Sarpur fyrir janúar, 2014

Verðtryggingin, til útskýringar…

Posted: janúar 26, 2014 in Verðtrygging
Efnisorð:

Það er einhver grundvallar misskilningur í gangi vegna verðtryggingarinnar. Ég átta mig ekki á því hvort þetta er hreinn og klár misskilningur, vankunnátta í reikningi eða hreint og klárt lýðskrum… eða kannski einfaldlega vegna þess að hún er „áþreifanleg“ og þægilegt að benda á, hentugur blóraböggull. Það er auðvelt að ná vinsældum með því að tala gegn verðbólgunni og það hljómar vel í mörg eyru að ætla að beita sér gegn henni.

Verðtryggingin er mótvægi við verðbólgu. Verðbólgan er raunverulega vandamálið. Ef ekki væri verðbólga þá væri verðtryggingin ekki sýnileg og skipti engu máli.

Hitt er að verðtryggingin væri heldur ekkert vandamál í verðbólgu ef laun fylgdu verðbólgunni líka.. þá hækkuðu launin einfaldlega jafnt og lánin og sami hluti launa færi til að greiða af lánum. Það sem gleymist í öllum hávaðanum og allri umræðunni um verðtrygginguna, sem vissulega er vandamál fyrir þá sem borga af lánum og fá greidd laun sem ná ekki að fylgja verðbólgu. Það gleymist hins vegar í þessu að aðal vandamálið er einmitt að launin fylgja ekki þróun verðlags. Og það gleymist að þetta er ekki bara vandamál fyrir þá sem borga af verðtryggðum lánum. Þetta er nefnilega líka vandamál fyrir þá sem þurfa að borga hækkandi húsaleigu, þurfa að kaupa mat, föt og aðrar nauðsynjar. Vandamálið er sem sagt ekki verðtryggingin heldur misræmi launa og verðlags.

Að lokum gleymist, eða er reynt að fela, að öll lán eru í rauninni verðtryggð. Aðferðin sem notuð er við óverðtryggð lán kallast breytilegir vextir. Þessir breytilegu vextir taka einmitt við af… verðbólgu. Og fylgja verðlagsþróun en ekki launaþróun. Og það sem verra er, breytilegir vextir byggja ekki á tiltölulega gagnsærri vísitölu, heldur verðbólgu og spádómum um verðbólgu.

Ég veit að það er hægt að finna ýmis dæmi með því að velja rétt tímabil sem sýna fram að á verðtryggð lán komi illa út, en til lengri tíma litið þá er ekkert að verðtryggingunni, hún er ekki vandamálið sem þarf að leysa.

Ég velti fyrir mér hvort reglur / lög um afnám verðtryggingar séu afleiðing þess sem kom fram í Pisa könnuninni.

Það er komin heil kynslóð sem kann ekki að reikna og skilur ekki einföldustu útreikninga.

Að bíða, Wow

Posted: janúar 19, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:

Við vorum á leiðinni til Salzburg í gær…

Þegar nálgaðist Salzburg kom í ljós að ekki var hægt að lenda, að mér skilst vegna mikillar þoku og blindflug kom ekki til greina – án þess að ég skilji nákvæmlega hvers vegna, en hef engar athugasemdir við að ekki sé tekin áhætta ef ekki er hægt að lenda örugglega.

Ekki hvarflar að mér að áfellast ykkur fyrir veðurskilyrði og þaðan af síður dettur mér í hug að fara fram á að þið takið nokkra áhættu þegar öryggi farþega er annars vegar. Þá vil ég hrósa áhöfninni fyrir sína vinnu og góð viðbrögð – það hefði þó mátt vara farþega við hvernig hætt er við aðflug ef ekki tekst.

Í framhaldinu var flogið með okkur til Stuttgart, beðið þar í drykklanga stund á flugvellinum, síðan var reynt að fljúga aftur til Salzburg og reynt tvisvar að lenda og áður en flogið var aftur til Stuttgart. Upplýsingarnar sem við fengum í fluginu voru ekki miklar, helst að það biðu okkar rútur sem myndu flytja okkur til Salzburg.

Á flugvellinum í Stuttgart tók við mikil óvissa, langur biðtími og nákvæmlega engar upplýsingar. Þó höfðuð þið bæði símanúmer og tölvupóstfang. Það voru nokkur börn í hópnum og óvissan kom sér illa. Þetta virtist gilda um alla farþega, við spurðum nokkuð marga þeirra sem biðu með okkur á flugvellinum en enginn vissi neitt. Eftir talsverða bið var okkur fylgt á hótel við flugvöllinn og sagt að við fengjum gistingu og morgunmat en þyrftum að sjá sjálf um kvöldmat. Ekki fengust öruggar upplýsingar um framhald aðrar en óljós boð komu um að mæta daginn eftir á flugvöllinn ýmist klukkan hálf tíu eða tíu.

Við mættum á flugvöllinn morguninn eftir og okkur var fyrst sagt að flogið yrði klukkan ellefu. En þegar innritun var að ljúka komu boð frá þeim sem sáu um innritun þess efnis að fluginu myndi seinka, sennilega til þrjú / fjögur en allt væri óvíst.

Enn hafði enginn frá Wow haft samband við okkur.

Einhver farþeganna þekkti, að mér skilst, einhvern heima sem þekkti einhvern hjá Wow og gat grafið upp þær upplýsingar að lendingarbúnaður hefði bilað í vélinni og að viðgerð stæði yfir. Við kusum að bíða á flugvellinum, aðrir gáfust upp og tóku rútu á eigin vegum eða á vegum viðkomandi ferðaskrifstofu. Við náðum svo til Salzburg um hálf fimm, ríflega sólarhring eftir áætlaðan komutíma.

En það mætti vera í fyrsta forgangi að miðla upplýsingum. Bara „Við erum að vinna í málinu, nánari fréttir og upplýsingar fást …“ myndi muna miklu, sérstaklega ef raun upplýsingar eru aðgengilegar.

Flugfélag sem sendir mér auglýsingar og margarusl pósta í mánuði hlýtur að ráða við að senda mér mikilvægar upplýsingar um ferðina þar sem ég er strandaður á þeirra vegum.

PS. Lýsing uppfærð eftir fyrstu færslu

Ég kíkti á Gaukinn föstudagskvöldið á Reggae kvöld hjá þeim.. skemmtileg hugmynd.. og sá Ojba Rasta.

Ég hef fylgst með hljómsveitinni í nokkur ár og hún er klárlega ein besta hljómsveit landsins – og auðvitað ekki bara landsins. En frábærir hljómleikar, og gaman að sjá hversu „sjóuð“ þau eru orðin og ekki síður að finna hvað þeim finnst þetta gaman sjáfum.

Þaðan lá leiðin á Rokkbarinn í Hafnarfirði – náði reyndar ekki öllu seinna „settinu“ hjá Ojba Rasta vegna leigbílaferðasparnaðar – og náði þar þremur hljómsveitum að hluta amk. Casio Fatso þétt og flott alvöru rokkhljómsveit sem ég þarf að ná að sjá aftur. Morgan Kane hafa sennilega aldrei verið betri, það vantaði að vísu hljómborðsleikara, söngkonu (Tinnu, ef ég man rétt) og hljómsveitin hljómaði óneitanlega öðru vísi án hennar. Ég hef eiginlega alveg tvær skoðanir, hljómborðin og röddin gera heilmikið en í hina röndina er ég alltaf hrifinn af einföldum rokkhljómsveitum. Dorian Gray voru svo þrælgóðir, einverra hluta vegna minna þeir mig á Paul Weller / Style Council og Placebo… án þess að hljóma í rauninni nokkuð líkt hvorugum þeirra, bara einhver tilfinning, og þeir kunna mér væntanlega litlar þakkir fyrir tenginguna – en er nú samt hrós.

Þá verð ég að hrósa Íslenska Rokkbarnum fyrir að vera til, óneitanlega svolítið út úr leið, en frábært að einhver skuli nenna að standa í að reka svona stað.

PS. hvaðan kemur annars þessi lína að láta hljómsveitir heita eftir einhverjum? ekki svo að skilja að það sé verra en eitthvað annað, en skrýtið.

Kjánahrollur í boði kirkjunnar

Posted: janúar 11, 2014 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Það var skondinn kjánahrollurinn sem ég fékk áðan þegar ég sá heilsíðuauglýsingu frá ríkiskirkjunni til barna. Þar er reynt að narra börnin í heimsókn í kirkju með einhverri fígúru sem á sennilega að hafa eitthvert aðdráttarafl, þó ekki komi fram í auglýsingunni hvað það er sem ætti að hvetja börnin til að mæta.

Kannski er kirkjunni vorkunn eftir miklar úrsagnir og mikið tekjutap. En þessi örvænting er óneitanlega svolítið skondin. Að fylgjast með trúarstofnun reyna að draga börnin inn á fölskum forsendum minnir starfsaðferðir næturklúbba í vafasömum hverfum í útlandinu.

En kannski, á hinn bóginn, er þetta ekkert sérstaklega fyndið.

Ég þarf að taka þátt í að borga auglýsinguna. Og markmið auglýsingarinnar er að fjölga, eða draga úr fækkun, í hinni ríkisreknu kirkju. Takist það, þarf ég að borga meira.

Egill Helgason birti ágætis pistil þar sem hann bendir á samantekt um trúleysi og augljóst samhengi við almenna velmegun á meðan þau ríki þar sem ofsatrú og hvers kyns bábiljur ráða ríkjum eru langt á eftir. Auðvitað má finna einhverjar undantekningar, en þær eiga sér sínar skýringar og breyta ekki heildarmyndinni.

Þetta er auðvitað ekkert dularfullt og minnir á söguna um að sala á ís sé mest þegar flestir drukkna í ám. Vitaskuld var ekki beint samhengi á milli, heldur var þarna þriðji þátturinn, mikill hiti, sem varð til þess að fólk reyndi bæði að kæla sig í ám og keypti ís.

Sama gildir um trúleysi og almenna „velmegun“, hvort sem við skilgreinum það eingöngu efnahagslega eða skoðum atriði eins og glæpatíðni og mat þjóða á lífshamingju.

Hvort tveggja er einfaldlega afleiðing betri og meiri menntunar. Trúleysi er talsvert meira hjá langskólagegnum en öðrum og trúleysi er talsvert meira hjá þeim þjóðum þar sem menntun er hvað mest – þar er líka mest almenn „velmegun“.

Það er einfaldlega ekkert dularfullt við þetta. Fólk sem hefur góða menntun er að öllu jöfnu ólíklegra til að trúa á galdra eða töframeðul eða sætta sig við grimmdarverk í nafni trúar. Sama gildir um „skaðlausari“ birtingarmynd trúar – það er að segja þá sem eru trúaðir en eru sáttir við sitt og láta aðra í friði – þeim fer fækkandi eftir því sem menntun eykst.

Samstaða eða ekki samstaða

Posted: janúar 2, 2014 in Umræða

Ég er farinn, satt að segja, að hafa talsverðar áhyggjur af stefinu sem forseti og forsætisráðherra klifa stöðugt á.

Það er einhver undarlegur mórauður þráður í umræðunni á þá leið að allir sem voga sér að hafa aðra skoðun en stjórnvöld samþykkja séu ljótukallarnir sem rjúfa samstöðu „einhuga þjóðar“, jafnvel fyrirfram bara lygalaupar og niðurrifsfólk.

Samhilða þessu er spilað er á ofur hallrærislega þjóðrembu. Harðar deilur um IceSave heita nú „þjóðarsátt“ þegar forsetinn er búinn að brengla söguna eftir hentugleikum.

Vissulega geta endalausar deilur haft sína ókosti, sérstaklega þegar þær verða persónulegar og ganga út á skítkast og útúrsnúninga – deilur þar sem keppst er um að hafa betur í stað þess að ná niðurstöðu hjálpa auðvitað engum.

Á hinn bóginn er það nefnilega kostur að ræða málin, deila þegar við erum ósammála og komast þá að niðurstöðu. Það leiðir til miklu betri árangurs en að taka við skipunum að ofan frá fámennri valdastétt. Það er mikilvægt að þora að hafa aðra skoðun en stjórnvöld vilja. Og það má ekki þegja af ótta við að rjúfa eftirsóknarverða „samstöðu“.

„Samstaða“ er kannski fín eftir að búið er að komast að niðurstöðu og ná sátt eftir málefnalega umræðu. En „samstaða“ um að taka við skipunum og skoðunum að ofan minnir á eitthvert allt annað ríki en ég hélt að ég tilheyrði.

Ég ætla að minnsta kosti að blása á þetta samstöðutal og leyfa mér að hafa skoðanir.

2014

Posted: janúar 1, 2014 in Spjall
Efnisorð:

Ég hef ekki grun um hvað gerist árið 2014 og hef í sjálfu sér enga þörf fyrir að reyna að spá fyrir um það.

Ég strengi aldrei áramótaheit.. ég einfaldlega reyni að skoða reglulega hvað má gera betur og hvað má betur fara, án tillits til dagatalsins.

Ég þykist þó vita að við förum í skíðaferð til Austurríkis um miðjan janúar til að fagna fimmtugsafmæli Bryndísar með henni. Ekki svo að skilja að ég hafi stigið á skíði í meira en fjörutíu ár, en ég ætla að minnsta kosti að prófa.. og ef ég fell ekki fyrir þessu þá er ég sannfærður um að mér kemur ekki til með að leiðast.

Ég vona líka að við náum að halda í þá venju að kíkja fljótlega í helgarferð með Höskuldi og Sirrý.

Og Sambindið ætti að ná sinni, nú árlegu, helgarferð.

Þá stefnir fótboltahópurinn á að kíkja á leik með vorinu, en góð áform á þeim nótum hafa ekki alltaf gengið eftir. Að minnsta kosti ættum við að hittast á hverju mánudagskvöldi yfir vetrartímann og halda tvær uppskeruhátíðir að venju. Ég er meira að segja strax farinn að hlakka til þeirrar næstu sem verður núna um helgina.

Þá er alltaf einhvert tal um að fara í siglingu, mjög skemmtilegt að fara í þannig frí, bæði ódýrt og mikið sem fæst fyrir peninginn. Nú eða kannski er kominn tími til að kíkja aftur til Benalmadena.. þetta ræðst auðvitað allt af því hvernig fjárhagurinn verður.

Ég er svo nokkuð viss um að Einifells ferðirnar verða nokkrar og stórskemmtilegar. Og GoutonsVoir hópurinn hittist oft og eldar og borðar og drekkur. Vonandi hittist hinn ónefndi matarklúbburinn okkar oftar á nýju ári en því síðasta. Við eigum svo áskriftarmiða í leikhús og fyrsta sýningin er strax næsta sunnudag.

Fiskidagurinn er svo alltaf á dagskrá, með einhverjum fyrirvörum þó…

Við Fræbbblar höfum verið að vinna að nýrri plötu í tvö ár.. nokkur lög hafa komið út en ekki beinlínis fengið góðar viðtökur. En vonandi náum við að klára plötuna og koma út ekki seinna en í vor. Og ég vona líka að okkur takist að halda Punk 2014 hátíðina í Kópavoginum.

Þá geri ég ráð fyrir að halda áfram að mæta reglulega í Karate, vonandi næ ég að mæta enn betur en í fyrra – þetta er skemmtileg hreyfing, jafnvel þó ég sé enn ótrúlega stirður.. á móti kemur að þetta mjakast hægt og bítandi.

Svo er alltaf á dagskrá að mæta á leiki hjá Breiðabliki – og ekki væri verra að liðinu takist að ná Íslandsmeistaratitilinum í ár. Að öðru fótboltaleyti væri gaman að sjá Arsenal vinna titil og Derby County ná að vinna sæti í úrvalsdeildinni.

Þá er ekki síður spennandi tímar tengdir vinnunni…