Sarpur fyrir júní, 2017

Það heyrist oft hjá þeim sem styðja (eða daðra við) aðgerðir sem beinast gegn innflytjendum að það þurfi að ræða þetta „vandamál“. Þessu fylgir gjarnan eitthvert röfl um að það megi nú ræða málið og fólk megi nú hafa skoðanir. En ef einhver vogar sér að hafa aðra skoðun eða vill ræða málið, þá má viðkomandi hvorki ræða málið né hafa skoðanir… og er allt í einu er í lagi að „banna“ öðrum að hafa skoðanir.

En, í alvöru, skilgreinið þá þetta „vandamál“!

Eru „innflytjendur“ sekir um fleiri glæpi en aðrir, væntanlega „innfæddir“? Alvarlegri glæpi?

Leggja „innflytjendur“ minna til samfélagsins en aðrir?

Eru „innflytjendur“ meiri byrði á samfélaginu en aðrir?

Og áður en þið byrjið, skilgreinið kannski fyrst hvað þið eigið við með „innflytjendur“? Eru það ferðamenn? Fólk sem hefur flutt til landsins og unnið árum / áratugum saman? Afkomendur þeirra? Fólk sem hefur gengið í hjónaband með „ekki-innflytjanda“? Eingöngu fólk sem hefur flust frá ákveðnum löndum? Eingöngu fólk sem tilheyrir ákveðnum trúfélögum?

Eða er „innflytjendavandinn“ bara vandamál vegna þess að svo margir tala um „innflytjendavanda“?

Og gerið þetta almennilega takk fyrir! Ekki koma með stök dæmi, sögur, kjaftasögur eða tilfallandi fréttir. Komið með staðfesta tölfræði. Vísið í ritrýndar rannsóknir. Annars er þetta tal jafn marklaust og samræsiskenningarnar sem grassera á vefnum. Og jafn hlægilegt (nei, grátlegt).

Flatjarðarsamfélagið

Posted: júní 25, 2017 in Umræða

Það er víst til eitthvað sem kalla má „Flatjarðarsamfélagið“ (Flat-earth society á ensku) og samanstendur af fólki sem hafnar vísindalegum staðreyndum og lifir í heimi kenninga, vefspjalls og almennrar afneitunar. Tala mikið um „baráttu“..

Það er reyndar styttra í þetta hjá þeim sem afneita hlýnun jarðar og ég býst alveg eins við að nokkrir vinir mínir detti í þessi samtök einn „góðan veðurdag“. Því, ef ég má leyfa mér smá útúrdúr, þá rímar þetta ansi vel saman, fólk grefur sig í misvísandi upplýsingar, falsaðar tölur, gögn sem tekin eru úr samhengi, sleppir gögnum sem ekki henta, tekur eitt smáatriði byggir á misskilningi og lætur það „trompa“ allar aðrar upplýsingar, gerir ráð fyrir að allir sem eru ósammála séu þátttakendur í alls herjar samsæri, les hverja kenninguna á fætur annnarri á hvers kyns bull-vefsíðum… í stað þess að fara upp í flugvél eða gera sér ferð upp að jökli og sjá hlutina með eigin augum.

En, uss, þetta var ekki punkturinn hjá mér.

Ég sá nefnilega nýlega grein/færslu/skýringu frá Flatjarðarsamfélaginu sem kynnti mynd af jörðinni. Og jafnvel hjá þeim er jörðin ekki „flöt“ heldur einhvers konar hálfkúla! Þannig að kannski verður næsta della hjá fólki sem getur ekki unnið úr upplýsingum,“Hálfkúlujarðarsamfélagið“?

Markmið eða aðferðir

Posted: júní 24, 2017 in Umræða

Ég lendi oftar en ekki í því í umræðum um hitamál að þeir sem ég er að ræða við rugla saman markmiðum og aðferðum. Ef ég er ekki sammála aðferðum þeirra að ákveðnu markmiði, sem ég er kannski fullkomlega sammála, þá gefa viðkomandi sér að ég hljóti að vera ósammála markmiðum þeirra. Og rökræðan (þrasið, rifrildið) fer í einhverja allt aðra átt en hún þarf að fara og skilar engu.

Ég er til að mynda alveg sammála flestum vinum / félögum / kunningjum (/ ókunnugu fólki sem vill ræða við mig) um að það er mjög mikilvægt að draga úr skaðsemi áfengisneyslu og minnka unglingadrykkju. Ég er hins vegar fullkomlega ósammála mjög mörgum þeirra um bestu leiðirnar að ná þessum markmiðum.

Á sama hátt er ég, til dæmis, á því að mansal sé alvarlegur glæpur og mikilvægt að gera það sem við mögulega getum til að útrýma því. Ég er hins vegar ekki á því að bann við vændi ég vænleg aðferð og í rauninni óttast ég að það virki þveröfugt.

Þannig væri gjarnan til mikilla bóta ef hægt væri að halda þræði í umræðum að vera ekki að rífast við mig um hluti sem við erum fullkomlega sammála um…

Seðlar, aðeins að hugsa

Posted: júní 23, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Vissulega virðist útspil fjármálaráðherra um að taka (ákveðna) peningaseðla úr umferð ekki hafa verið hugsað alla leið. Mögulega var þetta með ráðum gert, fá umræðu og velta upp möguleikum. Eða kannski bara vanhugsað… ég veit ekki.

Hitt er, að mér finnast viðbrögðin líka full mikið vanhugsuð, stór“karla“leg og einhvern veginn hugsuð til að forðast umræðu.

Ég velti amk. fyrir mér hvernig þetta horfði við ef við værum ekki með peningaseðla. Ímyndum okkur að ávísanir hefðu á sínum tíma „gert út af við“ peningaseðla. Eða einhver allt önnur þróun, skiptir ekki máli í þessu samhengi.

En ef svo væri…

Væru þá númeraðir peningaseðlar útgefnir af ríkinu endilega besta lausnin? Væri það aðferðin til að afnema forræðishyggju? Mögulega, en getur hugsast að til séu fleiri leiðir?

Ég veit að svarið er „já“ og ég veit að þær leiðir hafa kosti og galla, en væri ekki allt í lagi að velta þeim upp?

Nokkur atriði sem ég hef tekið eftir varðandi yfirlýsingu Trumps um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu.

  • Hann afneitar ekki hlýnun og að hægt sé að hafa áhrif á hana. Hann aftekur heldur ekki alfarið að fylgja ákvæðum samningsins, hann virðist eingöngu hugsa um hvernig skipta eigi kostnaðinum og að samningurinn eigi að kosta Bandaríkjamenn minna en gert er ráð fyrir.
  • Þær ákvarðanir sem hann tekur núna geta fyrst tekið gildi eftir þrjú og hálft ár, merkilegt nokk, á svipuðum tíma og Bandaríkjamenn kjósa aftur til forseta. Þannig að það má segja að þetta sé ómerkileg sýndarmennska.
  • Hann virðist halda að það sé til eitthvað sem heitir „hrein kol“ („clean coal“) og sé nothæfur orkugjafi.
  • Mörg ríki og borgir í Bandaríkjunum ætla að hunsa ákvarðanir hans í þessu (eins og svo mörgu öðru).
  • Hann virðist halda að að Parísarsamkomulagið sé eingöngu gert fyrir Parísarbúa.