Spilavítahættan

Posted: desember 18, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Löggjöfin um fjárhættuspil og spila“víti“ er frekar ruglingsleg og stenst enga skoðun.

Að baki liggur einhver forræðishyggja, þeas. að hafa vit fyrir þeim sem mögulega fara illa á því að spila fjárhættuspil. „Rónarnir“ (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu) eru teknir sem dæmi og ákveðið að vernda þá fyrir sjálfum sér. Það gleymist að þeir eru fáir og þeir finna sér alltaf leiðir. Þess vegna bitnar löggjöf og aðgerðir lögreglu á þeim fjölmörgu sem geta haft gaman af því að spila stöku sinnum fyrir litlar upphæðir. Mér finnst til dæmis gaman að detta inn í Casino erlendis, spila fyrir litla ákveðna upphæð og láta þar við sitja. Það þarf enginn að hafa vit fyrir mér að þessu leyti.

Hitt er að ýmis konar fjárhættuspil eru leyfð. Lottó, happdrætti, getraunir, skafmiðar, spilakassar og þar fram eftir götunum er allt saman löglegt. Sem betur fer. Sama gildir um ýmis konar íþróttamót og leikjamót þar sem þátttakendur greiða þátttökugjald og sigurvegarar fara heim með vinninga, ýmist í formi bikara, verðlaunapeninga, vara og/eða peninga.

Þetta er jú eitthvað sem allir vita og það hefur verið þegjandi samkomulag um að láta kyrrt liggja. Til hvers að eyða dýrmætum mannafla lögreglu í að eltast við ætluð brot á ruglingslegri löggjöf? Lögreglan hlýtur að hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að eltast við brot sem engan skaða. Sérstaklega í ljósi þess að aðgerðir gegn fjárhættuspilum hafa engin áhrif á þá sem löggjöfinni er ætlað að vernda fyrir sjálfum sér.

Lokað er á athugasemdir.