Posts Tagged ‘Breiðablik’

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Blikar 2021

Posted: september 26, 2021 in Íþróttir, Fótbolti
Efnisorð:

Smá vangaveltur eftir fótboltasumarið í efstu deild karla.

Blikum var spáð sigri, en byrjuðu mótið illa og það varð dýrkeypt að leikslokum.

Það er svo við hæfi að óska Víkingum til hamingju með titilinn, liðið kláraði sína leiki, leiki sem hefðu getað dottið á hvorn veginn sem var – nokkuð sem einkennir meistara – „stöðugleiki“ er kannski besta lýsingin, verst að það er komið hálfgert „óorð“ á það orð.

En Blikar náðu sér á strik, spiluðu frábæran fótbolta í flestum leikjum eftir slæma byrjun og voru nálægt því að landa titlinum með góðum úrslitum þegar leið á mót. Það gekk ekki eftir, eins og gengur, en svona þegar „svekkelsi“ næst síðustu umferðar er frá, þá er ég mjög ánægður með liðið.

Ekki spillti mjög góður árangur í Evrópukeppni og næstum því tímamóta árangur.

Það að liðið spilar frábæran fótbolta skiptir mig satt best að segja meira máli en titlar.. þeir koma ef haldið er áfram á sömu braut. Ekki myndi ég nenna að halda með liði sem safnar titlum með því að spila leiðinlegan bolta. [þessu er ekki beint til Víkinga, heldur almenn vangavelta um meistara síðustu áratuga, hér og erlendis]

Ég held reyndar að hefði liðið unnið mótið hefði það skilað sér í að fleiri félög myndu „sjá ljósið“ og leggja meiri áherslu á að spila góðan bolta. Og við hefðum séð enn betra mót 2022.

En þetta kemur.. liðið leiðir nauðsynlega breytingu í íslensku fótbolta, uppaldir leikmenn eru kjarninn í hópnum og fótbolti sem er eina leiðin til að spila á alþjóða vettvangi.

Blikar

Posted: september 12, 2020 in Fótbolti
Efnisorð:

Ég hef fylgst með knattspyrnuliðum Breiðabliks í all nokkuð langan tíma. Skal játa að ég mætti vera duglegri að mæta á völlinn, sérstaklega hjá kvennaliðinu, en stundum er of þægilegt að horfa heima og eiginlega lítið annað í boði þetta árið. Í öllu falli… kvennaliðið er í góðum málum en það hafa verið nokkrar umræður um karlaliðið.

Ég var nokkuð efins um þá ákvörðun að láta fyrri þjálfara, Ágúst Gylfason, fara.. en auðvitað er ekki annað en sanngjarnt að gefa nýjum þjálfara tækifæri.

Og í stuttu máli þá er ég mjög sáttur við hvernig liðið spilar, þetta er nákvæmlega sá fótbolti sem ég hef mest gaman af, finnst að Blikar eigi að standa fyrir og ég einfaldlega nenni ekki á völlinn fyrir neitt minna.

Það hafa komið nokkrir leikir þar sem úrslitin hafa ekki verið eins og ég vonaðist eftir, liðið hefur fengið á sig allt of mikið af ódýrum mörkum og færanýtingin er vel undir lágmarkskröfum.

En… þetta er heldur betur á réttri leið, megnið af tímanum spilar liðið fyrsta flokks fótbolta og það er ekkert óeðlilegt við að það taki tíma að slípa svona til. Sumt má skrifa á reynsluleysi, annað skrifast kannski á að stundum eru leikmenn ekki á „sömu blaðsíðu“ og svo eru auðvitað nokkur atriði sem þjálfarinn lagar með tímanum.

Í smá bjartsýniskasti sé ég ekki betur en að liðið geti orðið eitt af bestu liðum í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Ég verð að játa að ég varð alveg kjaftstopp þegar ég heyrði að Breiðablik hafi sagt Arnari Grétarssyni upp sem þjálfara karlaliðsins í knattspyrnu.

Nú skal setja þann fyrirvara að ég hef ekki innanbúðarupplýsingar, en svo langt sem ég veit og hef heyrt, þá var ekkert óvænt sem kom upp sem réttlætir þetta.

Þetta er því miður orðin allt of algeng aðferð í knattspyrnuheiminum, örvæntingarfull viðbrögð stjórnarmanna sem geta ekki unnið undir pressu og sjá ekki lengra fram í tímann en nokkra daga – hafa enga framtíðarsýn.

Hafi stjórnin ekki treyst Arnari til að stýra liðinu á þessu tímabili var rétti tíminn til að skipta um þjálfara eftir síðasta tímabil. En þegar þjálfari er endurráðinn þá á að þurfa meira til en tvo tapleiki til að ákvörðunin sé endurskoðuð.

Gott og vel, auðvitað getur komið upp sú staða að lítið sé annað til ráða en að skipta um þjálfara.. en það eru undantekningar, sem oftast má rekja til flumbrugangs við upphaflega ráðningu.

Ég vil ekki styðja svona hegðun og svona framkomu við starfsfólk. Ég hef sagt upp árskortinu og tek mér frí frá vellinum í sumar.

Takk Einar

Posted: júní 2, 2015 in Íþróttir
Efnisorð:, ,

Ég missti víst af síðustu karate æfingunni hjá Einari Hagen hjá Breiðabliki núna áðan.

Smá formáli..

Þegar ég kynntist Iðunni, Helga bróður hennar og vinum þeirra fyrir ríflega þrjátíu árum voru Helgi og vinir hans flestir að æfa karate. Helgi var mjög sannfærandi þegar hann var (meira að segja nokkuð oft þegar við fengum okkur í glas) að tala um hvað þetta væri skemmtilegt. Og einhvern veginn fór á bak við eyrað að ég myndi nú örugglega prófa… bara ekki alveg strax.

Fyrir nokkrum árum fann ég svo fyrir að vera orðinn jafnvel enn stirðari og máttlausari en ég hafði verið.. og var þó heldur betur stirður fyrir.

Þannig að ég fór að leita að leiðum til að veslast ekki alveg upp, fótbolti einu sinni í viku yfir veturinn var ekki nóg – og ég var nánast að kafna úr leiðindum þegar ég reyndi fyrir mér í líkamsræktarstöðvum.

Þannig að ég ákvað að láta loksins verða af að prófa karate og mætti auðvitað hjá „mínu“ félagi, þeas. Breiðablik. Og dró Iðunni með mér.

Einar Hagen var þjálfari.

Með hæfilegri blöndu af ódrepandi áhuga, húmor, endalausri þolinmæði og auðvitað góðu aðstoðarfólki náði hann að kveikja áhuga og halda okkur gangandi fyrstu árin. Jú, auðvitað hjálpaði til að við vorum heppin með aðra æfingafélaga.

Nú er þetta ekki spurning.. ég er búinn að finna eitthvað sem smell passar fyrir mig. Með fótboltanum að sjálfsögðu (sem ég ætti þó ekki að segja frá). Smá slys fyrir síðustu jól varð til að ég mætti minna en ella eftir áramót, en ég er að verða góður og mæti aftur í haust.

Sennilega er ég þó svolítið á skjön við flesta sem æfa karate. Ég hef ekki nokkurn áhuga á slagsmálum, horfi aldrei á karate (eða yfirleitt bardaga) myndir og vona að ég þurfi aldrei að nota það litla sem ég þó er búinn að læra. En það er eitthvað við samspil huga og hreyfingar sem heillar mig.. jafnvel þó heilinn detti gjarnan úr sambandi þegar líður á æfingu – eða kannski er það líkaminn misskilur skilaboðin. Þetta er einfaldlega hreyfing sem hefur einhverja merkingu.

PS. Reyndar er rétt að hafa í huga að miðað við hvernig hann hefur talað um veðrið á höfuðborgarsvæðinu þá er ekki víst að þau endist lengi fyrir austan…

Blikinn Konni kvaddur

Posted: ágúst 15, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Konráð Kristinsson er í margra hugum ímynd Blikans, þeas. stuðningsmanns Breiðabliks.

Konni, eins og hann var kallaður, lést fyrir nokkrum dögum 93 ára að aldri, og náði því að sjá félagið tryggja sér langþráða bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitla í karlaflokki. Ég fer varla á völlinn án þess að verða hugsað til Konna, nú síðast þegar ég fylgdist með frábærri frammistöðu liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Ég kynntist Konna þegar ég vann fyrir meistaraflokk fyrir um tuttugu árum. Þá var hann liðsstjóri hjá meistaraflokknum, sá um búninga og að hafa alla hluti klára í leikjum og á æfingum. Mikilvægt starf en nánast ósýnilegt öðrum en leikmönnum, þjálfurum og þeim sem unnu fyrir liðið. Konni var alltaf með allt sitt á hreinu, lagði á sig ómælda vinnu við að hafa allt klárt og til staðar þegar á þurfti að halda.

Ég man samt best eftir Konna þegar við fórum með liðinu í æfingaferð til Danmerkur 1994, við deildum þá litlum kofa og það var bæði gaman og fróðlegt að spjalla við Konna eftir æfingar.

 

Hiksti hjá Blikum

Posted: maí 12, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Blikarnir gerðu ekki beinlínis góða ferð til Eyja í Pepsí deild karla í dag.. en ekki hægt að segja að úrslitin gefi rétta mynd af leiknum.

Ég ákvað að kíkja á leikinn á næsta íþróttabar… en þegar ég mætti voru menn uppteknir af bikarafhendingu til Manchester United, mér var sagt að þeir myndu bíð eftir bikarnum, sem tók 10 mínútur… og svo liðu aðrar 25 á meðan einhverjar seremóníur og viðtöl voru í gangi. Hvernig má það vera að menn hafi frekar áhuga á syngjandi og spjallandi köllum, fjölskyldumyndum og einhverri dómsdags væmni.. en alvöru fótbolta í beinni útsendingu – á bar sem gefur sig út fyrir að vera íþróttabar.

En, að leiknum. Þetta gekk ekki.. og án þess að taka nokkuð af Eyjamönnum, sem börðust vel og voru markvissir í sínum sóknum – og greinilega mikil stemming í liðinu – þá fannst Blikahjartanu nú einhvern veginn úrslitin ekkert sérstaklega sanngjörn. Það er kannski ekki spurt að því, en ég lét aðeins fara í taugarnar á mér síendurtekið tal þulanna um að Eyjamenn vildu þetta meira. Þann rétt rúma hálfleik sem ég sá, áttu Blikar 4 skot í stöng eða slá, sennilega 15 hornspyrnur í seinni hálfleik og sóttu án afláts. Hvernig er hægt að líta á þetta sem viljaleysi.

Nú, það var svo eitt og annað að… tvö mörk í uppbótartíma sem bæð skrifast á kæruleysi er aldrei boðlegt. En verra fannst mér að sjá allt of margar háar sendingar, þess vegna upp í vindinn, hjá liði sem er best þegar það lætur boltann ganga með jörðinni. Og svo munar auðvitað um að lykilmenn voru kannski ekki að ná sér á strik.

En, kom ekki mark ársins hjá Kristni?

Álitlegt Blikalið

Posted: maí 6, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ánægjulegt að sjá góða byrjun Blika á Íslandsmóti karla, Pepsí-deildinni, í gær.

Það er auðvitað ekki hægt að lesa of mikið í einn leik, en liðið lítur óneitanlega vel út, vel skipulagt, flottur bolti, góð barátta og liðsandinn greinilega í lagi. Mótherjarnir í Þór hafa sennilega ekki séð gras síðan í fyrra, hvað þá að hafa getað æft á grasi og eiga örugglega eftir að slípast til.. og væntanlega verða erfiðari leikir þegar líður á sumarið.

Ef eitthvað er fundust mér of margar ónákvæmar sendingar þegar nálgaðist mark andstæðinganna, nokkrum sinnum hefðu menn mátt vera betur vakandi fyrir skemmtilegum hlaupum Nichlas Rohde – og svo var auðvitað óþarfi að sofna og fá á sig mark á síðustu sekúndu.