Archive for the ‘Fótbolti’ Category

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Nýtt fyrirkomulag efstu deildar Íslandsmóts karla í fótbolta hefur heldur betur virkað illa á mig. Mér fannst þetta strax í fyrstu fráleitt og ekki hefur álitið aukist með reynslunni fyrsta árið.

Fyrir minn smekk eru það verðugir Íslandsmeistarar sem vinna keppni í efstu deild þar sem allir mæta öllum á jafnréttisgrunni, heima og heiman.

Stærsta vandamálið er að það er innbyggð ósanngirni í þessu fyrirkomulagi.

Það hjálpar ekki að þetta fyrirkomulag hefur bætt við ótölulegum fjölda fullkomlega tilgangslausra leikja – það var svo sem ekkert endilega fyrirséð, en mun líklegra en með betra og sanngjarnara fyrirkomulag.

Besta (eða auðvitað versta) dæmið um ósanngirni núna er að FH, sem var í efra fallsætinu, fékk heimaleik á móti Leikni sem var í síðasta örugga sæti.. lykilleikur um sæti í deildinni.

Að einhverju leyti snýst þessi breyting um að fjölda leikjum í efstu deild. En ég get ekki með nokkru móti séð hvers vegna það er eftirsóknarvert að fjölgun tilgangslausum leikjum þar sem hvorugt liðið hefur að nokkru að keppa.

Bæði handbolti og körfubolti fóru á sínum tíma þá leið að setja einhverja úrslitakeppni eftir venjulega deildakeppni – þar sem liðið sem lauk venjulegri deildakeppni í áttunda sæti gat orðið Íslandsmeistari. Jú, jú, það varð til lokakeppni með tilheyrandi “spennu”, en fljótlega þá varð sjálf deildakeppnin að (nánast) tilgangslausu æfinga- og/eða upphitunarmóti.

Ég veit að mörgum finnst „spennan“ mikils virði, en fyrir minn smekk, ef ég er að leita að spennu er einfaldara að fara í bíó.

Ég geri ekki lítið úr því að það er erfitt að hafa fyrirkomulag á Íslandsmóti án þess að margir „dauðir“ leikir komi í loka umferðunum – sérstaklega þegar sem mikill munur er á getu liðanna.

Ég er á því að eina leiðin til að fækka tilgangslausum leikjum sé að hafa færri lið í efstu deild, átta, tvö falla og vonandi heldur Ísland fjórum sætum í Evrópukeppnum – í boði Blika og Víkinga (og kannski KR) eftir slaka frammistöðu íslenskra liða nokkur ár þar á undan.

Við erum einfaldlega ekki nægilega mörg til að halda úti fleiri en átta (eða mögulega tíu) liðum á efsta stigi… að hafa tólf lið í efstu deild mörg þeirra þunnskipuð og reyna að bæta sér upp takmarkað úrval leikmanna með aðkeyptum (ég segi ekki meðaljónum, en) leikmönnum sem kosta sitt og bæta litlu við íslenska fótbolta.

Átta lið, fjórar umferðir, allir við alla, heima og heiman, tvö lið falla, fjögur fá sæti í Evrópukeppni.. ég hef ekki heyrt betri leið til að sem flestir leikir verði þannig að bæði lið hafi að einhverju að keppa. Og þetta fyrirkomulag skilar 28 umferðum.

Ég veit að þetta verður ekki vinsælt hjá liðum sem eru núna í neðri hluta deildarinnar, en ég er sannfærður um að til lengri tíma litið skilar þetta betri og sterkari liðum. Er það virkilega svo mikils virði að hanga í efstu deild með fámennan leikmannahóp, talsverðan kostnað af erlendum leikmönnum og vera í fallbaráttu ár eftir ár eða í einhverju jó-jó-i á milli deilda? Er ekki betra að fá tíma til að byggja upp og koma upp sterkum hópi uppalinna leikmanna?

Blikar 2021

Posted: september 26, 2021 in Íþróttir, Fótbolti
Efnisorð:

Smá vangaveltur eftir fótboltasumarið í efstu deild karla.

Blikum var spáð sigri, en byrjuðu mótið illa og það varð dýrkeypt að leikslokum.

Það er svo við hæfi að óska Víkingum til hamingju með titilinn, liðið kláraði sína leiki, leiki sem hefðu getað dottið á hvorn veginn sem var – nokkuð sem einkennir meistara – „stöðugleiki“ er kannski besta lýsingin, verst að það er komið hálfgert „óorð“ á það orð.

En Blikar náðu sér á strik, spiluðu frábæran fótbolta í flestum leikjum eftir slæma byrjun og voru nálægt því að landa titlinum með góðum úrslitum þegar leið á mót. Það gekk ekki eftir, eins og gengur, en svona þegar „svekkelsi“ næst síðustu umferðar er frá, þá er ég mjög ánægður með liðið.

Ekki spillti mjög góður árangur í Evrópukeppni og næstum því tímamóta árangur.

Það að liðið spilar frábæran fótbolta skiptir mig satt best að segja meira máli en titlar.. þeir koma ef haldið er áfram á sömu braut. Ekki myndi ég nenna að halda með liði sem safnar titlum með því að spila leiðinlegan bolta. [þessu er ekki beint til Víkinga, heldur almenn vangavelta um meistara síðustu áratuga, hér og erlendis]

Ég held reyndar að hefði liðið unnið mótið hefði það skilað sér í að fleiri félög myndu „sjá ljósið“ og leggja meiri áherslu á að spila góðan bolta. Og við hefðum séð enn betra mót 2022.

En þetta kemur.. liðið leiðir nauðsynlega breytingu í íslensku fótbolta, uppaldir leikmenn eru kjarninn í hópnum og fótbolti sem er eina leiðin til að spila á alþjóða vettvangi.

Líkurnar á því að ekki náist að klára Íslandsmótin í fótbolta aukast stöðugt.

Nú eru reglurnar að hluta til skýrar um hvernig á að afgreiða mót sem ekki næst að klárast. Það vantar reyndar aðeins upp á hvernig á að greina á milli liða sem eru með jafnmörg stig.

Væntanlega er ekki í boði að breyta þeim héðan af.

Og auðvitað er kostur að hafa þær einfaldar.

En er ekki enn mikilvægara að hafa þær sanngjarnar?

Það er nefnilega þannig að liðin hafa mætt mis sterkum andstæðingum og eiga þannig mis erfiða leiki eftir. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um hvernig „auðveldu“ leikirnir myndu fara. En er ekki ákveðin sanngirni í því að reikna endanlega stöðu út frá stigum og stigum andstæðinganna? Og það er líka ákveðin sanngirni í að skoða hvaða leikir eru eftir.

Tökum dæmi og höfum það einfalt. Segjum að það séu fáar umferðir eftir, þrjú lið berjast um titilinn, eitt þeirra er með 30 stig en hin tvö með 29 stig. Annað liðanna sem er með 29 stig hefur spilað báða leikina við hin, en liðið með 30 stig á eftir að mæta öðru liðanna sem er með 29 stig.

Fyrir mér hefur liðið sem hefur lokið innbyrðis leikjunum náð besta árangrinum og líkurnar mestar á að það lið myndi að lokum vinna mótið. Þetta lið ætti þess vegna að vera meistari.

Það er hægt að nota einfalda reiknireglu til að afgreiða þetta, en látum það bíða að sinni.

Blikar

Posted: september 12, 2020 in Fótbolti
Efnisorð:

Ég hef fylgst með knattspyrnuliðum Breiðabliks í all nokkuð langan tíma. Skal játa að ég mætti vera duglegri að mæta á völlinn, sérstaklega hjá kvennaliðinu, en stundum er of þægilegt að horfa heima og eiginlega lítið annað í boði þetta árið. Í öllu falli… kvennaliðið er í góðum málum en það hafa verið nokkrar umræður um karlaliðið.

Ég var nokkuð efins um þá ákvörðun að láta fyrri þjálfara, Ágúst Gylfason, fara.. en auðvitað er ekki annað en sanngjarnt að gefa nýjum þjálfara tækifæri.

Og í stuttu máli þá er ég mjög sáttur við hvernig liðið spilar, þetta er nákvæmlega sá fótbolti sem ég hef mest gaman af, finnst að Blikar eigi að standa fyrir og ég einfaldlega nenni ekki á völlinn fyrir neitt minna.

Það hafa komið nokkrir leikir þar sem úrslitin hafa ekki verið eins og ég vonaðist eftir, liðið hefur fengið á sig allt of mikið af ódýrum mörkum og færanýtingin er vel undir lágmarkskröfum.

En… þetta er heldur betur á réttri leið, megnið af tímanum spilar liðið fyrsta flokks fótbolta og það er ekkert óeðlilegt við að það taki tíma að slípa svona til. Sumt má skrifa á reynsluleysi, annað skrifast kannski á að stundum eru leikmenn ekki á „sömu blaðsíðu“ og svo eru auðvitað nokkur atriði sem þjálfarinn lagar með tímanum.

Í smá bjartsýniskasti sé ég ekki betur en að liðið geti orðið eitt af bestu liðum í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Ætli ég hafi ekki verið ellefu – tólf ára þegar ég ákvað að halda með Derby County í enska boltanum. Sá brot af viku gömlum leik og fannst þeir spila flottan fótbolta. Það var ekki verra að þeir urðu fljótlega enskir meistarar á ævintýralegan hátt. Ég fór að fylgjast betur með, hlusta á lýsingar BBC, kaupa ensk dagblöð.. kaupa ensk fótboltablöð, Goal, Football Star og ég man ekki hvað þau hétu..

Stjóri Derby á þeim tíma var nokkuð skemmtilegur og litríkur einstaklingur, en kannski svolítið ruglaður líka, Brian Clough, an aðallega hafði hann sterkar skoðanir á því að liðin sem hann stýrði spiluðu góðan fótbolta. Hann entist svo sem ekki lengi, en Derby hélt áfram að spila vel og unnu titilinn fljótlega aftur.

Svo tóku við rýrari tímar, liðið féll, féll langt niður, komst upp og féll svo sem aftur. Síðast þegar félagið átti lið í efstu deild féll það með slakasta árangur sem nokkurt lið hefur náð í úrvalsdeild.

Ég fylgdist svo sem ekki alltaf mikið með, um tíma nánast ekki neitt, en Derby var alltaf mitt félag í enska boltanum. Jafnvel þó allt sem varð til að ég valdi þá á sínum tíma hafi fyrir löngu verið farið „á haugana“.

Af hverju heldur maður með liði í enska boltanum? Það er ekki eins og þetta skipti einhverju máli eða breyti nokkru yfirleitt.

Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta og það að lið sem leggja upp úr því að spila góðan fótbolta nái árangri verður væntanlega til þess að fleiri lið nálgist leikinn þannig. Og við fáum skemmtilegri leiki.

Breiðablik hefur verið þannig lið, en Breiðablik er líka mitt félag, þar æfði ég með félögunum þegar við vorum yngri, vann fyrir félagið í stjórn og meistaraflokksráði í nokkur ár.

En eitthvert lið á Englandi? Ef upphaflegar forsendur eru farnar út á hafsauga, hvers vegna ætti ég að halda með þeim?

Mér finnst Barcelona spila skemmtilegan bolta og þeir eru mitt lið á Spáni. Um tíma var ég veikur fyrir Arsenal, hugmyndafræði Arsene Wenger var akkúrat það sem heillaði mig.. og oftar en ekki var Arsenal að spila flottan fótbolta, og aðrir fjölskyldumeðlimir halda með Arsenal – en það erenginn Wenger lengur þar á bæ.

Guardiola er annar þjálfari sem leggur mikið upp úr fótbolta sem heillar mig, en eitthvað við eignarhaldið og umhverfið í kringum Manchester City truflar mig of mikið.

Kannski er einfaldlega hægt að horfa á fótbolta án þess að halda með liði.

Ég hef spilað fótbolta tvisvar í viku síðustu árin, ekki svo mikil átök, í öðrum hópnum er ég nú með eldri mönnum, eiginlega sá elsti af fastagestunum, en eitthvað um miðjan hóp í hinum.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvenær við getum byrjað að spila fótbolta aftur, auðvitað klæjar okkur í tærnar, en engum okkar dettur í hug annað en að fylgja leiðbeiningum og engum okkur dettur í hug að taka óþarfa áhættu.

Þannig að mér hefur dottið í hug hvort hægt sé að spila einhvers konar útgáfu af fótbolta án snertingar. Kannski hef ég að einhverju leyti spilað fótbolta þannig síðustu árin hvort sem er!

En þetta þarf ekki að vera flókið, reglurnar væru einfaldlega

  • leikmaður með bolta má ekki nálgast annan nema utan tveggja metra, hvorki andstæðing né samherja, þetta þýðir að ekki verður mögulegt að „sóla“.
  • að sama skapi getur andstæðingur þess sem er með boltann ekki „tæklað“ eða reynt að ná boltanum beint
  • það verður samt hægt að
    • skjóta á mark
    • senda milli leikmanna
    • verja skot
    • grípa inn í sendingar
  • það verður tilgreindur markvörður sem verður að halda sig innan markteigs (eða eins lítils svæðis og hægt er við markið) og aðrir leikmenn mega ekki fara inn í þann markteig
  • þá held ég að það sé fín regla að viðkomandi markvörður megi verja með höndum en ekki grípa eða halda bolta

Einu tvö vandamálin sem ég sé er þegar boltinn er laus, þá gæti reynst snúið að halda tveggja metra fjarlægð… en það er einfaldlega eitthvað sem verður að virða.

Hitt er að ef ekki er hægt að „tækla“ eða taka boltann af leikmanni þá er auðvitað sá möguleiki að leikmaður liðs haldi einfaldlega boltanum endalaust. Annað sem gæti komið upp er að tveir leikmenn sendi endalaust sín á milli.

Sennilega er þarf að bæta við að

  • leikmaður hafi í mesta lagi þrjár (fimm?) sekúndur með boltann á sama stað
  • ekki megi senda til baka á leikmann nema hann hafi fært sig um tvo metra eða meira

En hvernig er með brot?

Ætli það sé ekki einfaldast að

  • andstæðingar þess sem brjóta fjarlægðarreglur fái víti
  • ef lið brýtur reglu um að halda bolta of lengi fá andstæðingarnir aukaspyrnu

Kannski, sennilega, mjög líklega er þetta tóm vitleysa og kemur aldrei til með að ganga upp… en mig langar að prófa þegar aðstæður leyfa.

Ég skal játa að ég er orðinn frekar þreyttur á því að heyra íþróttafréttamenn og „sparkspekinga“ bölsótast út í tæknivædda aðstoð við dómgæslu í knattspyrnu. Og aðdáendur eftir því hvort liðið þeirra hefur „grætt“ á aðstoðinni eða ekki.

Ég segi ekki „það besta sem hefur komið fyrir fótboltann“ vegna þess að það eru enn talsverðir hnökrar við framkvæmdina. En það slípast til. Þetta tekur oftast of langan tíma. Og það er enn verið að elta vafaatriði og smáatriði. Um leið og búið er að takmarka aðstoðina við að grípa augljós og stór mistök – og um leið og hætt er að eyða meiri tíma í þetta en dómarar hafa notað við að spjalla við aðstoðardómara – þá erum við í góðum málum.

Það gleymist nefnilega í allri umræðunni um endalaus smáatriði hvað þetta er að breyta miklu. Til hins betra.

Leikaraskapur og dýfur eru að hverfa. Sama gildir um lúmsk brot sem dómari á ekki alltaf tök á að sjá.

Þetta skilar miklu skemmtilegri fótbolta og er að hreinsa ákveðinn sóðaskap úr leiknum sem hefur verið þessari íþrótt til skammar og fælt frá. Enda í sjálfu sér fáránlegt að horfa á íþrótt þar sem leikmenn eru að kasta sér niður vælandi undan engu í tilraun til að plata dómara og varnarmenn hafi komist upp með peysutog og fleiri brögð inni í vítateig í skjóli frá sjónlínu dómara.

Höfuðdýfur

Posted: júlí 8, 2019 in Íþróttir, Fótbolti
Efnisorð:,

Eins og ég hef gaman af að horfa á fótbolta þá finnst mér alltaf fúlt að sjá þegar leikmenn eru að svindla, spila á reglurnar, reyna að plata dómara og nýta sér reglur sem ætlaðar eru til að vernda leikmenn til að ná árangri.. í allt öðru en að spila fótbolta.

Nýlega voru settar þær reglur að dómara bæri að stöðva leik grunur væri um höfuðmeiðsli – sjálfsögð og eðlileg varrúðarráðstöfun.

En nú virðist æ algengara að leikmenn geri sér upp höfuðmeiðsli til að stöðva sókn andstæðinga og/eða tefja leik, hægja á leiknum og vinna þannig tíma.

Auðvitað eru einhver tilfelli þar sem höfuðmeiðsli eru raunveruleg og ekki ætla ég að gera lítið úr því að fara varlega og hafa allan varann á.

EN…

Ég geri ráð fyrir að þetta sé stundum viljandi blekkingarleikur í ljósi þess að

  • það hefur aukist mjög mikið eftir að reglunum var breytt að leikmenn falla og halda um höfuðið.
  • við endursýningar virðist gjarnan lítil sem engin snerting vera við höfuð leikmanns
  • það er mun algengara að leikmenn liðs sem er að reyna að verja forystu leggist niður með hendur um höfuð

Nú skilst mér að alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA sé að hugsa um nokkrar breytingar á knattspyrnureglunum að leyfa auka skiptingar vegna höfuðmeiðsla (þeas. þær skiptingar telji ekki með í fjölda leyfðra skiptinga), að leyft verði að hafa fleiri varamenn og að taka upp „hlaupandi“ skiptingar (‘rolling substitutes’), þeas. leikmaður geti farið af velli, annar komið í hans stað á meðan hann fær aðhlynningu og síðan geti hann komið inn á aftur.

Væri ekki kjörið að bæta við þeirri reglu að leikmaður sem verður fyrir höfuðmeiðslum eða þykist verða fyrir höfuðmeiðslum og fær dómara þannig til að stöðva leik, þurfi undantekningarlaust að fara af leikvelli, varamaður fái að koma inn í staðinn – en viðkomandi leikmaður fái ekki að taka frekari þátt í leiknum?