Mitt lið í enska boltanum er Derby County – og hefur verið frá 1970.
Ég er samt laumu Arsenal aðdáandi, svona á sama hátt og ég er Barcelona aðdáandi, að minnsta kosti á meðan Derby er í næst efstu deild. Arsenal og Barcelona spila skemmtilegan fótbolta og eiginlega myndi ég hafa miklu minni áhuga á fótbolta, amk. eyða talsvert minni tíma í að horfa, ef ekki væru þessu tvö lið.
Það þarf ekki að fjölyrða um yfirburði og velgengni Barcelona.
En ég á eiginlega ekki orð yfir viðbrögðum svokallaðra „stuðningsmanna“ Arsenal síðustu árin – þau ganga að mestu út á að „níða skóinn af“ Arsene Wenger, að hans tími sé löngu kominn og þar fram eftir götum. Svona þegar þeir eru ekki að bölsótast yfir einstaka leikmönnum. Maðurinn hefur stýrt liðinu á mesta blómaskeiði í sögu félagsins, en öllum er sama. Ekki bætir úr að bæði innlendir og erlendir sparkspekingar hneykslast svo á árangri liðsins eins og biluð plata.
Jú, þeir hafa ekki unnið bikar siíðustu ár… en þeir hafa verið í toppbaráttunni árum saman, hafa náð langt í meistaradeildinni ár eftir ár, spila besta fótboltann á Englandi, náðu þeim einstaka árangri að fara taplausir í gegnum ensku deildina, spiluðu í úrslitum meistaradeildarinnar – allt án þess að taka þátt í bölvuðu ruglingu sem er í gangi varðandi launagreiðslur og leikmannakaup.
En það er skammast yfir að þeir kaupi ekki leikmenn. Svo kaupa þeir leikmenn og þá er skammast yfir að þeir séu ekki nógu góðir. Enska deildin er einfaldlega frábrugðin öðrum og engin leið að kaupa leikmenn af einhverju öryggi, sumir ná að aðlagast, aðrir ekki, flestir þurfa tíma.
Svo er skammast yfir að leikmenn séu látnir fara og að ekki séu framlengdir samningar tímanlega. Það gleymist þó að það þarf tvo til að framlengja samning. Og það gleymist líka að ekkert félag rembist við að halda óánægðum leikmönnum sem vilja fara. Enda, til hvers?
Svo er staglast á að kaupa meira og meira. Eins og úrvals leikmenn liggi á lausu. Vasar eigenda, þó digrir séu, eru ekki botnlausir eins og vasar eigenda Real Madrid, Paris SG, Chelsea eða Manchester City. Launakröfur margra topp leikmanna eru þar fyrir utan löngu komnar út í vitleysu… eða réttara sagt langt út fyrir öll vitleysismörk. Hver væri tilgangurinn að kaupa meðalmennsku?
Arsenal á virðingu skilið fyrir að reyna að halda haus þegar kemur að verði og launum leikmanna. Það er fráleitt að halda að það breyti einhverju að fá annan mann til að stýra á meðan félagið heldur sömu stefnu. Og það er líka fráleitt að halda að þó þeir skipti um stefnu, að einhver annar myndi ná betri árangri.
Þegar nýjar reglur UEFA taka gildi standa félög eins og Arsenal miklu betur að vígi. Að minnsta kosti ef þær reglur virka.
Enda hvað fæst fyrir að kaupa allt sem hreyfist?
Real Madrid vann spænsku deildina í fyrra en hefur ekki spila til úrslita í meistaradeild síðan ég-man-ekki-hvenær – og jafnvel Google biðst vægðar.
Manchester City vann ensku deildina í fyrra en hefur setið eftir í meistaradeildinni ár eftir ár, hafa jafnvel ekki náð inn í forkeppnina.
Chelsea dritar peningum í allar áttir, en endar í fimmta sæti í ensku deildinni í fyrra.
Það eru ekkert mjög mörg ár síðan „aðdáendur“ Manchester United sungu sama sönginn, Ferguson er búinn að missa þetta, kominn tími á annan mann… skyldu þeir enn vilja hafa skipt á þessum tíma?
Líkar við:
Líkar við Hleð...