Bakkabræður áfram – I (Áframbræður?)

Posted: desember 28, 2013 in Umræða

Ég hafði, eins og amk. margir af minni kynslóð, gaman af sögunum af bræðrunum á Bakka. Hef einhverra hluta vegna alltaf haft gaman af vitleysu, rökleysum og fábjánahætti – svo lengi sem það bitnar ekki beint á mér og mínum.

Nú löngu seinna búa bræðurnir hér enn.. og reka bú þar sem á annað hundrað manns búa.

Nýlega ákváðu Bakkabræður að spara í rekstur búsins. Þeir sögðu upp tveimur starfsmönnum sem unnu að verkefnum sem spöruðu búinu útgjöld. Síðan sögðu þeir upp öðrum tveimur sem unnu að verkefnum sem skiluðu búinu gjarnan tekjum. Þá var tveimur í viðbót sagt upp sem aðstoðuðu þá sem voru sjúkir og lasnir á búinu.

Bakkabræður klöppuðu sjálfum sér á bakið fyrir ráðsnilldina við sparnað, þeir höfðu sparað útgjöld úr einum vasa sem munaði heldur betur um. Þeir gleymdu reyndar að svipuð útgjöld fóru úr öðrum vasa til þessara sömu einstaklinga, það áttu jú allir á Bakka rétt á lágmarksframfærslu. Og þeir gleymdu líka að búið varð fyrir talsverðum útgjöldum. Og þeir gleymdu líka að búið tapaði mikilvægum tekjum.

En þeir voru sigri hrósandi og ánægðir með sjálfa sig. Þeir höfðu sparað.

Ég veit ekki af hverju. En mér finnst þetta ekkert fyndið lengur.

Lokað er á athugasemdir.