Posts Tagged ‘„Innflytjendavandinn“’

Það heyrist oft hjá þeim sem styðja (eða daðra við) aðgerðir sem beinast gegn innflytjendum að það þurfi að ræða þetta „vandamál“. Þessu fylgir gjarnan eitthvert röfl um að það megi nú ræða málið og fólk megi nú hafa skoðanir. En ef einhver vogar sér að hafa aðra skoðun eða vill ræða málið, þá má viðkomandi hvorki ræða málið né hafa skoðanir… og er allt í einu er í lagi að „banna“ öðrum að hafa skoðanir.

En, í alvöru, skilgreinið þá þetta „vandamál“!

Eru „innflytjendur“ sekir um fleiri glæpi en aðrir, væntanlega „innfæddir“? Alvarlegri glæpi?

Leggja „innflytjendur“ minna til samfélagsins en aðrir?

Eru „innflytjendur“ meiri byrði á samfélaginu en aðrir?

Og áður en þið byrjið, skilgreinið kannski fyrst hvað þið eigið við með „innflytjendur“? Eru það ferðamenn? Fólk sem hefur flutt til landsins og unnið árum / áratugum saman? Afkomendur þeirra? Fólk sem hefur gengið í hjónaband með „ekki-innflytjanda“? Eingöngu fólk sem hefur flust frá ákveðnum löndum? Eingöngu fólk sem tilheyrir ákveðnum trúfélögum?

Eða er „innflytjendavandinn“ bara vandamál vegna þess að svo margir tala um „innflytjendavanda“?

Og gerið þetta almennilega takk fyrir! Ekki koma með stök dæmi, sögur, kjaftasögur eða tilfallandi fréttir. Komið með staðfesta tölfræði. Vísið í ritrýndar rannsóknir. Annars er þetta tal jafn marklaust og samræsiskenningarnar sem grassera á vefnum. Og jafn hlægilegt (nei, grátlegt).