Nýtt fyrirkomulag efstu deildar Íslandsmóts karla í fótbolta hefur heldur betur virkað illa á mig. Mér fannst þetta strax í fyrstu fráleitt og ekki hefur álitið aukist með reynslunni fyrsta árið.
Fyrir minn smekk eru það verðugir Íslandsmeistarar sem vinna keppni í efstu deild þar sem allir mæta öllum á jafnréttisgrunni, heima og heiman.
Stærsta vandamálið er að það er innbyggð ósanngirni í þessu fyrirkomulagi.
Það hjálpar ekki að þetta fyrirkomulag hefur bætt við ótölulegum fjölda fullkomlega tilgangslausra leikja – það var svo sem ekkert endilega fyrirséð, en mun líklegra en með betra og sanngjarnara fyrirkomulag.
Besta (eða auðvitað versta) dæmið um ósanngirni núna er að FH, sem var í efra fallsætinu, fékk heimaleik á móti Leikni sem var í síðasta örugga sæti.. lykilleikur um sæti í deildinni.
Að einhverju leyti snýst þessi breyting um að fjölda leikjum í efstu deild. En ég get ekki með nokkru móti séð hvers vegna það er eftirsóknarvert að fjölgun tilgangslausum leikjum þar sem hvorugt liðið hefur að nokkru að keppa.
Bæði handbolti og körfubolti fóru á sínum tíma þá leið að setja einhverja úrslitakeppni eftir venjulega deildakeppni – þar sem liðið sem lauk venjulegri deildakeppni í áttunda sæti gat orðið Íslandsmeistari. Jú, jú, það varð til lokakeppni með tilheyrandi “spennu”, en fljótlega þá varð sjálf deildakeppnin að (nánast) tilgangslausu æfinga- og/eða upphitunarmóti.
Ég veit að mörgum finnst „spennan“ mikils virði, en fyrir minn smekk, ef ég er að leita að spennu er einfaldara að fara í bíó.
Ég geri ekki lítið úr því að það er erfitt að hafa fyrirkomulag á Íslandsmóti án þess að margir „dauðir“ leikir komi í loka umferðunum – sérstaklega þegar sem mikill munur er á getu liðanna.
Ég er á því að eina leiðin til að fækka tilgangslausum leikjum sé að hafa færri lið í efstu deild, átta, tvö falla og vonandi heldur Ísland fjórum sætum í Evrópukeppnum – í boði Blika og Víkinga (og kannski KR) eftir slaka frammistöðu íslenskra liða nokkur ár þar á undan.
Við erum einfaldlega ekki nægilega mörg til að halda úti fleiri en átta (eða mögulega tíu) liðum á efsta stigi… að hafa tólf lið í efstu deild mörg þeirra þunnskipuð og reyna að bæta sér upp takmarkað úrval leikmanna með aðkeyptum (ég segi ekki meðaljónum, en) leikmönnum sem kosta sitt og bæta litlu við íslenska fótbolta.
Átta lið, fjórar umferðir, allir við alla, heima og heiman, tvö lið falla, fjögur fá sæti í Evrópukeppni.. ég hef ekki heyrt betri leið til að sem flestir leikir verði þannig að bæði lið hafi að einhverju að keppa. Og þetta fyrirkomulag skilar 28 umferðum.
Ég veit að þetta verður ekki vinsælt hjá liðum sem eru núna í neðri hluta deildarinnar, en ég er sannfærður um að til lengri tíma litið skilar þetta betri og sterkari liðum. Er það virkilega svo mikils virði að hanga í efstu deild með fámennan leikmannahóp, talsverðan kostnað af erlendum leikmönnum og vera í fallbaráttu ár eftir ár eða í einhverju jó-jó-i á milli deilda? Er ekki betra að fá tíma til að byggja upp og koma upp sterkum hópi uppalinna leikmanna?
Líkar við:
Líka við Hleð...