Sarpur fyrir maí, 2013

Hiksti hjá Blikum

Posted: maí 12, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Blikarnir gerðu ekki beinlínis góða ferð til Eyja í Pepsí deild karla í dag.. en ekki hægt að segja að úrslitin gefi rétta mynd af leiknum.

Ég ákvað að kíkja á leikinn á næsta íþróttabar… en þegar ég mætti voru menn uppteknir af bikarafhendingu til Manchester United, mér var sagt að þeir myndu bíð eftir bikarnum, sem tók 10 mínútur… og svo liðu aðrar 25 á meðan einhverjar seremóníur og viðtöl voru í gangi. Hvernig má það vera að menn hafi frekar áhuga á syngjandi og spjallandi köllum, fjölskyldumyndum og einhverri dómsdags væmni.. en alvöru fótbolta í beinni útsendingu – á bar sem gefur sig út fyrir að vera íþróttabar.

En, að leiknum. Þetta gekk ekki.. og án þess að taka nokkuð af Eyjamönnum, sem börðust vel og voru markvissir í sínum sóknum – og greinilega mikil stemming í liðinu – þá fannst Blikahjartanu nú einhvern veginn úrslitin ekkert sérstaklega sanngjörn. Það er kannski ekki spurt að því, en ég lét aðeins fara í taugarnar á mér síendurtekið tal þulanna um að Eyjamenn vildu þetta meira. Þann rétt rúma hálfleik sem ég sá, áttu Blikar 4 skot í stöng eða slá, sennilega 15 hornspyrnur í seinni hálfleik og sóttu án afláts. Hvernig er hægt að líta á þetta sem viljaleysi.

Nú, það var svo eitt og annað að… tvö mörk í uppbótartíma sem bæð skrifast á kæruleysi er aldrei boðlegt. En verra fannst mér að sjá allt of margar háar sendingar, þess vegna upp í vindinn, hjá liði sem er best þegar það lætur boltann ganga með jörðinni. Og svo munar auðvitað um að lykilmenn voru kannski ekki að ná sér á strik.

En, kom ekki mark ársins hjá Kristni?

Snjóhengjutregi, nr. 2

Posted: maí 11, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég las einhverju sinni smásögu um mann sem var haldið föngnum í þorpi árum saman vegna þess að þorpsbúar þurftu á honum að halda. Hann átti sér þá ósk heitasta að sleppa, en þegar hann var leystur úr haldi komst hann að því að hann vildi hvergi annars staðar vera.

Ég var að velta snjóhengjunni fyrir mér í færslu um daginn, ég fékk svo sem ekki miklar skýringar á því hvernig samningar við kröfuhafa snjóhengju eigenda eigi að skila okkur fúlgum, Einar Karl og Rósa Björg sendu inn ágætis ábendingar, líkast til var ég að einfalda þetta of mikið, en sé ekki að það breyti niðurstöðunni.

Hinn hlutinn af snjóhengju vandanum er – og aftur með fyrirvara að ég sé að skilja rétt – að eigendur þessara krafna eru að stórum hluta erlendir fjárfestar sem vilja fyrir alla muni koma eigum sínum úr landi. Ef það á að ganga eftir þurfa þeir að kaupa mikið af gjaldeyri sem aftur verður til þess að gengi krónunnar myndi lækka. Það virðist reyndar gleymast í þessu samhengi að þegar peningum var dælt inn í landið var gengi krónunnar allt of hátt og öllum var sama.

Burtséð frá því, þetta eru fjárfestar sem vilja ávaxta sitt pund – látum liggja á milli hluta hvað okkur finnst um það – og kannski ekki eins einsleitur hópur og margir vilja láta, látum það líka liggja á milli hluta.

En hvers vegna vilja þessir fjárfestar endilega fara með peningana úr landi? Nú eru væntanlega betri tækifæri hér en víða annars staðar til fjárfestinga, við erum eitthvað á undan mörgum öðrum þjóðum að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og tækifærin virðast liggja víða.

Getur verið að ástæða þess að þeir vilja komast með eignirnar séu einfaldlega hömlur á viðskiptaumhverfi? Er mögulegt að sú aðgerð að takmarka flutning á fjármagni úr landi sé aðal ástæða þess að kröfuhafarnir vilji flytji fé úr landi?

Getur verið að sagan sem ég vísaði til í upphafi eigi við um snjóhengjuna? Ef svo er… þá efast ég um að hugmyndir um að berja manninn með kylfu og kasta honum út séu endilega ráðlegasta leiðin?

Eins og fyrri færslan þá er þetta skrifað með fyrirvara, kannski er ég einfaldlega of tregur til að skilja málið, en það væri þá vel þegið að fá svör.

Snjóhengjutregi, nr. 1

Posted: maí 10, 2013 in Umræða
Efnisorð:

„Tregi“ vísar hér ekki til íslenskunar á tónlistarstefnu og hugarfari sem í enskumælandi löndum er gjarnan kallað „blues“ heldur er ég eitthvað tregur þegar kemur að títtnefndri snjóhengju. Og þykist ég nú ekki vera neitt sérstaklega tregur svona dags daglega – ég á alveg mín augnablik af gáfulegum hugsunum, ef út í það er farið. Held ég. Vona ég.

En stundum er gott að setja hlutina aðeins í annað samhengi. Gefum okkur að við fjölskyldan höfum veitt fyrirtæki aðstöðu, jafnvel skrifað upp á eitthvað um að allt væri í stakasta lagi og það hafi verið okkar hlutverk að hafa eftirlit með þeim, ég hafi þess vegna verið stjórnarformaður. Og þegar viðskiptavinir leituðu ráða og upplýsinga hjá okkur þá fullvissuðum við þá um að allt væri í stakasta lagi. Framkvæmdastjórar og annað starfsfólk sótti peninga út um víðan völl, segjum 100 milljónir, fjárfesti í tómri vitleysu og keyrði fyrirtækið í gjaldþrot á stuttum tíma. Og lítið hefur spurst til þessara framkvæmdastjóra, nema hvað að þeir senda öðru hverju frá sér tilkynningar um að ýmist komi þeim þetta ekkert við, fyrirtækið hafi ekkert farið í gjaldþrot eða þetta hafi allt verið einhverjum öðrum að kenna.

En…

Þeir sem lánuðu fyrirtækinu gera nú kröfu á okkur. Við sögðum að allt væri í lagi og ég var stjórnarformaður og skrifaði upp á einhverja pappíra. Við eigum auðvitað ekki möguleika á að borga þessar 100 milljónir. En kröfuhafarnir vilja sitt, þeim liggur ekkert á og hafa margoft sýnt biðlund til að ná sínu fram.

Nú eru komnar upp hugmyndir um að við förum fram á að kröfuhafarnir afskrifi megnið af þessum kröfum, jafnvel 75%. Sumir vilja meira að segja beita alls kyns bolabrögðum.

Og, gott og vel, það munar auðvitað miklu að skulda bara 25 milljónir í stað 100 milljóna, þó það yrði erfitt, ef ekki nánast vonlaust að borga.

Þeir sem halda því fram að það sé ekkert mál að fá afskriftir, eru líka farnir að tala fjálglega um hvað við eigum að gera við peningana sem við fáum þegar hluti skuldanna er afskrifaður.

Kemur þá áðurnefndur tregleiki til sögunnar. Ég er kannski ekkert sérstaklega sleipur í bókhaldsbrellum, en hvernig geta afskrifaðar skuldir, allt í einu breyst í fulla vasa af seðlum?

Mér fannst svolítið skondið að fylgjast með viðbrögðum nokkurra ágætra félaga þegar tilkynnt var að Alþingi hefði ákveðið að kaupa iPad spjaldtölvur fyrir þingmenn.

Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi Apple, en ekkert sérstaklega uppsigað við fyrirtækið heldur, ef út í það er farið. Ég nota iPod fyrir tónlistina, Android síma og Windows á tölvunni – allt eftir því hvað mér hentar best. Svo því sé haldið til haga þá veit ég ekkert hvaða kröfur voru gerðar þegar tegund spjaldtölvu var valin og þar af leiðandi get ég ekkert sagt um hvað ég hefði valið.

En mér fundust viðbrögðin stundum yfirdrifin, aðallega frá þeim sem tala máli opins hugbúnaðar. Alþingi háð stöðluðu og lokuðu kerfi frá „ljótum köllum“ í útlandinu.

Opinn hugbúnaður hefur sína kosti og sína galla. En stundum skiptir þetta engu máli. Það er einfaldlega verið að velja verkfæri – og það fyrir notendur sem hafa ekki nokkurn áhuga á undirliggjandi tækni eða þörf fyrir að skilja hana, hvað þá að geta átt við tækið.

Þetta er svona eins og að kaupa brauðrist. Það sem skiptir máli er að hún geti ristað brauð, ekki hvaðan stýringarnar koma eða hvað vörumerkið heitir.

Við Fræbbblar spiluðum á afmælishátíð Mosa frænda á Gamla gauknum í gær.

Stórskemmtileg hljómsveit, Skelkur í bringu, byrjaði… þau voru eiginlega best í örstuttu lögunum, smá „leikhús“ kryddar þetta skemmtilega hjá þeim… minntu mig kannski eilítið á Tiger Lillies, þó þau hljómi auðvitað ekkert svipað. Saktmóðigur kom næst, þéttir að vanda og eiginlega nákvæmlega eins og þeir eiga að vera. Okkur Fræbbblum gekk, að ég held, ágætlega… að minnsta kosti skemmti ég mér vel og fann ekki að áheyrendum leiddist tiltakanlega. Mosi frændi er líka með sérstæðustu hljómsveitum „í bænum“, við spiluðum með þeim á Rokk í Reykjavík 2.0 fyrir ári.. og kannski finnst mér skemmtilegast að heyra þá spila eigin útgáfur af annarra manna efni, mjög fyndið að heyra gömlu lögin í þeirra útgáfu. Hellvar kláraði svo kvöldið og minnti á hvers vegna þau eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.. ekki á þeim að heyra að þau hefðu ekki náð einni einustu æfingu fyrir kvöldið.

En svona í stuttu máli, stórskemmtilega blanda af hljómsveitum úr öllum áttum.

Og ekki gleyma staðnum, Gamla gauknum, sem er eiginlega uppáhaldsstaðurinn okkar fyrir spilamennsku – góð aðstaða fyrir hljómsveitir, fínar græjur á staðnum og topp hljóðmaður.

Álitlegt Blikalið

Posted: maí 6, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ánægjulegt að sjá góða byrjun Blika á Íslandsmóti karla, Pepsí-deildinni, í gær.

Það er auðvitað ekki hægt að lesa of mikið í einn leik, en liðið lítur óneitanlega vel út, vel skipulagt, flottur bolti, góð barátta og liðsandinn greinilega í lagi. Mótherjarnir í Þór hafa sennilega ekki séð gras síðan í fyrra, hvað þá að hafa getað æft á grasi og eiga örugglega eftir að slípast til.. og væntanlega verða erfiðari leikir þegar líður á sumarið.

Ef eitthvað er fundust mér of margar ónákvæmar sendingar þegar nálgaðist mark andstæðinganna, nokkrum sinnum hefðu menn mátt vera betur vakandi fyrir skemmtilegum hlaupum Nichlas Rohde – og svo var auðvitað óþarfi að sofna og fá á sig mark á síðustu sekúndu.

Ég er enn að velta vöngum yfir þessum „kristnu gildum“ sem sumir Sjálfstæðismenn vildu hafa til hliðsjónar við lagasetningu.

Kannski er það vegna þess að ég fæ engin svör um hver þessi kristnu gildi eru, þeas. hvaða gildi eru þarna sem ekki finnast í öðrum trúarbrögðum og/eða lífsskoðunum og skipta máli. Og hef ég nú mikið spurt.

Við getum strax útilokað verið sé að vísa til boðorðanna tíu – þá hefði verið talað um að byggja lagasetningar á „gyðinglegum gildum“.

Eins er strax hægt að útiloka almennt siðferði og náungakærleik og gullnu regluna – þetta er allt saman miklu eldra en kristnin – og finnst hjá flestum siðuðum lífsskoðunarfélögum.

En hvað einkennir kristnina sérstaklega? Það er rétt að taka fram að ég er ekki að gera lítið úr því góða og jákvæða sem kristnin hefur þegið frá öðrum hugmyndaheimum, þar er margt gott og gilt. En hvað er sérstakt?

Jú, meyfæðingin, upprisan og að bjóða hinn vangann. Fyrri tvö atriðin eru kannski engan veginn heldur einkennandi fyrir kristnina. Og það sem verra er, það er varla hægt að setja einhver lög sem byggja á upprisu eða meyfæðingu. Eða ég vona að minnsta kosti að það hafi ekki verið hugmyndin í þessu tilfelli.

Þá stendur eftir þetta með að bjóða hinn vangann. Ég man ekki til að þetta komi beinlínis annars staðar, má auðvitað vera minn misskilningur og/eða vanþekking.

En ef rétt er þá vilja þeir sem þetta samþykktu setja í lög á sá sem er sleginn utanundir eigi að bjóða hinn vangann..

PS. Mér fannst nú rétt að láta þessar vangaveltur liggja á milli hluta fram yfir kosningar.