Þrír flokkar í framboði næst?

Posted: september 28, 2021 in Stjórnmál

Eftir kosningar með ellefu flokkum velti ég fyrir mér hvort ekki sé einfaldara að vera með þriggja flokka kerfi.

Viðreisn gæti verið borgara/hægri [nenni ekki að skilgreina nákvæmlega] flokkur, sennilega eiga margir félagar Sjálfstæðisflokksins heima þarna, ef ekki væri fyrir gamlan vana, þeir sem eftir standa eiga nú ekki mikið erindi. Sennilega gæti einhver hluti Framsóknarmanna fundið sig þarna líka.

Á hinum endanum einhvers konar félagshyggju/vinstri [nenni heldur ekki að skilgreina nákvæmlega] flokkur þar sem megnið af Samfylkingu, Vinstri-grænum, Flokki fólksins, jafnvel Sósíalistum og hluta Framsóknarflokksins gætu fundið sig. Auðvitað ekki þeir sem eru lengst „á kantinum“ eða þeir sem eru að sækjast eftir sviðsljósinu, en að miklu leyti ættu stefnumál að rúmast í einum flokki og það ætti að vera hægt að leysa ágreining innan flokks í stað þess að bjóða fram sitt í hvoru lagi með tilheyrandi þrasi og töpuðum atkvæðum.

Þriðji flokkurinn væri svo eitthvað í ætt við Pírata, endilega skipta um nafn, losa sig við upprunann, en gæti tekið talsvert af fólki úr flestum hinna, gegn spillingu, með nútímalegri nálgun, með stjórnarskrá og án þess að nenna að skilgreina, svona þriðja víddin.

Það er engin þörf á jaðarflokkum, eins máls flokkum, flokkum sem eru lítið annað en „vagn“ fyrir egó einstaklinga, eða flokkum sem hafa ekki grun um hvað þeir eru að reyna að segja.

Og það er engin þörf á miðflokki… hvernig í dauðanum á að vera þörf á stjórnmálaflokki sem hefur ekki annað fram að færa en að vera einhvers staðar á milli annarra?

Lokað er á athugasemdir.