Sarpur fyrir maí, 2013

Mig dreymdi undarlegan draum, Við fjölskyldan höfðum (í draumnum) ágætis tekjur af því að skola grænmeti. Við keyptum þetta ódýrt, skoluðum og þrifum og seldum með talsverðum hagnaði. Við höfðum reyndar þurft að fjárfesta í búnaði, bæði við að skola og þurrka og eins til að dreifa vatninu. Til málamynda borgaði ég konunni fyrir vatnsnotkunina en það er frekar lítið, ég man ekki hvers vegna, sennilega vegna þess að hún hafði sett upp allan búnaðinn.

Svona rétt rúmlega þriðjungur tekna heimilisins kom af þessari vinnu.

En aðalinnihaldið var að aðrir fjölskyldumeðlimir, og einhverjir kunningjar, voru alltaf að segja okkur að hætta þessu og fara að gera eitthvað annað, þetta sé óþriflegt og allt of hátt hlutfall tekna heimilisins komi af þessu. Þá séu græjurnar ljótar og garðurinn sé ekki eins fallegur. Þau tala líka mikið um að konan geti fengið miklu hærra verð fyrir vatnið ef við gerum eitthvað annað við það, notum það bara sjálf í eitthvað annað.

Þetta vafðist samt fyrir mér. Ég gat alveg fallist á að í sjálfu sér væri gott að hafa tekjur af fjölbreyttari vinnu. En ég vildi ekki að hætta þessu til að gera „bara eitthvað annað“ fyrr en ég fengi svör um hvað þetta „bara eitthvað annað“ ætti að vera og hvernig það myndi skila heimilinu tekjum – nú eða spara nægileg útgjöld á móti. Þá var ég ekki að skilja að það myndi breyta miklu þó ég borgaði konunni minni miklu hærra verð fyrir vatnið, ef það eru hvort sem er bara tilfærslur innan heimilisins.

Að leggja sjálfan sig í einelti

Posted: maí 29, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Í kjölfar umræðunnar um að þingmaður telji fólk frá greitt fyrir að leggja sig í einelti…

Nú get ég ekkert fullyrt um það, af eða á, hvort einhver fái greitt fyrir að skrifa neikvæðar greinar og athugasemdir um viðkomandi þingmann eða ekki. Ég veit þetta ekki en þykir harla ólíklegt, ég sé ekki hver þetta ætti að vera eða hver tilgangurinn ætti að vera.

Hitt er, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, að ég hef ekki mikið álit á viðkomandi þingmanni. Eflaust er þarna ágætis manneskja á ferð, ég þekki það ekki og hef engar forsendur til að halda annað. Það sem ég á við er að ég hef ekki mikið álit á störfum viðkomandi á Alþingi og hefði kosið að sjá hana í öðru starfi.

Ástæðan er ekki sú að einhver hafi sagt eitthvað ljótt um hana á einhverjum vefsíðum eða staðið að einhverju persónulegu níði. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta og hefði ekkert gert með að þó svo hefði verið.

Ástæðan er einfaldlega sú að viðkomandi þingmaður hefur ítrekað látið frá sér ummæli og skoðanir sem ég er fullkomlega ósammála, standast enga skoðun og / eða eru beinlínis rangar – hefur sýnt það sem ég tel vera mikið dómgreindarleysi.

Eina manneskjan sem hefur orðið til þess að rýra álit mitt á störfum hennar er nefnilega hún sjálf.

Þannig má kannski halda því fram að hún sé að leggja sjálfa sig í einelti.

PS. ég fæ ekkert borgað fyrir þessa greing – ég er ekki að taka þátt í einelti – ég er einungis að gera athugasemdir við fullyrðingar

Það má orðið ekki segja neitt eða svara neinu, hversu mikil þvæla og vitleysa sem það annars er… allt er orðið flokkað og afgreitt sem einelti.

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar.. sem ég þori varla að nefna á nafn af ótta við að fá á mig skæðadrífum að ég sé að leggja hana í einelti.. leggur í dag upp með að við séum eineltisþjóðfélag.

Hún tekur tvö dæmi. Í báðum tilfellum er það Vegna þess að einstaklingar sem hafa sóst eftir völdum, þingmennsku og ráðherraembætti hafa látið frá sér fara einstaklega vanhugsuð og illa ígrunduð ummæli, svarað út í hött og hreinlega farið með staðlausa stafi.

Þetta hefur ekkert með einelti að gera. Fólk sem sækist eftir sviðsljósinu og er stöðugt að láta einhverja þvælu frá sér fara verður einfaldlega að sætta sig við að viðkomandi málflutningi sé svarað. Í langflestum tilfellum eru athugasemdirnar málefnalegar og rökstuddar. Í einstaka tilfellum er vissulega gengið of langt en þau ummæli eru fátíð og dæma sig sjálf.

Þetta er ekki einelti. Heldur fyrrum utanríkisráðherra að þetta sé það sem börn sem verða fyrir einelti verði að þola? Að þeim sem stöðugt eru að vekja athygli á eigin rugli sé svarað?

Betri frídaga

Posted: maí 27, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég skrifaði pistil á Eyjuna fyrir nokkrum árum um betra fyrirkomulag frídaga.

Þessi umræða dúkkar alltaf öðru hverju upp en ekkert virðist gerast.

Það má koma frídögunum talsvert betur fyrir þannig að frítími og vinnutími nýtist betur, bæði fyrir atvinnurekendur og starfsfólk.

Þetta er hægt án þess að fækka eða fjölga frídögum, það má jafnvel koma þessu þannig fyrir að þeir verði jafnmargir á hverju ári, í stað þess að stundum sé nánast vika í frí yfir jólin og í önnur skipti sé varla frí.

Aðferðin er ekki flókin.

Sleppum hálfum frídögum, eins og gamlársdag og aðfangadegi.

Höfum frídag:

 • síðasta virka dag hvers árs
 • síðasta virka dag fyrir 25. desember
 • fyrstu tvo virka daga eftir 24. desember
 • fyrsta virka dag hvers árs
 • síðasta föstudag fyrir 16. júní, í stað 17. júní
 • fyrsta mánudag í maí, í stað 1. maí
 • fyrsta mánudag í ágúst, frídagur verslunarmanna
 • fyrsta mánudag í júní, frídagur sjómanna – eða föstudag fyrir fyrsta sunnudag í júní
 • páskana óbreytta, en það mætti festa þá við fyrstu helgi í apríl

Leggjum í staðinn af:

 • sumardaginn fyrsta
 • uppstigningardag
 • annan í hvítasunnu

Fyrir nokkrum dögum lýsti þýskur kardináli því yfir að best væri að þýskar konur sætu heima og stuðluðu að fólksfjölgun til að vinna á móti fjölgun innflytjenda.

Karluglunni tókst að slá þrjár flugur í einu höggi þarna í einni setningu.. og staðfesta þannig að söfnuðir eins og hann vinnur hjá á ekkert erindi í nútímasamfélag.

Fyrir það fyrsta er auðvitað kvenfyrirlitningin. Þar bætast við kynþáttafordómarnir. Og ekki gleyma hræsninni, hann er jú vígður kaþólskur prestur og leggur ekkert að mörkum við að fjölga kynstofninum sem honum finnst svona mikilvægur.

Þetta væri auðvitað fyndið ef þetta væri ekki hátt settur embættismaður hjá nokkuð áhrifamikilli stofnun.

Og þetta væri kannski líka fyndið ef þetta væri ekki af sömu rótum og sú ótrúlega mannfyrirlitning sem Parísarbúsar opinbera á götum borgarinnar til að mótmæla giftingum samkynhneigðra.

Allt í nafni og undir áhrifum trúarinnar.

Höfum við virkilega eitthvað að gera við þetta?

Og kannski enn frekar, ég veit að sumir finna margt jákvætt í trúnni og sækja þangað ákveðin gildi – sem í flestum tilfellum eru auðvitað jákvæð.

En má ekki sleppa trúnni og halda gildunum, hvort sem viðkomandi vill kalla þau „kristin“ eða eitthvað annað, því flest eru þau jú eldri en kristnin – og losna þannig undan þessu fargi mannfyrirlitningar sem trúin virðist leggja á fólk?

Ég hef auðvitað ekki hugmynd um hvað mér finnst um nýja ríkisstjórn. Það er nefnilega alveg eðlilegt, hún er ekki (eða varla) komin til starfa. Ég ætla að leyfa mér að meta hana af verkum hennar, ekki fyrirfram..

Vissulega er sumt sem mér líst ekkert sérstaklega vel á í stefnu stjórnarinnar, svo langt sem hægt er að festa hönd á henni, annað hljómar ágætlega. Ég held að lækkun skatta og einfaldara skattkerfi sé til bóta, að minnsta kosti ef rétt verður staðið að málum. Mér finnst fráleitt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild „í miðri á“ og ég hef ekki góða tilfinningu fyrir nálgun þeirra að nýrri stjórnarskrá. Ég var ekki sáttur við auðlindagjald fyrri stjórnar, taldi betri leiðir fyrir hendi, en að bakka aftur til fyrra horfs finnst mér enn verra. Og þetta tal um að það stangist á við stjórnarskrána er auðvitað út í hött, að minnsta kosti ef svo væri, þá er það endanleg sönnun þess að sú gamla er handónýt!

Ráðherravalið hefði getað verið talsvert verra – fljótt á litið þá virðist þarna veljast frekar fólk sem hægt er að ræða við, frekar en aðrir sem ég óttaðist að settust í ráðherrastól, nefnum engin nöfn.

Ég er alveg til í að gleyma kjánahrollinum við að sjá kosningaloforðin þynnast út og hverfa… það hefði verið svo miklu verra ef reynt hefði verið að standa við þau. Og sama gildir um fólkið sem var með allt á hreinu fyrir kosningar en þarf svo að fara að leggjast í að skoða þau eftir kosningar. Ég vil nefnilega miklu frekar að mál verði skoðuð og vandað til vinnu við lausnir, en að hlaupið verði eftir þeim yfirýsingum sem boðið var upp á í kosningabaráttunni.

En, aðalatriðið er… ég ætla ekki að dæma fyrirfram.

Við „unnum“ miða á úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Amsterdam í síðustu viku, eða réttara sagt, við unnum réttinn til að kaupa miða á eðlilegu verði hjá UEFA. Við Alli og Maggi fórum á leikinn og Dísa (kona Magga) kom út á föstudag og var með okkur um helgina. Iðunn fékk ekki flug á einu sinni hálf-boðlegu verði, þrátt fyrir að vélin á föstudag væri ekki full og vélin heim hálf tóm. Spurning hvernig það getur borgað sig að afþakka að selja sætin…

En það var fín stemming í borginni fyrir leik. Seint um kvöldið fyrir leikdag, eða um hálf-tvö um nóttina, voru stuðningsmenn liðanna sitt hvor megin við eitt síkið í borginni að syngjast á. Sama stemming var á Dam torgi fyrir leik, engin leiðindi.. Stuðningsmenn Chelsea nutu þess enn að vera tæknilega séð Evrópumeistarar og óskuðu eftir Mourinho.

Leikurinn var ekkert sérstakur framan af, betri stemming hjá stuðningsmönnum Benfica ena þeir töpuðu, að mér fannst, frekar ósanngjarnt þegar þeir fengu á sig mark á síðustu mínútu og misstu af dauðafæri á allra síðustu mínútu – rétt þegar við vorum að undirbúa að horfa á framlengingu.

Ég var frekar hlutlaus fyrir leik, en hélt alltaf meira og meira með Benfica þegar leið á leikinn.. eiginlega vegna þess að sessunautar mínir – þeas. ekki Maggi – voru heitir stuðningsmenn Chelsea, eiginmaður frekar leiðinlegur og hrokafullur, til dæmis þegar hann var að tala um „Portuguese cunts“. Ég hefði kannski átt að spyrja hvort hann ætti við Mourinho… eða átt að benda honum á að það spilar bara einn Portúgali með liði Benfica. Ekki margir Portúgalir (ef ég veit rétt) með liði Chelsea heldur, en það hafa nú nokkrir spilað þar síðustu ár. En hefði nú sennilega ekki verið klókt að vera með athugsemdir við æstan aðdáanda. Konan hans gólaði svo talsvert mikið í eyrað á mér, aðallega „Oh, my god“ og nokkra frasa. En þegar maðurinn brá sér frá missti hún allan áhuga á leiknum.

Annars er alltaf gaman að koma til Amsterdam, hver frábær barinn og eðal bjórar við þann næsta. In De Wildeman, Café Belgique, De Pilsener Club, De Bekeerde Suster eru barir sem er ómissandi að heimsækja… hver með sinn sjarma, stemmingu og bjór. Argengínski steikarstaðurinn Gaucho er fínn, indónesíski Kantijl & De Tjigr með frábæra samsetningu á réttum, og svo til þess að gera lítið þekktir veitingastaðir, hinn ítalski Savini hefur bara einu sinni verið í meðallagi, hin skiptin mjög góður. En sá franski Van de Kaart sem hingað til hefur verið frábær náði ekki að heilla okkur með piparsteikinni sem var í aðalrétt… en aðrir réttir stóðust svo sem væntingar.

Hiksti hjá Blikum

Posted: maí 12, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Blikarnir gerðu ekki beinlínis góða ferð til Eyja í Pepsí deild karla í dag.. en ekki hægt að segja að úrslitin gefi rétta mynd af leiknum.

Ég ákvað að kíkja á leikinn á næsta íþróttabar… en þegar ég mætti voru menn uppteknir af bikarafhendingu til Manchester United, mér var sagt að þeir myndu bíð eftir bikarnum, sem tók 10 mínútur… og svo liðu aðrar 25 á meðan einhverjar seremóníur og viðtöl voru í gangi. Hvernig má það vera að menn hafi frekar áhuga á syngjandi og spjallandi köllum, fjölskyldumyndum og einhverri dómsdags væmni.. en alvöru fótbolta í beinni útsendingu – á bar sem gefur sig út fyrir að vera íþróttabar.

En, að leiknum. Þetta gekk ekki.. og án þess að taka nokkuð af Eyjamönnum, sem börðust vel og voru markvissir í sínum sóknum – og greinilega mikil stemming í liðinu – þá fannst Blikahjartanu nú einhvern veginn úrslitin ekkert sérstaklega sanngjörn. Það er kannski ekki spurt að því, en ég lét aðeins fara í taugarnar á mér síendurtekið tal þulanna um að Eyjamenn vildu þetta meira. Þann rétt rúma hálfleik sem ég sá, áttu Blikar 4 skot í stöng eða slá, sennilega 15 hornspyrnur í seinni hálfleik og sóttu án afláts. Hvernig er hægt að líta á þetta sem viljaleysi.

Nú, það var svo eitt og annað að… tvö mörk í uppbótartíma sem bæð skrifast á kæruleysi er aldrei boðlegt. En verra fannst mér að sjá allt of margar háar sendingar, þess vegna upp í vindinn, hjá liði sem er best þegar það lætur boltann ganga með jörðinni. Og svo munar auðvitað um að lykilmenn voru kannski ekki að ná sér á strik.

En, kom ekki mark ársins hjá Kristni?

Snjóhengjutregi, nr. 2

Posted: maí 11, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég las einhverju sinni smásögu um mann sem var haldið föngnum í þorpi árum saman vegna þess að þorpsbúar þurftu á honum að halda. Hann átti sér þá ósk heitasta að sleppa, en þegar hann var leystur úr haldi komst hann að því að hann vildi hvergi annars staðar vera.

Ég var að velta snjóhengjunni fyrir mér í færslu um daginn, ég fékk svo sem ekki miklar skýringar á því hvernig samningar við kröfuhafa snjóhengju eigenda eigi að skila okkur fúlgum, Einar Karl og Rósa Björg sendu inn ágætis ábendingar, líkast til var ég að einfalda þetta of mikið, en sé ekki að það breyti niðurstöðunni.

Hinn hlutinn af snjóhengju vandanum er – og aftur með fyrirvara að ég sé að skilja rétt – að eigendur þessara krafna eru að stórum hluta erlendir fjárfestar sem vilja fyrir alla muni koma eigum sínum úr landi. Ef það á að ganga eftir þurfa þeir að kaupa mikið af gjaldeyri sem aftur verður til þess að gengi krónunnar myndi lækka. Það virðist reyndar gleymast í þessu samhengi að þegar peningum var dælt inn í landið var gengi krónunnar allt of hátt og öllum var sama.

Burtséð frá því, þetta eru fjárfestar sem vilja ávaxta sitt pund – látum liggja á milli hluta hvað okkur finnst um það – og kannski ekki eins einsleitur hópur og margir vilja láta, látum það líka liggja á milli hluta.

En hvers vegna vilja þessir fjárfestar endilega fara með peningana úr landi? Nú eru væntanlega betri tækifæri hér en víða annars staðar til fjárfestinga, við erum eitthvað á undan mörgum öðrum þjóðum að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og tækifærin virðast liggja víða.

Getur verið að ástæða þess að þeir vilja komast með eignirnar séu einfaldlega hömlur á viðskiptaumhverfi? Er mögulegt að sú aðgerð að takmarka flutning á fjármagni úr landi sé aðal ástæða þess að kröfuhafarnir vilji flytji fé úr landi?

Getur verið að sagan sem ég vísaði til í upphafi eigi við um snjóhengjuna? Ef svo er… þá efast ég um að hugmyndir um að berja manninn með kylfu og kasta honum út séu endilega ráðlegasta leiðin?

Eins og fyrri færslan þá er þetta skrifað með fyrirvara, kannski er ég einfaldlega of tregur til að skilja málið, en það væri þá vel þegið að fá svör.

Snjóhengjutregi, nr. 1

Posted: maí 10, 2013 in Umræða
Efnisorð:

„Tregi“ vísar hér ekki til íslenskunar á tónlistarstefnu og hugarfari sem í enskumælandi löndum er gjarnan kallað „blues“ heldur er ég eitthvað tregur þegar kemur að títtnefndri snjóhengju. Og þykist ég nú ekki vera neitt sérstaklega tregur svona dags daglega – ég á alveg mín augnablik af gáfulegum hugsunum, ef út í það er farið. Held ég. Vona ég.

En stundum er gott að setja hlutina aðeins í annað samhengi. Gefum okkur að við fjölskyldan höfum veitt fyrirtæki aðstöðu, jafnvel skrifað upp á eitthvað um að allt væri í stakasta lagi og það hafi verið okkar hlutverk að hafa eftirlit með þeim, ég hafi þess vegna verið stjórnarformaður. Og þegar viðskiptavinir leituðu ráða og upplýsinga hjá okkur þá fullvissuðum við þá um að allt væri í stakasta lagi. Framkvæmdastjórar og annað starfsfólk sótti peninga út um víðan völl, segjum 100 milljónir, fjárfesti í tómri vitleysu og keyrði fyrirtækið í gjaldþrot á stuttum tíma. Og lítið hefur spurst til þessara framkvæmdastjóra, nema hvað að þeir senda öðru hverju frá sér tilkynningar um að ýmist komi þeim þetta ekkert við, fyrirtækið hafi ekkert farið í gjaldþrot eða þetta hafi allt verið einhverjum öðrum að kenna.

En…

Þeir sem lánuðu fyrirtækinu gera nú kröfu á okkur. Við sögðum að allt væri í lagi og ég var stjórnarformaður og skrifaði upp á einhverja pappíra. Við eigum auðvitað ekki möguleika á að borga þessar 100 milljónir. En kröfuhafarnir vilja sitt, þeim liggur ekkert á og hafa margoft sýnt biðlund til að ná sínu fram.

Nú eru komnar upp hugmyndir um að við förum fram á að kröfuhafarnir afskrifi megnið af þessum kröfum, jafnvel 75%. Sumir vilja meira að segja beita alls kyns bolabrögðum.

Og, gott og vel, það munar auðvitað miklu að skulda bara 25 milljónir í stað 100 milljóna, þó það yrði erfitt, ef ekki nánast vonlaust að borga.

Þeir sem halda því fram að það sé ekkert mál að fá afskriftir, eru líka farnir að tala fjálglega um hvað við eigum að gera við peningana sem við fáum þegar hluti skuldanna er afskrifaður.

Kemur þá áðurnefndur tregleiki til sögunnar. Ég er kannski ekkert sérstaklega sleipur í bókhaldsbrellum, en hvernig geta afskrifaðar skuldir, allt í einu breyst í fulla vasa af seðlum?