Sarpur fyrir janúar, 2020

Ég skal játa að ég er orðinn frekar þreyttur á því að heyra íþróttafréttamenn og „sparkspekinga“ bölsótast út í tæknivædda aðstoð við dómgæslu í knattspyrnu. Og aðdáendur eftir því hvort liðið þeirra hefur „grætt“ á aðstoðinni eða ekki.

Ég segi ekki „það besta sem hefur komið fyrir fótboltann“ vegna þess að það eru enn talsverðir hnökrar við framkvæmdina. En það slípast til. Þetta tekur oftast of langan tíma. Og það er enn verið að elta vafaatriði og smáatriði. Um leið og búið er að takmarka aðstoðina við að grípa augljós og stór mistök – og um leið og hætt er að eyða meiri tíma í þetta en dómarar hafa notað við að spjalla við aðstoðardómara – þá erum við í góðum málum.

Það gleymist nefnilega í allri umræðunni um endalaus smáatriði hvað þetta er að breyta miklu. Til hins betra.

Leikaraskapur og dýfur eru að hverfa. Sama gildir um lúmsk brot sem dómari á ekki alltaf tök á að sjá.

Þetta skilar miklu skemmtilegri fótbolta og er að hreinsa ákveðinn sóðaskap úr leiknum sem hefur verið þessari íþrótt til skammar og fælt frá. Enda í sjálfu sér fáránlegt að horfa á íþrótt þar sem leikmenn eru að kasta sér niður vælandi undan engu í tilraun til að plata dómara og varnarmenn hafi komist upp með peysutog og fleiri brögð inni í vítateig í skjóli frá sjónlínu dómara.