Er Brezhnev orðinn forseti Bandaríkjanna?

Posted: apríl 30, 2020 in Umræða
Efnisorð:,

Þegar ég var yngri var Brezhnev aðalritari sovéska kommúnistaflokksins og í rauninni einvaldur ríkisins. Hann var engan veginn í hávegum hafður á vesturlöndum og sérstaklega man ég eftir að þeir sem töldu sig „hægra megin“, töluðu um frjálslyndi og frjálshyggju – höfðu bæði mikla skömm á manninum og gerður óspart grín að honum – og ég var þeim sammála að þessu leyti. Auðvitað voru þeir fleiri einvaldarnir í kommúnistaríkjunum, en Brezhnev varð einhvers konar holdgervingur þess sem var hvað verst við kommúnismann.

En það er engu líkara en að Brezhnev sé sestur í stólinn í Hvíta húsinu vestan hafs.. skoðum aðeins betur.

  • Rússar komu báðum til valda.
  • Báðir telja sig hafa alræðisvald.
  • Báðir ausa þeir almannafé í eigin hóglífi.
  • Hvorugur þolir gagnrýni.
  • Báðir vilja stjórna fjölmiðlum og umfjöllun fjölmiðla um þá sjálfa.
  • Báðir skipta sér af dómsvaldinu.
  • Báðir fara með rangt mál og beinlínis ljúga reglulega.
  • Báðir nota þeir stofnanir ríkisins í eigin þágu.
  • Hvorugur þolir annað en já-menn í starfsliðinu og hver sem dirfist að hafa sjálfstæða skoðun er umsvifalaust rekinn.
  • Báðir tala og standa fyrir grófum mannréttindabrotum.
  • Báðir gera út á þjóðernisrembing og kynþáttafordóma.
  • Báðir eru þeir með fjölmiðla á sínum snærum sem reka grímulausan áróður.
  • Hvorugur ræður við starfið.
  • Báðir moka þeir fjármunum ríkisins í tilgangslaus og hégómleg gæluverkefni.
  • Þeir virðast báðir líta svo að Kínverjar séu þeirra helsta ógn.
  • Hvorugur virðist geta sýnt minnstu samúð þegar landar (þegnar?) þeirra eiga í erfiðleikum.

Kannski er helsti munurinn sá að Brezhnev hafði ekki Twitter, virðist hafið hlotið einhverja menntun og hafði amk. vit á að þegja um hluti sem hann hafði enga þekkingu á.

Mér er svo fullkomlega fyrirmunað að skilja að þeir sem skilgreina sig „til hægri“ eru nánast eins og „smástelpur að pissa í sig á bítlahljómleikum í gamla daga“ í aðdáun á þessum Brezhnev okkar tíma. [með fullri virðingu fyrir ómældri aðdáun á þeirri hljómsveit og auðvitað ekki hugmyndina að gera lítið úr stelpum].

Athugasemdir
  1. Sindri Guðjónsson skrifar:

    Góður pistill.