Sarpur fyrir desember, 2012

Engin áramótaheit

Posted: desember 28, 2012 in Umræða

Ég hef aldrei gert áramótaheit, að minnsta kosti ekki í fullri alvöru eða svo ég muni eftir, svo ég slái nú tvo fyrirvara, enda kominn yfir fimmtugt.

Mér finnst einfaldlega engin ástæða til að taka á einhverjum vandamálum vegna þess að talan á ártalinu breytist. Ekki frekar en við mánaðarmót eða að klukkan verði 16:20.

Hins vegar er ágæt hugmynd að skoða öðru hverju hvað má fara betur og jafnvel gera eitthvað í því sem betur má fara. Þess vegna daglega.

En ég er allt of upptekinn við að skemmta mér með fjölskyldu og vinum – njóta matar, vína og annars góðgætis – um áramótin – til að vera að hafa áhyggjur og hugsa um hvað mætti gera betur.

Jólin

Posted: desember 25, 2012 in Trú, Umræða

Ég vil nota tækifærið og senda óskir um gleðileg jól til allra, trúlausra sem trúaðra, hverrrar trúar sem þeir eru. Við höfum verið heppin með okkar jólahald og ég á ekki betri jólaósk en að sem flestir hafi það jafn gott og við.

Þessi jól leitar hugurinn reyndar til tveggja vina sem eru að berjast við erfiða sjúkdóma.

En svona ef einhver skyldi hafa áhuga þá eru háðirnir orðin frekar hefðbundin hjá okkur.. fyrst á dagskrá er laufabrauðsgerð með fjölskyldunni, einhvern sunnudaginn í desember. Minn hluti fjölskyldunnar hittist svo í skötu / saltfiskveislu á Þorláksmessu, stundum röltum við í bæinn eftir átið, nú eða þá að við drífum okkur heim til að klára síðustu verkin. Í öllu falli klárum við að pakka inn (eða reynum) og sjóðum hangikjöt, oftar en ekki eitthvað fram eftir nóttu.

Aðfangadagur fer gjarnan í síðustu verkefnin en hefur verið rólegri síðustu ár.. byrjum á graut í hádeginu, þar sem sama sagan (af Jonna og bjórnum) er endurtekin af staðfastri reglusemi.

Aðalrétturinn um kvöldið er svo kalkúnn, stundum hnetusteik fyrir Jonna. Graflax er gjarnan í forrétt og ísterta í eftirrétt. Fjórða hvert ár koma tengdaforeldrarnir og eru með okkur. Við sleppum messum, bæði kirkjuferðum, í útvarpi og sjónvarpi. En spilum gjarnan eftir að hafa gefið okkur góðan tíma í að opna jólapakka.

Jóladagur byrjar helst á bók og brauði frá Öggu systur minni, en þegar líður á daginn er jólaboð fyrir minn hluta fjölskyldunnar. Á annan í jólum er svo jólaboð með fjölskyldu Iðunnar.

Milli jóla og nýárs höfum við reynt að halda skákmót, þó það hafi reyndar dottið niður síðustu árin en Bridgemótið daginn fyrir gamlársdag hefur verið haldið nokkuð reglulega í tæp tuttugu ár.

Gamlársdagskvöld höfum við svo byrjað með tengdaforeldrunum, stundum koma fleiri systkini Iðunnar og síðustu árin hafa Hafsteinn, Jóna og börn verið með okkur. Lengi vel fylgdi almennilegt partý fram eftir nóttu, en síðustu ár hafa verið frekar róleg.

Í stuttu máli, við höfum verið mjög heppin með þennan tíma og vonandi verður svo áfram.

Það er bara svo gaman…

Posted: desember 21, 2012 in Trú, Umræða

þegar [setjið inn neikvætt hugtak um gáfnafar fólks að eigin vali – ég er of kurteis til að segja beint út það sem ég er að hugsa] hefur rangt fyrir sér.

Þegar fólk þykist hafa höndlað sannleikann með því að túlka, toga og teygja, misskilja og snúa á hvolf brot úr fornum ritum (eða nýjum, nóg er af kjaftæði á vefnu) – grípa til handargangs hálfkveðnar vísur, tætingslegar upplýsingar og takmarkaðar staðreyndir. Allt notað til að höndla stóra sannleikann.

Þetta gildir um alls kyns hindurvitni sem byggð eru á því sem skrifað var af ýmist fáfræði fyrir alda og árþúsunda eða einfaldlega ekki ætlað að ná lengra en það raunverulega nær.

Og eins og það sé ekki nógu slæmt heldur fylgir þessum „stórasannleiksupplifunum“ knýjandi þörf til að valta yfir allt og alla og sannfæra bæði sína nánustu og helst alla heimsbyggðina um sannleikann.

Hjákátlegum tilraunum þessara kenningasmiða má líkja við að ætla sér að byggja heimsmynd út frá þremur veðruðum og skemmdum púslbitum af þúsund. Ímyndunaraflið fyllir svo út í myndina.

Já, ég veit að ég er að bera í bakkafullan lækinn („like-inn“) af bloggum, Facebook athugasemdum og kaffistofuspjalli.

Þetta er bara svo gaman.

Prestur með golfdellu

Posted: desember 20, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, , ,

Einn prestur ríkiskirkjunnar ber rekstur kirkjunnar nánast daglega saman við rekstur golfklúbbs, amk. þessa dagana.

Skoðum þetta aðeins betur.

Þeir einir eru meðlimir í goflklúbbi sem það vilja. Þeir einir greiða félagsgjöld til golfklúbbsins sem eru meðlimir. Golfklúbburinn ákveður sjálfur félagsgjöldin. Golfklúbburinn innheimtir sjálfur félagsgjöldin.  Skattfé almennings er ekki notað til að greiða laun starfsmanna golfklúbbsins. Og byrjunarlaun starfsmanna golfklúbbsins eru ekki margföld byrjunarlaun sambærilegra starfa.

Þessi samanburður prests er sem sagt tóm della. Það má segja að prestur sé með golf-dellu.

Eigum við svo nokkuð að fara út í hvað það er miklu skemmtilegra að spila golf og hversu miklu betra það er fyrir heilsuna?

Að spá heimsendi

Posted: desember 19, 2012 in Umræða

er undarleg tómstundaiðja.

Ef þú hefur rétt fyrir þér… þá verða auðvitað allir dauðir og enga viðurkenningu að fá fyrir að hafa haft rétt fyrir sér.

Ef þú hefur rangt fyrir þér… þá ertu búinn að gera þig að algjöru fífli.

 

Prestur ríkiskirkjunnar skrifar pistil í Fréttablaðið í dag.

Þar býsnast hann yfir því að borga 1.100 krónur í sóknargjald og kirkjan fái ekki nema 700 krónur af því í sinn hlut. Látum vera hvort tölurnar eru réttar, en prestur talar  um „hæng“ á þessari framkvæmd.

Prestur gleymir að nefna þann „hæng“ á málflutningi sínum að ég þarf líka að borga þessar 1.100 krónur í sama sjóð þó ég tilheyri engu trúfélagi.

Prestur ber þetta svo saman við félagsgjöld í golfklúbbi. Sá „hængur“ er á þeim samanburði að þeir greiða einir félagsgjöld til golfklúbbsins sem vilja vera meðlimir, golfklúbburinn ákveður félagsgjöldin og innheimtir þau félagsgjöld sjálfur.

Þá má ekki gleyma þeim „hæng“ á málflutningi kirkjunnar að í kosningabaráttunni fyrir stjórnarskrárkosninguna staglaðist kirkjan á því að það réttlætti stöðu hennar og alla milljarðana úr ríkissjóði að hún hefði svo miklar skyldur og að allir gætu nýtt sér aðstöðu kirkjunnar án tillits til trúfélags. Biskup var reyndar eftirminnilega rekin á gat með fákunnáttu um samþykktir kirkjunnar þegar hún vissi ekki að kirkjan takmarkar þennan aðgang við að fólk sé í þjóðkirkjunni.

Svo óheppilega vill til að grein prestsins um hænginn birtist einmitt á sama tíma og hann sjálfur neitar fólki um aðgang að húsnæði kirkjunnar vegna þess að það vill ekki kaupa trúarlega þjónustu kirkjunnar. Þetta er nú ansi mikill „hængur“ á því að kirkjan sé sjálfri sér samkvæm.

Aðalatriðið er að þetta staðfestir að hér er ekki um nein félagsgjöld að ræða. Þetta er einfaldlega almennur skattur sem rennur í sameiginlegan sjóð. Og síðan greiðir ríkið kirkjunna fé til reksturs úr þessum sameiginlega sjóði. Svo einfalt er þetta nú.

Spilavítahættan

Posted: desember 18, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Löggjöfin um fjárhættuspil og spila“víti“ er frekar ruglingsleg og stenst enga skoðun.

Að baki liggur einhver forræðishyggja, þeas. að hafa vit fyrir þeim sem mögulega fara illa á því að spila fjárhættuspil. „Rónarnir“ (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu) eru teknir sem dæmi og ákveðið að vernda þá fyrir sjálfum sér. Það gleymist að þeir eru fáir og þeir finna sér alltaf leiðir. Þess vegna bitnar löggjöf og aðgerðir lögreglu á þeim fjölmörgu sem geta haft gaman af því að spila stöku sinnum fyrir litlar upphæðir. Mér finnst til dæmis gaman að detta inn í Casino erlendis, spila fyrir litla ákveðna upphæð og láta þar við sitja. Það þarf enginn að hafa vit fyrir mér að þessu leyti.

Hitt er að ýmis konar fjárhættuspil eru leyfð. Lottó, happdrætti, getraunir, skafmiðar, spilakassar og þar fram eftir götunum er allt saman löglegt. Sem betur fer. Sama gildir um ýmis konar íþróttamót og leikjamót þar sem þátttakendur greiða þátttökugjald og sigurvegarar fara heim með vinninga, ýmist í formi bikara, verðlaunapeninga, vara og/eða peninga.

Þetta er jú eitthvað sem allir vita og það hefur verið þegjandi samkomulag um að láta kyrrt liggja. Til hvers að eyða dýrmætum mannafla lögreglu í að eltast við ætluð brot á ruglingslegri löggjöf? Lögreglan hlýtur að hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að eltast við brot sem engan skaða. Sérstaklega í ljósi þess að aðgerðir gegn fjárhættuspilum hafa engin áhrif á þá sem löggjöfinni er ætlað að vernda fyrir sjálfum sér.

Mitt lið í enska boltanum er Derby County – og hefur verið frá 1970.

Ég er samt laumu Arsenal aðdáandi, svona á sama hátt og ég er Barcelona aðdáandi, að minnsta kosti á meðan Derby er í næst efstu deild. Arsenal og Barcelona spila skemmtilegan fótbolta og eiginlega myndi ég hafa miklu minni áhuga á fótbolta, amk. eyða talsvert minni tíma í að horfa, ef ekki væru þessu tvö lið.

Það þarf ekki að fjölyrða um yfirburði og velgengni Barcelona.

En ég á eiginlega ekki orð yfir viðbrögðum svokallaðra „stuðningsmanna“ Arsenal síðustu árin – þau ganga að mestu út á að „níða skóinn af“ Arsene Wenger, að hans tími sé löngu kominn og þar fram eftir götum. Svona þegar þeir eru ekki að bölsótast yfir einstaka leikmönnum. Maðurinn hefur stýrt liðinu á mesta blómaskeiði í sögu félagsins, en öllum er sama. Ekki bætir úr að bæði innlendir og erlendir sparkspekingar hneykslast svo á árangri liðsins eins og biluð plata.

Jú, þeir hafa ekki unnið bikar siíðustu ár… en þeir hafa verið í toppbaráttunni árum saman, hafa náð langt í meistaradeildinni ár eftir ár, spila besta fótboltann á Englandi, náðu þeim einstaka árangri að fara taplausir í gegnum ensku deildina, spiluðu í úrslitum meistaradeildarinnar – allt án þess að taka þátt í bölvuðu ruglingu sem er í gangi varðandi launagreiðslur og leikmannakaup.

En það er skammast yfir að þeir kaupi ekki leikmenn. Svo kaupa þeir leikmenn og þá er skammast yfir að þeir séu ekki nógu góðir. Enska deildin er einfaldlega frábrugðin öðrum og engin leið að kaupa leikmenn af einhverju öryggi, sumir ná að aðlagast, aðrir ekki, flestir þurfa tíma.

Svo er skammast yfir að leikmenn séu látnir fara og að ekki séu framlengdir samningar tímanlega. Það gleymist þó að það þarf tvo til að framlengja samning. Og það gleymist líka að ekkert félag rembist við að halda óánægðum leikmönnum sem vilja fara. Enda, til hvers?

Svo er staglast á að kaupa meira og meira. Eins og úrvals leikmenn liggi á lausu. Vasar eigenda, þó digrir séu, eru ekki botnlausir eins og vasar eigenda Real Madrid, Paris SG, Chelsea eða Manchester City. Launakröfur margra topp leikmanna eru þar fyrir utan löngu komnar út í vitleysu… eða réttara sagt langt út fyrir öll vitleysismörk. Hver væri tilgangurinn að kaupa meðalmennsku?

Arsenal á virðingu skilið fyrir að reyna að halda haus þegar kemur að verði og launum leikmanna. Það er fráleitt að halda að það breyti einhverju að fá annan mann til að stýra á meðan félagið heldur sömu stefnu. Og það er líka fráleitt að halda að þó þeir skipti um stefnu, að einhver annar myndi ná betri árangri.

Þegar nýjar reglur UEFA taka gildi standa félög eins og Arsenal miklu betur að vígi. Að minnsta kosti ef þær reglur virka.

Enda hvað fæst fyrir að kaupa allt sem hreyfist?

Real Madrid vann spænsku deildina í fyrra en hefur ekki spila til úrslita í meistaradeild síðan ég-man-ekki-hvenær – og jafnvel Google biðst vægðar.

Manchester City vann ensku deildina í fyrra en hefur setið eftir í meistaradeildinni ár eftir ár, hafa jafnvel ekki náð inn í forkeppnina.

Chelsea dritar peningum í allar áttir, en endar í fimmta sæti í ensku deildinni í fyrra.

Það eru ekkert mjög mörg ár síðan „aðdáendur“ Manchester United sungu sama sönginn, Ferguson er búinn að missa þetta, kominn tími á annan mann… skyldu þeir enn vilja hafa skipt á þessum tíma?

Íslenska þjóðkirkjan hefur nú bjargað fleiri þúsundum barna á þessari öld frá þeirri vá að komast ekki í kirkju.

Rannsóknarnefnd kirkjunnar komst að því fyrir síðustu aldamót að fjöldi barna var bara ekkert að fara í kirkju. Hrint var af stað öflugu átaki til að leysa þennan bráðavanda íslenskra barna. Átakið fólst í því að mæta í skóla og leikskóla og draga börnin í kirkju.

Foreldrar barnanna eru kirkjunni ævarandi þakklát.

Ánægður og trúrækinn faðir sagði við Baksýnisspegilinn: „Við vissum jú að það væri eitthvað til sem kallaðist kirkja og þangað væri hægt að sækja eitthvað sem hét messa. Við bara rötuðum ekki og þess vegna fóru börnin á mis við þennan mikilvæg þátt fyrstu ár ævinnar. Þökk sé kirkjunni þá hefur nú verið messað yfir börnunum okkar“.

Móðir nokkurra barna var klökk af þakklæti: „Guði sé lof að kirkjan greip inn í og náði í börnin. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að við foreldrarnir förum að hafa fyrir því að mæta með börnin í messu“.

Aðspurð um gagnrýni á þessar ferðir stóð ekki á svari.. „Já, það er ekki að þessu trúlausa pakki að spyrja. Ætlast þetta lið kannski til að við séum að sinna börnunum okkar? Eins og við höfum ekkert betra við tímann að gera? Þau geta bara sagt börnunum sínum að halda fyrir eyrun. Svo er sálfræðiþjónusta vegna eineltis orðin það góð að það gerir sko ekkert til þó einu og einu barni sé strítt“.

Vopn eða fólk?

Posted: desember 15, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Við erum aftur minnt óþægilega á hrikalegar afleiðingar þess hálfvitaháttar að hafa morðvopn aðgengileg fyrir nánast hvern sem er.

„Byssur drepa, ekki fólk“ er klisja sem margir endurtaka og halda að það þýði að það sé allt í lagi að hafa nánast opið aðgengi að byssum, því fólkið sé vandamálið ekki byssurnar. Þetta er svo sem rétt svo langt sem það nær, en það nær bara mjög stutt. Það er lykilatriði að bilaður einstaklingur geti ekki auðveldlega náð sér í vopn til að framkvæma voðaverk.

Það hanga margir á einhverju ákvæðu bandarísku stjórnarskrárinnar sem þeir túlka þannig að öllum sé frjálst að bera vopn sér til varnar. Sennilega er þetta rétt túlkun. Það sem aftur er galið er að menn skuli líta á þetta sem svo heilagt rit að engu megi breyta og ekkert betrumbæta í ljósi sögunnar og að fenginni reynslu. Bandaríska stjórnarskráin er að mörgu leyti ágætis plagg, hefur reyndar verið breytt hátt í þrjátíu sinnum, en að líta svo á að hver einasta setning hafi verið óskeikul og eigi við um alla eilífð er út í hött. Mig grunar meira að segja að þeir sem stjórnarskrána skrifuðu á sínum tíma væru löngu búnir að breyta þessu væru þeir enn á lífi. Sú hugsun að verja rétt bilaðra einstaklinga til fjöldamorða hefur varla verið tilgangur þeirra, hvað þá að það hafi samræmst þeirra hugsjónum.

Mér varð oft hugsað til þessa frasa þegar sömu stjórnvöld og kyrjuðu þennan söng réðust til atlögu við harðstjóra vegna ætlaðra gereyðingarvopna. Samkvæmt þeirra eigin (hunda)lógík þá eru gereyðingarvopn ekki hættuleg, bara leiðtogar sem eru tilbúnir til að nota þau.

PS. Svona í ljósi athugasemda. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé eina skýringin á sí endurteknum fjöldamorðum í Bandaríkjunum. Það hvarflar ekki að mér að það sé til einhver töfralausn. Og ég er heldur ekki að mæla með yfirdrifinni forsjárhyggju. En á meðan nánast hver sem er getur pantað öflug morðvopn hjá „póstverslun“, svarti markaðurinn blómstrar og litlar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá vopnin… þá getum við búist við að svona harmleikur endurtaki sig.