Sarpur fyrir desember, 2013

2013

Posted: desember 31, 2013 in Spjall

Er ekki við hæfi að „gera árið upp“ svona þegar það er rétt að hverfa? Kannski ekki, en samt…

Fyrsta hugsun er að þetta hefur verið nokkuð gott ár, að minnsta kosti fyrir okkur hér í fjölskyldunni. Við Iðunn erum enn með góða vinnu (vinnur?), Andrés hefur unnið allt árið, Guðjón nýlega kominn með vinnu og Viktor sinnir nokkrum störfum – og er á leiðinni í framhaldsnám. Guðjón flutti aftur heim í Kaldasel en Viktor flutti út í haust.

Stóra afmæli ársins var hjá okkur Iðunni, við áttum þrjátíu ára brúðkaupsafmæli 6. maí.

En ætli árið verði ekki fyrst og fremst minnistætt fyrir góða tíma með góðu fólki.

Einifellsferðirnar hafa verið nokkrar í frábærum hóp og GoutonsVoir matarklúbburinn hefur hist oft á árinu og átt ógleymanlegar stundir.

Sambindið hittist reglulega, helgarferð í upphafi ársins kannski það sem ber hæst.

Annar ónefndur matarklúbbur hittist reyndar sjaldnar en er ekki síður skemmtilegur.

Fótboltahópurinn „Postularnir“ hittist reglulega yfir vetrartíminn í fótbolta og „uppskeruhátíðir“ hópsins tvisvar á ári eru með skemmtilegustu helgum ársins. Þá hittist hópurinn nokkrum sinnum að spila póker, gjarnan með öðrum gestum.

Og ekki ætla ég að gleyma fjölmörgum fjölskylduhittingum, bæði reglulegum og óreglulegum.

Við Fræbbblar reynum að æfa vikulega, þó það takist reyndar ekki alltaf. Við spiluðum átta sinnum á árinu og gáfum út tvö lög. Í nóvember voru liðin þrjátíu fimm ár frá því að við spiluðum fyrst. Þar fyrir utan hittumst nokkrum sinnum utan æfinga… að elda, éta og drekka.

Við Iðunn mættum nokkrum sinnum í viku í Karate hjá Breiðablik, hefðum kannski mátt ná betri mætingu, en þetta mjakast.

Svo eru alltaf skemmtilegir fastir og lausir viðburðir, sumargrill, frænkuhittingur, jólamót í skák, áramót í bridge, skötuveisla, laufabrauðsgerð, hugþraut („mænd-geims“).

En skemmtileg ferðalög, aðallega út fyrir landssteina, voru óvenju mörg og einstaklega vel heppnuð.

Í upphafi ársins fórum við (næstum því) árlega helgarferð til London með Höskuldi og Sirrý þar sem við kíktum á Arsenal-Stoke og hittum á frábæra veitingastaði, sérstaklega með Katý og Óla.

Næsta ferð var til Amsterdam á úrslitaleikinn í Evrópudeildinni, Benfica-Chelsea. Við fengum fjóra miða og við mættum þrír, ég, Alli og Maggi. Dísa (kona Magga) kom og var með okkur um helgina, en fáránlegt verð á flugi, sló út að Iðunn kæmist líka. Stemmingin í borginni var frábær og eiginlega alltaf gaman að koma þarna.

Við fórum svo í ógleymanlega siglingu í júní frá og til Barcelona með viðkomu í Túnis, Ítalíu, Frakklandi og Monaco. Alli, Magnús & Sylvía voru með, en hugmyndina áttu þau Anna-Lind og Skúli sem voru að ferðast með synina fjóra. Fyrir fáránlega tilviljun hafði Guðjón kynnst undarlegri en moldríkri norskri stúlku sem hafði boðið honum, einmitt, til Barcelona og hélt honum uppi þar. En eitthvað gekk erfiðlega að fá uppfyllt loforð um að hann kæmist heim þegar hann vildi, enda stúlkan hálf bjargarlaus án hans. En það nýttist honum á endanum að við vorum á leiðinni heim.

Iðunn fór svo á ráðstefnu til Marrakech í Marokkó og getur ekki beðið eftir að komast þangað aftur, helst í úlfaldaferð.

Ég fór svo á ráðstefnu til Boston í október með Jóni Eyfjörð. Iðunn og Jóhanna (kona Jóns) ákváðu að koma með og vera með okkur í nokkra daga áður en ráðstefnan byrjaði. Ráðstefnan var fín, en dagarnir áður voru alveg sérstaklega vel heppnaðir, Jón var búinn að kortleggja veitingahús borgarinnar og finna veitingastaði sem toppuðu hver annan.

Ferðirnar innanlands voru færri, aðallega Einifellsferðir og jú, góð ferð í bústað með Brynju og Gauta. Ferð með systkinum, Öggu og Kidda og Magga mági á Fiskidaginn á Dalvík var eins vel heppnuð og fyrri árin..

Að öðru… þá voru stærstu vonbrigði ársins uppgjöf í stjórnarskrármálinu. Úrslit alþingiskosningarnanna voru talsverð vonbrigði en sem betur fer voru nú grófustu kosningaloforðin svikin, eða eru réttara að kalla þetta „kosningahótanir“?

Það var gaman að fylgjast með karlaliði Breiðbliks í fótbolta framan af sumri, sérstaklega var frábær árangur í Evrópudeildinni skemmtilegur… en sumarið varð þó frekar endasleppt. Landsliðið í fótbolta átti svo sitt besta ár og var grátlega nálægt sögulegum árangri. Á Englandi er mitt lið til meira en fjörutíu ára á mikilli siglingu í næst eftstu deild og Arsenal á toppnum í úrvalsdeildinni um áramótin.

Svo kom upp undarlegt tilfelli þar sem ég sá um mína fyrstu hjónavígslu sem athafnastjóri Siðmenntar.

Þá var undarlegt að horfa á kosningasjónvarp heima eftir að hafa unnið við útsendingar fr á 1986, að 1995 slepptu. Báðar stöðvarnar ákváðu að sjá sjálfar um sín mál, sem var svo sem í góðu lagi og auðvitað kominn tími á að hætta þessu… en ég hefði óneitanlega þegið að öðru vísi hefði verið staðið að þessu.

Þá verður ekki sleppt að hugsa til þeirra sem létust á árinu. Ingólfur Júlíusson, gítarleikari, ljósmyndari og eðaldrengur lést fyrri hluta ársins eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Konni, Bliki (ég held að þetta sé besta tengingin), lést einnig á árinu – einn af þessum öðlingum sem ég kynntist þegar ég starfaði fyrir Breiðablik. Þá missti nokkrir vinir fjölskyldumeðlimi… kannski er þetta óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera kominn á miðjan sextugsaldur, jarðarförunum fjölgar á hverju ári.

En fyrir áhugasama eru nánari fréttir hér frá seinni hluta ársins og hér fyrir fyrri hluta ársins.

og ekki gleyma meðlimum í samtökum íþróttafréttamanna, það má hrauna yfir þá núna eins og allt árið, nánast skylda.

Gott og vel, ég veit að það þýðir ekkert að blanda mér í umræðuna um íþróttamann ársins. En ég hef ekki enn lært að þegja þegar mér misbýður..

Ár eftir ár er eitthvert tilefni til að skammast yfir valinu.

Gott og vel. Það er ekkert að því að hafa skoðun á því hver á þetta helst skilið, það er hægt að færa góð og gild rök fyrir að nokkrir hefðu átt titilinn skilið árið 2013. Gylfi Þór er vel að titlinum kominn, ég hefði sett hann í fyrsta sæti, en bara mín skoðun. Hefur til dæmis ekkert með kyn að gera.

Það er einfaldlega erfitt að velja á milli einstaklinga sem keppa í einstaklingsgreinum annars vegar og þeirra sem keppa í hópíþróttum hins vegar. Það er ekki sjálfgefið hvernig á að meta árangur í aldurskiptri keppni á móti árangri í keppni þar sem allir eru með. Hvað þá að nokkrar skýrar viðmiðanir séu um það hvernig á að „verðleggja“ árangur í grein sem 270 milljónir stunda, tugir þúsunda horfa á viðkomandi einstakling keppa vikulega og milljónir sjá í sjónvarpi, grein þar sem fáránlega há laun draga kannski að þá hæfileikaríkustu… á móti öðrum greinum.

En umræðan er að þróast út í hreint og klárt skítkast… hver Facebook færslan poppar upp á eftir annarri þar sem gert er lítið úr frammistöðu Gylfa með rangfærslum og/eða misskilningi. Þetta er út í hött, það má deila um vægi árangurs Gylfa, en hvers vegna að hrauna yfir hann með útúrsnúningum? Og hvers vegna að gera lítið úr honum, þó einhverjum þyki árangur annarra meira virði?

Samhliða þessu hrúgast inn athugasemdir sem ganga út á einhvers konar kynja samsæri hjá samtökum íþróttafréttamanna. Það er einfaldlega fráleitt að halda því fram að kyn hafi ráðið úrslitum, ég man til dæmis eftir fullt af körlum sem hafa náð frábærum árangri í yngri eða eldri flokkum en ekki orðið fyrir valinu.

Ég legg til að þessum útnefningum verði hætt.. þá á enginn skilið að lenda í því sem virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera útnefndur íþróttamaður ársins.

Taka kannski upp „lakasti íþróttamaður ársins“, þá væri kannski einhver innistæða fyrir skítkastinu.

Ég hafði, eins og amk. margir af minni kynslóð, gaman af sögunum af bræðrunum á Bakka. Hef einhverra hluta vegna alltaf haft gaman af vitleysu, rökleysum og fábjánahætti – svo lengi sem það bitnar ekki beint á mér og mínum.

Nú löngu seinna búa bræðurnir hér enn.. og reka bú þar sem á annað hundrað manns búa.

Nýlega ákváðu Bakkabræður að spara í rekstur búsins. Þeir sögðu upp tveimur starfsmönnum sem unnu að verkefnum sem spöruðu búinu útgjöld. Síðan sögðu þeir upp öðrum tveimur sem unnu að verkefnum sem skiluðu búinu gjarnan tekjum. Þá var tveimur í viðbót sagt upp sem aðstoðuðu þá sem voru sjúkir og lasnir á búinu.

Bakkabræður klöppuðu sjálfum sér á bakið fyrir ráðsnilldina við sparnað, þeir höfðu sparað útgjöld úr einum vasa sem munaði heldur betur um. Þeir gleymdu reyndar að svipuð útgjöld fóru úr öðrum vasa til þessara sömu einstaklinga, það áttu jú allir á Bakka rétt á lágmarksframfærslu. Og þeir gleymdu líka að búið varð fyrir talsverðum útgjöldum. Og þeir gleymdu líka að búið tapaði mikilvægum tekjum.

En þeir voru sigri hrósandi og ánægðir með sjálfa sig. Þeir höfðu sparað.

Ég veit ekki af hverju. En mér finnst þetta ekkert fyndið lengur.

Að sitja undir dylgjum.. nú, eða ekki

Posted: desember 19, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég veit að ég á að vita betur en að vera að svara svona… en ég á bara svo erfitt með að sitja undir dylgjum.

Hér birtist grein þar sem sagt er að ég snúi öllu á haus og geri öðrum manni upp skoðanir í færslu. Ekkert dæmi er tilgreint um hverju ég á að hafa snúið á haus. Ekkert dæmi er tekið um hvar eða hvernig ég geri öðrum manni upp skoðanir. Og ekki auðvelt að sjá hvaða færslu er átt við þannig að mögulegir lesendur gætu kynnt sér skrif mín sjálfir, hvað þá að tilvísun fylgi.

Enda virðist Egill Helgason, einhverra hluta vegna, vera aðal skotspónn greinarinnar.

Ég hef átt, í sjálfu sér, ágætt spjall (Facebook) við greinarhöfund.

Ég hef marg sinnis sagt honum að engin herferð hafi verið í gangi gegn honum og að ég hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum tekið þátt í neinu slíku. Þarna hafi einungis verið um að ræða eðlileg og heiðarleg viðbrögð fólks sem var bent á undarlega umfjöllun um félagsskap sem það tilheyrir. Einfalt hefði verið að leysa málið ef athugasemdum hefði verið sýndur smá skilningur. Hann trúir mér ekki. Ég get svo sem lítið meira gert í því.

Þessi deila virðist hafa magnast upp í einhvers konar „stríðsástand“ félagsskap kennara og greinarhöfundar, ég kann ekki betra orð. Hann tók innra spjall félagsins af læstum vef í leyfisleysi. Það út af fyrir sig finnst mér nokkuð gróft. Ég sendi Persónuvernd fyrirspurn vegna þessa og þó svarið hafi verið með öllum fyrirvörum þá sýnist mér augljóst að þarna hafi greinarhöfundur gengið of langt. En það tekur því ekki að elta það, viðkomandi myndi örugglega líta á það sem hluta af „skipulagðri herferð“. Verra er að greinarhöfundur tekur ummæli úr þessu spjalli og snýr merkingu þeirra fullkomlega á hvolft. Það er margsinnis búið að benda honum á þetta. En honum virðist einfaldlega finnast það allt í lagi. Nema hann skilji raunverulega ekki samhengi textans sem hann tekur og snýr á hvolf.

Þetta virðist vera að snúast í áráttu eða þráhyggju gagnvart Agli Helgasyni fyrir (til þess að gera) sárasaklausar athugasemdir á Facebook, sem eru orðnar að „yfirlýsingum“. Það hvernig hans aðkoma er blásin út er kannski besta dæmið um hvernig allir sem voga sér að anda óvarlega í „vitlausa“ átt verða stöðugt tilefni greinaskrifa.

Fyrir mér væri í rauninni miklu nær lagi að líta á umfjöllun í kennslunni og yfirdrifin viðbrögðin við athugasemdum sem „skipulega herferð“. Ég gæti eflaust brotið mér leið að tölvupósti kennara, gripið einhverjar setningar úr samhengi og fært þannig „sönnur“ á að þetta hafi allt verið skipulögð herferð. En ég geri ekki svoleiðis.

Mér finnast endalaus greinarskrif, þrátt fyrir að málinu sé löngu lokið, benda líka til eindregins vilja til að halda deilunni lifandi áfram. Til hvers, veit ég ekki..

Kannski er þetta „skipulögð herferð“ gagnvart Agli? Hvað veit ég?

Í áðurnefndu spjalli kom berlega í ljós að greinarhöfundur getur ekki mögulega viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Hann veit betur en orðabókin (td. Webster’s) hvað „gyðingar“ eru og hvað „kynþáttafordómar“ eru, svo ég taki nú dæmi af handahófi.

Þess vegna er auðvitað engin von til að hann sjái mögulega gallana við umrætt kennsluefni.

Þess vegna er auðvitað tilgangslaust að ræða málið efnislega.

En ég er ekki viss um að ég vilji þegja þegar svona er borið upp á mig.

Einn „bloggarinn“ var að fárast í vikunni yfir dómunum í svokölluðu Al Thani máli og klikkti út með að hann myndi sko ekki sækja um vinnu í banka eftir þetta. Þrátt fyrir að geta vænst þess að fá góð laun. Og mátti jafnvel lesa á milli línanna að bankakerfið hefði þarna séð á eftir góðum bita.

En.

Er þetta ekki bara gott mál?

Nú þekki ég ekki lagatæknilegar hliðar málsins, en svo langt sem mitt nef nær þá voru þetta „æfingar“ til þess eins að fá fólk til að hafa trú á viðkomandi banka án þess að innistæða væri fyrir, þeas. ég sé ekki betur en að þetta hafi verið vísvitandi blekkingar.

Hvers vegna ætti einhver að hætta við að sækja um vel launaða vinnu í banka eftir svona dóm? Það mætti jú ætla að viðkomandi hafi hugsað sér að stunda svipaða iðju. Og ef svona dómur verður til að viðkomandi hættir við að senda inn atvinnuumsókn, þá minnka jú, líkurnar á að í bankakerfið veljist til starfa fólk sem ætlar sér að stunda það sem virðast vera frekar vafasöm viðskipti.

Er það þá ekki bara hið besta mál? Er það ekki jafnvel merki þess að réttarkerfið hér á landi hafi aldrei þessu vant virkað?

Ekki hlægja að rökleysum

Posted: desember 13, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er kannski illa gert að hlægja að fólki sem hefur ekki vald á lágmarks rökhugsun.

En þegar viðkomandi er áberandi lögmaður og alþingismaður sem lætur fá færi ónotuð til að kynna sig og sinn málflutning.. þá er kannski allt í lagi að bera í bakkafullan lækinn og benda enn einu sinni á vitleysuna.

Samkvæmt færslu Brynjars Níelssonar þá virðist ekki í lagi að dæma fólk fyrir verknað sem ekki hefur verið dæmt fyrir áður. Þetta þýðir að sjálfsögðu að aldrei er hægt að dæma eftir nokkrum lögum.

Þá virðist ekki skipta máli hvaða lög gilda hér á landi heldur eigi að taka tillit til hvernig dómar hafa fallið erlendis.

Þar fyrir utan mætti ætla af skrifum Brynjars að ef einhver væri nægilega séður til að fremja afbrot sem ekki hefur verið framið erlendis (nú eða komist upp) áður þá megi ekki dæma fyrir það hér á landi.

Einhverra hluta vegna virðist Brynjari finnast að einstaka stéttir, til dæmis bankamenn, eigi að fá sér meðhöndlun – án þess að nefna nokkuð því til stuðnings.

Þá fer rökleysan í hring þegar gætt er að því að upphafleg fullyrðing, þess efnis að ekki tíðkist að dæma bankamenn eftir lögum, er einfaldlega ekki rétt.

Það er auðvitað ekki hlægjandi að þessu. Greinarhöfundur er bæði menntaður lögfræðingur og vinnur við að setja lög.

PS. Ég er ekki að lýsa skoðun á hvort umræddur dómur sé réttur eða rangur, aðeins að býsnast yfir rökleysum í viðkomandi grein.

Dýr hindurvitni í menntamálum

Posted: desember 5, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég sé það sí endurtekið þessa dagana í umfjöllun um menntamál að Pisa könnunin mæli best gamaldags menntakerfi. Þannig er reynt að draga úr trúverðugleika og mikilvægi hennar. Þessu fylgir undarlegt tal um að hún sé ekki í takt við strauma og stefnur í menntamálum í dag.

Afsakið orðbragðið, en hvurs lags dómsdags kjaftæði er þetta??

Ef straumar og stefnur í menntamálum í dag skila ólæsum nemendum út í þjóðfélagið þá eru þeir straumar og stefnur einfaldlega óboðlegir og hreinlega þarf að setja af stað neyðaráætlun til að henda þeim út.

Sem betur fer sluppu synir mínir við þessar töfrastefnu, en ég man eftir umræðum í skólastarfi þegar verið var að hefja innleiðingu, á nýrri menntastefnu, „uppgötvun“ var það kallað ef ég man rétt. Mikið var talað um að þetta væri svo „sniðugt“ og búið væri að margsanna gildi stefnunnar. Þegar spurt var um hvar mætti finna rannsóknir eða staðfestingar á gildi stefnunar varð allt í einu fátt um svör. „Það hlýtur bara að vera að það séu einhverjar rannsóknir sem styðja þetta, þetta er svo sniðugt“ voru á endanum einu svörin sem fengust.

Þetta kallast hindurvitni í minni orðabók.

Pisa virðist benda til að þessi stefna sé gagnslaus.

Í gamla daga var talað um að fara Krýsuvíkurleiðina þegar farin var óþarflega löng leið að settu marki.

Skuldaleiðréttingarleiðin sem kynnt var á laugardaginn er vissulega skárri en við var að óttast eftir galgopaleg kosningaloforðin.

Ég hef heldur ekki áttað mig á hvers vegna þeir sem skulda húsnæðislán eiga frekar kröfu á leiðréttingu á kjörum en þeir sem búa við verri kjör vegna forsendubrests af öðrum ástæðum.

Þá finnst mér undarlegt, ef það er í lagi að setja skatt á þrotabúin – sem einhver hefði kannski látið kanna áður en farið var að berja sér á brjóst – hvers vegna tækifærið er ekki notað til að skattleggja enn frekar. Og nota peningana í almennar aðgerðir sem nýtast öllum, þess vegna beint í heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt.

Plástrakerfið sem kynnt var um helgina með tilheyrandi flækjum, undantekningum og takmarkaðri gagnsemi minnir á gamla sögu, „af hverju takið þið bílinn ekki bara úr handbremsu“..

Það væri nefnilega miklu meira gagn að því fyrir alla, ekki bara þá sem skulda verðtryggð húsnæðislán, að ná niður verðbólgu, jafnvel verðhjöðnun. Þá þarf engar sértækar aðgerðir eða plástra.

PS. nei, ég er ekki málpípa þrotabúanna.

PPS. nei, ég er ekki einu sinni talsmaður stjórnarandstöðunnar (nema kannski að því marki að ég þarf alltaf að vera á móti)

PPPS. nei ég er ekki að ljúga.

Að beygla umræðuna

Posted: desember 1, 2013 in Trú, Umræða

Ég var spurður nýlega hvað mér þætti athugavert við orð innanríkisráðherra á kirkjuþingi.

Aðallega kannski það að verið er að snúa umræðunni á hvolf og gagnrýna hluti úr frá kolröngum forsendum.

Ráðherra talaði um að það eigi ekki að vera forgangsmál á ögurstundum í lífi þjóðarinnar að forða börnum frá boðskap um kristni og kærleika á meðan þau væru á vafasömum síðum á netinu – og að einstaka jólasálmar geti ekki skaðað æsku þessa lands.

Ráðherra talaði um hvað foreldrar leyfa börnum heima og fór í beinu framhaldi að tala um bann við boðskap kristni… og gefur þannig í skyn að verið sé að skipta sér af uppeldi á heimilinu.

En auðvitað var tilefnið breyttar reglur um samskipti skóla og trúfélaga.

Þar er auðvitað hvergi talað um að ekki megi kynna kærleika fyrir börnum í skólum.

Þá er skýrt tekið fram að ekki eigi að hrófla við hefðbundnu jólastarfi.

En aðalatriðið er að hvergi er verið að „forða börnum“ frá boðskap kristni, aðeins ætlast til að þeir foreldrar sem það vilja, sjái sjálfir um að sinna þessu. Í stað þess að ætlast til að menntastofnanir stundi trúboð og séu að kynna trú á einhverjar yfirnáttúrlegar verur sem enginn hefur getað sýnt fram á að séu til. Það getur aldrei verið hlutverk menntastofnunar.

Fræðsla um trúarbrögð er svo auðvitað áfram í skólum.

Svo er allt í lagi að hafa í huga að þetta var nú ekkert forgangsmál, og allt í lagi að sinna verkefnum sem ekki eru í forgangi. Fyrir utan nú það að mannréttindi skipta alltaf máli.

Svo er eins og mig minni að einhverjir flokksbræðra ráðherra vilji meina að hafi ekkert hrun orðið, nema svona í gæsalöppum, þannig að hvaða ögurstund er ráðherra að tala um?