Smá vangaveltur eftir fótboltasumarið í efstu deild karla.
Blikum var spáð sigri, en byrjuðu mótið illa og það varð dýrkeypt að leikslokum.
Það er svo við hæfi að óska Víkingum til hamingju með titilinn, liðið kláraði sína leiki, leiki sem hefðu getað dottið á hvorn veginn sem var – nokkuð sem einkennir meistara – „stöðugleiki“ er kannski besta lýsingin, verst að það er komið hálfgert „óorð“ á það orð.
En Blikar náðu sér á strik, spiluðu frábæran fótbolta í flestum leikjum eftir slæma byrjun og voru nálægt því að landa titlinum með góðum úrslitum þegar leið á mót. Það gekk ekki eftir, eins og gengur, en svona þegar „svekkelsi“ næst síðustu umferðar er frá, þá er ég mjög ánægður með liðið.
Ekki spillti mjög góður árangur í Evrópukeppni og næstum því tímamóta árangur.
Það að liðið spilar frábæran fótbolta skiptir mig satt best að segja meira máli en titlar.. þeir koma ef haldið er áfram á sömu braut. Ekki myndi ég nenna að halda með liði sem safnar titlum með því að spila leiðinlegan bolta. [þessu er ekki beint til Víkinga, heldur almenn vangavelta um meistara síðustu áratuga, hér og erlendis]
Ég held reyndar að hefði liðið unnið mótið hefði það skilað sér í að fleiri félög myndu „sjá ljósið“ og leggja meiri áherslu á að spila góðan bolta. Og við hefðum séð enn betra mót 2022.
En þetta kemur.. liðið leiðir nauðsynlega breytingu í íslensku fótbolta, uppaldir leikmenn eru kjarninn í hópnum og fótbolti sem er eina leiðin til að spila á alþjóða vettvangi.