Straumhvörf.. trúarbrögð eða trúleysi

Posted: október 5, 2014 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég er ekki frá því að ákveðin straumhvörf séu að verða í umræðum um trúmál og trúleysi hér á landi.

Til skamms tíma höfum við trúlaus verið máluð sem sérvitringar og jafnvel „kverúlantar“ sem sitja nöldrandi út í horni og enginn þarf að taka alvarlega. Með dyggri aðstoð hlutdrægra fjölmiðla hefur verið máluð brengluð mynd af þeim sem ekki vilja hafa ríkisrekið trúfélag.

En trúleysingjar í Siðmennt og Vantrú hafa – með kannski ólíkri nálgun – opnað umræðuna, málefnalega, og bent á eitt og annað sem stenst ekki í samfélagi sem vill virða trúfrelsi/frelsi til lífsskoðana og sýna þeim mismunandi skoðunum umburðarlyndi.

Umræðan hefur stöður orðið sýnilegri og smátt og smátt hefur orðið meira og meira áberandi að það eru hvorki meðlimir Siðmenntar né Vantrúar sem eru sérvitringarnir eða „kverúlantarnir“..

Það er fjarri mér að alhæfa.. það er mikið af góðu fólki sem vill vel, bæði innan kirkjunnar og annarra trúfélaga – fólk sem hægt er að eiga málefnalegar samræður við.

Það sem hefur breyst er – mögulega í einhvers konar örvæntingu – að sífellt fleiri talsmenn kirkjunnar opinbera forneskjulegan þankagang með umræðuhefð sem varla verður kölluð annað en skítkast, útúrsnúningar og jafnvel klár ósannindi – í bland við kröfur sem jaðra við óstjórnlega heimtufrekju.

Ég sé merki þess að það hilli undir lokin á baráttu Siðmenntar og Vantrúar… það liggur við að við getum slakað á og leyft öfgamönnum í forsvari kirkjunnar að koma henni hjálparlaust úr ríkisforsjá. Þeim fjölgar stöðugt sem sjá að svona starfsemi á ekki heima í ríkisrekstri.

Ég er nú samt ekki verr innrættur en svo að ég vona virkilega að kirkjan hafi rænu á að skipta um talsmenn áður en þeir ná að valda henni meiri skaða.

Ég er að minnsta kosti sannfærður um að það er vel leysanlegt að koma starfsemi hvers kyns lífsskoðunarfélaga fyrir þannig að hver fái að hafa sína skoðun í friði og láta vera að krefjast þess að aðrir borgi brúsann. En bestu bandamenn okkar sem vilja breytingar eru öfgamennirnir í forsvari ríkiskirkjunnar.

Lokað er á athugasemdir.