Allt er betra en Óli

Posted: maí 6, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég hef oft talað gegn því að fólk kjósi taktískt, einfaldlega vegna þess að ef það er gert þá endurspegla kosningarnar ekki vilja kjósenda, sem aftur er þá ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er líka varasamt vegna „múgsefjunaráhrifa“, þeas. mögulega eru nægilega margir sem hafa ætlað sér að kjósa ákveðið framboð, en velja eitthvað annað vegna þess að þeir halda að enginn annar (eða of fáir) ætli sér að kjósa það framboð.

Auðvitað þarf betra kosningakerfi, kerfi sem leyfir kjósendum að velja samkvæmt eigin sannfæringu en nýta samt atkvæðið ef það dettur „dautt“. Það er önnur saga..

Ég er mjög lítið hrifinn að þeirri hugmynd að núverandi forseti sitji áfram. Ekki svo að skilja að hann hafi verið alslæmur, eins og flestir hefur hann átt sín jákvæðu augnablik.. þau neikvæðu hafa hins vegar verið fleiri, svona fyrir minn smekk.

En burséð frá því hvaða einkunn hann fær fyrir liðin tímabil þá er það einfaldlega galið að hann sitji áfram.. hvernig honum datt yfirleitt í hug að bjóða sig fram aftur er og verður rannsóknarefni út af fyrir sig.

Þannig að nú finnst mér að minnsta kosti lykilatriði að fá einn frambjóðanda sem er nægilega sterkur til að sigra Ólaf… sennilega er Guðni sá sem á helst möguleika.

Ég er ekki með nákvæma tölu á hversu margir eru enn í framboði, ég hef séð nokkra sem myndu sóma sér ágætlega og ég tæki mögulega fram yfir Guðna (eða hvern þann sem ætti mesta möguleika) – svo eru aðrir sem mér finnast ekki eiga neitt erindi í starfið. En það er sem sagt aukaatriði..

Ég vil sem sagt beina þeirri ósk til allra þeirra frambjóðenda sem ekki eiga raunhæfa möguleika á að ná kjöri að draga framboð sín til baka svo hægt sé að nýta öll atkvæði. (já, ég geri ekki ráð fyrir að nokkur frambjóðenda taki atkvæði frá ÓRG).

 

Lokað er á athugasemdir.