(pssst) Guðni, má ég kannski bara fá stjórnarmyndunarumboðið??

Posted: nóvember 23, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Hvernig væri að skipa ríkisstjórn, helst með fagfólki, mögulega með einum ráðherra frá hverjum flokki ef það þarf til – en án þess að hengja sig í einhvern málefnasamning sem þarf í öllum tilfellum að ganga upp hjá ákveðnum flokkum? Sbr. færslu um meirihlutastjórnir…

Sú ríkisstjórn væri sett á laggirnar á eftirfarandi forsendum:

  • klára að afgreiða nýja stjórnarskrá að tillögu stjórnlagaráðs, hvort minni háttar breytingar verða gerðar er aukaatriði, þjóðin hefur samþykkt þetta sem grunn að stjórnarskrá og það er óboðlegt að hunsa vilja hennar
  • leyfum þjóðinni að kjósa um áframhaldandi viðræður um ESB aðild
  • rukkum sanngjarnt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, finnum aðferðina í sameiningu, sbr. hér á eftir
  • setjum nægilegt fé í heilbrigðiskerfið, innifalið að lagfæra kjör aldraðra og öryrkja.. það er góð fjárfesting
  • … og menntakerfið, líka góð fjárfesting
  • höldum samt vel um fjármál ríkissjóðs og reynum sem best að minnka umsvif ríkisins
  • stefnum á fjármálastöðugleika, með eða án krónu (eftir niðurstöðu ESB atkvæðagreiðslu og hugsanlega samninga) og gerum lækkun vaxta mögulega, ræðum þetta líka í sameiningu
  • hættum að tala um verðtryggingu sem vandamál og einbeitum okkur að því að ná verðbólgunni niður, þá skiptir verðtryggingin engu máli
  • komum almennilega fram við flóttafólk og leysum málefni þeirra með mannúð að leiðarljósi

Leysum önnur mál og finnum leiðir til að klára sum atriðanna hér að ofan með raunverulegum samræðum, rökræðum (rökræðulýðræði) – utan flokkslína og án sérhagsmuna – sleppum klisjum og þessum ósið að gera öll málefni að keppnisgrein. Tökum umræður í þinginu með sérfræðingum og þeim sem hafa eitthvað til málanna að leggja, notum þekktar aðferðir til að komast að niðurstöðu. Ef mikill ágreiningur er samt til staðar, vísum málinu til þjóðarinnar. Notum einfaldar skoðanakannanir meðal þjóðarinnar til vísbendingar ef svo ber undir.

Þannig myndum við leysa mál eins og staðsetningu Landspítala, Reykjavíkurflugvöll, höfundarrétt, aðferðir við að innheimta auðlindagjald, hugsanlega gjaldtöku á ferðamenn, framtíðarfyrirkomulag trúmála, forgangsröðun í ríkisrekstri, skattaprósentur.. og í rauninni hvaða mál sem þarf að leysa.

Hættum að hugsa í stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu, það er alveg eins líklegt að það finnist meirihluti fyrir flestum málum meðal þingmanna, þó það séu ekki alltaf sömu þingmenn sem standa að meirihlutanum í hverju máli.

OK?

PS. ég er í símaskránni

PPS. það þarf auðvitað ekkert að vera „ég“ prívat og persónulega (þó það sé auðvitað fínasta hugmynd), heldur einhver sem getur nálgast stjórnarmyndun á nýjum forsendum.

 

Lokað er á athugasemdir.