Sarpur fyrir júlí, 2018

Gjammaravæðingin

Posted: júlí 19, 2018 in Umræða

Einn ókosturinn við net- og bloggvæðingu síðustu ára er eitthvað sem kannski má kalla „gjammaravæðingu“ eða „upphafningu gjammarans“.

Einhverra hluta vegna virðast, til þess að gera fáir, en áberandi, einstaklingar nærast á því að vera stöðugt gjammandi um allt og ekki neitt.

Sumir virðast líta á það sem sitt hlutverk að reyna að koma með vitlausustu og/eða mest óviðkomandi og/eða langsóttustu athugasemdina inn í hverja umræðu.

Aðrir eru í raun stöðugt að upplýsa okkur hin um eigin fáfræði með glórulausum yfirlýsingum sem lágmarksþekking og/eða hugsun hefði nú kæft í fæðingu.

Fólk stofnar meira að segja stjórnmálaflokka utan um samhengislaust gjammið.

Og virtir fræðingar á sínu sviði þurfa endilega að básúna órökstuddar og illa upplýstar skoðanir á nánast hverju sem dúkkar upp í umræðunni.

Það er kannski tvennt sem gæti bætt umræðuna aðeins.

Annars vegar ef fréttamiðlar hættu að líta á hvaða glórulausa skoðun sem „frétt“.

Og hins vegar ef þetta klapplið sem tekur hugsunarlaust undir hvað sem er, væri nú kannski til í að lesa amk. þvættinginn áður en það sendir vel-líkingu, hjarta eða þumalinn-upp.

 

Ég er stundum í vandræðum með að ákveða hverju ég má leyfa mér að hafa gaman af.

Gott dæmi eru frábærar kvikmyndir, tónlist og sjónvarpsþættir frá einstaklingum sem hafa gerst sekir um ósiðlega og / eða glæpsamlega hegðun. Hefur það áhrif á gæði efnisins frá viðkomandi? Nú er ég ekki að tala um hvort ég vilji kaupa efnið og styrkja viðkomandi þannig, gefum okkur að verið sé að sýna sjónvarpsþátt á stöð sem ég er hvort sem er með áskrift að. Get ég leyft mér að njóta efnisins?

Sama gildir um fótbolta.

Ég hef fyrir löngu sætt við mig við að stórkostlegir knattspyrnumenn reiða nú ekki með beinlínis vitið í þverpokum. Og ég er að mestu hættur að pirra mig á heimskulegum og hrokafullum yfirlýsingum.

En þegar þeir lýsa stuðningi við glæpamenn sem stunda mannréttindabrot? Get ég haft gaman af að horfa á tilburði þeirra á knattspyrnuvellinum? Eða má ég leyfa mér að horfa fram hjá einstaklingnum og horfa á leikinn? Að því gefnu að ég sé ekki beinlínis að styrkja viðkomandi með beinum hætti.