Sarpur fyrir maí, 2015

Einhvern veginn kennsla

Posted: maí 7, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Ég skal játa að ég er hálf (ef ekki alveg) gáttaður á umræðunni um kennslu þessa dagana. Ég hef ekki skoðað tilfefnið núna sérstaklega og þessi færsla mín fjallar því ekki um það tilfelli, heldur afspyrnu vond rök þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Það pirraði mig strax í gagnfræðaskóla (grunnskóla) og enn frekar í menntaskóla þegar kennarar virtust leyfa sér að fara með hvers kyns vitleysu. Ég hef síðan nokkrum sinnum rekist á það sem mér finnast svona allt frá því að vera hugsunarleysi, klaufaskapur – yfir í hreinlega óverjandi vinnubrögð.

Auðvitað eru kennarar misjafnir og kennsluefni misjafnt.

En ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvers vegna ekki má gagnrýna og hvað er rangt við að gera athugasemdir. Það er eins og það rísi alltaf upp einhverjir sjálfskipaðir verndarar vondrar kennslu þegar gagnrýni er sett fram.

Og allt byggir þetta á frösum úr samhengi og rökleysum.. að það þurfi að verja „akademískt frelsi“ og að nemendur eigi nú bara sjálfir að sjá í gegnum það sem kennarinn er að segja.

„Akademískt frelsi“ er auðvitað mikilvægt en það gefur varla (vonandi ekki) leyfi til að fara með fleipur og hreinlega bulla í nemendum. „Akademíska frelsið“ lítur væntanlega sömu lögmálum og annað frelsi, þeas. að það takmarkast við að ganga á rétt annarra.

Það að nemendur geti nú hugsað sjálfir er heldur ekki vörn fyrir fúsk í kennslu. Þetta er rökleysa siðblinda hjólaþjófsins – „eigandinn gat nú vitað að það að skilja hjólið eftir ólæst yrði bara til að því yrði stolið“ (eða sambærileg dæmi úr fjármálageiranum).

Eitt finnst mér umhugsunarefni í þessu samhengi og það er að þetta einkennir svokallaðar hugvísindagreinar – amk. hér á landi. Ég man ekki til að nokkur maður hafi reynt að verja kennara í raunvísindum sem hafi boðið nemendum upp á óvönduð vinnubrögð, td. rakalausar fullyrðingar, gögn tekin vísvitandi úr samhengi til að breyta merkingu eða hreinan rógburð.

Kannski er þetta einmitt ástæðan fyrir því að hugvísindafögin svokölluðu eru einmitt ekki metin til jafns við raunvísindagreinar.

Eða kannski er þetta sér íslenskt fyrirbæri. Sem aftur gæti skýrt hversu erfitt er að koma íslenskum háskólum ofarlega þegar gæði háskóla eru metin.

Ég veit ekki…