Posts Tagged ‘Kosningar’

Ég er til þess að gera mjög sáttur við núverandi forseta og það hefði þurft mikið að breytast til að ég íhugaði að kjósa einhvern annan fyrir næsta kjörtímabil.

En fyrir utan það og fyrir utan að það er sjálfsagt að taka þátt í kosningum.. þá gefa komandi forsetakosningar okkur ágætis tækifæri.

Mótframbjóðandi forsetans hefur tekið þátt í og staðið fyrir orðræðu og umræðu sem ég hef talsvert mikla skömm á, svo ekki sé meira sagt. Þetta virðist fylgja ákveðinni þróun víða í heiminum og frambjóðandinn virðist ætla að spila á sambærilegan hátt fáfræði kjósenda og tekist hefur annars staðar.

Þannig að þessar kosningar eru frábært tækifæri til að senda skýr skilaboð um að við viljum ekki sjá svona framboð.

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Kosningavökur

Posted: október 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég hef eiginlega fylgst með kosningavökum frá 1967 – já, 8 ára – og sat auðvitað oftast heima í Víðihvammi og horfði með fjölskyldunni. 1978 minnir mig að ég hafi að hluta til farið á flakk til nokkurra menntaskólavina, 1979 var ég í framboði fyrir Sólskinsflokkinnn og minnir að ég hafi verið heima og/eða á einhverju flakki. 1982 sat ég með Höskuldi yfir grilluðum kótilettum fram eftir nóttu. Ég man ekki nákvæmlega eftir kosningavökunni 1983, en frá 1986-2010 var ég oftast í útsendingu, ýmist bara fyrir Rúv eða bæði fyrir Rúv og Stöð2. Ein undantekning var þó 1995, þá var ég ekki að vinna og við fórum út að borða með Brynju & Sverri og svo í eitthvert samkvæmi með þeim á eftir. 2013 buðum við Höskuldi & Sirrý í mat til Krissa & Rúnu (!) og fylgdumst með eitthvað fram eftir. 2014 vorum við í Maastricht og náðum ekki að fylgjast með útsendingunnni vegna þess að vefir fréttastofanna voru ekki að virka. 2016 mættum við á kosningavöku Pírata þannig að í kvöld er ég í fyrsta skipti síðan 1983 að fylgjast með kosningavökunni heima…. nema auðvitað að við æsum okkur á kosningavöku Pírata – í öllu falli náum við fyrstu tölum heima.

(óvart birt á vitlausri síðu í fyrstu…)

Eitt að lokum á kjördag…

Þetta snýst ekki lengur um að halla mismunandi mikið til hægri eða vinstri né blæbrigði tóna í bláa/græna/rauða litrófinu.

Þetta snýst ekki um hræðsluáróður, kökubakstur, klisjur, fljótfærni, drullumallsdreifingu, minni háttar mistök eða allt-í-einu-viðkunnanlega gæja í auglýsingum.

Þetta snýst um nýja nálgun, ný viðhorf, nýjar aðferðir og breytt hugarfar. Þetta snýst um fólk sem hlustar jafn mikið og það talar – og er fært um að ræða málin, taka rökum og jafnvel viðurkenna mistök ef svo ber undir.

Þess vegna kýs ég Pírata… þó ég sé ekki sammála þeim í einu og öllu.

Ég hendi sem sagt gráðuboganum og kveiki ljósin.

Stjórnmálaflokkabullur

Posted: október 26, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég hef illa fundið mig í pólitík sem sést kannski best á því að heitustu stuðningsmenn svokallaðra hægri flokka úthrópa mig sem vinstri mann og afgreiða allar mínar skoðanir á þeim forsendum. Á sama hátt eru þeir sem kenna sig til vinstri í stjórnmálum löngu búnir að stimpla mig sem einn af hægri sinnuðu „óvinunum“.

Þetta er fínt, ég vil ekki vera tjóðraður á einhverja flokkslínu til eilífðar og þurfa að verja hvaða vitleysu sem er þar til ég verð blár í framan (eða marinn á fingurgómum).

Það sem ég get svo ekki fyrir mitt líf skilið er að skynsamasta fólk virðist hengja sig og sína sjálfsvirðingu á ákveðinn stjórnmálaflokk – svona eins og aðdáendur fótboltaliðs.. og haga sér eins og verstu fótboltabullur.

Gott dæmi er moldviðrið sem þyrlað var upp yfir ætluðum blekkingum eins frambjóðanda um menntun. Við nánari skoðun kom í ljós að lykilatriði hafði verið klippt úr skjáskoti að því er virðist eingöngu til að blekkja, þetta var tíu ára gömul skráning á vefsíðu sem bauð upp á takmarkaða möguleika og auðvelt að sjá af samhenginu hver rétt staða var.

Fullt af fólki hefur verið að fara hamförum á samskiptamiðlum yfir þessu.

Ég man ekki til að þeir hinir sömu hafi haft sig mikið í frammi við að gagnrýna það að forystumenn ríkistjórnarflokkanna létu vera að upplýsa að þeir og/eða makar áttu stórar eignir í skattaskjólum og verið í hópi kröfuhafa á bankana. Það er svona frekar að viðkomandi hafi vorkennt mönnum að upp um þá komst og séð samsæri í hverju horni. Ekki man ég til að viðkomandi hafi heldur haft orð á vafasamri skráningu á menntun „þeirra“ manna.

Mér þykir menntunarskráning frambjóðenda á LinkedIn ómerkilegt atriði og hefði varið hvern þann frambjóðanda í hvaða flokki sem er í sömu stöðu.

Mér þykir óboðlegt að frambjóðendur geri ekki grein fyrir eigum í skattaskjólum [hvort sem þeir segjast hafa greitt skatt eða ekki og hvort sem þeir segjast hafa fylgst vel með] og mér finnst óverjandi að gera ekki grein fyrir hagsmunatengslum við kröfuhafa bankanna. Og ég hefði tekið heilshugar undir gagnrýni á frambjóðendur hvar í flokki sem þeir væru.

Allt annað er óboðlegur pólitískur bullugangur. Og mig langar að biðja þá sem eru í þeim leik að láta mig í friði fram yfir kosningar… og eiginlega að sleppa því að ræða við mig um stjórnmál yfirleitt.

Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.

Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!

Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?

Ef svarið er „já“

  • þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.

En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).

Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?

Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.

Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk

Ef svarið er „já“

þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.

Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.

En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.

Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi,  þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.

En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.

Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.

Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.

Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.

Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.

Er ekki kominn tími til að veita börnum kosningarétt, td. við sex ára aldur? Jafnvel yngri?

Því hver eru rökin gegn því að börn fái að greiða atkvæði í almennum kosningum?

Ég er nokkuð viss um að flest rökin gegn kosningarétti barna gilda líka um fólk sem:

  • kýs án þess að nenna að kynna sér málefni sem kosið er um, hvort sem er í þjóðaratkvæðagreiðslum, þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum (ég sleppi kannski forsetakosningum, þar eru jú engin málefni)
  • tekur afstöðu út frá fordómum
  • lætur tilfinningaslagorð stjórna atkvæði sínu
  • stjórnast af órökstuddum hræðsluáróðri
  • getur einfaldlega ekki unnið úr upplýsingum og tekið málefnalega afstöðu

Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.

Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!

  1. Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
  2. Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
  3. Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
  4. Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
  5. Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
  6. Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
  7. Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]

Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.

Stærsta vandamál kjósenda við hverjar kosningar er ekki endilega að velja þá stefnu sem þeim líkar, heldur að fá einhverja vissu fyrir því að sá sem býður sig fram með ákveðna stefnu koma í raun og veru til með að standa við gefin fyrirheit.

Jú, það er rétt, kjósendur geta haft áhrif á stjórnarmyndun á fjögurra ára fresti. En það er hægt að valda ómældum skaða á fjórum árum. Og við tekur í raun sama óvissa.

Nýtt dæmi er auðvitað í fersku minni, svo við veljum eitt, algjörlega af handahófi…

„Við ætlum að sækja 800 milljarða til ljótu-kallanna í útlöndum og greiða niður skuldir heimilanna“.

Svo er farið að rukka um efndir, en þá verður við örlítið breyttan tón.. geðvonsku jafnvel:

  • Já, en sjáiði til, við, sko, hérna… við sögðum aldrei beint út að við ætluðum að nota ljótu-kalla-peningana til að greiða niður skuldir heimilanna.
  • Víst sækjum við 800 milljarða.. en, tja, jú á svona fjörutíu árum – en vertu ekki með neinn orðhengilshátt, við sögðum ekkert um hvenær þetta yrði gert.
  • Hvaða útúrnúningar eru þetta? Erum við ekki að fara einhvern tímann bráðum að greiða eitthvað smávegis niður af skuldum heimilanna? Við sögðum aldrei allar skuldir. Og við sögðum aldrei skuldir allra heimila. Skoðaðu bara hverju við lofuðum og reyndu að finna eitthvað sem ekki stenst!
  • Jú, reyndar, ef út í það er farið, þá þurfið þið að vísu að greiða sjálf fyrir niðurgreiðsluna með eigin sparnaði að mestu leyti.. en þið fáið þó niðurgreiðsluna sem við lofuðum.
  • Jú, jú, það má vel vera að niðurgreiðslan komi úr ríkissjóði, en verið ekkert að velta vöngum yfir því hvernig ríkissjóður fær þennan pening.

Það er auðvitað til auðveld lausn við þessu – eins og svo mörgu öðru.

Setjum einfaldega eftirfarandi reglur.

  1. Hvert framboð þarf að setja fram að minnsta kosti 10 kosningaloforð. Kannski ætti að vera eitthvert hámark líka.
  2. Hvert loforð þarf að snúast um raunverulega framkvæmd eða breytingar – eða óbreytt ástand -ekki „við ætlum að skipa nefnd til að skoða“l
  3. Hvert loforð þarf að vera mælanlegt.
  4. Hvert loforð þarf að hafa tímasetningu.

Samsteypustjórnir mega einungis byggja málefnasamning sinn á gefnum kosningaloforðum.

Framboðum er óheimilt að taka þátt í ríkisstjórn nema að minnsta kosti 60% kosningaloforða þeirra séu hluti af stefnuskrá stjórnarinnar. Enda á flokkur ekkert erindi í stjórn ef hann nær ekki að minnsta kosti fleiri en færri atriðum. Mögulega mætti gera undantekningar þannig að gera má málamiðlanir ef tvö loforð ólíkra flokka snúast um sama mál, en hafa aðra tímasetningu eða ganga mislangt. Sú málamiðlun mætti aldrei vera utan marka beggja framboða.

Ef eitt loforð stenst ekki skoðun þá lækkka laun stjórnarþingmanna og ráðherra strax um 25%.

Þegar og ef næsta loforð bregst fara launin niður í 50%.

Falli þriðja loforðið þá skal stjórnin segja af sér og boða skal til kosninga.

Einhverjar undantekningar??

Já, mögulega ef alvarlegur og augljós forsendubrestur verður þá mætti efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um undanþágu.

Eru ekki allar líkur á að svona fyrirkomulag myndi skila okkur betri stjórn?

En svo væri þetta bara fyrsta skrefið í áttina að betri umgjörð.

Ég hef lengi talað fyrir persónukjöri í kosningum. Hefði það verið í boði síðustu helgi hefði ég til dæmis getað stutt Skúla Helgason inn á þing án þess að eiga á hættu að atkvæðið nýttist Ólínu Þorvarðardóttur – að ég tali nú ekki um ýktari dæmi en það.

Það skiptir mig talsverðu máli að fá fólk inn á þing sem ég get treyst til að vinna úr málum og taka málefnalega afstöðu til þeirra þegar þar að kemur. Fólk sem hleypur ekki undir pilsfaldinn hjá formanninum þegar reynir, leggst ekki í flokksgrafir (flokkslínur + skotgrafir). Það er ekki ljóst fyrir kosningar hvaða mál koma til afgreiðslu á komandi þingi þannig að það að kjósa flokka eftir stefnumálum er til þess að gera gagnslítið. Jú, línur eru kannski lagðar með almennum hætti, en ganga kannski ekki svo mikið eftir þegar á reynir, sérstaklega ekki í samsteypustjórnum.

Eini maðurinn sem ég þekki sem kaus Framsókn – já, ég játa að ég þekki einn – hafði nákvæmlega enga trú á stefnumálum flokksins eða að flokkurinn gæti staðið við stóru orðin. En kaus samt, ef ég skil rétt, vegna þeirra einstaklinga sem voru í forystu fyrir flokkinn. Þannig fær flokkurinn samt þau skilaboð að viðkomandi kjósandi styðji stefnu hans.

Þá eru stefnuskrár flokkanna þannig að vonlaust er að finna flokk sem er að öllu leyti sammála mér – eða ég sammála flokki. Það eru miklu meiri líkur til að finna einstaklinga sem hafa svipaðar skoðanir, því innan flokkanna safnast jú saman fólk með ólíkar skoðanir.

Þannig er persónukjör miklu nærtækara – og talsvert einfaldari og hreinlegri leið kjósendur að hafa áhrif.

Hitt er, að auðvitað eru málefni líka mikilvæg. En aftur þá eru stefnuskrár flestra flokka undarleg karfa af ágætis málum, þokkalega góðum en óljósum vilja og svo satt best að segja, tómri þvælu.

Þetta er auðvitað ekkert flókið. Það má samhliða kosningum með persónukjöri greiða atkvæði um nokkur mál – förum nánar út í það síðar hverjir og hvernig á að velja þau mál.

Kjósa sem sagt bæði um menn og málefni án þess að styðja flokka.