Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.
Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.
Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!
- Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
- Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
- Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
- Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
- Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
- Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
- Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]
Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.