Sarpur fyrir apríl, 2018

Ég er aðeins að reyna að átta mig á þessu væntanlega offramboði af framboðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.

Einhver þeirra eru nokkuð augljós grín framboð, önnur eru sennilega hálfri ef ekki heilli öld of seint á ferð, einhver virðast hafa þann tilgang einan að vekja athygli á sérmálum og svo eru þessi sem engin leið er að átta sig á hvort eru grín eða ekki.

Þessi sem ég átta mig ekki á hvort eru grín eða ekki eru með stefnumál um atriði sem borgin hefur engin umráð yfir og ekkert um að segja, þannig er ekki klárt hvort þau eru að reyna að vera fyndin eða eru að rjúka í framboð án þess að hafa grun um hvað þau er að tala um.

Þannig að… sko… ég hef ekkert á móti grínframboðum, en eitt er alveg nóg – og það þarf helst að vera svolítið fyndið.

Ég hef heldur ekkert á móti framboði sem byggir á ástríðu fyrir stefnu í stjórnmálum, en kannski þurfa sum þeirra að gera upp við sig hverju framboðið skilar. Sérstakt framboð sem leggur áherslu á fá mál en á samleið að miklu leyti með öðrum og er ekki líklegt til að ná nægilegu fylgi til að koma að fulltrúa… þannig framboð vinnur kannski í rauninni gegn megninu af þeim hugsjónum / hugmyndum sem þau ætla sér að vinna fylgi.

Þannig að, án þess að ég vilji gera (mjög) lítið úr réttindum allra til að bjóða sig fram… þá eru nokkur atriði:

  1. ef þetta er grín framboð, er þetta eitthvað fyndið?
  2. ef þetta er alvöru framboð, hafið þið einhverja þekkingu á því sem þið eruð að tala um?
  3. ef þetta er „sylluframboð“, getur verið að þið gerið meira gagn annars staðar og vinnið hugsjónum ykkar frekar fylgi þannig?

Bless Arsenal?

Posted: apríl 20, 2018 in Umræða

Eiginlega alveg frá því að ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum þá hefur Derby County verið mitt lið, man ekki nákvæmlega, en stórsigur á (að mig minnir) Tottenham frekar en Liverpool var sýndur á RÚV og kveikti á einhverjum perum hjá mér.

Ég hreifst af Brian Clough sem knattspyrnustjóra og ástríðu hans fyrir góðum fótbolta.. og Derby var mitt lið. Það spillti ekki að þeir urðu óvænt Englandsmeistarar 1972. Og liðið endurtók leikinn 1975 þegar Dave Mackay var tekinn við sem knattspyrnustjóri.

Í öllu falli, þá hefur Derby verið mitt lið.. jafnvel þegar ég mætti í verslun í London að kaupa Arsenal dót fyrir vin okkar og spurði í leiðinni hvort þeir væru ekki með eitthvað tengt Derby.. og fékk svarið „We only do football, mate“.. þá eru þeir mitt lið í enska boltanum. Ég sá reyndar í fyrsta skipti leik með þeim fyrir þremur árum, á útivelli á móti Leeds United. Leikurinn var sá síðasti á tímabilinu og skipti engu máli, bæði lið með endanlegt sæti. En það var vel við hæfi, Leeds voru erki óvinirnir á fyrri hluta áttunda áratugarins, þeirri sögu voru gerð fín skil í mjög vel heppnaðri kvikmynd, „The Damned United“.

Sem sagt, á meðan Derby hefur verið að dóla sér í neðri deildum eða verið að setja met í slökum árangri í efstu deild, þá þurfti ég auðvitað lið til að halda með í efstu deild. Um tíma var Nottingham Forest „varaliðið“ mitt (enda Brian Clough stjóri liðsins), Manchester City í stuttan tíma, en svo tók Arsenal við.

Arsenal undir stjórn Arsene Wenger smellpassaði, hugmyndafræðin og ástríðan fyrir skemmtilegum fótbolta var eitthvað sem ég kunni að meta. Hvort Arsenal vann einhverja titla (eða ekki) var hálfgert aukaatriði fyrir mig, félagið sem slíkt skipti mig nákvæmlega ekki nokkru máli – það var kannski helst að ef liðið næði árangri með því að spila góðan fótbolta þá væri það hvetjandi fyrir önnur lið.

Þannig að um leið og Arsene Wenger er farinn þá er mér slétt sama um hvernig Arsenal gengur… nema kannski/mögulega/hugsanlega þeir finni einhvern annan með sambærilegar hugmyndir.

Ég hef aldrei skilið fólk sem kallar sig stuðningsmenn félagsins en stendur í því að níða niður knattspyrnustjórann, stjóra sem hefur gert félagið að stórveldi og skilað ótrúlegum árangri á yfir tutttugu ára ferli. Og ég held að ég gæti seint verið hluti af stuðningsmönnum félags þar sem stór hluti stuðningsmanna kemur fram við Wenger eins og þeir hafa gert síðustu ár.

Fyrst var kvartað yfir að liðið ynni enga titla, þrátt fyrir að hafa náð meistaradeildarsæti reglulega í tuttugu ár… svo vinnur félagið þrjá stóra titla á fjórum árum og en missir eitt árið af meistaradeildinni, þá skipta titlarnir engu máli, heldur bara að vera í meistaradeildinni.

Wenger er skammaður fyrir að kaupa enga leikmenn, svo kaupir hann nokkra fyrsta flokks leikmenn… aftur er hann skammaður, fyrir að kaupa ekki rétt, fyrir að kaupa ekki enn meira. Endalaus kaup meðaljóna á yfirverði eru ekki endilega alltaf lausnin að árangri, eins og dæmin sanna.

Getur verið að viðhorf stuðningsmanna sé vandamálið? Getur verið að leikmenn vilji fara annað þegar hluti stuðningsmannanna er í stöðugu stríði gegn félaginu? Getur verið að þetta umhverfi verði til að það vanti eitthvað upp á viljann til að leggja sig fram?

Ætli sama lið og kvartar og kveinar núna verði ekki farið að heimta Wenger aftur eftir hálft ár.

En þá er bara að vonast til að Derby County hafi það loksins af að komast aftur upp í úrvalsdeildina. Ef ekki, þá eru Manchester City auðvitað að spila frábæran fótbolta og hugmyndafræði Guadiola eitthvað sem ég kann að meta… en bakgrunnurinn (eigendurnir) trufla mig. Tottenham eiga til að spila flottan fótbolta, en ég hef ekki mikla trú á að það endist. Liverpool spilar stórgóðan bolta á góðum degi, en ég held að ég geti aldrei haldið með því félagi. Svo eru sögusagnir um að Wenger taki við Everton… það gæti auðveldlega verið fínasti kostur.

Þegar ljóst var að karlalandslið Íslands í fótbolta átti möguleika á að komast á HM í sumar var ég í fyrstu ekkert á því að fara. Svo þegar þetta varð raunverulegra varð áhuginn smám saman meiri og eftir að liðið tryggði sér þátttöku var ég orðinn mjög spenntur. Ekki minnkaði spennan við að eiga möguleika á að sjá þá spila við Argentínu á HM. Þannig að við sóttum um miða.

En svo fóru að renna á okkur einhverjar grímur, að hluta til þær sömu og áður en þetta varð raunhæft.

Og á endanum drógum við umsóknina okkar til baka.

Fyrir það fyrsta þá fórum við á alla leikina í riðlakeppninni á EM í Frakklandi. Virkilega gaman að upplifa þetta, stemmingin einstök og ekki spillti árangurinn fyrir.

En við erum búin að horfa á liðið spila á stórmóti, vissulega ekki HM, en samt…

En aðal ástæðan fyrir að við hættum við er nú eiginlega að mér líkar ekkert sérstaklega vel við það sem er að gerast í Rússlandi. Gott og vel, það má eflaust benda mér á tvöfeldni og ekki er ég alveg með á hreinu hvar ég dreg mörkin.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég á að útskýra almennilega. Það eru ekki bara stjórnvöld, hegðun þeirra gagnvart öllum sem voga sér að gagnrýna, árásir á blaðamenn, nýlegar breytingar á lögum sem leyfa heimilisofbeldi, fordómar gagnvart fólki vegna kynhneigðar… og ekki bara frá stjórnvöldum – heldur virðist vera nokkuð mikil sátt um þetta í samfélaginu.

En ætli dropinn sem fyllir mælinn sé ekki stuðningur við Assad og fjöldamorð Sýrlandsstjórnar á eigin borgurum, notkun efnavopna gegn almennum borgurum. Ég veit ekki hver eitraði fyrir Skripal og það myndi telja frekar lítið í þessu samhengi þó það sannaðist endanlega að Rússar hefðu staðið á bak við það.

Kannski skipti ég um skoðun þegar nær dregur, kannski vegur stuðningurinn við frábært íslenskt landslið þyngra þegar á reynir, mögulega afsaka ég það með að þetta sé FIFA en ekki Rússland sem stendur fyrir mótinu, það er ekki útilokað að eitthvað breytist í Rússlandi (hversu yfirborðskennt sem það verður og væntanlega til þess eins að bjarga andlitinu fyrir HM). Og kannski langar mig einfaldlega þegar þar að kemur.