Sarpur fyrir ágúst, 2012

Rökræður

Posted: ágúst 30, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Ég tek gjarnan þátt í rökræðum. Mér finnst reyndar gaman að rökræða um forvitnileg málefni. Stundum er ég reyndar hálf partinn neyddur til að rökræða um mál sem ég hef annað hvort engan áhuga á. Nú eða þá að það er búið að þvæla langt út fyrir öll skynsemis mörk.

En, að öllu jöfnu getur þetta verið skemmtilegt. Stundum hef ég óneitanlega mjög sterkar skoðanir, stundum ekki og stundum er ég einfaldlega forvitinn og velti upp spurningum sem mér finnast athygli verðar.

Ég tel mig taka rökum ágætlega, amk. þegar þau eru sett fram á málefnalegan hátt og snúast um staðreyndir. Ég hef í öllu falli oft skipt um skoðun þegar ég sé sannfærandi rök og upplýsingar.

Það sem ég get ekki með nokkru móti þolað er fólk sem heldur sig vera að rökræða en beitir stanslaust einhvers konar yfirgangs- eða tuddatækni, vísvitandi blekkingum, upphrópunum, rangfærslum, uppnefnum, skætingi, röfli um óskylda hluti, þekktum rökvillum, framígripum, vísa í fræga fólkið, vísa fjölda þeirra sem hefur einhverja skoðun, beita tilvitnunum sem ekki eru til og þar fram eftir götunum.

Og svo það sé á hreinu þá tel ég öskur og framígrip ekki merki þess að viðkomandi hafi frekar rétt fyrir sér heldur geri ég ráð fyrir að hann sé að breiða yfir þekkingarleysi.

Ég gef ekkert fyrir þegar ég er kallaður öllum illum nöfnum eða gert lítið úr skoðunum mínum, það staðfestir einfaldlega að engin rök eru fyrir hendi.

Ekki finnst mér trúverðugt þegar viðmælandi byrjar að dreifa athyglinni með því að röfla um óskylda hluti eða reyna að tengja eitthvert atriði sem er málinu fullkomlega óviðkomandi. Ýmist er það til marks um óskipulagða hugsun, sem aftur bendir til að viðkomandi vinni ekki vel úr upplýsingum, eða þá að sá hinn sami sé kominn út í horn í rökræðunni og finni það eitt til ráða að breyta um umræðuefni.

Þeir sem reyna svo að sannfæra mig með því að vísa í texta sem segir allt annað en viðkomandi heldur fram, birta myndir sem búið er að eiga við og breyta („fótósjoppa“), sýna upptökur og halda því fram að eitthvað sjáist eða heyrist sem ekki er til staðar ef vel er gáð… eru svo augljóslega með vondan málstað að frekari umræða er óþörf – og málið er útrætt.

Mest villandi er kannski þegar vísað er í óljósan eða óskýran hóp sérfræðinga sem á að hafa einhverja skoðun. Þetta getur verið gott og gilt ef lítill ágreiningur er innan viðkomandi greinar eða samfélags en það getur verið erfitt að átta sig á þessu þegar vísað er í fámennan hóp, rannsóknir sem ekki hafa verið staðfestar og/eða ritrýndar og horft fram hjá yfirgnæfandi fjölda sérfræðinga sem eru á annarri skoðun.

Það að einhver vísi í að fræga fólkið hafi einhverja skoðun er auðvitað bara fyndið, Hollywood leikarar eru ekkert sérstaklega þekktir fyrir góða dómgreind eða færni við að vinna úr upplýsingum.

Og það sem verra er… stundum verður hálfvitagangur stuðningsmanna ákveðins máls þess valdandi að fólk afgreiðir allt sem honum tengist sem kjaftæði án frekari skoðunar.

Aumingja Einstein

Posted: ágúst 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Nú hef ég enga trú á fra haldslífi og því auðvitað tilgangslaust að tala um að vorkenna löngu látnum manni. Hvað þá að tala um að hann myndi snúa sér við í gröfinni – nema auðvitað sem líkingamál. En sumir, sem vakta færslurnar mínar, hafa ekki lesskilning til að skilja litbrigði ritmáls eða líkingar…

En mér finnst óneitanlega ömurlegt að horfa á allar tilvitnanirnar í Einstein þar sem einhver bölvuð þvæla er höfð eftir honum, sem hann hefur aldrei látið út úr sér og engar heimildir finnast um.

Það er vinsælt hjá að trúboðum að vitna í Einstein, hann á að hafa sagt eitt og annað sem trúaðir taka sem sönnun þess að hann hafi verið trúaður.

Annar hópur sem nauðgar minningu Einstein er fólk sem trúir nánast hvaða samsæriskenningu sem er og hefur enga hæfileika til að greina hvað stenst skoðun og hvað ekki.

Nú skil ég ekki tilganginn með að reyna að tengja sig við Einstein. Einstein var afburða vísindamaður og hefði líkast til haft skömm á aðferðum þeirra sem trúa óstaðfestum kjaftasögum, getgátum, kerlingabókum og tilvist hindurvitna. Ekki það að ég þykist geta haft það eftir honum, en það er ekki flókið að reikna út að maður sem vann þrekvirki á vísindasviðinu hafi ekki mikla trú á óstaðfestum og grautarlegum kenningum.

En hvað veldur? Hvaðan kemur þessi, nánast sjúklega, þörf til að tengjast Einstein?  Svona að nokkru eins og smákrakkar sem hoppa í mynd þegar verið er að taka viðtal við þekkta íþróttamenn.. Jú, sennilega vegna þess að hann var virtur vísindamaður og tilvitnun í virtan vísndamann gefur til kynna að viðkomandi hafi nú þekkingu á vísindum.

En þetta verður svo kjánalegt sjálfsmark þegar í ljós kemur að viðkomandi hafði ekki burði til að kanna einu sinni hvort heimildirnar sem hann vísar til séu réttar.

Gagnrýnislaust kjaftæði á Rúv

Posted: ágúst 26, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Kannski er ég óheppinn með að hlusta á útvarpið, geri það auðvitað ekki mikið, vinnunnar vegna. En mér finnst gagnrýnislaust kjaftæði fara vaxandi á Rúv. Þetta á auðvitað líka við um aðra miðla. En ég gagnrýni RÚV hér vegna þess að ég hef heyrt of mörg dæmi nýlega og vegna þess að ég geri aðrar kröfur til Rúv en sjálfstæðra miðla.

Um daginn flutti, annars ágætur grínisti, pistil þar sem hann endurtók bábiljur og fullyrðingar samsæriskenningasmiða sem standast enga skoðun. Kannski (vonandi) var þetta grín hjá honum.

Í gær heyrði ég viðmælendur, sem voru að auglýsa bók og geisladisk í spjallþætti, vera að röfla eitthvað um að tala við frumurnar í líkamanum.

Og fyrir nokkrum vikum birti fréttastofa Rúv „frétt“ þess efnis að klínískar rannsóknir hefðu sannað að eitthvert seyði virkaði sem lyf í baráttu við ákveðinn sjúkdóm. Daginn eftir þurfti Rúv að leiðrétta fréttina, það hafði engin rannsókn sýnt fram á nokkra virkni. Rannsóknin hafði sýnt fram á að það væri skaðlaust að drekka þetta. Með öðrum orðum, það gerði ekki neitt til eða frá.

Annað dæmi er þegar fréttastofa Rúv birti gagnrýnislaust fullyrðingar annars aðila í viðkomandi deilumáli án þess að hafa fyrir að leita álits mótaðila. Ég sendi viðkomandi fréttamanni tölvupóst og spurði hvort ekki hefði verið við hæfi að fá fram fleiri skoðanir. Hann sá ekki ástæðu til að virða það viðlits og svara mér, hvað þá að bregðast við.

Og ekki má gleyma heilum Kastljósi þætti í vetur þar sem einstaklingur fékk að fara athugasemdalaust með staðlausa stafi um þekkta einstaklinga án þess að viðkomandi einstaklingar fengju tækifæri til að svara. Ég spurði stjórnendu Kastljóss hvort ekki hefði verið við hæfi að fá sjónarmið þeirra sem verið var að úthúða, en fékk engin svör. Og ekki var þeim gefinn kostur á að koma í Kastljós og svara fyrir sig.

Nú er ég ekki að fara fram á að undarlegar skoðanir séu bannaðar. En ég geri kannski kröfu til fréttastofunnar að hún kanni hvort einhver fótur sé fyrir frétt – áður en hún fer í loftið. Kannski eiga pistlahöfunar að hafa frítt spil, svona að einhverju leyti, en væri þá kannski möguleiki að fá pistla til mótvægis?

Mér finnst ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til Kastljóss að þar sé gætt hlutleysis og báðir aðilar fái að skýra sín sjónarmið í deilumálum.

Og mér finnst allt í lagi að þáttastjórnendut staldri við fráleitar fullyrðingar viðmælanda þó ekki væri annað en að spyrja hvað viðkomandi hafi fyrir sér í fullyrðingunum.

En, þetta ber auðvitað ekki að skilja sem einhverja alls herjar gagnrýni á Rúv, þar er fullt af fínum þáttum.. en stundum má gera betur.

Hjá Friðriki fimmta

Posted: ágúst 22, 2012 in Spjall
Efnisorð:, ,

Þá bættist veitingastaður Friðriks V á Laugavegi við uppáhaldsveitingastaðalistann okkar – sem er nú ekki mjög langur. Humarhúsið, Við Tjörnina, Dill og Forrétttabarinn eru þar fyrir.

En bæði eru réttirnir einstaklega fjölbreyttir og spennandi, þjónusta til fyrirmyndar og umhverfið smellpassar.

En það sem er heillandi við staði eins og Friðrik V er að það er ekki einn stór og þungur aðalréttur heldur margir spennandi smáréttir. Og það að kynna hvern rétt í smáatriðum, hvernig hann er samsettur, hvaðan hráefnið kemur og hvaða vín er með gefur kvöldinu alveg sérstaka stemmingu. Það er ekki verið að flýta sér að „fóðra“ gestina heldur fær hver réttur sinn sess og fulla athygli. Auðvitað voru réttirnir mismikið fyrir minn smekk – eins og gengur – fyrr mætti nú vera – en það er enginn að klikka, allir voru spennandi og sumir voru beinlínis frábærir.

Jú, það er rétt að taka fram að ég þekki Friðrik nákvæmlega ekki neitt – þeas. fyrir utan ágætisspjall úti á götu eftir matinn – hann hafði reyndar reynst syninum vel fyrir nokkrum árum.

Popppunktsúrslit

Posted: ágúst 19, 2012 in Tónlist
Efnisorð:,

Þá er víst í lagi að segja frá því að ég mæti í úrslitaþátt Popppunkts í kvöld.

Ég hef alltaf haldið mikið upp á þennan þátt. Mér þykir umfjöllunarefnið stórskemmtilegt og hef alltaf haft gaman af sögum úr þessum „heimi“ – jafnvel af tónlistarfólki sem ég hef ekkert sérstaklega gaman af að hlusta á.

Ég reyndi að ná öllum þáttum Ingólfs Margeirssonar um Bítlana, ég hafði gaman af umfjöllun Ólafs Teits (sem er einmitt í liði „andstæðinganna“ í úrslitunum) um Pink Floyd og ég hlustaði á Guðna Rúnar tengja U2 við biblíuna. Og auðvitað fleiri.. Og ég reyni að ná Óla Palla í Rokklandi á hverjum sunnudegi og aftur skiptir litlu hvort ég hlusta á tónlist viðkomandi eða ekki.

Þá spillir ekki að þeim félögum, Gunnari og Felix – og væntanlega nokkuð mörgum sem ekki sjást á skjánum – hefur tekist alveg einstaklega vel til við að hafa hæfilega blöndu af almennum fróðleik, forvitnilegum smáatriðum og smáskammt af tilviljunum til að hafa þættina spennandi.

Það er reyndar þannig að þó ég viti fáránlegustu smáatriði og hafi einhverja þekkingu á nokkrum sviðum, þá er fyrir það fyrsta farið að fenna yfir ansi margt – og annað tekur einfaldlega allt of langan tíma að sækja í sívaxandi og stöðugt hægvirkari upplýsingabanka í hausnum.

Svo eru heilu tímanbilin sem ég fylgdist nánast ekkert með og allt of margar tónlistarstefnur sem ég hef einfaldlega engan áthuga á. Þannig að þó ég hafi gaman af hinum ýmsu sögum þaðan, þá man ég sjaldnast nokkuð af þeim.

Og.. svo er miklu auðveldara að svara heima í stofu en í keppninni sjálfri.  Gott dæmi er að einu sinni var spurt hvaða hljómsveit hefði gefið út ákveðið lag. Ég þekki hljómsveitina vel – bæði persónulega og við höfðum spilað með þeim – og ég hélt mikið upp á lagið sem var tiltölulega nýtt. Ég átti meira að segja alveg eins von á spurningunni. Það tók mig samt óratíma að koma svarinu óbrengluðu frá mér.

Þetta er þriðja þáttaröðin sem ég mæti í Popppunktinn. Við Fræbbblar mættum í fyrstu seríu og duttum þar út í undanúrslitum fyrir Rúnari Júl og sonum, án þess að vera okkur neitt sérstaklega mikið til skammar (vona ég) gegn öflugu liði þeirra feðga.

Síðan var einhvers konar „úrvalssería“ þar sem þeim sem hafði gengið hvað best á fyrstu árum var boðið að vera með. Í fyrstu umferð slógum við Fræbbblar út sigurvegara fyrsta árs, Ham, en áttum svo ekki möguleika á móti Geirfuglunum í annarri umferð.

Og mér sýnist að við eigum ekkert sérstaklega mikla möguleika á móti stóriðjunni. En það er allt í lagi, það er gaman að fá að mæta einu sinni í úrslitaþáttinn.

PS. uppfærði færsluna aðeins.

Fræbbblar, Dillon, Menningarnótt

Posted: ágúst 18, 2012 in Tónlist

Svona fyrir þá sem hafa áhuga þá spilum við Fræbbblar í bakgarðinum hjá Dillon á Laugaveginum á Menningarnótt. Svona (vonandi) ekki langt frá hálf sjö.

Viðburðinn er ekki í sjálfu sér hluti af dagskrá Menningarnætur og því ekki sýnilegur á dagskrársíðunni.

Að „smána“ erlent ríki

Posted: ágúst 17, 2012 in Umræða

Ég skal játa að dómurinn yfir Pussy Riot kom mér aðeins á óvart, ég átti von á réttarhöldum og í versta falli skilorðsbundnum dómi sem einhvers konar viðvörun. Annars held ég að allt hafi verið sagt sem þarf að segja um þetta mál og í rauninni aðeins einn einstaklingur hér á landi – mér vitanlega – sem hefur varið framgöngu stjórnvalda.

Hitt er annað að í fréttum er talað um að þeir sem stóðu að mótmælunum við rússneska sendiráðið geti átt von á ákæru vegna þeirra [ég hafði hugsað mér að mæta en átti ekki kost á því].

Þetta ku vera byggt á einhverri lagagrein sem segir

Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.

Nú finnst mér viðkomandi lagagrein fráleit. Það er sjálfsagt að sýna öðrum ríkjum kurteisi, en það er líka allt í lagi að láta heyra í sér þegar við á…

En ef hugmyndin er að ganga eftir bókstafnum að þessu leyti þá verður væntanlega gerð krafa um að henni verði fylgt eftir í öllum tilfellum. Skyldi vera fyrningarfrestur á svona „smánun“?

Það er eins og mig minni að harðstjórar hafi fengið það óþvegið í ummælum frá ýmsum forystumönnum í íslenskum stjórnmálum, oftar en ekki verðskuldað, og engum hafi dottið í hug að grípa til þessarar greinar.

Hvers vegna núna?

Menningarnótt

Posted: ágúst 17, 2012 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Ég hef lengi verið hrifinn af Menningarnóttinni í Reykjavík. Eins og ég hef áður tuðað um þá finnst mér hún aðeins hafa misst sjarmann með stórtónleikunum. Stórtónleikar geta verið fínir út af fyrir sig, en þessi dagur á (fyrir minn smekk) að ganga út á marga litla viðburði sem fara fram hver í sínu horni. Það sérstakt við Menningarnótt og það gerist bara þennan dag. Það er alltaf hægt að halda stórtónleika.

Við Fræbbblar spilum að þessu sinni á Dillon, eða réttara sagt í bakgarði Dillon, svona eitthvað nálægt hálfsjö.

Forsvarsmenn Menningarnæturinnar biðja fólk um að nota strætó frekar en að hrúga bílum í miðbæinn. Við höfum reynt að fylgja þessu (reyndar hafa græjuflutningar stundum truflað þau áform) en við lendum svo í að komast ekki heim. Strætó hættir nefnilega að ganga allt of snemma. Fyrir nokkrum árum var þetta lítið mál, við tókum strætó heim um sex leytið, en nú virðist strætó eingöngu hugsaður fyrir þá sem ætla að fara beint heim eftir flugeldasýningu.

Annars eigum við eftir að setja saman dagskrá… við kíkjum örugglega á myndlistarsýningar Rúnu á Loka og KexHostel. En svo er líka partur af stemmingunni að ráfa um og detta inn á eitthvað sem virðist forvitnilegt.

Að sparka í eigin fót

Posted: ágúst 16, 2012 in Fótbolti

Þessi fyrirsögn hljómar sennilega betur á útlenskur („to kick yourself in the foot“) en merkingin ætti að nást.

Ég er enn eina ferðina að pirra mig á græðgi knattspyrnumanna. Menn á svimandi háum launum rjúka í fýlu og skipta um lið vegna þess að þeir fá ekki nógu há laun. Nú get ég alveg skilið að menn í þessari stöðu vilji nýta tækifærið, hafa það gott og tryggja sig og sína. En „Sexfalt meiri tekjur en ég get mögulega eytt á ævinni er engan veginn nóg, ég þarf sjöfalt. Bless“… hljómar, ja, eins og það hljómar.

Margir röfla eitthvað um metnað og að vinna bikara. Það þarf ekki mikla þekkingu til að vita að það er engin ávísun á fjölda titla þegar félög kaupa allt sem hreyfist á leikmannamarkaði. Real Madrid er kannski augljósasta dæmið. Og jú, ég veit að stundum hefur þetta tekist, amk. tímabundið. En ég er eitthvað að misskilja hugtakið „metnað“ þegar menn fara frá stóru félagi þar sem þeir geta spilað hvern leik sem fyrirliði í topp baráttu á stærstu mótum heims, með góða möguleika á titlum – til þess að sitja að einhverju leyti á bekknum og láta aðra um að vinna fyrir sig titla. Ef það tekst þá yfirleitt.

Ég velti fyrir mér hvort það komi að því að áhorfendum blöskri og áhuginn á íþróttinni minnki. Þeir borga jú brúsann, beint eða óbeint. Og ef áhuginn minnkar þá minnka tekjur leikmanna. Kannski ekki á allra næstu árum… en næsta kynslóð gæti farið að finna fyrir þessu.

UEFA er reyndar að setja reglur sem er ætlað að hafa hemil á vitleysunni, en fljótt á litið er ekki snúið að fara fram hjá þeim.

PS. Mitt lið í enska boltanum er Derby County, þó ég hafi oftar en ekki lýst aðdáun minni á þeim fótbolta sem Arsenal spilar og þeirri stefnu að reyna að minnsta kosti að takmarka ruglið í kringum laun leikmanna.

Ég sé að í grein í Fréttablaðinu skrifa tveir (að ég held) prestar grein þar sem bent er á að ekki þýði að taka biblíuna bókstaflega og úr samhengi við menninguna eins og hún var þegar textinn var ritaður.

Þetta er auðvitað hárrétt.

Auðvitað dettur engum í alvörunni í hug að einhver föðurleg vera hafi skapað heiminn á sjö dögum, spjallað sérstaklega við nokkra útvalda eða stýrt heilu plágunum, hvað þá syndaflóði.

Og auðvitað tekur (vonandi) enginn bókstaflega að einhver hafi fæðst meyfæðingu og síðan risið upp frá dauðum.

Það er verst að þegar búið er að sía út það sem engan veginn á við á okkar tímum – þá stendur nú ansi lítið eftir. Nema kannski ættartölurnar. Og það sem eftir stendur að öðru leyti – og er einhvers virði – má finna í flestum öðrum lífsskoðunum.

Hitt er svo annað mál, að sá hatursáróður sem (væntanlega) er tilefni þessara skrifa er ekki að neinu leyti tekinn úr samhengi.

Og svo er auðvitað þriðja atriðið. Skilji ég rétt þá er biblían orð guðs, skrifuð undir hans leiðsögn (innblæstri). Ef það sem þar stendur er svo háð menningarsamfélaginu á hverjum tíma (hjá gyðingum að mestu leyti) þá er þetta frekar undarleg yfirnáttúruleg vera, þeas. sem sveiflast í skoðunum eftir samfélagi mannanna hverju sinni.

Getur verið að það sé kominn tími til að horfast í augu við hvað þessi bók er í rauninni?

Og leggja um leið af allt hatrið sem byggir á tilvitnunum í hana?