Meira ruglið um meirihlutastjórnir

Posted: nóvember 25, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

það er varla hægt að hlusta á umræður um stjórnarmyndun án þess að viðmælendur taki andköf, ákalli yfirnáttúrlegar verur og biðji þær um að forða þjóðinni frá þeim ósköpum að ekki sé hægt að mynda meirihlutastjórn..

Hvers vegna? Ég veit ekki, ég fæ engar skýringar nema eitthvert óljóst tal um hefðir.

Það eru nefnilega engin haldbær rök gegn minnihlutastjórnum. Þær hafa gefist mjög vel á öðrum norðurlöndum enda augljóst að stjórn sem þarf að vinna máli fylgi með rökum og taka tillit til andstæðra sjónarmiða nær líkast til betri niðurstöðu en stjórn sem veður áfram undir forystu hins óskeikula leiðtoga.

En hvaðan kemur þetta rugl um hefðir? Hvaða máli skipta þær og hvers vegna má ekki skilja þær eftir þegar betri hugmyndir koma fram.

Ég get nefnt ýmis gróf dæmi um vondar hefðir sem búið er að leggja af, sem betur fer.

En kannski má líka skoða þetta í samhengi við fótbolta.

Til skammst tíma barðist karlalandsliðið okkar í fótbolta hetjulega gegn sér flinkari leikmönnum í fótbolta. Stöku sinnum vannst leikur og nokkur eftirminnileg jafntefli náðust. Þetta hafðist (stundum) með mikilli baráttu, góðri liðsheild og oft góðu skipulagi. En oftar en ekki töpuðust leikirnir og liðið sat svona í neðsta eða næst neðsta sæti í sínum riðli í undankeppninni.

Svo kom upp kynslóð sem hafði fengið að æfa við betri aðstæður, hafði reynslu úr erlendum deildum og gat spilað fótbolta.

Hefði verið klókt að nálgast viðfangsefnið og segja, „nei, við förum ekkert að reyna að spila fótbolta, það er engin hefð fyrir því, við berjumst bara eins og ljón og sjáum hvort við endum í neðsta eða næst neðsta sæti“?

Nei, enda, sem betur fer, breytti liðið um stíl.. við eigum kannski ekki jafn mikið af fyrsta flokks leikmönnum og aðrar þjóðir – og enn þarf að bæta upp með mikilli baráttu, góðum liðsanda og skipulagi.

En, við létum hefðir lönd og leið og naðum eftirminnilegum árangri.

Lokað er á athugasemdir.