Sarpur fyrir nóvember, 2013

Að tækla manninn fyrir leik

Posted: nóvember 26, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Það hefur löngum þótt vond umræðuhefð að gera lítið úr andstæðingnum og reyna að gera hann tortryggilegan í stað þess að svara rökum og málflutningi. Þetta hefur lengi verið viðloðandi pólítíska umræðu og bendir auðvitað til málefnafátæktar og að ekki séu nein gild svör fyrir hendi.

Það getur verið erfitt að átta sig á þessu – undirförli, lymska, kænskubrögð eða hvað á að kalla þetta. Þetta er gjarnan kallað að fara í manninn í en ekki boltann til að nota líkingar úr fótbolta.

Stutta útgáfan er til dæmis:

Siggi: Verðbólgan hefur verið 10% síðasta árið en launavísitalan hefur aðeins hækkað um 5%.

Þessu er svo svarað með

„Hann Siggi fer nú svo oft rangt með tölur“ eða „Hann Siggi er nú alltaf ljúgandi“.

Nú má vera að Siggi hafi rétt eða rangt fyrir sér. Ef hann hefur rangt fyrir sér er auðvitað hægt að vísa til gagna sem staðfesta aðrar tölur. Það breytir engu um fullyrðingu Sigga hvort hann fari oft rangt með tölur eða ekki, sama gildir um hvort hann lýgur oft eða aldrei. Fullyrðingin er annað hvort rétt eða röng og hefur ekkert með fyrri hegðun Sigga að gera.

Forsætisráðherra kom með nýja – og frekar óforskammaða – útgáfu af þessum bellibrögðum um daginn. Áður en nokkur umræða var farin af stað sagði hann þá sem eru honum ósammála vera bölvaða lygalaupa (nei, ekki orðrétt) og þeir myndu líklega ljúga í komandi umræðu. Áður en nokkur hafði sagt orð.

Ef við höldum okkur við fótboltalíkinguna þá er þetta jafngildi þess að hlaupa til andstæðings í upphitun fyrir leik og tækla groddalega.

Og í fótbolta væri þetta beint rautt spjald og viðkomandi sendur beint í sturtu. Hann ætti svo væntanlega ekki sæti í liðinu á næstunni.

Það vantar eiginlega eitthvað sambærilegt í stjórnskipunina, það þarf að vera hægt að reka svona menn strax í stað þess að þurfa að bíða eftir næstu kosningum.

Það er upphafinn einhver svakalegur áróðurssöngur síðustu daga sem felst í því að reyna að narra fólk með öllum tiltækum ráðum til að skrá sig í þjóðkirkjuna. Hér má nefna undarlegan leiðara Fréttablaðsins og ekki vel upplýsta ræðu innanríkisráðherra á kirkjuþingi.

Svo það sé á hreinu þá er ég ákaflega mótfallinn því fyrirkomulagi að hafa þjóðkirkju, enda orðið nánast óþekkt fyrirbæri.

Hins vegar er líka allt í lagi að fólk sé í trúfélagi ef það kýs svo, svo framarlega sem það lætur okkur hin í friði.

En það hefur verið mikil fækkun í þjóðkirkjunni og hún sér enn einu sinni fram á gríðarlegan tekjumissi.

Það er eflaust hægt að tína til rök fyrir þá sem vilja hafa þjóðkirkju, þó ég sé þeim ósammála. En það er allt í lagi að rökræða hlutina. Og það er allt í lagi að bera fram rök fyrir því að fólk sem er trúað eigi að vera í þjóðkirkjunni. Aftur er ég ósammála, en það er allt í góðu að ræða rök með og á móti.

Það er hins vegar ekki í lagi að færa fram rökleysur, staðlausa stafi, fullyrðingar út í bláinn og beinlínis rangfærslur. Það gerir bara fólk með vondan málstað.

Annars ágætur kunningi, Davíð Þór Jónsson, hefur nú í tvígang komið fram með hverja vitleysuna á fætur annarri til að reyna véla eða narra fólk til að ganga í þjóðkirkjuna. Og ólíkt því sem ég hef áður séð frá honum, þá svarar hann mótrökum lítið eða þá með skætingi.

Hann hélt því fram í athugasemd á Facebook að
– útgerðargreifar fengju þær krónur sem þjóðkirkjan missir af, án þess að geta í nokkru skýrt hvernig skattfé fer eyrnamerkt til þeirra
– krónur, sem annars færu til söfnuða, væru settar í að styrkja menningarhatur, án þess að geta nokkru svarað um hvert þetta menningarhatur er
– að greiðslur til biskuppstofu væru óháðar fjölda meðlima þjóðkirkjunnar
– að einhverjar kannanir sýndu eða gæfu til kynna að fólk hefði sagt sig úr þjóðkirkjunna á röngum forsendum, án þess að geta að nokkru nefnt hvaða kannanir þetta eru
– ekki væru aðrir valkostir en þjóðkirkjan annars vegar eða útgerðargreifar og menningarhatur hins vegar, og skautar þannig yfir valkosti eins og Siðmennt og önnur lífsskoðunarfélög
– að við vitum ekki í hvað skattpeningarnir fara, sem er augljóst – svarið að miklu leyti heilbrigðis, velferðar og menntamál

Og í morgun beit hann höfuðið af skömminni í einhverju viðtali þar sem hann gaf í skyn að fólk gæti ekki leitað sér hjálpar við áföllum nema hjá prestum. Hvernig í dauðanum dettur honum í hug að tala niður til heillar stéttar vel menntaðs fagfólks? [breytti aðeins um orðalag til að forðast misskilning]

Hljómleikar, hljómleikar…

Posted: nóvember 22, 2013 in Tónlist
Efnisorð:,

Ég verð að játa að ég er orðinn nokkuð spenntur fyrir kvöldinu í kvöld.

Við Fræbbblar erum að halda upp á þrjátíu og fimm ára afmæli okkar.

Við bjóðum öllum sem vilja að mæta í „partý“ á Gamla Gauknum, það kostar ekkert inn og við spilum eins lengi og við endumst (sem er væntanlega nokkuð lengi), bæði frumsamið efni, annarra manna efni og annarra manna lög sem við höfum útsett. Þetta verður bæði nýtt og gamalt, áherslan kannski meira á gamla efnið að þessu sinni..

Við reiknum með að byrja um 23:00 (nei, kannski ekki alveg á slaginu) og spila langleiðina til klukkan 3:00, sem aftur fer eftir hvað við tökum löng hlé og hversu hratt lögin verði spiluð á síðustu metrunum.

En þetta eru ekki jólatónleikar.

Og við erum ekki að kynna nýja plötu, eða nokkuð annað.

Þetta verður bara gamaldags partý.

Nánar hér á Facebook og svo má auðvitað benda á heimasíðuna okkar Fræbbblarnir.

Þá eru þrjátíu og fimm ár frá því að við Fræbbblar spiluðum í fyrsta skipti. Þetta var á menningarhátíð Menntaskólans í Kópavogi, Myrkramessu, þar sem við vorum við nám. Það gekk ekki andskotalaust að fá að spila en hafðist á endanum með hjálp góðra manna.

Með mér spiluðu Þorsteinn, Hálfdan, Barði og Stefán.. en við nutum aðstoðar Arnórs og Ríkharðs, sem báðir gengu fljótlega í hljómsveitina. Við Þorsteinn, Arnór og Ríkharður erum hér allir enn þá, en Guðmundur Þór spilar á trommur, Helgi á bassa og Iðunn syngur.

Tilefnið var nú eitthvert ósætti við skólameistar og var meiningin að gera nett grín, bæði að honum og hugmyndum manna um „punk“ eins og þær birtust í íslensku dagblöðunum. Við spiluðum lög frá Sex Pistols, EMI, God Save The Queen og svo Police & Thieves í útsetningu The Clash, ja, svona nokkurn veginn. Allt með íslenskum textum.

Tveir ungir dagskrárgerðarmenn, Jakob og Eiríkur, voru meðal annars að gera þætti um félagslífið í menntaskólum landsins. Þeir vildu endilega fá okkur í þáttinn, og þá var jú, nauðsynlegt að spila meira þar til kæmi að upptökum.. hvað við gerðum. En á leiðinni breyttist þetta aðeins, við fórum að æfa fleiri lög, byrjuðum að semja eigin efni.. og svo var þetta einfaldega rosalega gaman.

Við mættum í sjónvarpssal í byrjun árs 1979, gekk að ég held þokkalega. En þátturinn var aldrei sýndur og á endanum var tekið yfir upptökuna vegna plássleysis Rúv.

Og…

Við ætlum að halda upp á þetta á Gamla Gauknum, föstudagskvöldið 22. nóvember. Opið hús, frítt inn og fullt af efni. Helgi er reyndar rétt að ná sér eftir „íþróttameiðsli“ en nær vonandi einhverjum lögum.

Við spilum öll lögin frá Myrkramessunni, reyndar með upphaflegum textum, talsvert af lögum af „Viltu nammi væna?“, mikið af lögum sem við vorum að hlusta á þegar við byrjuðum og svo auðvitað eitthvað af nýrra efni.

Án þess að lofa nokkru beinlínis þá reiknum við með að spila: Bjór – Watching The Detectives – The KKK Took My Baby Away – Barbed Wire Love – Blitzkrieg Bop – Down In The Tube Station At Midnight – Ever Fallen In Love – Ljóð – God Save The Queen – Lover Please – Pretty Vacant – Police And Thieves – White Man In Hammersmith Palais – Þúsund ár – Teenage Kicks – Immortal – Ótrúleg jól – CBGB’s – Public Image – My Perfect Seven – I Wanna Be Sedated – Hippar – Judge A Pope Just By The Cover – No Friends – Holidays In The Sun – Then I Kissed Her – Sjór – Dauði – FÍH – Sheena Is A Punk Rocker – EMI – Janie Jones – Í hnotskurn – Rockaway Beach – Brains – Rudy, A Message To You – White Riot – Nekrófíll – Bodies – A Bomb In Wardour Street – 20. september 1997 – My Six Excapes – Í nótt – Roots, Radicals, Rockers and Reggae – Gotta Getaway – Anarchy In The UK – In The City – Bugging Leo – Æskuminning

Ég verð að játa að mér finnst valið á ljótasta orðinu miklu skemmtilegra en valið á því fallegasta, sbr. Facebook síðuna.

Orðið „hrogn“ fékk ekki náð fyrir augum dómnefndar og/eða annarra gesta.

En þetta er klárlega ljótasta orð íslenskrar tungu.

Hvað köllum við það þegar við heyrum ljótt og óskiljanlegt tal, oftast annað tungumál? Jú, „hrognamál“. Hvers vegna? Ekki vegna þess að okkur detti í hug að viðkomandi sé að tala um hrogn fiska. Nei, vegna þess að þetta hljómar álíka illa og ljótast orð íslenskrar tungu, „hrogn“!

Já, ég er van-trúaður á kukl

Posted: nóvember 14, 2013 in Skeptic, Trú, Umræða

Svanur Sigurbjörnsson gagnrýndi nýlega kukl („óhefðbundnar lækningar“) og tilraunir til að koma því inn í heilbrigðiskerfið. Viðbrögðin hafa verið ansi yfirdrifin og ómálefnaleg – rökvillurnar margar og fyllt upp í holurnar með því að að ráðast á Svan.

Þetta er í rauninni frekar einfalt mál.

Ef við sleppum því að nota hugtakið „trú“ í einhverju víðu og óskilgreindu samhengi og notum það fyrir að hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á.

Þá gildir auðvitað það sama um yfirnáttúrulegar verur og hvers kyns kukl. Það er ekki hægt að sýna fram á tilvist yfirnáttúrulegra vera og það er ekki hægt að sýna fram á að kukl virki.

Það hafa verið gerðar óteljandi tilraunir til að sýna fram á að kukl og hvers kyns yfirnáttura sé til staðar og virki. Það er stórfé í boði fyrir hvern þann sem getur þetta.

Árangurinn er eitt stórt núll. Þetta hefur aldrei tekist. Aldrei. Ekki einu sinni.

Enda, ef þetta hefði tekist… þá væri þetta jú ekki lengur kukl.

Rökvillurnar hafa verið margar. Rauði þráðurinn er að benda á einstaka mistök hefðbundinna lækninga. Sú gagnrýni á eflaust rétt á sér í einhverjum tilfellum og öðrum ekki. Það er eins með lækningar eins og aðrar greinar, menn geta gert mistök, fólk er mishæft þrátt fyrir að ljúka prófi, eflaust eru einhverjir sem nýta sér ófullnægjandi eftirlit til að svindla og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu er áfellisdómur yfir aðferðum vísinda eða hefðbundinna lækninga. Þetta eru einfaldlega ábendingar um hvað má betur fara. Með aðferðum vísindanna. Ekkert sem nefnt er styður það að kukl sé einhvers virði.

Þessi óþarfa hávaði er ætlaður til að slá ryki í augun á fólki.

Kuklið (í víðu samhengi) veltir ótrúlegum upphæðum og því er mikið í húfi að gera málflutning Svans tortryggilegan.

En það er ágætt að hafa í huga að ekkert sem sagt hefur verið styður það að við eyðum skattfé í hluti sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.

Ég sé að ég kem við sögu í grein sem Guðni Elísson prófessor við HÍ skrifar. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé skrifað sem fræðigrein við HÍ. Gott ef hún birtist ekki líka í tímariti.

Greinin er skrifuð í framhaldi af hreint út sagt ótrúlegu máli þar sem félagsskapurinn Vantrú (þar sem ég er meðlimur) sendi Siðanefnd HÍ erindi vegna kennsluefnis. Málið er allt með ólíkindum en ég taldi þessu nú reyndar lokið því HÍ reyndist getulaus til að fjalla um málið og því var að lokum hent út af borðinu án umfjöllunar. Reyndar er Egill Helgason skotspónn greinarinnar að miklu leyti vegna einnar, til þess að gera saklausrar, færslu um málið.

Ég geri ráð fyrir að Vantrú birti ítarlega svargrein en get ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði. Ég er reyndar á því – eftir ágætt spjall við viðkomandi kennara – að það sé ekki svo mikið við hann sjálfan að sakast heldur sé það fyrst og fremst guðfræðideild HÍ sem beri ábyrgðina.

Áður en lengra er haldið verð ég að fá að nefna hversu skondinn titill greinarinnar er. „Í heimi getgátunnar“. Í heimi getgátunnar, já. Einmitt. Það er nefnilega svo skemmtileg kaldhæðni að auðvitað byggja trúarbrögðin alfarið á getgátum. Guðfræðideildin er eina deild Háskólans sem á tilvist sína alfarið undir getgátum. Fyndið. Eða grátbroslegt, réttara sagt.

Grein Guðna er nokkur langhundur, rökvillurnar ansi margar, fullyrðingar margar hverjar vafasamar og út í loftið. Þá bætir það ekki skrifin að fljótt á litið virðist meira lagt upp úr magni en gæðum.

Mér finnast skýringar Guðna sem sagt ekki mikils virði, þær virka á mig sem eftir-á-tilbúningur og yfirklór til að fegra vondan málstað – rökin bæði veik og langsótt.

Guðni gerir okkur meðlimum Vantrúar upp skoðanir og segir okkur til dæmis líta á nemendur sem viljalausar strengjabrúður og fylgir eftir með dramatískri lýsingu. Hann færir reyndar engin rök fyrir þessari fullyrðingu né öðrum á svipuðum nótum og bendir ekki á neitt þessu til stuðnings. Þetta eru órökstuddar getgátur Guðna og ég get staðfest að þær eru út i bláinn. Er eðlilegt í fræðigrein að vera að „fabúlera“ svona? Guðni gagnrýnir félagsmenn svo fyrir þessar skoðanir sem hann er búinn að gera þeim upp. En það sem verra er, jafnvel þó hann hefði rétt fyrir sér þá kemur það málinu nákvæmlega ekkert við, kennsluefnið breytist ekkert við það.

Guðni leggur áherslu á bréf sem nemendur fengu sent eftir umfjöllunina þar sem kennarinn bendir nemendum á að skoða málið sjálfir. Og nei, ég er ekki að grínast og þetta er ekki misskilningur hjá mér.. bréfið var sent eftir á! Mér þykir ekki ólíklegt (án þess að vita) að þetta hafi verið sent í kjölfar ábendinga um hlutdræga umfjöllun og virkar að minnsta kosti á mig eins og frekar dapurt yfirklór eftir á… Enda breytir þetta engu, það að benda nemendum á að kynna sér málið sjálfir fríar kennara að mínu viti ekki frá því að stunda vönduð vinnubrögð og gæta hlutleysis.

Þá vísar Guðni í að við horfum fram hjá jákvæðum vitnisburði nemenda. Aftur er engin leið að átta sig á um hvað Guðni er að tala því hann nefnir ekki einu orði hvaðan hann hefur þetta, fullyrðingin virðist gripin úr lausu lofti, hugsanlega hrein og klár óskhyggja – eða einfaldlega „getgátur“. Er þetta í lagi í fræðigrein að koma með svona órökstuddar fullyrðingar? Ég velti fyrir mér hvort einhver könnun gerð áður en Vantrú sendi sitt erindi? Guðni segir jú að við horfum fram hjá þessu þegar við sendum inn kæruna. Þá hljóta upplýsingar að hafa legið fyrir áður. Eða áttum við, áður en við sendum erindið, að taka tillit til upplýsinga sem komu fram eftir að við sendum það inn? Jafnvel þó rétt væri er þetta nú ekki mikils virði, því þarna er jú að miklu leyti fólk sem ætlar sér að lifa á getgátum guðfræðinnar. Hann vísar reyndar í að hluti þeirra séu trúlausir, aftur hef ég ekki grun um hvaðan hann hefur þessar upplýsingar eða hvaða máli þetta ætti að skipta. En þar fyrir utan, teljast það virkilega að vera góðir og gildir kennsluhættir að birta nemendum mjög neikvæða og hlutdræga mynd af einhverju og ætlast til að þeir fari sjálfir og komist að því að um kolranga mynd er að ræða? Hversu margir nemendur ætli hafi haft frumkvæði og tíma til eigin rannsókna? Þeir sem ekki gerðu það hafa jú engar forsendur til að segja annað en að þetta hafi verið „allt-í-lagi“, þeir hafa jú engar aðrar upplýsingar en þær sem komu fram. Það má nefnilega ekki gleyma því að athygli var vakin á þessu af nemendum sem fannst umfjöllunin engan veginn í lagi, bæði á glærum og í tímum.

Sama gildir um greinargerðir akademískar sérfræðinga. Guðni nefnir ekkert um hvaða greinargerðir þetta eru, hverjir voru valdir til að skrifa þessar greinargerðir eða á hvaða forsendum. Aftur er Guðni að fullyrða eitthvað sem enginn fótur virðist fyrir, kannski getgátur að hætti hússins. Hann skammar Vantrú fyrir að taka ekki mark á þessum greinargerðum. Áður en erindi var sent inn. Voru akademískar sérfræðingar búnir að taka út kennsluefnið áður en Vantrú sendi inn sitt erindi. Eða átti Vantrú að taka tillit til greinagerða sem ekki voru unnar fyrr en eftir að erindið var sent? En kannski skiptir mestu að þeir hafa ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna efnið á að hafa verið í lagi. Siggi-í-kaupstaðnum-segir-það eru auðvitað marklaus rök.

Þá er skemmtileg (eða réttara sagt, skelfileg) hringrás í rökum Guðna. Hann ætlar að sýna fram á að efnið sé í lagi. En til þess notar hann þær forsendur að efnið hafi verið í lagi! Hann tekur aðeins mark á þeim fræðimönnum sem fullyrða að efnið sé í lagi, án þess þó að tilgreina hverjir það eru. Þeir fræðimenn sem gera athugasemdir við efnið eru hins vegar afskrifaðir á þeim forsendum að þeir hafi rangt fyrir sér, vegna þess að efnið hafi, jú verið í lagi. Jafnvel fullyrðir Guðni að þeir sem gerðu athugasemdir við efnið hafi ekki kynnt sér það nægilega vel. Þetta gerir Guðni án þess að geta nokkurra heimilda eða birtir nokkrar forsendur fyrir fullyrðingunni, enn einu sinni hljómar þetta eins og getgátur hans. Það eina sem hann nefnir er kannski það að þeir séu ekki sammála fyrirfram gefinni niðurstöðu.

Stór hluti greinar Guðna fer í að verja glæru (33) með fullyrðingum sem eru bæði villandi og meiðandi. Viðkomandi kennari hefur í ritdómi á öðrum vettvangi gert þessar skoðanir að sínum. Hann hefur einnig staðfest að þetta séu hans skoðanir á enn öðrum vettvangi, tekur þar reyndar fram að þær séu það „að hluta“. Á glærunni eru engir fyrirvarar settir, hvergi kemur fram að þetta séu umdeildar skoðanir.. þetta eru einfaldlega fullyrðingar.

Guðni telur að við höfum ekki skilið samhengi eða tilgang glærunnar. Fyrir það fyrsta segir Guðni að þarna séu algengar skoðanir um harðlínutrúleysi. Ég hef að minnsta kosti verið trúlaus lengi, fylgst ágætlega með umræðum um trúleysi og ég get fullyrt að þetta eru ekki algengar skoðanir á trúleysingjum. Eða á hverju er þessi fullyrðing byggð? Getgátur Guðna? Aftur vantar heimildir og stuðning fyrir fullyrðingum sem settar eru fram. Og, nei, það nægir ekki að einhverjir örfáir sérvitringar í guðfræði haldi fram einhverjum skoðunum til að þær teljist „algengar“.

Þá segir Guðni að námskeiðið sé „átakamiðað“ eðli málsins samkvæmt en færir ekki hann rök fyrir því frekar en svo mörgu öðru. En ég get ekki séð neitt í eðli málsins sem krefst þess að það sé átakamiðað? Er það kannski regla í guðfræðideild að námskeið séu „átakamiðuð“? Væri þá ekki rétt að leggja grunninn að þeim „átökum“ með fullyrðingum sem standast einhverja skoðun og hafa eitthvert vægi?

Þá segir Guðni að viðkomandi glærur hafi verið ætlaðar til að hvetja til umræðu. Þetta er óneitanlega sérkennileg skýring, ef ekki alveg fráleit. Það væri auðvitað miklu nærtækara, ef hugmyndin væri að hvetja til umræðu, að kynna þetta sem órökstuddar öfgaskoðanir, sem þær eru, kynna á sömu glæru aðrar skoðanir, aðallega hófsamar og kannski málefnalegar.

Er það virkilega grundvöllur til umræðu að kynna eingöngu órökstuddar öfgaskoðanir? Eru þær ekki fullkomlega verðlaus grunnur að málefnalegri umræðu?

Þannig er ég er enn frekar sannfærður en áður um að þessi framsetning er engan veginn í lagi. Það nægir að benda á hversu fráleit sambærileg glæra væri ef hún fjallaði um stjórnmál eða jafnrétti kynja eða í rauninni hvað sem er annað en trúleysi.

Og svo má ekki gleyma einu lykilatriði. Jafnvel þó svo að hægt væri að verja innihald viðkomandi glæru með því að benda á „eitthvað annað“ þá var einfalt svar við erindi félagsins. Það hefði augljóslega mátt breyta glærunni (og öðrum glærum) jafnvel bæta við öðrum þannig að samhengið og hugmyndin væru skýr. Þannig hefði verið einfalt að loka þessu máli og enga lögfræðinga eða ófrægingarherferð hefði þurft til. Og kennarinn hefði staðið uppréttur eftir og meiri maður fyrir vikið.

Guðni gerir svo mikið úr því að siðanefnd hafi ekki talið ástæðu til að skoða málið frekar. Hann skautar yfir að siðanefnd skoðaði ekki málið og hefur því engar forsendur til að meta hvort erindi Vantrúar átti rétt á sér. Og öllu verra er að hann nefnir hvergi að tvær siðanefndir HÍ töldu málið vel þess virði að skoða og reyndu að ná sáttum. Þær nefndir gáfust upp eftir mikinn hamagang lögfræðinga þar sem því var haldið fram að viðkomandi siðanefndir hafi verið vanhæfar? Hvers vegna? Jú, vegna þess að þær tóku mark á bréfi forseta guðfræðideildar þar sem hann sagði að viðkomandi kennari vildi að guðfræðideild svaraði fyrir hann í þessu máli. Síðan var siðanefnd talin vanhæf af kennara vegna þess að ekki hefði verið haft samband við hann og honum gefinn kostur á andmælum. Sem hann fékk reyndar að senda inn… þessi skollaleikur varð til þess að viðkomandi siðanefndir gáfust upp. Að lokum var skipuð einhver siðanefnd sem afgreiddi málið án þess að skoða leiðir til sátta eins og undantekningarlaust hafði verið venja siðanefnda fram að þessu.

Og nei, ég ætla ekki að leyfa athugasemdir við þessa færslu. Mér var ekki boðið að gera athugasemdir við grein Guðna. Og held að ég láti þetta nægja um þetta leiðindamál. Vonandi þarf ég aldrei að fjalla um þetta aftur.

PS. Ég fékk undarlega athugasemd í spjallþræði þar sem þessari færslu var fundið allt til foráttu á þeim forsendum einum að ég vísaði ekki í tengil á upphaflega grein Guðna. Titill greinar og nafn höfundar er auðvitað nægjanlegt hverjum sem er sem hefur lágmarksþekkingu, en fyrir hina þá er hér tenging í grein Guðna.

Trú út úr kú (í frumvarpi)

Posted: nóvember 5, 2013 in Umræða

Það liggur fyrir frumvarp fyrir Alþingi til breytinga á hegningarlögum.

Þar er upptalning á því sem refsivert er að hæðast að

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum

Öll atriðin – nema eitt – eiga að sameiginlegt að þar er um atriði sem viðkomandi hefur ekkert um að segja, þetta atriði er trúarbrögðin.

Trúarbrögðin eru eina atriðið í þessari upptalningu sem er valkostur hvers og eins.

Hvers vegna er það refsivert að gera grín að skoðunum sem þykja undarlegar, fráleitar, heimskulegar, hættulegar – bara vegna þess að þær eru trúarlegs eðlis?

Má ég eiga von á fangelsisvist ef ég segi hvað mér finnst um þá sem trúa því að jörðin sé flöt?

Eða ef ég voga mér að gagnrýna boðskap þeirra sem vilja drepa í nafni trúar? Kostar það eitt eða tvö ár í grjótinu?

Og ef út í það er farið, hvers vegna eru trúarskoðanir merkilegri en aðrar skoðanir? Má ekki allt eins banna að gera grín að öðrum skoðunum?

Nú eða bara taka út úr frumvarpinu það sem snýr að skoðunum..