Birtingarmynd umburðarlyndis

Posted: september 8, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Til þess að gera reynslulítill þingmaður kvartar í dag yfir því vera boðið til athafnar Siðmenntar vegna setningar þings á morgun. Hann virðist ekki átta sig á því að þetta hefur verið í boði í nokkuð mörg ár – og margir þingmenn hafa mætt. En það er kannski önnur saga.

Þingmaðurinn fullyrðir út í bláinn – eða að minnsta kosti án þess að nefna nokkuð máli sínu til stuðnings – að Siðmennt eyði mestum tíma sínum í að berja á kristni og kirkju.

Varla á þingmaðurinn við að það að bjóða fólki valkost við þingsetningu sé merki um skort á umburðarlyndi. Það væri jú álíka vitlaust og að segja það skort á umburðarlyndi að vilja leyfa frjálslegri klæðnað í þinginu. Það má vera að þingmaður hafi þá skoðun á þingmenn eigi að mæta til guðsþjónustu trúarbragða sem þeir standa utan við og að þingmenn eigi að klæðast samkvæmt áratuga hefðum hvort sem þeim líkar betur eða verr. En það er aldrei skortur á umburðarlyndi að umbera skoðanir og viðhorf annarra.

Hvað á hann þá við með þessari fráleitu fullyrðingu? Hann nefnir jú ekkert annað þannig að kannski finnst honum það skortur á umburðarlyndi að hafa önnur viðhorf en hann sjálfur.

Enda má segja þetta geðvonskukast þingmannsins ágætt dæmi um lítið umburðarlyndi gagnvart viðhorfum annarra.

Þannig að við erum þó sammála um eitt.

Birtingarmynd umburðarlyndis er greinilega með ýmsum hætti.

Athugasemdir
  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Hver er þingmaðurinn?

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Já, grunaði ekki Gvend. Mesti afturhaldssauður íhaldsins og „þorpsfífl“ Alþingis.