Nýlega sagði vinur minn við mig að líf mitt væri eins og tóm tunna vegna þess að ég tryði ekki á guð.
Þetta er auðvitað fráleitt.. þvert á móti þarf ég ekki á einhverjum óskilgreindum, tilbúnum yfirnáttúrulegum verum til að líf mitt hafi gildi. Það er bara nokkuð fínt eins og það er – gott og gilt sjálfs sín vegna.
Mér hefur hins vegar þótt það æði nöturleg tilhugsun að geta ekki lifað góðu lífi nema hengja sig í tilbúnar verur og mögulegt framhaldslíf. Þetta hlýtur að vera skelfilegt.
Kannski minnir þetta að einhverju leyti á konuna sem keypti happdrættismiða til að vinna stóra vinninginn og byrjaði strax að skipuleggja líf sitt miðað við að vera búin að fá vinninginn. Hún ætti að vita að líkurnar eru afar litlar og hún ætti að vita að hennar bíður líklega framtíð án happdrættisvinningsins. Það er frekar ömurleg tilhugsun að þurfa að lifa lífinu treystandi á happdrættisvinning þar sem líkurnar eru hverfandi. Þó er kannski sá munurinn á konunni og þeim sem byggja líf sitt á trúnni að það er jú stundum einn sem vinnur í happdrættinu.