Það er upphafinn einhver svakalegur áróðurssöngur síðustu daga sem felst í því að reyna að narra fólk með öllum tiltækum ráðum til að skrá sig í þjóðkirkjuna. Hér má nefna undarlegan leiðara Fréttablaðsins og ekki vel upplýsta ræðu innanríkisráðherra á kirkjuþingi.
Svo það sé á hreinu þá er ég ákaflega mótfallinn því fyrirkomulagi að hafa þjóðkirkju, enda orðið nánast óþekkt fyrirbæri.
Hins vegar er líka allt í lagi að fólk sé í trúfélagi ef það kýs svo, svo framarlega sem það lætur okkur hin í friði.
En það hefur verið mikil fækkun í þjóðkirkjunni og hún sér enn einu sinni fram á gríðarlegan tekjumissi.
Það er eflaust hægt að tína til rök fyrir þá sem vilja hafa þjóðkirkju, þó ég sé þeim ósammála. En það er allt í lagi að rökræða hlutina. Og það er allt í lagi að bera fram rök fyrir því að fólk sem er trúað eigi að vera í þjóðkirkjunni. Aftur er ég ósammála, en það er allt í góðu að ræða rök með og á móti.
Það er hins vegar ekki í lagi að færa fram rökleysur, staðlausa stafi, fullyrðingar út í bláinn og beinlínis rangfærslur. Það gerir bara fólk með vondan málstað.
Annars ágætur kunningi, Davíð Þór Jónsson, hefur nú í tvígang komið fram með hverja vitleysuna á fætur annarri til að reyna véla eða narra fólk til að ganga í þjóðkirkjuna. Og ólíkt því sem ég hef áður séð frá honum, þá svarar hann mótrökum lítið eða þá með skætingi.
Hann hélt því fram í athugasemd á Facebook að
– útgerðargreifar fengju þær krónur sem þjóðkirkjan missir af, án þess að geta í nokkru skýrt hvernig skattfé fer eyrnamerkt til þeirra
– krónur, sem annars færu til söfnuða, væru settar í að styrkja menningarhatur, án þess að geta nokkru svarað um hvert þetta menningarhatur er
– að greiðslur til biskuppstofu væru óháðar fjölda meðlima þjóðkirkjunnar
– að einhverjar kannanir sýndu eða gæfu til kynna að fólk hefði sagt sig úr þjóðkirkjunna á röngum forsendum, án þess að geta að nokkru nefnt hvaða kannanir þetta eru
– ekki væru aðrir valkostir en þjóðkirkjan annars vegar eða útgerðargreifar og menningarhatur hins vegar, og skautar þannig yfir valkosti eins og Siðmennt og önnur lífsskoðunarfélög
– að við vitum ekki í hvað skattpeningarnir fara, sem er augljóst – svarið að miklu leyti heilbrigðis, velferðar og menntamál
Og í morgun beit hann höfuðið af skömminni í einhverju viðtali þar sem hann gaf í skyn að fólk gæti ekki leitað sér hjálpar við áföllum nema hjá prestum. Hvernig í dauðanum dettur honum í hug að tala niður til heillar stéttar vel menntaðs fagfólks? [breytti aðeins um orðalag til að forðast misskilning]
Sæll! – Undarleg árátta hjá þér að sífellt vera að fjalla um trú – Ertu ekki trúlaus? Hvaðan kemur þessi þörf á að sífellt vilja níða niður kristna trú – Ertu kannski ekki trúlaus? Hver er þinn Drottinn?
Á meðan ég þarf að borga fyrir ríkisrekið trúfélag þá er ekkert undarlegt við það að ég fjalli um trúfélög. Ekki síst þegar verið er að reka áróður fyrir auknum ríkisrekstri á fölskum forsendum.
Ég er ekki að níða niður kristna trú, ég er að gagnrýna rekstrarform trúfélaga.. á því er stór munur.
Jú ég er trúlaus og það er enginn „drottinn“ hjá mér.
Fyrir utan nú það að í þetta skiptið er umfjöllunarefnið beinlínis rangfærslur um skattfé og hvert það fer.
Hvernig væri nú að reyna að vera aðeins málefnalegri Kristjón?
Það er ekki bara þjóðkirkjan sem gerir þetta heldur er Siðmennt líka að smala í sinn flokk til að fá safnaðargjöld
Mér finnst ekkert óeðlilegt að þjóðkirkjan reyni að fá til sín fólk – svona á meðan þetta fyrirkomulega er í gildi.
Ég er að gagnrýna að hún geri það á fölskum forsendum.
[…] vinur minn og liðsfélagi í sigurliði Popppunkts frá því í fyrra, fullyrðir í bloggfærslu að ég hafi beinlínis “drullað yfir heila stétt vel menntaðs […]
Ég setti nú „drullað“ í gæsalappir, sem átti nú að gefa í skyn að það væri ekki bókstaflega meint… heldur að þú hafir talað niður til annarra stétta en presta þegar kemur að áfallahjálp.
En ég skal breyta um orð ef þetta veldur misskilningi.
Reyndar fer ansi drjúgur hluti af skattfé í vaxtagreiðslur, auk heilbrigðis-, velferðar- og menntamála…en það er nú önnur saga.
það er rétt, en ég var nú að horfa á það sem er til ráðstöfunar fyrir utan þannig „fasta“ liði