túkall fyrir tónlist

Posted: desember 5, 2015 in Tónlist
Efnisorð:

Við Fræbbblar gáfum út plötu í sumar, Í hnotskurn, og ákváðum að hafa nokkur eintök í boði í formi geisladisks en láta að öðru leyti reyna á sölu á rafrænum síðum. Við vildum ekki gefa eða hafa ókeypis streymi, þó það hafi óvart farið í loftið þannig fyrstu helgina.

Ekki svo að skilja að við höfum gert okkur nokkrar vonir um að fá upp í svo mikið sem brot af kostnaði, en ég var óneitanlega forvitinn að sjá hvernig þetta færi.

Nú vorum við að fá fyrsta uppgjörið frá einni „veitunni“. Ég geri mér grein fyrir að þetta eru greiðslur fyrir hlustun en ekki kaup. En gerum ráð fyrir einhvers konar jafnri dreifingu á því hversu oft kaupendur hlusta að jafnaði á keyptar plötur. Auðvitað er þetta alltaf umdeildanlegt, enda rosalega mismunandi, bæði eftir einstaklingum og eftir hvort viðkomandi líkar platan. En ég held að þetta sé ekki fjarri lagi.

Niðurstaðan er að við fáum 18 krónur fyrir hverja selda plötu, eða tæplega túkall á lag.

Ég hef eytt nokkrum tíma í að ræða við fólk um sölu, þjófnað, óleyfilega dreifingu á tónlist.. þeir sem aldrei hafa staðið í að gefa út tónlist hafa mjög ákveðnar skoðanir á því hvað nýtt umhverfi sé nú frábært fyrir tónlistarmenn á þessum síðustu og bestu tímum.

Best að fara að bóka tíma í stúdíói fyrir næstu plötu. Eða ekki.

Útvarp Saga og lögin mín…

Posted: september 23, 2015 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég er nokkuð viss um að Útvarp Saga hefur aldrei spilað eitt einasta lag sem ég hef samið, eða yfirleitt flutt. Reyndar ekki alveg viss, því ég hef ekki hlustað í þó nokkurn tíma. Og mér þykir afskaplega langsótt að þeim detti í hug að spila nokkuð sem ég hef sent frá mér.

Fyrir utan það að ég er engan veginn viss um að ég hafi beinlínis lagalegan rétt til að banna ákveðnum stöðvum að spila efni sem ég hef gefið út, þó ég geti vissulega sent vinsamleg tilmæli og höfundarréttarlögin vísi í að höfundar megi takmarka í hvernig samhengi lög (og annað) eru notuð.

Aðalatriðið er… að ef Útvarp Saga hefur áhuga á að spila eitthvað sem ég hef gefið út, þá vil ég endilega að þau einmitt spili sem mest. Og ég mæli sérstaklega með lögum eins og Litir, Ó Fræbbblar vors lands, Þúsund ár, Í hnotskurn, Hengdum í eigin heimsku, SkeytiJudge A Pope Just By The Cover, Brains, Dauði, Og upp rísa iðjagrænir Fræbbblar, 20. september 1997, For God – jafnvel Ótrúleg jól þegar þar að kemur.

Við Fræbbblar gefum út nýja plötu í dag, Í hnotskurn. Fyrsta platan sem við gefum út síðan 2004. Einhver stök lög hafa reyndar dottið í sölu á vefsíðum og eitt á safnplötu Dr. Gunna.. Snarl IV.

Við áttum eitt lag, „Bugging Leo“ frá upptökum 2011 sem Friðrik Helgason tók upp að grunni, Arnór Sigurðsson tók upp söng og hljóðblandaði með Jens Hanssyni. Lagið kom út á Snarl plötu Dr. Gunna í fyrra.

Í raunninni var þetta þriðja tilraun til að taka plötuna upp. Við fórum í Stúdíó Friðriks og Jóhanns 2011 og tókum upp slatta af grunnum, um 15 lög. Vorum ekki alveg sátt, eflaust spilaði eitthvað inn í að Helgi tók upp á að fótbrjóta sig rétt fyrir upptökur. Við reyndum aftur um ári seinna, en aftur vorum við ekki sátt. Nokkur lög fóru þó í vefsölu, ýmist kláruð þarna eða í Stúdíó Baron hjá Rikka.

Svo er þetta búið að hanga yfir okkur í þrjú ár, komum ekki í verk að semja neitt nýtt, fannst við þurfa að klára þetta áður en við færum að bæta við. Við ákváðum svo í vor að gera eina tilraun enn, fækka lögunum og vera kannski betru æfð. Við létum „Bugging Leo“ vera og notuðum óbreytt. Friðrik var hættur með stúdíóið og við ákváðum að fara topp stúdíó..Sýrland varð fyrri valinu og Sveinn Kjartansson sá um upptökur.

Við tókum flesta grunnana á nokkrum tímum, bættum 3 grunnum við daginn eftir og spiluðum nokkra gítara. Sveinn Kjartansson sá um þessar upptökur í Sýrlandi. Ríkharður (gítarleikari) tók svo lögin til frekari skoðunar, upptöku á söng og einstaka gítar sem hafði misfarist. Ríkhaður sat svo dögum saman og gerði grunn hljóðblöndun áður en við mættum aftur til Svenna í Stúdíó Sýrland að ganga frá hljóðblöndun og endanlegu hljóði („masteringu“). Sýrland framleiddi svo nokkra geisladiska fyrir okkur, Palli sá um það verkefni.

Platan kemur í búðir seinni part dags, amk. í plötubúðunum Lucky RecordsSmekkleysu og 12 tónum og á vefsíðunum tonlist.is og Synthadelia. Vonandi bætast fleiri við fljótlega.

Til þess að gera fáir geisladiskar voru framleiddir og verða til sölu í bestu plötubúðunum.

En tólf lög, öll frumsamin.

Forsíða

Tónlist, hvernig skal gefa út???

Posted: júlí 17, 2015 in Tónlist
Efnisorð:

Nú þegar við Fræbbblar vorum að hefja upptökur, reyndar í þriðja skipti, á nýrri plötu þá er óneitanlega snúið að ákveða hvernig best er að gefa þetta út.. þeas. þannig að allir sem vilja vita, viti af, geti nálgast efnið og jafnvel stutt okkur þannig að við látum kannski verða af því að gefa út meira í framtíðinni.

Sennilega er einfaldast að setja þetta í vefsölu. Eða einfaldlega láta efnið liggja á einhverjum vefþjóni sem allir geta nálgast. Ekkert nafn á plötunni, ekkert umslag, engar upplýsingar og engir textar. Það er ekkert rosalega spennandi, en kannski er það raunveruleikinn.

Það mætti reyndar pakka lögunum saman í plötu með helstu upplýsingum þó hún verði í sölu á vefsíðu.

Og það mætti örugglega koma þessu vel á framfæri í samvinnu við net-tónlistar-útgáfur.

Svo má búa til eitthvað af geisladiskum og setja í sölu. Þá myndi platan örugglega heita eitthvað og helstu upplýsingar yrðu aðgengilegar. En, okkur skilst að geisladiskasala fari minnkandi, geisladiskaspilarar séu jafnvel ekki til lengur á heimilum. Þá borgar sig ekki að framleiða diska nema fyrir ákveðið lágmark.

Minnislykill er tilbrigði við þetta, sennilega ekkert eða lítið lágmark.

Svo eru nokkrir félagar búnir að óska eftir að fá gripinn á vinyl. Þetta skilst okkur aftur að sé enn stærri pakki, þeas. dýrara og meiri vinna – og eftirspurnin jafnvel enn minni, en kannski þeir sem mestan áhuga hafa.

En, allar hugmyndir vel þegnar.. við ákveðum ekki endanlega fyrr en efnið er tilbúið.

Sex á tíu

Posted: júlí 15, 2015 in Tónlist
Efnisorð:, , ,

Við Fræbbblar spiluðum í Hörpunni, 28. febrúar 2013, til stuðnings Ingólfi Júlíussyni.

Viktor Orri tók okkur upp á videó og við fengum hljóðið frá starfsmönnum Hörpunnar.

Annar gítarleikari okkar Fræbbbla, Ríkharður H. Friðriksson, hefur nú hljóðblandað þetta og við settum hljóðið við myndirnar sem Viktor tók.

Árangurinn má sjá á Fræbbblarnir í Hörpu – Sex á tíu.

Þetta eru hráar upptökur, engu er bætt við, ekkert er tekið út og engin hlé eru falin.

Sex lög á rétt rúmlega tíu mínútum.

Við erum að minnsta kosti nokkuð sátt. Auðvitað eru einhverjir minni háttar hnökrar í spilamennsku og söng. Og hljóðið var auðvitað ekki tekið upp með útgáfu í huga.

Lögin eru:

  • CBGB’s
  • Ljóð
  • Bjór
  • Judge a pope just by the cover
  • Hippar
  • Æskuminning

Þarna spiluðu:

  • Guðmundur Gunnarsson – trommur
  • Helgi Briem – bassi
  • Arnór Snorrason – gítar, söngur
  • Ríkharður H. Friðriksson – gítar
  • Valgarður Guðjónsson – söngur, gítar
  • Iðunn Magnúsdóttir – söngur
  • Brynjar Arnardóttir – söngur
  • Kristín Reynisdóttir – söngur

Og eins og einhver sagði við okkur eftir hljómleikana, „Þetta var fínt hjá ykkur, en þurfið þið að gaufa svona mikið á milli laga?“

En fínt að birta þetta nú þegar upptökur á nýju plötunni okkar fara af stað í þriðja sinn.