Sarpur fyrir mars, 2019

Enski tónlistarmaðurinn Martin Stephenson kemur til landsins í vor og heldur hljómleika á Dillon, sumardaginn fyrsta, 25. apríl.

Við fórum að hlusta á tónlistarmanninn Martin Stephenson í kringum 1990, held að það hafi nú komið ábendingar úr nokkrum áttum, kannski Orri, Kjartan…

Ætli það hafi ekki verið platan Gladsome, Humour & Blue sem varð til þess að við Iðunn féllum fyrir tónlistinni. Boat to Bolivia er fín, báðar gerðar með hljómsveitinni The Daintees. Og svo er fullt af lögum af Sweet Misdemeanour (sem hann gerði með Joe Guillen) stöðugt í spilun hjá okkur. Og svo auðvitað lög af hinum og þessum plötum. Mörg uppáhaldslög, en ætli There Comes A Time (má finna á YouTube: There Comes A Time) sé það sem hvað dettur hvað oftast inn..

Lögin hafa sem sagt stöðugt verið í spilun hjá okkur, ekki síst á ferðalögum.

Fyrir nokkrum árum vorum við á leiðinni á Einifell og Iðunn segir (eitthvað á þessa leið), sennilega undir Nancy, „rosalega á hann mikið af góðum lögum, synd að við skyldum ekki ná að sjá hann áður en hann dó“.. ég hafði ekki heyrt að hann hefði dáið, en ákváðum að ef hann væri nú enn á lífi, þá væri komið á dagskrá að sjá hann á hljómleikum.

Ég fann enga hljómleika í boði og í framhaldinu fór ég að athuga hvort það væri mögulegt að fá hann til Íslands. Jú, jú, það gekk vel og hann var til í að koma og fór ekki fram á mikið. En eftir stutta könnun kom í ljós að það voru ekkert sérstaklega margir sem þekktu tónlistina. Þeir sem þekktu voru allir mjög hrifnir. En bara ekki nógu margir. Það var fljótt ljóst að það yrði einfaldara og ódýrara að fara út og sjá hann spila en að standa í „innflutningi“.

En eitthvað gekk illa að púsla saman að sjá hann við ferðir, fann einfaldlega ekki mikið af hljómleikum. En Siggi sagði okkur síðasta haust frá því að hann væri að halda upp á 30 ára afmæli Gladsome.. og væri að spila víða á Bretlandi. Við stilltum upp smá hópferð til Edinborgar fyrir jólin, en þrátt fyrir nokkurn áhuga í upphafi, kvarnaðist fljótt úr hópnum og við fórum bara fjögur, við Iðunn, Halli Reynis & Steinunn.

Hljómleikarnir stóðu heldur betur undir væntingum og vel það. Emma Flowers spilaði á undan og kom skemmtilega á óvart, fullt af fínum lögum. Svo var platan Gladsome…  spiluð í heilu lagi og nokkur aukalög fylgdu. Það kom kannski mest á óvart hvað hann var að njóta þess að spila, lögin eru nú sum hver svona, hvað-skal-segja, frekar dapurleg og við bjuggumst svona hálft í hvoru við að hann myndi fela sig á bak við hátalarana og renna yfir efnið.

En heldur betur ekki, það kjaftaði á honum hver tuska, og greinilega hvað bæði honum og frábærri hljómsveit, The Daintees, fannst gaman að spila. Með bestu hljómleikum sem við höfum séð.

Við náðum honum aðeins eftir hljómleikana og í framhaldinu kom upp að fá hann til Íslands. Við sögðum að það væru nú kannski ekki nema 30 manns sem myndu mæta, en hann sagði það í góðu lagi, hann myndi glaður spila fyrir 30 manns. Vildi helst fara hring um Ísland.

Eftir smá vangaveltur var ákveðið að hann kæmi einn og spilaði á Dillon. Vonandi gengur nægilega vel til að það verði hægt að fá hljómsveitina, The Daintees, með fljótlega.

Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa tónlistinni. Þegar við vorum komin af hljómleikunum í Edinborg hittum við nokkra Íslendinga og eftir smá spjall, þar sem við sögðum frá því hvar við hefðum verið, spurðu þau hvernig tónlist þetta væri. Ég hafði eiginlega engin svör. Þjóðlagatónlist, reggae… minnir kannski að einhverju leyti á Elvis Costello, en er samt ekkert líkur Costello! Skemmtilegar og óvenjulegar hljómasamsetningar, samt „áreynslulaust“ og frábærar sönglínur.

En, hlakka til að sjá hann á Dillon.

City Hall Martin Best