Sarpur fyrir apríl, 2020

Þegar ég var yngri var Brezhnev aðalritari sovéska kommúnistaflokksins og í rauninni einvaldur ríkisins. Hann var engan veginn í hávegum hafður á vesturlöndum og sérstaklega man ég eftir að þeir sem töldu sig „hægra megin“, töluðu um frjálslyndi og frjálshyggju – höfðu bæði mikla skömm á manninum og gerður óspart grín að honum – og ég var þeim sammála að þessu leyti. Auðvitað voru þeir fleiri einvaldarnir í kommúnistaríkjunum, en Brezhnev varð einhvers konar holdgervingur þess sem var hvað verst við kommúnismann.

En það er engu líkara en að Brezhnev sé sestur í stólinn í Hvíta húsinu vestan hafs.. skoðum aðeins betur.

  • Rússar komu báðum til valda.
  • Báðir telja sig hafa alræðisvald.
  • Báðir ausa þeir almannafé í eigin hóglífi.
  • Hvorugur þolir gagnrýni.
  • Báðir vilja stjórna fjölmiðlum og umfjöllun fjölmiðla um þá sjálfa.
  • Báðir skipta sér af dómsvaldinu.
  • Báðir fara með rangt mál og beinlínis ljúga reglulega.
  • Báðir nota þeir stofnanir ríkisins í eigin þágu.
  • Hvorugur þolir annað en já-menn í starfsliðinu og hver sem dirfist að hafa sjálfstæða skoðun er umsvifalaust rekinn.
  • Báðir tala og standa fyrir grófum mannréttindabrotum.
  • Báðir gera út á þjóðernisrembing og kynþáttafordóma.
  • Báðir eru þeir með fjölmiðla á sínum snærum sem reka grímulausan áróður.
  • Hvorugur ræður við starfið.
  • Báðir moka þeir fjármunum ríkisins í tilgangslaus og hégómleg gæluverkefni.
  • Þeir virðast báðir líta svo að Kínverjar séu þeirra helsta ógn.
  • Hvorugur virðist geta sýnt minnstu samúð þegar landar (þegnar?) þeirra eiga í erfiðleikum.

Kannski er helsti munurinn sá að Brezhnev hafði ekki Twitter, virðist hafið hlotið einhverja menntun og hafði amk. vit á að þegja um hluti sem hann hafði enga þekkingu á.

Mér er svo fullkomlega fyrirmunað að skilja að þeir sem skilgreina sig „til hægri“ eru nánast eins og „smástelpur að pissa í sig á bítlahljómleikum í gamla daga“ í aðdáun á þessum Brezhnev okkar tíma. [með fullri virðingu fyrir ómældri aðdáun á þeirri hljómsveit og auðvitað ekki hugmyndina að gera lítið úr stelpum].

Ég hef spilað fótbolta tvisvar í viku síðustu árin, ekki svo mikil átök, í öðrum hópnum er ég nú með eldri mönnum, eiginlega sá elsti af fastagestunum, en eitthvað um miðjan hóp í hinum.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvenær við getum byrjað að spila fótbolta aftur, auðvitað klæjar okkur í tærnar, en engum okkar dettur í hug annað en að fylgja leiðbeiningum og engum okkur dettur í hug að taka óþarfa áhættu.

Þannig að mér hefur dottið í hug hvort hægt sé að spila einhvers konar útgáfu af fótbolta án snertingar. Kannski hef ég að einhverju leyti spilað fótbolta þannig síðustu árin hvort sem er!

En þetta þarf ekki að vera flókið, reglurnar væru einfaldlega

  • leikmaður með bolta má ekki nálgast annan nema utan tveggja metra, hvorki andstæðing né samherja, þetta þýðir að ekki verður mögulegt að „sóla“.
  • að sama skapi getur andstæðingur þess sem er með boltann ekki „tæklað“ eða reynt að ná boltanum beint
  • það verður samt hægt að
    • skjóta á mark
    • senda milli leikmanna
    • verja skot
    • grípa inn í sendingar
  • það verður tilgreindur markvörður sem verður að halda sig innan markteigs (eða eins lítils svæðis og hægt er við markið) og aðrir leikmenn mega ekki fara inn í þann markteig
  • þá held ég að það sé fín regla að viðkomandi markvörður megi verja með höndum en ekki grípa eða halda bolta

Einu tvö vandamálin sem ég sé er þegar boltinn er laus, þá gæti reynst snúið að halda tveggja metra fjarlægð… en það er einfaldlega eitthvað sem verður að virða.

Hitt er að ef ekki er hægt að „tækla“ eða taka boltann af leikmanni þá er auðvitað sá möguleiki að leikmaður liðs haldi einfaldlega boltanum endalaust. Annað sem gæti komið upp er að tveir leikmenn sendi endalaust sín á milli.

Sennilega er þarf að bæta við að

  • leikmaður hafi í mesta lagi þrjár (fimm?) sekúndur með boltann á sama stað
  • ekki megi senda til baka á leikmann nema hann hafi fært sig um tvo metra eða meira

En hvernig er með brot?

Ætli það sé ekki einfaldast að

  • andstæðingar þess sem brjóta fjarlægðarreglur fái víti
  • ef lið brýtur reglu um að halda bolta of lengi fá andstæðingarnir aukaspyrnu

Kannski, sennilega, mjög líklega er þetta tóm vitleysa og kemur aldrei til með að ganga upp… en mig langar að prófa þegar aðstæður leyfa.

Facebook samdráttur

Posted: apríl 9, 2020 in Spjall
Efnisorð:
Ég er ekki til í að hætta á Facebook, mér finnst frábært að fá fréttir af vinum og kunningjum og fólki sem ég kannast lítillega við… oftast fréttir myndi ekki heyra annars.
Þá finnst mér ómetanlegt að heyra af viðburðum, útgáfum og öðrum fréttum af áhugaverðum hlutum.
Ég get alveg haft gaman af að rökræða.
En ég nenni ekki lengur að rífast við fábjána. Við stutta greiningu er nokkuð ljóst að ég eyði allt of miklum tíma í að þrasa við fólk sem tekur ekki rökum, getur ekki unnið úr upplýsingum, veit ekki hvað heimildir eru, skilur ekki aðferðir vísindanna og er í einhverju klappliði fyrir einhverja stjórnmálahreyfingar.. jafnvel í forsvari fyrir þær og/eða að koma sér á framfæri.
En auðvitað get ég að mestu kennt sjálfum mér um. Ég á það (allt of oft) til að gera athugasemdir við fráleitar færslur og ég held áfram að svara furðulegustu athugasemdum.
Ég sem sagt nenni þessu ekki lengur.
Það er ekki svo gott (eða slæmt) að ég sé hættur að tjá mig um allt sem mér dettur í hug að hafa skoðun á.. en ég ætla að færa einfaldar athugasemdir yfir á Twitter og lengri „ræður“ yfir á ‘bloggið’ mitt, þeas. hér.
Á ‘blogginu’ er líka mun þægilegra að halda rökræðum og útiloka röflið.
Svo ég skýri aðeins nánar, þá á ég mjög bágt með að þola að fólk sé að koma núverandi forseta Bandaríkjanna til varnar, þar fer sannanlega getulaust og illa innrætt kvikindi, hættulegur einstaklingur.. svona ef ég held mig við að vera kurteis. Sama gildir um fólk sem telur sig geta haft „skoðun“ á loftslagsmálum. Ekki ætla ég heldur að þola sjálfskipaða veiru- og sóttvarnarfræðinga sem þykjast hafa töfralausnir og kalla þá sem eru í framlínunni þessa dagana öllum illum nöfnum. Ég þarf víst ekki að nefna orkupakkann lengur eða Klausturbárðana.
Ég er ekkert að banna fólki að hafa sínar undarlegu skoðanir, ekki frekar en ég banna fólki að ganga um á skítugum skónum heima hjá sér. En það er ekki í boði að viðra þetta hér á mínum vegg, ekki frekar en að það er í boði að ganga inn heima hjá mér á skítugum skónum.
Þeir sem ekki virða þetta fara einfaldlega af vinalistanum. Það þýðir ekki að mér sé eitthvað illa við viðkomandi og vilji ekki þekkja lengur, ég er ekki til í að fá svona rugl inn á Facebook vegginn minn, þetta er komið svo að þetta er ekki lengur eitthvað til að hlægja að, margt að þessu er einfaldlega stórhættulegt.
Og svo eru nokkur atriði sem ég skal alveg reyna að hafa þolinmæði fyrir en ég geri ráð fyrir að setja ‘unfollow’ á þá sem dæla þessu stöðugt, án þess taka af vinalistanum.
Þetta verður eflaust til að ég dett í gamli-geðstirði-gaurinn flokkinn, en sennilega lítið við því að segja, hvort sem er væntanlega ekki svo fjarri lagi:
  • Ég er frekar þreyttur á leikjum og áskorunum og þrautum, stundum gæti ég haft gaman ef, en mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja ‘deildu-án-skýringa’ áráttuna, þar fer eiginlega síðasta ástæðan fyrir því að hafa áhuga!
  • Ég nenni ekki að svara betli um „like“ og/eða ef-þú-manst-eftir-mér…
  • Þá er er frekar hvimleitt þegar fólk getur ekki komið frá sér einföldum texta án þess að setja á svokallaðan „tuddaflöt“, stóran flöt með feitletruðum texta sem tekur óþarflega mikinn hluta af skjánum og bætir engu við innihaldið.
  • Og svo auðvitað fólk sem er stöðugt að skipa mér fyrir með „ræðið“ og „deilið“… fyrir alla muni, hættið þessari frekju! Ég ræði það sem ég hef áhuga á að ræða og ég deili því sem ég hef áhuga á að deila.
  • Ég var víst búinn að nefna þreytandi gjammið frá þeim sem þurfa stöðugt að verja einhverja pólitíkusa, en sú vísa er seint of oft kveðin.
  • Og áróður fyrir og frá svonefndum ‘sósíalistaflokki’ fer í sérstakan flokk, þeir sem dreifa því fara umsvifalaust á ‘unfollow’.