Sarpur fyrir maí, 2013

Mér fannst svolítið skondið að fylgjast með viðbrögðum nokkurra ágætra félaga þegar tilkynnt var að Alþingi hefði ákveðið að kaupa iPad spjaldtölvur fyrir þingmenn.

Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi Apple, en ekkert sérstaklega uppsigað við fyrirtækið heldur, ef út í það er farið. Ég nota iPod fyrir tónlistina, Android síma og Windows á tölvunni – allt eftir því hvað mér hentar best. Svo því sé haldið til haga þá veit ég ekkert hvaða kröfur voru gerðar þegar tegund spjaldtölvu var valin og þar af leiðandi get ég ekkert sagt um hvað ég hefði valið.

En mér fundust viðbrögðin stundum yfirdrifin, aðallega frá þeim sem tala máli opins hugbúnaðar. Alþingi háð stöðluðu og lokuðu kerfi frá „ljótum köllum“ í útlandinu.

Opinn hugbúnaður hefur sína kosti og sína galla. En stundum skiptir þetta engu máli. Það er einfaldlega verið að velja verkfæri – og það fyrir notendur sem hafa ekki nokkurn áhuga á undirliggjandi tækni eða þörf fyrir að skilja hana, hvað þá að geta átt við tækið.

Þetta er svona eins og að kaupa brauðrist. Það sem skiptir máli er að hún geti ristað brauð, ekki hvaðan stýringarnar koma eða hvað vörumerkið heitir.

Við Fræbbblar spiluðum á afmælishátíð Mosa frænda á Gamla gauknum í gær.

Stórskemmtileg hljómsveit, Skelkur í bringu, byrjaði… þau voru eiginlega best í örstuttu lögunum, smá „leikhús“ kryddar þetta skemmtilega hjá þeim… minntu mig kannski eilítið á Tiger Lillies, þó þau hljómi auðvitað ekkert svipað. Saktmóðigur kom næst, þéttir að vanda og eiginlega nákvæmlega eins og þeir eiga að vera. Okkur Fræbbblum gekk, að ég held, ágætlega… að minnsta kosti skemmti ég mér vel og fann ekki að áheyrendum leiddist tiltakanlega. Mosi frændi er líka með sérstæðustu hljómsveitum „í bænum“, við spiluðum með þeim á Rokk í Reykjavík 2.0 fyrir ári.. og kannski finnst mér skemmtilegast að heyra þá spila eigin útgáfur af annarra manna efni, mjög fyndið að heyra gömlu lögin í þeirra útgáfu. Hellvar kláraði svo kvöldið og minnti á hvers vegna þau eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.. ekki á þeim að heyra að þau hefðu ekki náð einni einustu æfingu fyrir kvöldið.

En svona í stuttu máli, stórskemmtilega blanda af hljómsveitum úr öllum áttum.

Og ekki gleyma staðnum, Gamla gauknum, sem er eiginlega uppáhaldsstaðurinn okkar fyrir spilamennsku – góð aðstaða fyrir hljómsveitir, fínar græjur á staðnum og topp hljóðmaður.

Álitlegt Blikalið

Posted: maí 6, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ánægjulegt að sjá góða byrjun Blika á Íslandsmóti karla, Pepsí-deildinni, í gær.

Það er auðvitað ekki hægt að lesa of mikið í einn leik, en liðið lítur óneitanlega vel út, vel skipulagt, flottur bolti, góð barátta og liðsandinn greinilega í lagi. Mótherjarnir í Þór hafa sennilega ekki séð gras síðan í fyrra, hvað þá að hafa getað æft á grasi og eiga örugglega eftir að slípast til.. og væntanlega verða erfiðari leikir þegar líður á sumarið.

Ef eitthvað er fundust mér of margar ónákvæmar sendingar þegar nálgaðist mark andstæðinganna, nokkrum sinnum hefðu menn mátt vera betur vakandi fyrir skemmtilegum hlaupum Nichlas Rohde – og svo var auðvitað óþarfi að sofna og fá á sig mark á síðustu sekúndu.

Ég er enn að velta vöngum yfir þessum „kristnu gildum“ sem sumir Sjálfstæðismenn vildu hafa til hliðsjónar við lagasetningu.

Kannski er það vegna þess að ég fæ engin svör um hver þessi kristnu gildi eru, þeas. hvaða gildi eru þarna sem ekki finnast í öðrum trúarbrögðum og/eða lífsskoðunum og skipta máli. Og hef ég nú mikið spurt.

Við getum strax útilokað verið sé að vísa til boðorðanna tíu – þá hefði verið talað um að byggja lagasetningar á „gyðinglegum gildum“.

Eins er strax hægt að útiloka almennt siðferði og náungakærleik og gullnu regluna – þetta er allt saman miklu eldra en kristnin – og finnst hjá flestum siðuðum lífsskoðunarfélögum.

En hvað einkennir kristnina sérstaklega? Það er rétt að taka fram að ég er ekki að gera lítið úr því góða og jákvæða sem kristnin hefur þegið frá öðrum hugmyndaheimum, þar er margt gott og gilt. En hvað er sérstakt?

Jú, meyfæðingin, upprisan og að bjóða hinn vangann. Fyrri tvö atriðin eru kannski engan veginn heldur einkennandi fyrir kristnina. Og það sem verra er, það er varla hægt að setja einhver lög sem byggja á upprisu eða meyfæðingu. Eða ég vona að minnsta kosti að það hafi ekki verið hugmyndin í þessu tilfelli.

Þá stendur eftir þetta með að bjóða hinn vangann. Ég man ekki til að þetta komi beinlínis annars staðar, má auðvitað vera minn misskilningur og/eða vanþekking.

En ef rétt er þá vilja þeir sem þetta samþykktu setja í lög á sá sem er sleginn utanundir eigi að bjóða hinn vangann..

PS. Mér fannst nú rétt að láta þessar vangaveltur liggja á milli hluta fram yfir kosningar.

Til hamingju Siðmennt

Posted: maí 3, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Frábært að fá þær fréttir að Siðmennt sé viðurkennt lífsskoðunarfélag.

Hér er aflétt enn einum mismuninum þar sem fólki var gert mismunandi hátt undir höfði eftir því hvort það byggði sína lífsskoðun á trú á yfirnáttúrulegar verur eða ekki.

Til hamingju og þakkir til forystu Siðmenntar fyrir frábært starf.

Nei, ég virði ekki allar skoðanir

Posted: maí 2, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég verð aðeins að fá að svara þessu tali um að við eigum að virða skoðanir annarra.

Það er auðvitað fráleitt.

Ég virði að sjálfsögðu rétt allra til að hafa hvaða skoðun sem er á hverju sem er. Og ég get virt einstaklinga sem hafa skoðanir sem mér finnast fráleitar, heimskulegar og/eða hættulegar. Ég virði reyndar ekki rétt neins til að boða hugmyndir sem eru mannskemmandi og/eða hættulegar.

En ég virði ekki skoðanir sem stangast á við þekktar staðreyndir, byggja á rökleysum og/eða bábiljum. Það kemur bara ekki til greina.

Þessu fylgir svo auðvitað að þó ég telji skoðanir einhvers hreinasta þvætting, þá þýðir það ekki virðingarleysi fyrir viðkomandi einstaklingi, aðeins viðkomandi skoðun.

Ég hef lengi talað fyrir persónukjöri í kosningum. Hefði það verið í boði síðustu helgi hefði ég til dæmis getað stutt Skúla Helgason inn á þing án þess að eiga á hættu að atkvæðið nýttist Ólínu Þorvarðardóttur – að ég tali nú ekki um ýktari dæmi en það.

Það skiptir mig talsverðu máli að fá fólk inn á þing sem ég get treyst til að vinna úr málum og taka málefnalega afstöðu til þeirra þegar þar að kemur. Fólk sem hleypur ekki undir pilsfaldinn hjá formanninum þegar reynir, leggst ekki í flokksgrafir (flokkslínur + skotgrafir). Það er ekki ljóst fyrir kosningar hvaða mál koma til afgreiðslu á komandi þingi þannig að það að kjósa flokka eftir stefnumálum er til þess að gera gagnslítið. Jú, línur eru kannski lagðar með almennum hætti, en ganga kannski ekki svo mikið eftir þegar á reynir, sérstaklega ekki í samsteypustjórnum.

Eini maðurinn sem ég þekki sem kaus Framsókn – já, ég játa að ég þekki einn – hafði nákvæmlega enga trú á stefnumálum flokksins eða að flokkurinn gæti staðið við stóru orðin. En kaus samt, ef ég skil rétt, vegna þeirra einstaklinga sem voru í forystu fyrir flokkinn. Þannig fær flokkurinn samt þau skilaboð að viðkomandi kjósandi styðji stefnu hans.

Þá eru stefnuskrár flokkanna þannig að vonlaust er að finna flokk sem er að öllu leyti sammála mér – eða ég sammála flokki. Það eru miklu meiri líkur til að finna einstaklinga sem hafa svipaðar skoðanir, því innan flokkanna safnast jú saman fólk með ólíkar skoðanir.

Þannig er persónukjör miklu nærtækara – og talsvert einfaldari og hreinlegri leið kjósendur að hafa áhrif.

Hitt er, að auðvitað eru málefni líka mikilvæg. En aftur þá eru stefnuskrár flestra flokka undarleg karfa af ágætis málum, þokkalega góðum en óljósum vilja og svo satt best að segja, tómri þvælu.

Þetta er auðvitað ekkert flókið. Það má samhliða kosningum með persónukjöri greiða atkvæði um nokkur mál – förum nánar út í það síðar hverjir og hvernig á að velja þau mál.

Kjósa sem sagt bæði um menn og málefni án þess að styðja flokka.