Ég hef illa fundið mig í pólitík sem sést kannski best á því að heitustu stuðningsmenn svokallaðra hægri flokka úthrópa mig sem vinstri mann og afgreiða allar mínar skoðanir á þeim forsendum. Á sama hátt eru þeir sem kenna sig til vinstri í stjórnmálum löngu búnir að stimpla mig sem einn af hægri sinnuðu „óvinunum“.
Þetta er fínt, ég vil ekki vera tjóðraður á einhverja flokkslínu til eilífðar og þurfa að verja hvaða vitleysu sem er þar til ég verð blár í framan (eða marinn á fingurgómum).
Það sem ég get svo ekki fyrir mitt líf skilið er að skynsamasta fólk virðist hengja sig og sína sjálfsvirðingu á ákveðinn stjórnmálaflokk – svona eins og aðdáendur fótboltaliðs.. og haga sér eins og verstu fótboltabullur.
Gott dæmi er moldviðrið sem þyrlað var upp yfir ætluðum blekkingum eins frambjóðanda um menntun. Við nánari skoðun kom í ljós að lykilatriði hafði verið klippt úr skjáskoti að því er virðist eingöngu til að blekkja, þetta var tíu ára gömul skráning á vefsíðu sem bauð upp á takmarkaða möguleika og auðvelt að sjá af samhenginu hver rétt staða var.
Fullt af fólki hefur verið að fara hamförum á samskiptamiðlum yfir þessu.
Ég man ekki til að þeir hinir sömu hafi haft sig mikið í frammi við að gagnrýna það að forystumenn ríkistjórnarflokkanna létu vera að upplýsa að þeir og/eða makar áttu stórar eignir í skattaskjólum og verið í hópi kröfuhafa á bankana. Það er svona frekar að viðkomandi hafi vorkennt mönnum að upp um þá komst og séð samsæri í hverju horni. Ekki man ég til að viðkomandi hafi heldur haft orð á vafasamri skráningu á menntun „þeirra“ manna.
Mér þykir menntunarskráning frambjóðenda á LinkedIn ómerkilegt atriði og hefði varið hvern þann frambjóðanda í hvaða flokki sem er í sömu stöðu.
Mér þykir óboðlegt að frambjóðendur geri ekki grein fyrir eigum í skattaskjólum [hvort sem þeir segjast hafa greitt skatt eða ekki og hvort sem þeir segjast hafa fylgst vel með] og mér finnst óverjandi að gera ekki grein fyrir hagsmunatengslum við kröfuhafa bankanna. Og ég hefði tekið heilshugar undir gagnrýni á frambjóðendur hvar í flokki sem þeir væru.
Allt annað er óboðlegur pólitískur bullugangur. Og mig langar að biðja þá sem eru í þeim leik að láta mig í friði fram yfir kosningar… og eiginlega að sleppa því að ræða við mig um stjórnmál yfirleitt.