Sarpur fyrir nóvember, 2016

það er varla hægt að hlusta á umræður um stjórnarmyndun án þess að viðmælendur taki andköf, ákalli yfirnáttúrlegar verur og biðji þær um að forða þjóðinni frá þeim ósköpum að ekki sé hægt að mynda meirihlutastjórn..

Hvers vegna? Ég veit ekki, ég fæ engar skýringar nema eitthvert óljóst tal um hefðir.

Það eru nefnilega engin haldbær rök gegn minnihlutastjórnum. Þær hafa gefist mjög vel á öðrum norðurlöndum enda augljóst að stjórn sem þarf að vinna máli fylgi með rökum og taka tillit til andstæðra sjónarmiða nær líkast til betri niðurstöðu en stjórn sem veður áfram undir forystu hins óskeikula leiðtoga.

En hvaðan kemur þetta rugl um hefðir? Hvaða máli skipta þær og hvers vegna má ekki skilja þær eftir þegar betri hugmyndir koma fram.

Ég get nefnt ýmis gróf dæmi um vondar hefðir sem búið er að leggja af, sem betur fer.

En kannski má líka skoða þetta í samhengi við fótbolta.

Til skammst tíma barðist karlalandsliðið okkar í fótbolta hetjulega gegn sér flinkari leikmönnum í fótbolta. Stöku sinnum vannst leikur og nokkur eftirminnileg jafntefli náðust. Þetta hafðist (stundum) með mikilli baráttu, góðri liðsheild og oft góðu skipulagi. En oftar en ekki töpuðust leikirnir og liðið sat svona í neðsta eða næst neðsta sæti í sínum riðli í undankeppninni.

Svo kom upp kynslóð sem hafði fengið að æfa við betri aðstæður, hafði reynslu úr erlendum deildum og gat spilað fótbolta.

Hefði verið klókt að nálgast viðfangsefnið og segja, „nei, við förum ekkert að reyna að spila fótbolta, það er engin hefð fyrir því, við berjumst bara eins og ljón og sjáum hvort við endum í neðsta eða næst neðsta sæti“?

Nei, enda, sem betur fer, breytti liðið um stíl.. við eigum kannski ekki jafn mikið af fyrsta flokks leikmönnum og aðrar þjóðir – og enn þarf að bæta upp með mikilli baráttu, góðum liðsanda og skipulagi.

En, við létum hefðir lönd og leið og naðum eftirminnilegum árangri.

Hvernig væri að skipa ríkisstjórn, helst með fagfólki, mögulega með einum ráðherra frá hverjum flokki ef það þarf til – en án þess að hengja sig í einhvern málefnasamning sem þarf í öllum tilfellum að ganga upp hjá ákveðnum flokkum? Sbr. færslu um meirihlutastjórnir…

Sú ríkisstjórn væri sett á laggirnar á eftirfarandi forsendum:

  • klára að afgreiða nýja stjórnarskrá að tillögu stjórnlagaráðs, hvort minni háttar breytingar verða gerðar er aukaatriði, þjóðin hefur samþykkt þetta sem grunn að stjórnarskrá og það er óboðlegt að hunsa vilja hennar
  • leyfum þjóðinni að kjósa um áframhaldandi viðræður um ESB aðild
  • rukkum sanngjarnt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, finnum aðferðina í sameiningu, sbr. hér á eftir
  • setjum nægilegt fé í heilbrigðiskerfið, innifalið að lagfæra kjör aldraðra og öryrkja.. það er góð fjárfesting
  • … og menntakerfið, líka góð fjárfesting
  • höldum samt vel um fjármál ríkissjóðs og reynum sem best að minnka umsvif ríkisins
  • stefnum á fjármálastöðugleika, með eða án krónu (eftir niðurstöðu ESB atkvæðagreiðslu og hugsanlega samninga) og gerum lækkun vaxta mögulega, ræðum þetta líka í sameiningu
  • hættum að tala um verðtryggingu sem vandamál og einbeitum okkur að því að ná verðbólgunni niður, þá skiptir verðtryggingin engu máli
  • komum almennilega fram við flóttafólk og leysum málefni þeirra með mannúð að leiðarljósi

Leysum önnur mál og finnum leiðir til að klára sum atriðanna hér að ofan með raunverulegum samræðum, rökræðum (rökræðulýðræði) – utan flokkslína og án sérhagsmuna – sleppum klisjum og þessum ósið að gera öll málefni að keppnisgrein. Tökum umræður í þinginu með sérfræðingum og þeim sem hafa eitthvað til málanna að leggja, notum þekktar aðferðir til að komast að niðurstöðu. Ef mikill ágreiningur er samt til staðar, vísum málinu til þjóðarinnar. Notum einfaldar skoðanakannanir meðal þjóðarinnar til vísbendingar ef svo ber undir.

Þannig myndum við leysa mál eins og staðsetningu Landspítala, Reykjavíkurflugvöll, höfundarrétt, aðferðir við að innheimta auðlindagjald, hugsanlega gjaldtöku á ferðamenn, framtíðarfyrirkomulag trúmála, forgangsröðun í ríkisrekstri, skattaprósentur.. og í rauninni hvaða mál sem þarf að leysa.

Hættum að hugsa í stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu, það er alveg eins líklegt að það finnist meirihluti fyrir flestum málum meðal þingmanna, þó það séu ekki alltaf sömu þingmenn sem standa að meirihlutanum í hverju máli.

OK?

PS. ég er í símaskránni

PPS. það þarf auðvitað ekkert að vera „ég“ prívat og persónulega (þó það sé auðvitað fínasta hugmynd), heldur einhver sem getur nálgast stjórnarmyndun á nýjum forsendum.

 

Meirihlutastjórnir og eggin..

Posted: nóvember 16, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Getur hugsast að þessi ofur áhersla á meirihlutastjórnir sé einfaldlega misskilningur, hugsanavilla og/eða tímaskekkja? Að minnsta kosti ekki endilega besta leiðin til að taka sem bestar ákvarðanir.

Það virðist til að mynda ekki ganga neitt sérstaklega illa hjá þeim þjóðum sem búa við minnihlutastjórnir til lengri eða skemmri tíma.

Meirihlutastjórnir geta nefnilega valdið því að minnihluti ráði í ákveðnum málum.

Og meirihlutastjórnir geta hæglega orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar.

Tökum dæmi um egg.

Egg voru aðal þrætuepli (þrætuegg?) í kosningabaráttunni.

Segjum sem svo að það séu fjórir flokkar á þingi, þrír þeirra (td. hver með 5 þingmenn) mynda ríkisstjórn og á stefnuskrá þeirra er að allir landsmenn borði eggin sín með því að snúa breiðari hlutanum niður.. um þetta eru þeir allir sammála í þingflokkunum sem mynda ríkisstjórnina og góður meirihluti fyrir þessu á þingi.

En málið vandast þegar kemur að því að spæla eggin. Þá eru tveir flokkanna harðir á því að nauðsynlegt sé að landsmenn spæli egg sín báðum megin, en einn sannfærður um að eggin séu miklu betri ef þau eru aðeins spæld öðru megin, saman gildir um eina stjórnarandstöðuflokkinn (með sína 10 þingmenn), þeirra skoðun er augljós, það fer ekkert á milli mála að landsmenn séu mun betur settir ef þeir spæli sín egg aðeins öðru megin.

En í stjórninni er meirihluti (10 á móti 5) fyrir því að spæla egg báðum megin og þess vegna verður það hluti af stjórnarsáttmála að spæla egg báðum megin því eini flokkurinn sem er á móti gefur eftir fyrir hinum tveimur í stjórnarmyndunarviðræðunum.

En þá er minnihlutinn kominn í „meirihluta“, þeas. ræður í gegnum meirihluta, þrátt fyrir að vera í minnihluta (10 á móti 15).

Svo má auðvitað taka þetta enn lengra og skoða hvað gerist þegar ákveða þarf hvort það eigi að setja pipar í eggjahrærur. Þá er ekki eining innan flokkanna. Naumur meirihluti tveggja stjórnarflokkann vill ekki sjá pipar í eggjahrærum, allir meðlimir þriðja stjórnarflokksins og allir meðlimir stjórnarandstöðunnar geta ekki hugsað sér eggjahræru án pipars. En innan flokkanna tveggja ræður meirihluti (3 á móti 2) þannig að tveir stjórnarflokkanna krefjast piparlausra eggjahræra. En eðli meirihlutastjórna er þannig að lítill minnihluti (6 á móti 19) ræður sem meirihluti! Þetta dæmi á reyndar frekar almennt við um „flokksræði“ og „flokksaga“ sem er að mínu viti afskaplega vont fyrirbæri.

Egg eða ekki egg – hlífið mér við fimm aurabröndurum, þeir eru of augljósir – en þessi dæmi lýsa vel gallanum á meirihlutastjórnum.

Fyrir all löngu kynntist ég einstaklinga sem var sérstaklega áhugasamur um stjórnmál – og er enn, að því er ég best veit – látum nafn liggja á milli hluta enda er langt um liðið og ég er ekki alveg viss um hvort ég fari nákvæmlega rétt með.

En þessi einstaklingur skilgreindi lýðræðið sem rétt kjósenda til að skipta um stjórnvöld á nokkurra ára fresti og að meirihluti þyrfti að taka tillit til minnihlutans.

Nú heyrist mér að eitt helsta umkvörtunarefni nýlegrar ríkisstjórnar sé að minni hlutinn hafi beitt eina tækinu sem þau höfðu til að stöðva óæskileg mál, hið svokallað málþóf. Auðvitað er málþó hvimleitt, en það er neyðarúrræði ef meirihlutinn hefur bitið í sig að vaða áfram án tillits til minnihlutans.

Þess vegna eru minnihlutastjórnir kannski betri kostur, þær þurfa að taka tillit til annarra, hlusta á rök, gera málamiðlanir og ná sátt um lausn. Ég er ekki frá því að í flestum tilfellum skili það betri niðurstöðu en ef minni hlutinn veður áfram.

Og ef minnihlutastjórnir þurfa að taka tillit til annarra, þá eru þær kannski lýðræðislegri en meirihlutastjórnir.