Að sparka í eigin fót

Posted: ágúst 16, 2012 in Fótbolti

Þessi fyrirsögn hljómar sennilega betur á útlenskur („to kick yourself in the foot“) en merkingin ætti að nást.

Ég er enn eina ferðina að pirra mig á græðgi knattspyrnumanna. Menn á svimandi háum launum rjúka í fýlu og skipta um lið vegna þess að þeir fá ekki nógu há laun. Nú get ég alveg skilið að menn í þessari stöðu vilji nýta tækifærið, hafa það gott og tryggja sig og sína. En „Sexfalt meiri tekjur en ég get mögulega eytt á ævinni er engan veginn nóg, ég þarf sjöfalt. Bless“… hljómar, ja, eins og það hljómar.

Margir röfla eitthvað um metnað og að vinna bikara. Það þarf ekki mikla þekkingu til að vita að það er engin ávísun á fjölda titla þegar félög kaupa allt sem hreyfist á leikmannamarkaði. Real Madrid er kannski augljósasta dæmið. Og jú, ég veit að stundum hefur þetta tekist, amk. tímabundið. En ég er eitthvað að misskilja hugtakið „metnað“ þegar menn fara frá stóru félagi þar sem þeir geta spilað hvern leik sem fyrirliði í topp baráttu á stærstu mótum heims, með góða möguleika á titlum – til þess að sitja að einhverju leyti á bekknum og láta aðra um að vinna fyrir sig titla. Ef það tekst þá yfirleitt.

Ég velti fyrir mér hvort það komi að því að áhorfendum blöskri og áhuginn á íþróttinni minnki. Þeir borga jú brúsann, beint eða óbeint. Og ef áhuginn minnkar þá minnka tekjur leikmanna. Kannski ekki á allra næstu árum… en næsta kynslóð gæti farið að finna fyrir þessu.

UEFA er reyndar að setja reglur sem er ætlað að hafa hemil á vitleysunni, en fljótt á litið er ekki snúið að fara fram hjá þeim.

PS. Mitt lið í enska boltanum er Derby County, þó ég hafi oftar en ekki lýst aðdáun minni á þeim fótbolta sem Arsenal spilar og þeirri stefnu að reyna að minnsta kosti að takmarka ruglið í kringum laun leikmanna.

Athugasemdir
  1. Og ég sem hélt að í kjölfar fyrirsagnarinnar kæmi saga af þér í fótbolta með mönnum komnum af léttasta … 🙂

    En svo var ekki.

    Lýsi mig algjörlega sammála þessum viðhorfum þínum til þessar græðgisvæðingar knattspyrnunnar. Og get líka verið sammála þér hvað varðar Arsenal. En Leeds er mitt lið í boltanum (jú eitt af þessum liðum sem ofkeyrðu sig á græðgi hérna um árið – en það er liðin tíð).