Sarpur fyrir september, 2014

Wow, hvað þetta er dapurt..

Posted: september 29, 2014 in Uncategorized

Það er víst að bera í bakkafullan lækinn að skammst yfir dapri þjónustu.

Iðunn, konan mín, átti flug með Wow frá Gatwick á hádegi í dag.. ég forðast orðið að fljúga með þeim ef nokkur kostur er.

Vegabréfið hennar varð eftir á hótelinu eftir nokkur töskuskipti og umpakkanir. Þetta var tæpt en henni var sagt að innritun lyki 11:50. Við ákváðum að reyna og ég brunaði með vegabréfið með Gatwick Express (sem var ekki gefið) og var kominn 11:45. Ég hefði auðvitað ekki reynt hefði ég vitað að innritun lyki fyrr.

Þá voru starfsmenn farnir úr innritun. Okkur var vísð á eitthvert þjónustuborð. Þeir höfðu upp á starfsfólkinu sem sá um innritun, en þau voru farin ‘í pásu’ og nenntu ekki að sinna okkur.

Okkur var bent á að reyna að tala við yfirmann þeirra á flugvellinum, en þar var enginn við..

Ég þarf svo varla að taka fram að það kom ekki til greina hjá þeim að fá far daginn eftir, hvorki frítt né gegn breytingagjaldi. Fullt verð aftur, takk!

Svelgist kirkjunni á matnum?

Posted: september 10, 2014 in Stjórnmál, Trú
Efnisorð:, ,

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega áherslurnar í nýju fjárlagafrumvarpi þegar kemur að útgjöldum til kirkjunnar. Eða réttara sagt, ég á ekki til orð.

Ég get til að mynda ekki með nokkru móti skilið hvers vegna flokkur – sem í orði vill draga saman umsvif ríkissjóðs – eykur í verki framlög af almannafé til reksturs persónulegra mála eins og trúfélaga.

Það er ekki svo að það hafi staðið steinn yfir steini í útreikningum eða málflutningi kirkjunnar þar sem þeir töldu sig þurfa á „leiðréttingu“ að halda. Það hefur marg sinnis verið sýnt fram á að þeir útreikningar standast ekki.

Á sama tíma er skattur á matvæli hækkaður. Þessi hækkun kemur mest niður á barnafjölskyldum og þeim sem minnst hafa aflögu. Þetta er jú sú neysla sem hvað erfiðast er að skera niður.

Skyldi kirkjunni svelgjast á þessu?

Birtingarmynd umburðarlyndis

Posted: september 8, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Til þess að gera reynslulítill þingmaður kvartar í dag yfir því vera boðið til athafnar Siðmenntar vegna setningar þings á morgun. Hann virðist ekki átta sig á því að þetta hefur verið í boði í nokkuð mörg ár – og margir þingmenn hafa mætt. En það er kannski önnur saga.

Þingmaðurinn fullyrðir út í bláinn – eða að minnsta kosti án þess að nefna nokkuð máli sínu til stuðnings – að Siðmennt eyði mestum tíma sínum í að berja á kristni og kirkju.

Varla á þingmaðurinn við að það að bjóða fólki valkost við þingsetningu sé merki um skort á umburðarlyndi. Það væri jú álíka vitlaust og að segja það skort á umburðarlyndi að vilja leyfa frjálslegri klæðnað í þinginu. Það má vera að þingmaður hafi þá skoðun á þingmenn eigi að mæta til guðsþjónustu trúarbragða sem þeir standa utan við og að þingmenn eigi að klæðast samkvæmt áratuga hefðum hvort sem þeim líkar betur eða verr. En það er aldrei skortur á umburðarlyndi að umbera skoðanir og viðhorf annarra.

Hvað á hann þá við með þessari fráleitu fullyrðingu? Hann nefnir jú ekkert annað þannig að kannski finnst honum það skortur á umburðarlyndi að hafa önnur viðhorf en hann sjálfur.

Enda má segja þetta geðvonskukast þingmannsins ágætt dæmi um lítið umburðarlyndi gagnvart viðhorfum annarra.

Þannig að við erum þó sammála um eitt.

Birtingarmynd umburðarlyndis er greinilega með ýmsum hætti.

Einhver undarlegasta þversögn íslenskra stjórnmála er ákafi Sjálfstæðisflokksins til að auka útgjöld ríkissjóðs þegar kemur að ríkiskirkjunni.

Ef marka má fréttir þá er innanríkisráðherra að fara að semja við ríkiskirkjuna um talsverða hækkun á framlögum ríkissjóðs.

Þetta er einhverra hluta vegna kallað „leiðrétting“ – svona eins og gengið hafi verið á einhvern rétt kirkjunnar. Kirkjan fær nú þegar stærri hluta útgjalda ríkissjóðs en oft áður.

En sem betur fer er til örugg leið til að vinna gegn þessari aukningu útgjalda ríkissjóðs.

Þeir sem enn eru skráðir meðlimir ríkiskirkjunnar geta einfaldlega farið á vef þjóðskrár.

Ég bauð mig fram til Alþingis fyrir hönd Sólskinsflokksins 1979. Okkar aðal stefnumál var að breyta veðrinu, ma. með því að setja veðurfræðinga á bónus þannig að þeir fengju einungis greitt fyrir góðviðrisdaga. Fleiri stefnumál voru á þessum nótum.

Þetta var satt best að segja ekki í fullri alvöru.

En mér verður hugsað til framboðsins þegar allir eru að safna vinsældum með því að tala um að banna verðtrygginguna. Verðtryggingin er ekki vandamál, verðbólgan er vandamál. Ef engin væri verðbólgan þá skipti verðtryggingin engu máli. Vísitalan mælir verðbólgu (þó að vísu megi deila um hvað á að taka með í þeim útreikningum) og staða verðtryggðra lána er svo reiknuð út frá vísitölunni.

Þegar ég heyri fólk tala um að banna verðtrygginguna þá finnst mér það álíka gáfulegt og að banna hitamæla eða vísitölu. Þetta hljómar vel – sérstaklega fyrir fólk sem kann ekki að reikna – en þetta er nákvæmlega það.. eitthvað sem bara hljómar vel.