Sarpur fyrir maí, 2016

Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.

Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!

 1. Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
 2. Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
 3. Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
 4. Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
 5. Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
 6. Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
 7. Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]

Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.

Ég fékk einhvern veginn nóg af komandi forsetakosningum þegar ÓRG hætti einu sinni enn við að bjóða sig fram…og reyndi að sía burt allt sem sneri að þessum kosningum. Gott og vel, það tókst frekar illa, en ég reyndi.

En ég er ekki búinn að ákveða hvern ég kýs til forseta og ætla að gera eins seint og ég mögulega get. Ég ætla að taka mér tíma til að vega og meta þá sem eru í framboði, hugsa málið og skoða hvað þeir hafa fram að færa – og ekki.

Ég vona að það komi ekki til þess að mér finnst ég þurfa að kjósa „taktískt“.

En svona, í ljósi þess að það dynja á mér skilaboð á vefsíðum, bloggfærslur, Facebook, Twitter og víðar til stuðnings hinum og þessum frambjóðendum – þá eru kannski smá leiðbeiningar til þeirra sem vilja fá mig til að kjósa „sinn“ frambjóðanda.

Ekki veit ég hvort aðrir væntanlegir kjósendur hugsa á sömu nótum og ég – og er varla er það þess virði að miða kosningabaráttuna við einn kjósanda.

Ég var mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta og myndi gjarnan vilja forseta sem nálgast embættið á svipuðum forsendum, en það er kannski ekki skilyrði.

En, samt, svona smá hugmyndir fyrir þá sem vilja

 • ég hef frekar lítinn áhuga á því hverju frambjóðandi myndi beita sér fyrir ef hann væri að bjóða sig fram til þings og það að senda mér upplýsingar um einhver baráttumál sem forseti hefur ekkert um að segja er kannski fráhrindandi ef eitthvað er
 • á hinn bóginn get ég alveg haft áhuga á því hvaða málefnum forseti myndi veita „móralskan“ stuðning, svo framarlega sem hann heldur ekki að hann sé að fara að standa í framkvæmdum og/eða lagsetningu [jú, ég veit að tæknilega getur forseti látið leggja fram frumvarp, amk. skv. núverandi stjórnarskrá, en þetta er að mínu viti ekki vettvangurinn]
 • ég hef áhuga á að vita hvernig forseti nálgast neitunarvald það sem er í gömlu stjórnarskránni og hvaða viðmiðun hann ætlar að setja sér við að beita því þar til (vonandi) betri stjórnarskrá tekur við
 • ég vil gjarnan vita hvort forseta myndi beita sér sérstaklega í ákveðnum málum út frá sinni skoðun, þeas. hvort hans skoðun hefði áhrif á hvort hann vísar málum til þjóðarinnar eða ekki
 • ég vil gjarnan sjá hvernig forseti hyggst miðla upplýsingum um hvað hann er að gera
 • mér er slétt sama um hvort frambjóðandi er karl eða kona
 • ég kann ágætlega að meta fólk sem getur skipt um skoðun þegar nýjar og betri upplýsingar og/eða rök/ábendingar koma fram – ef hægt er að benda mér á slíkt þá telur það nokkuð.. það er hins vegar mínus ef frambjóðandi fæst ekki með nokkru móti til að skoða önnur sjónarmið og lítur á það sem veikleika að hlusta á gagnrýni
 • þá er kostur ef frambjóðandi er trúlaus, að minnsta kosti utan trúfélaga og í öllu falli hafni yfirnáttúrulegum forsendum trúarinnar – ekki svo að skilja að trúarskoðanir forseta skipti mig beinlínis máli, en þetta snýst kannski einfaldlega um skynsemi og að geta unnið úr upplýsingum – og frambjóðandi sem hefur staðið í trúboði og/eða ætlar að nálgast verkefnið frá trúarlegum forsendum kemur svo alls ekki til greina hjá mér
 • þá er það óneitanlega til frádráttar ef frambjóðandi hefur verið að bera rökleysur á borð
 • og… frambjóðandi sem hefur tamið sér að gera lítið úr þeim sem eru honum ósammála er ekki að fara að fá mitt atkvæði
 • ég held ekki að það skipti sköpum fyrir ríkissjóð að forseti afsali sér launum þannig að það telur ekki mikið, satt best að segja finnst mér hálf hallærislegt að vera með einhvers konar „útsölu“ á frambjóðanda

[ég á örugglega eftir að bæta við listann og / eða breyta]

Það getur oft verið erfitt að átta sig á hvað forsetaframbjóðendur meina raunverulega, þvi þó margt sem þeir segja hljómi ekki illa, þá er ekki ólíklegt að eitthvað annað búi að baki.

Mig grunar að minnsta kosti að það megi lesa nokkrar athugasemdir á eftirfarandi hátt:

 • það þarf að tryggja stöðugleika -> Dorrit getur ekki hugsað sér að hætta að mæta í kóngaveislur
 • keppinautarnir eru að setja met með því að gagnrýna aðra frambjóðendur -> ég þoli ekki að aðrir taki upp mína „taktík“
 • fólk þekkir kosti mína og galla -> ég treysti á gullfiskaminni kjósenda
 • ég misskildi spurninguna -> mér datt ekki í hug að það kæmist upp um mig
 • ég er fastur fyrir -> ég tek ekki rökum eða mark á upplýsingum sem mér henta ekki

Allt er betra en Óli

Posted: maí 6, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég hef oft talað gegn því að fólk kjósi taktískt, einfaldlega vegna þess að ef það er gert þá endurspegla kosningarnar ekki vilja kjósenda, sem aftur er þá ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er líka varasamt vegna „múgsefjunaráhrifa“, þeas. mögulega eru nægilega margir sem hafa ætlað sér að kjósa ákveðið framboð, en velja eitthvað annað vegna þess að þeir halda að enginn annar (eða of fáir) ætli sér að kjósa það framboð.

Auðvitað þarf betra kosningakerfi, kerfi sem leyfir kjósendum að velja samkvæmt eigin sannfæringu en nýta samt atkvæðið ef það dettur „dautt“. Það er önnur saga..

Ég er mjög lítið hrifinn að þeirri hugmynd að núverandi forseti sitji áfram. Ekki svo að skilja að hann hafi verið alslæmur, eins og flestir hefur hann átt sín jákvæðu augnablik.. þau neikvæðu hafa hins vegar verið fleiri, svona fyrir minn smekk.

En burséð frá því hvaða einkunn hann fær fyrir liðin tímabil þá er það einfaldlega galið að hann sitji áfram.. hvernig honum datt yfirleitt í hug að bjóða sig fram aftur er og verður rannsóknarefni út af fyrir sig.

Þannig að nú finnst mér að minnsta kosti lykilatriði að fá einn frambjóðanda sem er nægilega sterkur til að sigra Ólaf… sennilega er Guðni sá sem á helst möguleika.

Ég er ekki með nákvæma tölu á hversu margir eru enn í framboði, ég hef séð nokkra sem myndu sóma sér ágætlega og ég tæki mögulega fram yfir Guðna (eða hvern þann sem ætti mesta möguleika) – svo eru aðrir sem mér finnast ekki eiga neitt erindi í starfið. En það er sem sagt aukaatriði..

Ég vil sem sagt beina þeirri ósk til allra þeirra frambjóðenda sem ekki eiga raunhæfa möguleika á að ná kjöri að draga framboð sín til baka svo hægt sé að nýta öll atkvæði. (já, ég geri ekki ráð fyrir að nokkur frambjóðenda taki atkvæði frá ÓRG).

 

Lýðræðið, Trump & Ólafur

Posted: maí 5, 2016 in Umræða

Nú hef ég lengi verið talsmaður lýðræðis, hef talað fyrir beinu lýðræði og meiri þátttöku fólks í ákvörðunum.

Núverandi forseti var kjörinn 2012 þrátt fyrir ansi skrautlegan feril og kosningabaráttu sem var fyrir neðan allar hellur. Fólk horfði fram hjá heimskulegum uppákomum á fyrri kjörtímabilum og óheiðarlegri kosningabaráttu, að því er virðist með því að einblína á eitt atriði, sem var engan veginn honum að „þakka“ og er nú kannski að koma í ljós að var ekkert til að þakka fyrir yfirleitt.

Og jafnvel eftir afhjúpanir síðustu daga þá virðist enn fullt af fólki vera tilbúið til að kjósa hann aftur.

Framsóknarflokkurinn fékk gríðarlegt fylgi í síðustu alþingiskosningum þrátt fyrir að kosningaloforðin væru klárlega óraunhæf, enda hefur lítið sem ekkert gengið að uppfylla þau. Fólk virtist fólk hrífast með loforðum um fullt af peningum, stórkarlalegum yfirlýsingum og óraunhæfum markmiðum.

Í Bandaríkjunum er Donald Trump (nokkuð örugglega) búinn að tryggja sér útnefningu Repúblikana fyrir næstu forsetakosningar, þrátt fyrir að góður hluti almennra flokksmanna sem og forystumanna hafi megna skömm á honum.. og kalla menn þar á bæ nú ekki allt ömmu sína. Það er svo sem enn óljósara hvað kemur til – óljósar, mótsagnakenndar, stórkarlalegar, heimskulegar yfirlýsingar og ítrekaðar lygar sem margsinnis er búið að afhjúpa.. En fólk ætlar bara samt að kjósa. Fólk er meira að segja spurt hvort það sé sammála megninu af stefnumálum hans og segir ýmist eitthvað á þessa leið „nei, en ég ætla samt að kjósa hann“ eða jafnvel „nei, en ef Trump segir það þá er ég sammála“.

Ég veit að fólk fær þá leiðtoga sem það kýs. Vandinn er sá að við hin sitjum uppi með þá líka.

Eina lausnin sem mér dettur í hug er að minnka völd kjörinna leiðtoga til að taka ákvarðanir.. þannig geti stjórnmálaflokkur sem fær þingstyrk út á innihaldslaus loforð ekki gengið um og sviðið jörðina, bæði bókstaflega og ekki, skuldbundið komandi kynslóðir og afhent útvöldum gríðarleg verðmæti sem eru í eigu þjóðarinnar.

Fyrsta hugmyndin er kannski að miða við að allar ákvarðarnir sem gilda lengur en hvert kjörtímabil skuli bornar undir þjóðaratkvæði.

Þannig hefðu bæði umsókn um Evrópusamband, það að hætta viðsókn, gjöld (eða niðurfelling gjalda) fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, búvörusamningar sjálfkrafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og það þarf góða stjórnarskrá þannig að stjórnmálamenn sem komast tímabundið til valda geti ekki valdið ómældum skaða.

 

 

Atvinnuviðtalið..

Posted: maí 3, 2016 in Umræða

Það eru nokkrir einstaklingar að sækjast eftir starfi sem ég, ásamt nokkrum öðrum, á víst að taka ákvörðun um hver fær.

Það stendur víst ekki til boða að fá viðkomandi í atvinnuviðtal í eigin persónu, en það væri þó eiginlega nauðsynlegt.

Einn umsækjandinn hefur gegnt starfinu og væri kannski fyrstur í viðtal.

Spurningarnar væru kannski eitthvað á þessa leið:

 1. Þú sagðir ósatt síðast þegar þú komst í atvinnuviðtal, er einhver ástæða til að ætla að þú segir satt núna?
 2. Þú sagðir í síðasta viðtali að þú myndir sko alls ekki sækja um aftur, hefurðu einhverjar betri skýringar á kúvendingunni en eitthvert óljóst tal um óstöðugleika, sem stenst enga skoðun?
 3. Þú fullyrtir nýlega að konan þín tengdist á engan hátt öðrum og vafasömum félögum? Svo hefur komið í ljós að þetta var rangt.. kannski vissir þú ekki af þessum tengingum, en var ekki fullkominn dómgreindarskortur að fullyrða svona?
 4. Nú hefur þú stundum og stundum ekki tekið mark á skoðunum annarra og orðið við óskum fjölda fólks, en stundum ekki – er hægt að fá einhverjar skýringar á því hvernig þú metur svona óskir?
 5. Nú gerðir þú þig að fífli á alþjóðavettvangi fyrir hrun..

Æi, svarið skiptir eiginlega ekki nokkru máli.

Næsti!