Posts Tagged ‘trú’

Nýlega sagði vinur minn við mig að líf mitt væri eins og tóm tunna vegna þess að ég tryði ekki á guð.

Þetta er auðvitað fráleitt.. þvert á móti þarf ég ekki á einhverjum óskilgreindum, tilbúnum yfirnáttúrulegum verum til að líf mitt hafi gildi. Það er bara nokkuð fínt eins og það er – gott og gilt sjálfs sín vegna.

Mér hefur hins vegar þótt það æði nöturleg tilhugsun að geta ekki lifað góðu lífi nema hengja sig í tilbúnar verur og mögulegt framhaldslíf. Þetta hlýtur að vera skelfilegt.

Kannski minnir þetta að einhverju leyti á konuna sem keypti happdrættismiða til að vinna stóra vinninginn og byrjaði strax að skipuleggja líf sitt miðað við að vera búin að fá vinninginn. Hún ætti að vita að líkurnar eru afar litlar og hún ætti að vita að hennar bíður líklega framtíð án happdrættisvinningsins. Það er frekar ömurleg tilhugsun að þurfa að lifa lífinu treystandi á happdrættisvinning þar sem líkurnar eru hverfandi. Þó er kannski sá munurinn á konunni og þeim sem byggja líf sitt á trúnni að það er jú stundum einn sem vinnur í happdrættinu.

Nýtt trúarbragð

Posted: apríl 12, 2015 in Spjall, Trúarbrögð
Efnisorð:,

Ég er að velta fyrir mér að stofna nýja trúarhreyfingu.

Kenningin er að eftir dauðann þá upplifir hver einstaklingur allt sitt líf til hins óendanlega. Með öfugum formerkjum. Þeir sem koma vel fram við náungann fá sömu framkomu um alla eilífð – hlýju, ást, kærleika og allt það besta sem þeir hafa sýnt öðrum. En að sama skapi fá þeir sem koma illa fram við aðra að upplifa það á sjálfum sér óendanlega oft. Sá sem beitir ofbeldi og gengur í skrokk á öðrum upplifir stöðugt að það er verið að ganga í skrokk á honum, sá sem drepur upplifir að vera drepinn endalaust.

Nú eru engar sérstakar sannanir fyrir því að þetta verði svona. En það sama gildir auðvitað um öll (önnur) trúarbrögð.

Og ef við getum sannfært fólk um þetta þá er þetta öruggasta, einfaldasta og besta leiðin til að fá fólk til að tileinka sér betri hegðun – þeas. þeim sem ekki nægir heilbrigð skynsemi. Þetta er miklu betra en núverandi trúarbrögð því það eru enginn hvattur til að ráðast gegn öðrum og drepa „villutrúarmenn“.

Um kristna og múslima

Posted: febrúar 11, 2015 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Það virðist vera nokkuð útbreiddur misskilningur að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður múslima, bara vegna þess að ég vil ekki mismuna þeim sérstaklega. Ég veit að margir trúlausir verða varir við sama misskilning. Það gengur meira að segja svo illa að leiðrétta þetta að það hvarflar oft að mér að það sé vísvitandi verið að klína þessu á okkur gegn betri vitund.

En höfum alveg á hreinu að ég hef fullkomna skömm á þeim voðaverkum sem hafa verið framin í nafni af múslimum í nafni trúarinnar. Sama gildir um mannfyrirlitningu sem haldið er á lofti með vísun í trúarritin. En ég vil bara ekki dæma alla vegna ofstækismannanna. Ekki frekar en að ég dæmi alla kristna út frá þeirra verstu talsmönnum.

Vissulega þarf að fara lengra í tíma eða rúmi til að finna viðlíka illvirki í nafni kristninnar, en það er ekki aðalatriðið, aðalatriðið er að dæma ekki alla út frá nokkrum brjálæðingum.

Það má kannski orða þetta þannig að ég virði jafnan rétt allra trúfélaga til að láta okkur hin í friði.

Að taka það sem fyrirlitið er sér til fyrirmyndar

Posted: desember 16, 2014 in Trú
Efnisorð:

Það kom fram nokkuð hávær hópur fyrr á árinu sem fann múslimum allt til foráttu og taldi sig vera að verja einhver kristin gildi Íslendinga, hver svo sem þau eru nú annars.

Ég er reyndar alveg sammála þessum hóp að einu leyti, við eigum að sporna við öfgum og mannfyrirlitningu í nafni trúar, hver svo sem trúin er.. og það er jú, vissulega rétt að margir múslimar hafa gengið fram með miklu hatri í nafni trúarinnar.

Ég svo ósammála þeim að því leytinu til að mér dettur ekki í hug að yfirfæra hegðun nokkurra yfir á allan hópinn, þess vegna mega hófsamir múslimar (eins og aðrir) hafa sína trú í friði, bara á meðan þeir láta mig í friði.

Nú ber svo við að nokkurn veginn nákvæmlega sami hópur er að missa sig yfir því að gerðar séu athugasemdir við það að kirkjan fór nýlega að sækja í skólabörn á skólatíma. Nei, þetta er ekki gömul hefð, þetta er til þess að gera nýbyrjað.

Það er nefnilega skondið og um leið grátlegt að hugsa til þess að þessi ásókn kirkju og trúarhópa er (segjum nánast) hvergi samþykkt nema í þeim löndum þar sem öfgatrúarmenn hafa völdin. Og í nokkrum (mörgum?) sveitarfélögum á Íslandi. Og einhverjir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa kveðið sér hljóðs og telja þetta í góðu lagi.

Leti kristna minnihlutans?

Posted: desember 11, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Það er að verða árlegur viðburður að talsmenn kristni rísi upp og barmi sér yfir að mega ekki vaða með trúboð inn í menntastofnanir landsins.

Talað er um að börnum sé bannað hitt og þetta og að verið sé að hafa eitt og annað af þeim.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning.

Ef fólk hefur svona mikinn áhuga á að börnin upplifi einhverja sérstaka kristna jólastemmingu, er þá ekki einfaldasta mál í heimi fyrir fjölskylduna að sjá um þetta? Þetta má gera á heimilinu. Foreldrarnir geta sem best farið með þau í kirkju ef þeim sýnist svo. Jafnvel getur kirkjan hæglega boðið upp á sérstakar stundir fyrir fjölskyldur og/eða börn á aðventunni. Það þarf ekkert að troða þessu inn í menntastofnanir ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi.

Þetta virkar einfaldlega á mig eins og tóm leti. Fólk nenni einfaldlega ekki að sinna þessu sjálft, en finnist þægilegt að velta yfir á aðra til að geta nú þóst vera kristið.

Sagði ég „minnihlutans“? Já, kannski eru nú ekki öruggar heimildir fyrir því, amk. ekki í augnablikinu. En til þess að gera mjög fáir hafa skráð sig sjálfviljugir í þjóðkirkjuna, könnun frá 2004 bendir til að minni hluti Íslendinga sé kristinn og trúleysi hefur aukist mjög í nágrannaríkjunum á síðasta áratug og ekkert sem bendir til annars en að svipuð þróun sé hér á landi. En, gott og vel – við vitum ekki fyrir víst hvort um meirihluta eða minnihluta er að ræða eins og er. En rök margra kristinna er að hávær minnihluti sé að kúga meirihlutann. Meirihluti / minnihluti eru auðvitað afspyrnu vond rök þegar kemur að mannréttindum. Ef kristnir eru ekki þegar í minni hluta þá styttiast að minnsta kosti hratt og örugglega í það. Hver verða rökin þá?.

Ég er ekki frá því að ákveðin straumhvörf séu að verða í umræðum um trúmál og trúleysi hér á landi.

Til skamms tíma höfum við trúlaus verið máluð sem sérvitringar og jafnvel „kverúlantar“ sem sitja nöldrandi út í horni og enginn þarf að taka alvarlega. Með dyggri aðstoð hlutdrægra fjölmiðla hefur verið máluð brengluð mynd af þeim sem ekki vilja hafa ríkisrekið trúfélag.

En trúleysingjar í Siðmennt og Vantrú hafa – með kannski ólíkri nálgun – opnað umræðuna, málefnalega, og bent á eitt og annað sem stenst ekki í samfélagi sem vill virða trúfrelsi/frelsi til lífsskoðana og sýna þeim mismunandi skoðunum umburðarlyndi.

Umræðan hefur stöður orðið sýnilegri og smátt og smátt hefur orðið meira og meira áberandi að það eru hvorki meðlimir Siðmenntar né Vantrúar sem eru sérvitringarnir eða „kverúlantarnir“..

Það er fjarri mér að alhæfa.. það er mikið af góðu fólki sem vill vel, bæði innan kirkjunnar og annarra trúfélaga – fólk sem hægt er að eiga málefnalegar samræður við.

Það sem hefur breyst er – mögulega í einhvers konar örvæntingu – að sífellt fleiri talsmenn kirkjunnar opinbera forneskjulegan þankagang með umræðuhefð sem varla verður kölluð annað en skítkast, útúrsnúningar og jafnvel klár ósannindi – í bland við kröfur sem jaðra við óstjórnlega heimtufrekju.

Ég sé merki þess að það hilli undir lokin á baráttu Siðmenntar og Vantrúar… það liggur við að við getum slakað á og leyft öfgamönnum í forsvari kirkjunnar að koma henni hjálparlaust úr ríkisforsjá. Þeim fjölgar stöðugt sem sjá að svona starfsemi á ekki heima í ríkisrekstri.

Ég er nú samt ekki verr innrættur en svo að ég vona virkilega að kirkjan hafi rænu á að skipta um talsmenn áður en þeir ná að valda henni meiri skaða.

Ég er að minnsta kosti sannfærður um að það er vel leysanlegt að koma starfsemi hvers kyns lífsskoðunarfélaga fyrir þannig að hver fái að hafa sína skoðun í friði og láta vera að krefjast þess að aðrir borgi brúsann. En bestu bandamenn okkar sem vilja breytingar eru öfgamennirnir í forsvari ríkiskirkjunnar.

Egill Helgason birti ágætis pistil þar sem hann bendir á samantekt um trúleysi og augljóst samhengi við almenna velmegun á meðan þau ríki þar sem ofsatrú og hvers kyns bábiljur ráða ríkjum eru langt á eftir. Auðvitað má finna einhverjar undantekningar, en þær eiga sér sínar skýringar og breyta ekki heildarmyndinni.

Þetta er auðvitað ekkert dularfullt og minnir á söguna um að sala á ís sé mest þegar flestir drukkna í ám. Vitaskuld var ekki beint samhengi á milli, heldur var þarna þriðji þátturinn, mikill hiti, sem varð til þess að fólk reyndi bæði að kæla sig í ám og keypti ís.

Sama gildir um trúleysi og almenna „velmegun“, hvort sem við skilgreinum það eingöngu efnahagslega eða skoðum atriði eins og glæpatíðni og mat þjóða á lífshamingju.

Hvort tveggja er einfaldlega afleiðing betri og meiri menntunar. Trúleysi er talsvert meira hjá langskólagegnum en öðrum og trúleysi er talsvert meira hjá þeim þjóðum þar sem menntun er hvað mest – þar er líka mest almenn „velmegun“.

Það er einfaldlega ekkert dularfullt við þetta. Fólk sem hefur góða menntun er að öllu jöfnu ólíklegra til að trúa á galdra eða töframeðul eða sætta sig við grimmdarverk í nafni trúar. Sama gildir um „skaðlausari“ birtingarmynd trúar – það er að segja þá sem eru trúaðir en eru sáttir við sitt og láta aðra í friði – þeim fer fækkandi eftir því sem menntun eykst.

Fyrir nokkrum dögum lýsti þýskur kardináli því yfir að best væri að þýskar konur sætu heima og stuðluðu að fólksfjölgun til að vinna á móti fjölgun innflytjenda.

Karluglunni tókst að slá þrjár flugur í einu höggi þarna í einni setningu.. og staðfesta þannig að söfnuðir eins og hann vinnur hjá á ekkert erindi í nútímasamfélag.

Fyrir það fyrsta er auðvitað kvenfyrirlitningin. Þar bætast við kynþáttafordómarnir. Og ekki gleyma hræsninni, hann er jú vígður kaþólskur prestur og leggur ekkert að mörkum við að fjölga kynstofninum sem honum finnst svona mikilvægur.

Þetta væri auðvitað fyndið ef þetta væri ekki hátt settur embættismaður hjá nokkuð áhrifamikilli stofnun.

Og þetta væri kannski líka fyndið ef þetta væri ekki af sömu rótum og sú ótrúlega mannfyrirlitning sem Parísarbúsar opinbera á götum borgarinnar til að mótmæla giftingum samkynhneigðra.

Allt í nafni og undir áhrifum trúarinnar.

Höfum við virkilega eitthvað að gera við þetta?

Og kannski enn frekar, ég veit að sumir finna margt jákvætt í trúnni og sækja þangað ákveðin gildi – sem í flestum tilfellum eru auðvitað jákvæð.

En má ekki sleppa trúnni og halda gildunum, hvort sem viðkomandi vill kalla þau „kristin“ eða eitthvað annað, því flest eru þau jú eldri en kristnin – og losna þannig undan þessu fargi mannfyrirlitningar sem trúin virðist leggja á fólk?

Prestur með golfdellu

Posted: desember 20, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, , ,

Einn prestur ríkiskirkjunnar ber rekstur kirkjunnar nánast daglega saman við rekstur golfklúbbs, amk. þessa dagana.

Skoðum þetta aðeins betur.

Þeir einir eru meðlimir í goflklúbbi sem það vilja. Þeir einir greiða félagsgjöld til golfklúbbsins sem eru meðlimir. Golfklúbburinn ákveður sjálfur félagsgjöldin. Golfklúbburinn innheimtir sjálfur félagsgjöldin.  Skattfé almennings er ekki notað til að greiða laun starfsmanna golfklúbbsins. Og byrjunarlaun starfsmanna golfklúbbsins eru ekki margföld byrjunarlaun sambærilegra starfa.

Þessi samanburður prests er sem sagt tóm della. Það má segja að prestur sé með golf-dellu.

Eigum við svo nokkuð að fara út í hvað það er miklu skemmtilegra að spila golf og hversu miklu betra það er fyrir heilsuna?

Jú, þér finnst þetta víst!

Posted: desember 12, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef alveg þokkalega gaman af því að ræða málin og skiptast á skoðunum við fólk. Þess vegna eyði ég nú til dæmis tíma í að skrifa þessar færslur hér og svara, svona vel flestum, sem þarf að svara. Einstaka skætingi læt ég ósvarað, en það hefur stórminnkað eftir að ég færði mig frá Eyjunni og skrifa hér.

Hitt er að það er ansi erfitt að halda uppi rökræðum þegar „viðræðandi“ er stöðugt að gera mér upp skoðanir og skammast svo út í þessar skoðanir sem hann er búinn að gera mér. Og lætur allar leiðréttingar sem vind um eyrun (augun?) þjóta.

Besta dæmið er sennilega umræða um kirkjuferðir barna á skólatíma. Ég tel vissulega að  trúboð eigi ekkert erindi í menntastofnanir og það sé hlutverk foreldra að fara með börn í kirkju ef þeir kjósa svo.

Ég þarf hins vegar stöðugt að sitja undir að ég vilji

  1. banna fræðslu um kristni eða trúarbrögð í skólum
  2. leggja af einhverja áratuga hefð
  3. banna börnum að fara í kirkju

Og það er alveg sama hvað ég reyni að útskýra oft að ekkert af þessu er rétt – ég fæ bara fleiri og fleiri rök gegn skoðunum sem ég hef ekki!

Æ, jú, þetta getur verið svolítið þreytandi…